02.04.1962
Efri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2160 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

134. mál, Ríkisábyrgðasjóður

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af nál. og till. um rökst. dagskrá frá hv. 1. þm. Norðurl. e., því að það var ekki ljóst, þegar málið var til meðferðar í n., að hann hygðist leggja til, að málið yrði afgr. á þann veg, og vék ég því ekki að því í minni frumræðu um málið, hvað kynni að mæla á móti slíkri afgreiðslu.

Það kann vel að vera, að það megi hugsa sér þá leið í þessu máli að sameina löggjöfina um ríkisábyrgðasjóð og löggjöf um ríkisábyrgðir. Ég tel það hins vegar ekkert grundvallaratriði, að svo sé gert, vegna þess að hvort frv. um sig fjallar um alveg sérstakan þátt málsins. Frv. um ríkisábyrgðir snýr fyrst og fremst út á við, þ.e.a.s. gagnvart þeim aðilum, sem ríkisábyrgðir þurfa að fá eða geta átt kost á að fá þær, og þar eru settar reglur um það, hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að fá ríkisábyrgðir. Þar eru almennar reglur um þau efni, og jafnframt eru þar reglur um það, hvernig að skuli fara, ef vanskil verða á ríkisábyrgðalánum. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, snýr í rauninni algerlega inn á við og fjallar um það, með hvaða hætti ríkið eða ríkissjóður skuli mæta þeim skuldbindingum, sem á hann falla í sambandi við ríkisábyrgðir, þannig að þetta frv. er að vísu tengt hinu fyrra, en er algerlega um annan þátt málsins og því í rauninni ekkert fremur eðlilegt, að það sé í einni löggjöf, heldur en svo ótalmargt annað, mörg önnur mál, sem eru til mismunandi lög um, þó að það séu í rauninni aðeins tvær eða þrjár greinar af sama meiði. Um það þekkjum við ótal dæmi, sem ég tel þarflaust að nefna hér. Ég tel því ekki, að það séu næg rök fyrir því að vísa þessu máli frá á þeim grundvelli, að frv. sé óeðlilega upp byggt með hliðsjón af því, að til séu lög um ríkisábyrgðir. Þar stangast ekki eitt né neitt á, og það eru engin ákvæði í þessu frv., sem má segja að væri eðlilegra að væru í þeim lögum. Ég fæ því ekki séð, að ástæða sé til þess að fresta afgreiðslu málsins af þeim sökum.

Mér var það ekki fullkomlega ljóst, hvort hv. 1. þm. Norðurl. e. var á móti því eða ekki að fela banka afgreiðslu þessara mála. Það liggur í augum uppi, að með þessu móti er banka ekki fengið neitt vald til þess að meta tryggingar eða aðra þætti þeirrar hliðar málsins, hvort veita skuli ríkisábyrgðir eða ekki. Hér er eingöngu um að ræða innheimtuhliðina og meðferð þessa ríkisábyrgðasjóðs. Að sjálfsögðu er eðlilegt, að þessi ríkisábyrgðasjóður sé í banka, og bað er jafneðlilegt, að banka sé falið að annast innheimtu ríkisábyrgða, og svo mun einnig praxísinn vera nú þegar, hvað sem þessu frv. líður, og tel ég það vera algerlega eðlilega reglu, og þeirri reglu hefur verið fylgt um langt skeið að fela bönkum að innheimta ríkisábyrgðaskuldbindingar. Það kannske kann að hafa vakað fyrir hv. 1. þm. Norðurl. e., að Það ætti ekki að ganga að eftir sömu sjónarmiðum og á sér stað varðandi bankalán almennt. Það kann að geta orðið einhver ágreiningur um það efni varðandi hinar eldri ábyrgðir, En þær ábyrgðir, sem veittar eru, eftir að lögin um ríkisábyrgðir ganga í gildi, eru þess eðlis, að það þarf í rauninni ekki neitt að meta í þessu efni, vegna þess að það kemur ekki til greiðslu ríkisábyrgða, fyrr en sýnt hefur verið, að viðkomandi aðili getur ekki staðið í skilum, og þá liggur í augum uppi, að ríkisábyrgðina verður að sjálfsögðu að inna af hendi, hjá því verður ekki komizt. Það liggur því í rauninni ekki annað fyrir í sambandi við mat á meðferð þessa sjóðs eða um greiðslur úr honum en hvort uppfyllt hafa verið þau skilyrði, sem þurfa að vera fyrir hendi, til þess að ríkisábyrgð sé greidd, því að það liggur ekkert mat á því máli að öðru leyti fyrir þeim banka, sem meðferð sjóðsins hefur með höndum.

Ég held, að þegar alls þessa er gætt, geti ekkert verið því til fyrirstöðu og í rauninni er hér ekki verið að gera annað en að lögfesta það, sem hefur þegar verið í praxís, að banki annaðist þessi mál að töluvert verulegu leyti. Það gefur auga leið, að í mörgum greinum geti komið upp álitamál, sem að sjálfsögðu er þá borið undir fjmrh. En ég held, að alveg á sama hátt og það var talið hagkvæmt af Alþ. að koma ríkisábyrgðum í það horf, að reynt yrði að sporna gegn því, að ríkisábyrgðir féllu á ríkissjóð, nema óumflýjanlegt væri, þá sé það jafnæskilegt að halda áfram á þeirri braut, halda þessum málum aðgreindum frá fjárreiðum ríkissjóðs og reyna að búa svo um hnútana, að hér verði ekki um bein áföll að ræða fyrir ríkissjóðinn.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. vék að því, að fjvn. hefði haft með að gera ýmsa þætti þessa máls, og það er rétt, að samkv. lögum um ríkisábyrgðir á að meðhöndla gjaldfallnar ríkisábyrgðir eftir till., sem fjvn. á að gera til ráðh., og það má ekki gefa eftir kröfu vegna ríkisábyrgða, nema fjvn. einróma mæli með því. Niðurstaðan af þessari athugun fjvn. mun vera sú, að gert er ráð fyrir, að meginhluti þess fjár, sem út hefur verið lagt vegna ríkisábyrgða, verði innheimtur, þannig að það séu tiltölulega litlar fjárhæðir, sem fjvn. hefur lagt til að verði beinlínis eftir gefnar. Og ég álít, að það sé algerlega í samræmi við það sjónarmið, sem hlýtur að verða að ríkja við ríkisábyrgðir, að það sé gengið út frá því, — annað væri gersamlega ómóralskt, — að ríkisábyrgðir séu greiddar, en þessar ríkisábyrgðir séu ekki teknar með hliðsjón af því, að það megi fyrir fram ganga út frá því, að þær verði ekki greiddar og falli á ríkissjóð. En ég álít hins vegar, þó að ég sé fullkomlega sammála hv. 1. þm. Norðurl. e. um mikilvægi ríkisábyrgða til aðstoðar við uppbyggingu í landinu á ýmsum sviðum, að ríkisábyrgð eigi ekki að veita, nema Það sé nokkurn veginn víst, að ríkisábyrgðaskuldbindingin verði greidd. Annað er algert ábyrgðarleysi með meðferð ríkisfjár, því að ef hitt sjónarmiðið ætti að ráða, væri að sjálfsögðu eðlilegt, að það væri þegar í stað veitt úr ríkissjóði sem beinir fjárstyrkir til viðkomandi fyrirtækja eða stofnana, en ekki að hafa þann hátt á að veita ríkisábyrgð með það í huga, að síðan standi viðkomandi aðili ekki við sínar skuldbindingar. Það er auðvitað jafnrétt, að það getur komið fyrir, eins og við þekkjum ótalmörg dæmi um, að vegna ýmissa áfalla, — ekki hvað sízt þekkjum við það í sambandi við togaraútgerðina,

þá hefur viðkomandi félögum eða eigendum togara ekki verið kleift að standa straum af skuldbindingum sínum og ábyrgðir hafa af þeim sökum fallið á ríkið. Það kann því að verða nauðsynlegt í ýmsum tilfellum að leggja út fé í bili og breyta síðan lánunum í lengri lán, og það kemur að sjálfsögðu áfram til álita, hvort sem afgreiðsla þessara mála verður beint í hendi rn. eða í höndum banka. En það hlýtur engu að síður að verða meginreglan, að þótt slíkt þurfi að gera, þá eigi og beri að halda á þessum málum svo, að ekki komi til endanlegs taps hjá ríkissjóði af þessum sökum. Og ég held sannast sagna, að það sé miklu minna um það en hv. 1. þm. Norðurl. e. vildi vera láta í sinni ræðu, að ríkisábyrgðir séu beinlínis veittar án Þess, að viðunandi tryggingar séu settar. Yfirleitt er það svo í sambandi við allar ríkisábyrgðir, að það er gert ráð fyrir því, að þær séu ekki veittar, nema viðhlítandi tryggingar séu settar að dómi fjmrh. Það, sem gerzt hefur og veldur hinum gjaldföllnu ríkisábyrgðum, er hins vegar það, að gjaldgeta viðkomandi aðila hefur ekki verið slík, að þeir hafi fengið undir þessum lánum risið í allmörgum tilfellum.

Ég hygg því, að það séu fullgildar ástæður til þess og það sé í rauninni í beinu framhaldi af lagasetningunni um ríkisábyrgðir, að áfram sé haldið á þeirri braut, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, þessi mál verði aðskilin að verulegu leyti frá ríkissjóðnum sjálfum og að þessu sé komið fyrir á þennan hátt, sem hér er ráð fyrir gert.

Varðandi það atriði, að það sé þá eðlilegt að setja sérstaka stjórn yfir þennan sjóð, þá er ég ekki heldur sammála hv. 1. þm. Norðurl. e., vegna þess að þessi sjóður er með algerlega öðrum hætti en venjulegir sjóðir. Þessi sjóður stundar engar lánveitingar. Það er aðeins um það að ræða að meta það hverju sinni, hvenær þau skilyrði liggi fyrir, að skylt sé að leggja fram fé úr þessum sjóði til þess að standa straum af ríkisábyrgðum, sem ekki sé hægt að komast undan að greiða. Það er því algerlega þarflaust að hafa neina stjórn á slíkum sjóði, því að hér kemur ekki til greina, eins og um aðra sjóði, að það þurfi að meta ein og önnur skilyrði fyrir því, hvort lána eigi fé sjóðsins til þessara eða hinna framkvæmdanna. Það er, eins og menn að sjálfsögðu skilja, allt annars eðlis. Stjórn sjóðs sem þessa hefur í rauninni ekkert eðlilegt verkefni, sem sjóðsstjórn jafnan hefur, og því gersamlega ástæðulaust að setja sjóðnum neina sérstaka stjórn.

Mér sýnist því, herra forseti, að það sé ekkert, sem mælir með því, að þessu máli verði frestað. Það má vel vera, að það hefði verið hægt að fella þetta frv. saman á sínum tíma við lögin um ríkisábyrgðir. En það gefur jafnframt auga leið, að þessu máli er þann veg farið, þar sem hér er um að ræða sérstakt fé, sem þarf að taka ákvarðanir um, hvernig ráðstafa beri, og í frv. um ráðstafanir vegna gengisbreytingarinnar er þegar búið að taka inn ákvæði um, að það fé skuli renna í ríkisábyrgðasjóð, og þá gengið út frá því, að löggjöf um það efni verði sett, og ég hygg því, að af því geti orðið margvíslegir erfiðleikar að fresta þessu máli, svo sem gert var ráð fyrir í hinni rökst. dagskrá, og vil ég því leggja áherzlu á, að frv. verði lögfest.