31.03.1962
Efri deild: 76. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2107 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Gunnar Guðbjartsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir og varðar tekjuöflun sveitarfélaganna, er að mínu viti með þeim hætti, að þörf er á að athuga ýmis ákvæði þess betur en gert hefur verið. Það er vissulega rík þörf á því að tryggja tekjuöflun sveitarfélaganna og gjarnan að bæta þar um frá því, sem verið hefur, ef það væri unnt. En mér sýnist, að þetta frv. muni ekki tryggja það í neinum verulegum atriðum, að sveitarfélögin fái verulegar úrbætur frá því, sem verið hefur. Það væri þá helzt með því ákvæði að lögbinda fasteignaskatt í öllum sveitarfélögum, sem hingað til hefur verið heimildarákvæði, sem hefur ekki verið notað nærri alls staðar. En sú leið að leggja á háa fasteignaskatta er að mínu viti mjög varhugaverð vegna þess, að það er ekki þar með sagt, að þeir, sem eiga fasteignir, hafi allir tekjur í samræmi við það til þess að borga þessi gjöld með. Og ég þekki það vel í sveitunum, að það eru margir, sem eiga fasteignir, sem eru kannske nokkuð verðmætar í sjálfu sér, en skapa ekki tekjuöflunarmöguleika að sama skapi til þess að standa undir miklum gjöldum af þessum fasteignum. Að því leyti tel ég, að það sé mjög varhugavert að hækka þessa fasteignaskatta og lögbinda þá, þannig að það sé ekki neitt samræmi á milli tekjuöflunarmöguleikanna annars vegar og þeirrar skyldu fasteignaeigenda að greiða gjöld. Og yfirleitt sú stefna að taka gjöld með tollum og sköttum á fasteignir tel ég að sé mjög varhugaverð. Hitt virðist miklu eðlilegra, að binda tekjuöflun bæði ríkis og bæjarfélaga við þær tekjur, sem einstaklingarnir hafa hverju sinni, og þá stighækkandi, eftir því sem tekjur einstaklinganna eru hærri og þeirra fyrirtækja, sem skattskyld eru.

Þá má kannske segja, að þetta frv. hafi það nýmæli að leggja á aðstöðugjald. Þó er það tæpast nýmæli, heldur er það afturganga á veltuútsvarinu gamla og að því leyti ekki veruleg breyt. frá því, sem verið hefur. Hins vegar sýnist mér, að þetta gjald kunni að verða að sumu leyti þyngra á atvinnugreinunum en veituútsvarið var. Sérstaklega virðist það óeðlilegt, að lagt sé á útgjöld, sem stafa beinlínis af tjóni eða óhöppum í atvinnurekstri. En samkv. frv. virðist það augljóst, að útgjöld, sem stafa beinlínis af tjóni og óhöppum, verða gjaldskyld í þessu tilefni, þannig að þeim, sem hafa kannske lakasta aðstöðu til þess að greiða útsvör vegna lélegrar tekjuútkomu af óviðráðanlegum ástæðum, bæri kannske að greiða hæstu útsvörin. Að því leyti finnst mér aðstöðugjaldið vera óréttlátt. Það hefur að vísu verið gerð nokkur breyt. til bóta á frv., siðan það kom fyrir Alþ., í þessu efni, en þó ekki fullnægjandi, t.d. gagnvart landbúnaði, þar sem harðindi geta gripið inn í, óþurrkar og annað slíkt, sem veldur auknum rekstrarkostnaði. Þó að rekstrarkostnaður fari ekki fram úr heildartekjum búsins, hlýtur slíkt að verða óeðlilegur gjaldstofn, sem alls ekki er réttlátt að leggja aðstöðugjald á. Og þó að Það megi segja kannske, að þetta sé aðeins heimildarákvæði og það sé á valdi sveitarstjórnanna að hafa hemil á þessu og taka tillit til slíks, þá er þó óeðlilegt að lögbjóða slíka heimild, sem kynni að verða notuð og koma illa við.

Þá sýnist mér líka, að prósentugjaldið sjálft í 10. gr. I. sé tæpast réttlátt í öllum greinum, t.d. um rekstur fiskiskipa, sem er mjög áhættusamur atvinnuvegur. Það er heimilt að leggja á hann allt að 1/2%. Væri ekki nóg að hafa það 1/4%? Þessi útgerð skipa, sem veiða fisk, er mjög nauðsynleg, — útgerð þeirra er mjög nauðsynleg fyrir þjóðarbúið, það er okkar höfuðgjaldeyrisöflun. En hins vegar er þessi atvinnuvegur, eins og oft hefur verið á bent, mjög áhættusamur og því ekki eðlilegt að taka mikil slík gjöld sem þessi af honum, enda líka mikil hætta á ýmiss konar óhöppum, sem tæpast er rétt, eins og ég sagði áðan í sambandi við landbúnaðinn, að leggja útsvör á.

Þá er gert ráð fyrir því að leggja á landsútsvör, og það má segja, að í rauninni sé það eina verulega nýjungin í þessu frv. Ég skal segja það strax, að ég er yfirleitt mjög hlynntur þessari hugmynd og tel hana rétta, að svo miklu leyti sem hún kemur fram í þessu frv. Þó finnst mér það orka nokkuð tvímælis að taka síldarverksmiðjur ríkisins inn í þetta sem einn af þeim aðilum, sem eiga að greiða landsútsvörin, og alveg sérstaklega taka síldarverksmiðjur ríkisins, en ekki einkaverksmiðjur, sem starfræktar eru á sama hátt. En það er nú kannske ekki mikið atriði. Hitt finnst mér þó nokkuð stórt atriði, að það væru teknir fleiri aðilar inn í þennan lið, og þá yrði eðlilegast að taka einhverja þá aðila, sem hafa ekki greitt útsvör áður, aðila, sem gætu lagt eitthvert verulegt fé í þessu skyni, og aðila, sem annast þjónustu fyrir alla landsmenn, og þá koma manni helzt í hug tryggingarfélög og bankar í því sambandi. Þessir aðilar hafa, eins og margoft hefur verið á bent, haft á undanförnum árum verulegan gróða af sínum rekstri, sem er tekinn af landsfólkinu öllu, og það virðist ekkert óeðlilegt við það, að einhverju af þeim gróða sé varið til þess að bæta fjárhagsaðstöðu sveitarfélaganna, sem berjast mjög í bökkum með að geta staðið undir sínum útgjöldum og vantar tilfinnanlega tekjustofna. Ég hefði því talið rétt, að þarna yrði bætt inn í nokkrum aðilum, sem ég nefndi, sérstaklega tryggingarfélögum og bönkum, og ef til vill mætti líka taka heildsölur, sem annast heildsölu fyrir alla landsbyggðina.

30. gr. fjallar um það, hverjir eru útsvarsskyldir um tekju- og eignaútsvar, og það er í 2. lið, b-lið, talað um, að á aðra aðila en einstaklinga skal lagt í sveitarfélagi, þar sem aðalstarfsemi þeirra fer fram. Hins vegar er í kaflanum um aðstöðugjald gert ráð fyrir, að leggja megi aðstöðugjald á aðila, þar sem þeir hafa atvinnurekstur, t.d. útibú, og virðist þarna nokkur munur á gerður. Ég hefði nú talið, að það hefði þurft og átt að vera samræmi í þessu og hafa þennan b-lið 30. gr. þannig, að heimilt sé að leggja tekjuútsvar á Þar, sem starfsemin fer fram, hvort sem um aðalstarfsemi eða útibú er að ræða. Ég þekki til þess, að slíkur atvinnurekstur á sér stað, og það hafa orðið deilur um það á undanförnum árum eftir þeim gömlu reglum, sem gilt hafa, hvernig ætti að haga útsvarsálagningu í slíkum tilfellum. En ég hefði talið frá mínu sjónarmiði séð eðlilegast, að lagt væri á þar, sem starfsemin fer fram, hvort sem það er aðalstarfsemi eða útibú.

Í 32. gr. eru útsvarsstigarnir og fjallað um frádrátt vegna fjölskyldu og þess háttar. Þar er gert ráð fyrir, að fyrir fyrsta barn, sem hjón hafa á framfæri, megi draga frá 1000 kr. af útsvari, fyrir annað barn 1100 kr. og svo stighækkandi um 100 kr. fyrir hvert barn. Nú er það svo, að við þær breyt., sem gerðar hafa verið á tekjuskattslögum undanfarandi, þar sem horfið hefur verið frá eða dregið úr beinum tekjuskattsálögum, en hins vegar auknir mjög söluskattar og tollar, sem koma mjög þungt við allar barnafjölskyldur, þá er ekki óeðlilegt og miklu frekar brýn þörf á að auka frádrátt barnmargra fjölskyldna í sambandi við útsvarsálögur til þess að reyna að létta byrðar þeirra, því að þær eru mjög þungar fyrir eftir þær breyt., sem gerðar hafa verið á tekjuöflun ríkisins í sambandi við þessar breyt. á skattalögum. Þess vegna hefði ég talið, að þessi frádráttur vegna barna hefði þurft að fara meir stighækkandi en hér er gert ráð fyrir og verða mun meiri, þegar komið er yfir vissan fjölda, t.d. þrjú börn í fjölskyldu.

Í 33. gr. er heimilað og reyndar í sumum tilfellum skylt að lækka útsvör, ef tilteknar ástæður eru fyrir hendi, t.d. sjúkratilfelli, slys eða dauðsföll, og í c-lið er talað um uppeldis- og menningarkostnað barna þeirra, sem eldri eru en 16 ára. — Ég hefði talið, að þessum lið ætti að breyta, þannig að felld yrði niður setningin „sem eldri eru en 16 ára.“ Og ég byggi það á þeim rökum, að t.d. í sveitunum, þar sem ekki er hægt að láta börnin ganga í skóla heiman að, frá heimilunum, þá verða foreldrar að koma þeim fyrir í heimavistarskólum, stundum í öðrum héruðum. Þar sem börn sækja unglinganám, svo sem víða er nú, í önnur héruð, Þá er ekkert óeðlilegt, þó að kostnaður vegna slíkrar fyrirgreiðslu væri gerður jafnrétthár kostnaði vegna unglinga, sem eru eldri en 16 ára. Ég sé engan eðlismun á slíku og teldi því eðlilegt, að slíkt yrði gert.

Þá er gert ráð fyrir í þessu frv., að kjörnar verði sérstakar framtalsnefndir til þess að reikna út útsvörin, en hins vegar er gert ráð fyrir, að skattstjórar leggi útsvörin á, Þó með undantekningarákvæðum, þar sem er heimilað í litlum sveitarfélögum, að hreppsnefndir geri slíkt. Ég fæ ekki skilið, hver sparnaður er í því að kjósa sérstakar framtalsnefndir, en leggja niður þær skattanefndir, sem starfað hafa hingað til og í flestum tilfellum eru þó skipaðar þjálfuðum mönnum, og láta svo sveitarfélögin bera kostnað af þessum nefndum, sem raunverulega eiga að taka við af öllum þeim skattanefndum, sem unnið hafa að þessum málum að undanförnu. Ég tel það spor aftur á bak að ætla að leggja kostnað af þessum störfum á sveitarfélögin og létta þeim af ríkissjóði, um leið og talið er, að eigi að bæta fjárhagsaðstöðu sveitarfélaganna. En skattstjórar eiga að annast útsvarsálagninguna, og þeim er gefinn ákveðinn frestur í frv. til þess að vinna slíkt verk. Framtalsnefndir eiga að hafa lokið við útreikninginn til undirbúnings þessu fyrir aprílmánaðarlok, en skattstjórar eiga að ljúka álagningu útsvara fyrir 20. júní, að mér skilst.

En er það nú hugsanlegt, að skattstjórar, sem eiga að starfa í stórum héruðum, þar sem margar sýslur eru og fleiri tugir sveitarfélaga — er það hugsanlegt, að þeir geti lokið þessu starfi á tæplega sjö vikum í svo stórum héruðum, án þess að sett verði upp heilt skrifstofubákn? Nú er ætlazt til þess, að þeir endurskoði alla útreikninga framtalsnefndanna á þessum plöggum, sem til þeirra berast, og slíkt verk hlýtur að taka mikinn tíma, þó að hitt að reikna útsvörin eftir stiga þurfi kannske ekki að taka mjög mikinn tíma. Mér sýnist, að með þessu sé útilokað, að skattstjórar geti lokið Þessu verki á þessum tíma, sem þeim er ætlaður, og þetta leiðir til þess, að útsvarsálagningu verði ekki lokið á tilsettum tíma og sveitarfélögin komist af þeim sökum í vandræði með að fá nauðsynlegar tekjur til þess að standa undir útgjöldum sínum. Ég hefði talið, að úr því að framtalsnefndir eiga að vera í sveitunum til þess að reikna þetta út, þá ætti að vera verk hreppsnefnda eða sveitarstjórna að leggja útsvörin á. Þær hafa miklu betri aðstöðu til þess, og það getur Þá komið til leiðréttingar síðar, ef skattstjórarnir sæju ástæðu til þess að gera leiðréttingar við framtöl eftir á. Það ætti því að snúa við heimildinni í 45. gr., sem lýtur að því, að litlu sveitarfélögunum sé heimilað að leggja útsvörin á, — snúa því við þannig, að þeim væri gert það að skyldu að leggja útsvörin á, að þeim væri þó heimilað að fela skattstjóra að gera það í einstökum tilfellum, ef þeim Þætti ástæða til. Mér sýnist, að í raun og veru ætti að snúa þessu alveg við.

Þá er eitt atriði enn, sem ég vildi gera aths. við hér við Þessa umr. eða ég vildi nú frekar gera fsp. út af. Það er í sambandi við bráðabirgðaákvæðið. Þar er gert ráð fyrir, að skattanefndir og skattstjórar skuli leggja á aðstöðugjaldið nú á Þessu ári. Er þá hugsað, að þessir aðilar ákveði, hversu hátt aðstöðugjaldið skuli vera á hverri grein, eða eiga þeir að fá fyrirmæli um það frá viðkomandi sveitarstjórnum, áður en þeir ákveða aðstöðugjaldið? Ég sé ekki í þessu bráðabirgðaákvæði, hvernig þetta skuti gert, en ég hefði talið, að það væri ástæða til þess, að það kæmi fram, hvort það eigi að vera á valdi skattanefndanna og skattstjóranna að ákveða upphæð aðstöðugjalds í hverju tilfelli, eða einhver skýring gefin á því, hvernig það skuli að öðru leyti fundið.

En varðandi aðstöðugjaldið sjálft, þá vék ég að Því hér áðan í sambandi við t.d. verzlanir, sem annast nú margar hverjar úti um landið sölu á vörum, sem er mjög lítil álagning á, t.d. áburði og fóðurbæti og slíkri vöru, ýmsum nauðsynjavörum, að mér hefði sýnzt, að Það væri ástæða til í þessu frv. að gera nokkurn skilsmun á slíkri vöruveitu og annarri veltu, sem getur skilað miklum gróða. Og Það er full ástæða til þess að gera einhvern greinarmun á því í frv. eða I. og binda Þetta nokkuð, svo að það væru ekki tekin óeðlilega há gjöld af vörum, sem eru seldar með mjög lítilli álagningu og eru nauðsynlegar atvinnulífinu í landinu og framfærslu heimilanna, heldur yrðu þá tekin aftur hærri gjöld af einhverjum öðrum liðum, eins og reyndar hafa verið gerðar till. um í Nd., svo að sveitarfélögin gætu náð tekjum sínum á þann hátt.

Mér sýnist, að Það séu svo mörg atriði í Þessu frv. í heild, sem þurfi nánari athugunar við, að það megi fara með gát að þessu, svo að ekki verði unnið óhappaverk fyrir sveitarfélögin, sem við þetta eiga að búa, og væri ástæða til Þess að athuga það mál allt miklu betur en gert hefur verið.