30.03.1962
Neðri deild: 80. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (1736)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Gísli Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Við 2. umr. þessa máls flutti ég ásamt hv. 11. landsk. þm. brtt. við 17. og 32. gr. þess frv., sem fyrir liggur um tekjustofna sveitarfélaga. Við tókum þá till. aftur til 3. umr., svo að hún liggur enn fyrir við þessa umr., og hv. 11. landsk., sem er fyrri flm. till., hefur nú rætt um hana nokkuð við þessa umr. Ég vil leyfa mér, auk þess sem ég tek undir það, sem hv. 11. landsk. hefur sagt, að bæta nokkrum orðum við um þetta mál.

Ég verð að segja, að mér kemur það raunar nokkuð á óvart, að þess skuli vera þörf að ræða um mál eins og þetta, sem í brtt. felst, við tvær umr. og vafi skuli leika á því, að slík brtt. verði samþ. í hv. deild. Ég get vel skilið, að þeim, sem undirbjuggu þetta stóra frv. um tekjustofna sveitarfélaga, hafi sézt yfir rök þessa máls innan um allan þann aragrúa málsatriða, sem hér er um að ræða, og að þeim kunni að hafa sýnzt við lauslega athugun, að það væri eðlilegt að setja þá reglu, að öll ríkisfyrirtæki greiddu landsútsvar. Þó held ég, að þessu hafi ekki verið fylgt út í yztu æsar, að öll ríkisfyrirtæki skyldu greiða landsútsvar, og ég vil t.d. benda á það, að eftir því sem mér sýnist, þá á t.d. Innkaupastofnun ríkisins, sem er verzlunarfyrirtæki, sem ríkið á, ekki að greiða slíkt útsvar. Má vera, að þau séu fleiri, ríkisfyrirtækin af því tagi, sem eru ekki tekin inn í frv. upphaflega. Sama er að segja um fleiri ríkisstofnanir, að þeim er ekki ætlað að greiða landsútsvar, og sýnist því reglan ekki hafa verið algild hjá þeim, sem bjuggu frv. til. En þó að ég geti skilið það, að þeim, sem önnuðust undirbúning frv., hafi ekki verið það ljóst, að þessi regla var gölluð, þá furðar mig á því, að hv. heilbr.- og félmn. skyldi ekki verða það ljóst, eftir að hv. 11. landsk. hafði flutt ræðu sína við 2. umr. og skýrt þetta mál, að það er mjög fjarri lagi, það ákvæði, sem hér er í 17. og 18. gr., að síldarverksmiðjur ríkisins skuli greiða landsútsvar.

Hv. 11. landsk, gerði ýtarlega grein fyrir þessu við 2. umr., sem hann hefur að nokkru leyti endurtekið hér. En ég tel alveg óhjákvæmilegt og ekki ástæðu til annars heldur en rifja það upp, áður en þessari umr. lýkur, til þess að hv. deildarmenn hafi aðstöðu til þess að gera sér fyllilega grein fyrir málinu enn einu sinni, áður en þeir a.m.k. neita þessari sjálfsögðu leiðréttingu á frv.

Eins og kunnugt er, eru reknar margar síldarverksmiðjur á þeim stöðum, þar sem síldveiðiflotinn leggur afla sinn á land, aðallega þó á Norður- og Austurlandi. Allar þessar síldarverksmiðjur inna af hendi nákvæmlega sams konar þjónustu og hafa sams konar viðskipti við allan síldveiðiflotann án tillits til þess, hvaðan þau skip eru, sem síldveiðar stunda. Þegar síldin er á vestursvæðinu, þá fara þau til Siglufjarðar eða inn á Húnaflóa, ef síldin er svo vestarlega, og leggja upp í síldarverksmiðjurnar þar. Ef síldin er austar, en samt fyrir Norðurlandi, leggja þau upp í síldarverksmiðjurnar við Eyjafjörð og á Húsavik og Raufarhöfn. Ef síldin er fyrir Austurlandi, þá leggur flotinn upp á Vopnafirði, Seyðisfirði, Neskaupstað og í hinum minni verksmiðjum, sem þar eru fyrir sunnan og raddir hafa verið uppi um að þyrfti að stækka. Það fer sem sé ekki eftir því, hvaðan skipin eru, — þau eru alls staðar að af landinu, - heldur bara eftir því, hvar síldin er, hvar hún veiðist, hvaða verksmiðja tekur á móti henni. Þetta eru landsviðskipti svo hreinnar tegundar sem þau geta verið, viðskipti við allt landið, viðskipti við síldveiðiskip, sem gerð eru út frá höfnum víðs vegar um landið. Ef um það ætti að vera að ræða að leggja landsútsvar á í sambandi við þessi viðskipti, þá sýnist það liggja beinast við, að það væri lagt á allar þessar verksmiðjur, sem hafa viðskipti við síldveiðaflotann. Við flm. erum þó ekki að mæla með því, að það verði farið að leggja landsútsvar á þær verksmiðjur, sem eru í eigu annarra en ríkisins, heldur höfum við aðeins lagt til, að landsútsvarið á síldarverksmiðjum ríkisins yrði fellt niður.

Hvað þýðir nú þetta, ef á að fara að leggja landsútsvar á þessar verksmiðjur, en ekki á aðrar? Þetta þýðir það, að þar sem eru verksmiðjur, sem eru ekki eign ríkisins, og Þær eru nú reyndar fleiri, þar geta sveitarfélögin lagt á aðstöðugjald, sem kemur sveitarsjóðunum til góða og þar af leiðandi gjaldþegnum í því byggðarlagi. Og þetta aðstöðugjald getur verið allt að 111/2%. En á þeim stöðum, þar sem svo vill til, að ríkið á þessar verksmiðjur, þá er annað upp á teningnum. Þá má ekki leggja á þetta aðstöðugjald, heldur á að leggja á þær landsútsvar, og af þessu landsútsvari fær hlutaðeigandi sveitarfélag ekki nema 1/4, en hitt fer til almennra þarfa sveitarfélaganna um land allt. Þetta kemur þannig niður, að þeim mun meira verður að leggja á almenning í þessum sveitarfélögum, og kemur þannig fram hin mesta mismunun milli manna.

Ég veit ekki, hvernig á því stendur, að hv. heilbr.- og félmn. eða a.m.k. meiri hl. hennar skuli ekki vera þetta ljóst, skuli ekki láta sér skiljast þetta, þegar það er skýrt, eins og það var gert við 2. umr. af hv. 11. landsk., að þetta ákvæði er alveg fráleitt og ranglátt í garð þeirra sveitarfélaga, sem þarna eiga hlut að máli — í mesta máta ranglátt. Það væri ekki óeðlilegt, þó að þessi sveitarfélög, sem hér eiga hlut að máli, sneru sér til ríkisstj. og Alþ., eftir að svona löggjöf hefði verið samþ., og óskuðu eftir að fá þessar verksmiðjur keyptar, sem ríkið á á þessum stöðum. Og þau gætu kannske borgað eins mikið út í þeim, miðað við stofnkostnað, og þeir aðilar yfirleitt gera, sem hafa verið að reisa síldarverksmiðjur á síðari tímum, því að vitanlega eru þessi fyrirtæki, hvort sem þau eru eign ríkisins eða annarra, fyrst og fremst, eins og eðlilegt er og sjálfsagt, reist fyrir fjármagn, sem fengið er úr hinum almennu lánastofnunum.

Nú veitti ég því athygli, og hv. 11. landsk. hefur áður minnzt á það, að hv. heilbr.- og félmn. hefur gert brtt. við annað mál, sem er frv. um breyt. á l. um síldarverksmiðjur ríkisins, á þskj. 543, þar sem lagt er til, að sveitarstjórnum verði heimilt að innheimta aðstöðugjald af öllum öðrum rekstri verksmiðjanna, þ.e.a.s. ríkisverksmiðjanna, en síldarbræðslu, þ. á m. vegna seldrar vinnu vélaverkstæða þeirra. Ég þykist sjá, að hér sé um að ræða einhvers konar dúsu handa Siglfirðingum, af því að síldarverksmiðjur ríkisins þar reka frystihús og sennilega einnig vélaverkstæði, sem hefur viðskipti við almenning. Ég heyrði raunar áðan, að hv. 11. landsk. lét sér heldur fátt finnast um þessa dúsu, en ekki vildi hann neita Því fyrir hönd Siglfirðinga að þiggja hana. sem kannske var ekki von. En mér sýnist þessi brtt. heldur óhrjáleg, þegar á allt er litið. Mér finnst Það einkennilegt, að gera till. um Það að umbuna þarna að litlu leyti einu því sveitarfélagi, sem hér á hlut að máli, en ekki öðrum. Og maður gæti jafnvel látið sér detta í hug, að nú væri farinn að setjast að hv. Þm. einhvers konar beygur, vegna þess að bæjarstjórnarkosningar eiga að fara fram á Siglufirði eftir tvo mánuði, þess vegna sé þessi dúsa rétt. Siglufjörður er fjölmennur kaupstaður, og þm. þykir nokkurs um vert, hvernig menn taki þar afstöðu í slíkum kosningum.

En hér er um að ræða annan stað, þar sem líka er ríkisverksmiðja, en er fámennur, og á ég þar við Raufarhöfn. Þar hefur verið rekin síldarverksmiðja á vegum ríkisins í 25 ár eða svo. Það þykir kannske ekki miklu skipta, hvernig hreppsnefndarkosningar fara á Raufarhöfn síðasta sunnudag í maímánuði, — Það þykir kannske ekki miklu skipta í 500 manna þorpi eða tæplega það, enda hafa hreppsnefndarkosningar löngum verið þar ópólitískar. En víst má brýna svo deigt járn, eins og nú er verið að gera, að jafnvel hreppsnefndarkosningar í 500 manna þorpi gætu orðið pólitískar. Rangsleitni er ævinlega leiðinleg, en illúðlegust er hún, þegar henni er beitt gegn Þeim, sem lítið bolmagn hafa. Þetta litla sveitarfélag á Raufarhöfn hefur þurft að leggja mikið í kostnað á undanförnum árum, sem að sumu leyti stendur í sambandi við þann mikla mannfjölda og atvinnurekstur, sem þar er að sumrinu. Þar hefur þurft að gera götur með ærnum kostnaði, en ekki þarf nú yfirleitt í álíka fjölmennum þorpum að gera mjög vandaðar götur. Þar hefur verið lagt í mikinn kostnað við vatnsleiðslu um þorpið og til þeirra iðnaðarfyrirtækja, sem Þar eru. Það hefur alveg nýlega verið komið upp læknisbústað í því skyni að reyna að tryggja þessu fólki læknishjálp, og hreppurinn orðið að leggja mikið fé út í því sambandi, bæði varanlega og til bráðabirgða. Þarna þarf að byggja barnaskóla, þó að hv. Alþ. hafi reyndar nú á þessum vetri í annað sinn neitað Raufarhafnarbúum um leyfi til að byggja barnaskóla. Skólahúsið, sem þar er nú í notkun, var byggt, þegar íbúar hreppsins voru nokkuð á annað hundrað. Væntanlega fæst þetta leyfi, áður en langt um líður, og þá þarf að byggja þennan skóla. Hreppurinn hefur undanfarin ár safnað nokkru fé í sjóð af litlum efnum til þess að geta hafið þessa byggingu. Hann mundi hefja hana nú þegar, ef það hefði verið leyft. Auk þess er svo Þess að gæta, að það er nokkurn veginn óhjákvæmilegt nú á næstunni að ráðast þar í hafnarframkvæmdir, sem munu kosta mikið fé, og af hálfu stjórnar síldarverksmiðja ríkisins hefur þess nú mjög nýlega verið farið mjög eindregið á leit við hreppsfélagið, að það taki að sér að byggja uppskipunarbryggju síldarverksmiðjanna þar á staðnum. Þess hefur verið farið á leit af stjórn síldarverksmiðjanna. Menn höfðu vænzt þess, að þetta mundi þýða Það, að stjórn síldarverksmiðjanna eða ríkisstj. mundi aðstoða við útvegun fjármagns í þessu skyni, ef talið væri aðkallandi að hefja Þetta verk vegna verksmiðjanna. Af því hefur nú ekki orðið, en í þess stað kemur þessi kveðja, sem er að hirða þennan tekjustofn, sem Raufarhafnarhreppur hefur haft af síldarverksmiðjunum.

Ég veit ekki, hvort hv. n. sér ástæðu til Þess að gera grein fyrir því, hvers vegna hún eða a.m.k. meiri hl. hennar leggst á móti þessari brtt. okkar, en mér finnst, að það mætti naumast minna vera en að gerð væri grein fyrir því með rökum, ef einhver eru. Ég sé ekki, að þau séu nein, en ærin á móti.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en vona, að hv. deild taki nú til greina Þau rök, sem hér hafa komið fram frá okkur fim. þessarar till., láti ekki rök í þessu máli sem vind um eyru þjóta og geti fallizt á að samþ. tillöguna.