09.04.1962
Efri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki fara langt í það að ræða þetta mál, þar sem hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) hefur lýst því mjög réttilega. En fyrir málið í heild vil ég þó minna á það, að mér finnst með frv. þessu gengið á sjálfstæði og rétt sveitarfélaganna í landinu frá því, sem áður var. Það er orðin allmikil breyt. frá því, að sveitarstjórnirnar báru hita og þunga dagsins af því, sem innan sveitarfélagsins gerðist í opinberum sveitarmálum, og þeir, sem með þau mál fóru, féllu og stóðu allajafna með sínum verkum.

En með frv. þessu finnst mér, að sé höggvið í þann knérunn, að sveitarstjórnirnar muni í framtíðinni falla og standa á eigin gerðum, þar sem nýir aðilar koma til með að hafa allmikið með málefni sveitarfélaganna að gera, þar sem annars vegar er félmrn. með jöfnunarsjóð sveitarfélaga og hins vegar hin nýju embætti, sem verið er að stofna, skattstjórar, sem eiga að vera einn í hverju kjördæmi. En þetta á eftir að sýna sig, hvernig í framkvæmd verður.

En það er eitt atriði sérstaklega, sem ég vildi minnast á í sambandi við þetta frv., en það er um aðstöðugjaldið. Því hefur réttilega verið lýst, hversu ranglát þessi tekjuöflun kann að vera, því að eftir því sem rekstur eins aðila er óhagstæðari og óhöppin meiri, eftir því á hann að greiða meira til hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélags. Og þetta minnir óneitanlega á það, að ein stórþjóð var komin það langt í skattlagningu að leggja á tekjustofna landsins, að hún greip til þess óyndisúrræðis að fara að le~gja skatta á gjöld þegnanna, það voru Frakkar. Þetta minnir á þau rökþrot, sem hjá Frökkum voru, að við séum að nokkru leyti að komast fjárhagslega á svipaða hillu og þá var ástatt í Frakklandi. En ég vona þó, að framhaldið hjá okkur verði ekki líkt og var hjá Þeirri þjáð.

Það er gert ráð fyrir því, að sveitarstjórnirnar semji skýrslu, sem skattstjórinn á að leggja á aðstöðugjaldið eftir, en aðstöðugjaldið miðast við þau útgjöld, sem eru hjá þegnum hlutaðeigandi sveitarfélags. Hins vegar er svo ráð fyrir gert, að sveitarstjórnirnar reikni út fasteignaskattinn, og enn fremur, að þær leggi á útsvörin eða hafi a.m.k. heimild til þess, þar sem íbúar eru færri en 500. Þess vegna fyndist mér eðlilegt, af því að heimilt er samkv. 45. gr. frv., að sveitarstjórnir leggi á útsvör án Þess að leita til skattstjóra, og þar sem þær eiga að reikna út fasteignaskattinn, að þá eigi þær einnig, þar sem íbúar eru ekki fleiri en 500, að reikna út aðstöðugjaldið, án þess að skattstjórinn komi þar nokkuð til, og hygg ég, að bað muni vera mikill hægðarauki að þessu fyrir hlutaðeigandi sveitarfélög. Og vil ég beina því til hv. félmn., að hún taki þessa breyt. upp, og sé ég ekki, að þetta verði neitt til þess að tefja fyrir málinu, þar sem n. hefur komið sér saman um brtt. og frv. þarf af Þeim sökum að ganga aftur til Nd. Alþ.

En ef svo er, að n. vilji ekki á þetta hlusta og ekki bera fram till. um þetta atriði málsins, þá mun ég flytja brtt. við 3. umr., því að ég tel, að þetta verði til mikils hægðarauka fyrir alla aðila, bæði fyrir sveitarstjórnirnar, sem notfæra sér heimild 45. gr., og einnig til hægðarauka fyrir hlutaðeigandi skattstjóra. Og hér þarf ekki að breyta nema sáralitlu. Það þarf að breyta 11. gr. örlítið og bæta einni setningu inn í 45. gr., þar sem mundi koma fyrir orðið „útsvör“ í fyrstu málsgr.: útsvör og aðstöðugjald.

Ég held, að það séu ekki fleiri gr., sem þyrfti að breyta, en Þessar tvær, og vil ég beina því til n., að hún taki þetta til athugunar, og mundi að því, ef nefndin tekur þetta upp, verða mikill hægðarauki fyrir þær sveitarstjórnir, sem notfæra sér heimild 45. gr. Einnig sé ég ekki annað en þetta gæti orðið tímasparnaður hjá hlutaðeigandi skattstjóra, sem virðist eiga allmiklum störfum að gegna fyrir hin ýmsu sveitarfélög á svæðinu, og vænti ég þess, að hv. n. bregðist vel við og taki upp þessa brtt., svo að hún nái þá fram að ganga.