02.04.1962
Efri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2157 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

134. mál, Ríkisábyrgðasjóður

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Með lögunum um ríkisábyrgðir frá síðasta Alþ. var lagður grundvöllur að því að koma þeim málum í fast form og reyna að girða fyrir þau vanskil, sem orðið hafa á undanförnum árum vegna ríkisábyrgða. Þetta frv.. sem hér liggur fyrir, er í rauninni framhald af þeirri löggjöf. Hér er lagt til, að stofnaður verði sérstakur ríkisábyrgðasjóður með það í huga, að þessi mál verði ekki í eins nánum tengslum beinlínis við ríkissjóðinn og verið hefur. Þó að ríkissjóðurinn að sjálfsögðu beri alla ábyrgð á skuldbindingum ríkisábyrgðasjóðs, er jafnframt gert ráð fyrir því, að sérstakir tekjustofnar gangi til þessa sjóðs, til þess að standa straum af þeim ábyrgðum, sem á sjóðinn falla. Er þar fyrst og fremst um að ræða og stærsta fjárhæðin í því sambandi er gengishagnaður sá, sem varð við síðustu gengisbreytingu.

Þetta frv. hefur verið nokkuð lengi til meðferðar í fjhn., og er ástæðan sú, að rétt þótti að bíða með frv., þar til ljósara yrði um afgreiðslu þess frv., sem er undirstaða að þessum tekjustofni, sem ég áðan gat um. Nú hefur það frv. hlotið endanlega afgreiðslu í Nd. og einnig verið afgr. frá fjhn. Ed., og má telja öruggt, að þessi gjaldstofn muni verða til staðar samkv. þeim lögum.

Svo sem nál. fjhn. ber með sér, leggur meiri hl. n., eða 4 nm. af 5, til, að frv. verði samþ.

Einn nm., hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ), skrifar að vísu undir nál. með fyrirvara, en einn nm., hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK), tók ekki afstöðu til málsins.

Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, eru deilur uppi um þann gjaldstofn, sem hér er um rætt. En hins vegar hygg ég, að það, sem veldur því, að það er þó ekki andstaða frá þeim sömu aðilum beint gegn þessu frv., byggist á því, að þótt menn sumir hverjir séu á móti þeirri gjaldheimtu, þá sé ekki talið óeðlilegt, ef til hennar kemur á annað borð, að hún gangi til þessa sjóðs, eins og hún renni beint í ríkissjóðinn sjálfan. Enda er það vitanlegt, að ríkisábyrgðir þessar falla fyrst og fremst á ríkissjóðinn vegna atvinnuveganna og þá ekki hvað sízt sjávarútvegsins, og má því segja, að það sé fullkomlega eðlilegt, að raunverulega gangi þetta fé til þeirrar atvinnugreinar aftur með því að ráðstafa því svo sem hér er ráð fyrir gert.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara um þetta fleiri orðum, en áður greindur meiri hl. fjhn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.