14.04.1962
Neðri deild: 92. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2131 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þegar mál þetta var til umr. hér fyrir nokkrum dögum, var þess óskað, að umr. væri frestað og málið tekið út af dagskrá, svo að heilbr.- og félmn. gæfist tækifæri til að athuga þær breyt., sem gerðar voru á frv. í Ed., og raunverulega frv. í heild, ef henni þætti nauðsynlegt að koma fram einhverjum breytingum.

N. hefur athugað frv. og hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. í sambandi við 10. gr. frv. hafa þrír nm., Gísli Jónsson, Jón Skaftason og Hannibal Valdimarsson, orðið sammála um að bera fram svo hljóðandi brtt., að aftan við 10. gr. bætist ný málsgr., er orðist svo:

„Aldrei má þó leggja aðstöðugjald á atvinnurekstur skattaðila það ár, sem raunverulegur halli hefur orðið á atvinnurekstri hans, nema skattaðili eigi eignir umfram skuldir, er nemi a.m.k. hinu álagða aðstöðugjaldi. Verði ágreiningur um mat eigna og skulda, skulu aðilar lúta úrskurði ríkisskattanefndar um það atriði.“

Mér þykir rétt að gera dálitla grein fyrir þessari brtt., einkum og sér í lagi vegna þess, að hún snertir raunverulega sáralítið þær breyt., sem gerðar voru á frv. í Ed., en stafar e.t.v. meira af því, að ég hafði ekki aðstöðu til þess hér, þegar málið var til umr. í hv. d. og í n. á fyrra stigi, þar sem ég var fjarverandi við störf við Norðurlandaráð, að koma þessari brtt. að. Ég hef persónulega átt margar umr. um þetta sérstaka atriði í sambandi við störf mþn. í skattamálum, því að það var samstarf milli þeirrar mþn., sem undirbjó þessa löggjöf, og þeirrar, sem undirbjó skattalöggjöfina. Hreyfði ég þar hvað eftir annað þessu atriði og fékk ekki samkomulag um, að mþn. fylgdi málinu efnislega. Nú hafa þær breyt. verið gerðar á þessum lögum, að burt er numið það ákvæði, að leggja skuli á útsvör eftir efnum og ástæðum. Það var sú eina vörn, sem skattþegninn raunverulega hafði í sambandi við útsvarsálagningu og gat alltaf skotið máli sínu til yfirskattanefndar til úrskurðar, byggt á þeim grundvelli, að hann hvorki hefði tekjur né eignir til að greiða útsvarið. Mér er kunnugt um, að veltuútsvar var talið af greiðanda ólöglega álagt, og skaut hann úrskurði sínum til yfirskattanefndar, og úrskurður féll þannig, að með því að sannað væri, að skattaðili hefði nægilegar eignir til þess að greiða veltuútsvarið, þá skyldi það standa óbreytt. Í þessu lá beinlínis viðurkenning á því, að ef skattaðili ætti ekki eignir til að greiða með og hefði ekki heldur tekjur, þá fengi það ekki staðizt að leggja á veltuútsvar að óbreyttu ákvæði útsvarslaganna, eins og það var þá. En eins og ég sagði áðan, hefur nú þessi vörn verið numin í burtu.

Hér er leyft nú að leggja á aðstöðugjald, sem áður var veltuútsvar og raunverulega nákvæmlega sama gjaldið, þó að því sé valið annað nafn, á veltu, þótt engar tekjur séu og engar eignir til að greiða það með. Það er sama sem að gefa sveitarsjóðunum heimild til þess að rýra veðhæfni eigna. Við skulum hugsa okkur t.d. útgerðarfyrirtæki, sem er fleytt áfram með lánastarfsemi frá bönkum eða ríki og er eingöngu leyft að halda áfram rekstri vegna þess, að það er talið flón fyrir viðkomandi sveitarfélag og þjóðfélagið í heild að stöðva reksturinn. sem haldið er áfram með lánum, jafnvel þó að ekki séu fullkomnar tryggingar, þá getur viðkomandi sveitarfélag, sem raunverulega er verið að hjálpa, komið og lagt á tugi þúsunda og haft forgangsrétt fyrir þeirri kröfu og rýrt þannig stórkostlega veðhæfni eignanna. Þetta tel ég gersamlega óhæft og vænti því, að till. verði samþ.

Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að með þessum I. eru sveitarsjóðunum gefnir verulegir tekjustofnar fram yfir það, sem áður var. Þeim er m.a. nú gefið landsútsvar, og þeim hefur auk þess verið gefinn stór hluti af söluskattinum. Það er því beinlínis óréttlátt að gefa þeim meiri réttindi en þeir hafa haft um álagningu veltuútsvars á skuldir og taprekstur, þrátt fyrir það að löggjafinn hafi sýnt svo mikla sanngirni að gefa sveitarfélögunum möguleika til að afla tekna á annan hátt. Sama má segja um fasteignagjöldin. Þau falla nú að fullu og öllu til sveitarsjóðanna, en áður féll nokkur hluti þeirra til ríkissjóðs. Ég tel því, að hér sé allt of langt gengið í að leggja sveitarfélögunum tekjur og beri því að breyta þessu ákvæði.

Í umr. um þetta mál í mþn. kom það glögglega fram, að veltuútsvar var á sínum tíma lagt á beinlínis sem vörn, eftir því sem fulltrúar frá sveitarfélögunum héldu fram, gegn því. að það væri rangt fram talið, og það átti að vera réttur forráðamanna sveitarfélaganna, hvort sem viðkomandi aðili hefur talið samvizkusamlega fram eða ekki. Þrátt fyrir það að skattadómarar eins og yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd hafi viðurkennt framtalið, þá átti samt sem áður sveitarfélagið eða forráðamenn þess að hafa þann rétt að mega dæma mann sem skattsvikara og hegna honum fyrir ímyndað lagabrot með því að leggja á hann veltuútsvar, eins og það var áður kallað. Þetta tel ég hreinustu óhæfu. Veltuútsvar var alltaf illa liðið. Það er jafnilla liðið, þó að það breyti hér um nafn og sé kallað aðstöðugjald. Það breytir engu um eðli málsins. Og engin breyt. hefur orðið á því önnur en sú, að nú á það að vera frádráttarhæft, teljast með öðrum gjöldum viðkomandi skattaðila, sem þó fékkst ekki áður. En ég tel, að þó að það sé sett inn í l., sé samt sem áður enginn grundvöllur fyrir því að leyfa þá skattálagningu, sem hér er gert með þessu ákvæði. Það má segja, að hér sé aðeins um að ræða heimild fyrir sveitarstjórnirnar, og það er alveg rétt. En reynslan hefur sýnt, að þessi heimild hefur verið notuð svo skefjalaust, að það hefur engin linkind verið sýnd. Þess vegna er þeim ekki treystandi til að fara með það vald, sem þeim er gefið hér, og ber því Alþ. að breyta l. að þessu leyti.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða um þetta mál annað eða meira, nema sérstakt tilefni gefist til. En í sambandi við þá brtt., sem fram kemur frá þeim Birgi Finnssyni, Jóni Skaftasyni og Hannibal Valdimarssyni, þ.e. við 17. gr. b, þá skal ég ekki ræða það atriði, aðeins geta þess, að málið var rætt í n. og fékkst ekki Þar samkomulag um afgreiðslu þess. Ég og Jón Kjartansson vorum andvígir till., teljum, að ekki sé rétt að breyta þessu ákvæði, en munum hins vegar láta það í hendur flm. að mæla fyrir þeim till.

Meiri hl. n., þ.e. ég, Jón Skaftason og Hannibal Valdimarsson, leggur til, að frv. verði afgr. með þeirri breyt., sem er á þskj. 755, og aðrar brtt. verði felldar.