30.03.1962
Neðri deild: 80. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Hæstv. forseti. Við 2. umr. gerði ég grein fyrir þeim aðstöðumun, sem útflutningsframleiðslufyrirtæki hefðu gagnvart aðstöðugjaldi, samanborið við verzlanir og iðnaðarfyrirtæki, sem framleiða fyrir innlendan markað. En sá munur er í því fólginn, að síðarnefndu fyrirtækin hafa betri aðstöðu en útflutningsfyrirtækin til að velta af sér þessu gjaldi, ef svo mætti segja. Ég gerði líka grein fyrir því, hvers vegna ekki var talið fært að setja sams konar takmörkun í það frv., sem hér liggur fyrir, og sett var í frv. það, sem varð að lögum um bráðabirgðabreytingu á útsvarslögunum 1960. En nú hefur orðið samkomulag um það í meiri hl. heilbr: og félmn. að gera greinarmun á þeirri mismunandi aðstöðu, sem útflutningurinn hefur annars vegar og innlenda verzlunin og iðnaðarframleiðslan hins vegar, og þess vegna flytjum við á Þskj. 535 svo hljóðandi brtt., með leyfi hæstv. forseta:

„Við 10. gr. bætist ný málsgrein, svo hljóðandi:

Aðstöðugjald af rekstri fiskiskipa og hvers konar starfsemi við fiskvinnslu má eigi nema hærri hundraðshluta, miðað við tegund gjaldstofns, en veltuútsvar var á hverjum stað árið 1961. Heimilt skal þó sveitarfélögum, sem ekki lögðu á veltuútsvör eða lögðu á lægri veltuútsvör á árinu 1961, miðað við tegund gjaldstofns, en lögð voru á í Reykjavík það ár, að hækka aðstöðugjald allt að beim hundraðshluta, sem veltuútsvör þar voru þá á lögð.“

Í einstökum greinum er það til, að sveitarfélög hafi ekki notfært sér veltuútsvarið, og þess vegna er síðari hluti tillögunnar orðaður eins og ég las upp.

Ég held, að ég þurfi ekki að skýra þetta mál frekar, en ég mæli með Því, að Þessi brtt. verði samþykkt.

Út af tilmælum, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. beindi til heilbr: og félmn. um skýrslugerð varðandi þessi mál, vil ég upplýsa það, að þær skýrslur, sem hann talaði um, hafa verið gerðar s.l. tvö ár og eru til í félmrn. Þegar ráðuneytisstjóri þess mætti á fundi hjá heilbr: og félmn. milli umr., þá var um þetta rætt við hann, og kom það fram, að þessari skýrslugerð og skýrslusöfnun verður haldið áfram, og hygg ég, að það hafi verið skoðun nm., að óþarft væri að flytja um það sérstaka till. í sambandi við þetta frv., eins og hv. þm. fór fram á.