02.04.1962
Efri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

199. mál, innflutningur búfjár

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Sú meginbreyting, sem felst í þessu frv. frá gildandi lögum, er í II. kafla frv. og er á þá leið, að landbrh. skuli heimilað að flytja eða láta flytja inn sæði úr nautum af Galloway-kyni, en einvörðungu í sóttvarnarstöð ríkisins að Bessastöðum á Álftanesi. Heimild þessa má þó því aðeins nota, að fyrir liggi umsögn forstöðumanns tilraunastöðvar háskólans í meinafræði um fyrirhugaðan innflutning, stjórn Búnaðarfélags Íslands mæli með honum og yfirdýralæknir samþykki.

Það, sem í þessu frv. felst til breytinga frá gildandi lögum, er tilslökun á banni við innflutningi búfjár. Þetta tel ég meginmál þessa frv. Innflutningur á búfjársæði og innflutningur á lifandi búfé er í rauninni eitt og hið sama. Á þessu tvennu er enginn eðlismunur, aðeins stigmunur. Þær hættur, sem kunna að fylgja innflutningi lifandi búfjár, eru einnig til staðar, þegar um er að ræða innflutning á sæði, djúpfrystu sæði. Þetta er vert að hafa í huga, þegar þetta frv. er athugað og rætt.

Við íslendingar höfum sannarlega reynslu af innflutningi búfjár. Sú reynsla okkar er a.m.k. 200 ára gömul, og hvernig er sú reynsla? Saga okkar í þessu tilliti má kallast ein samfelld hörmungasaga. Árið 1760 var flutt fé inn í landið erlendis frá, frá Spáni. Þá barst fjárkláðinn fyrri með öllu því tjóni, sem hann olli á næstu áratugum. Um miðja öldina á eftir, um miðja 19. öld, barst einnig fjárkláði til landsins og þá með brezku fé, með hræðilegum afleiðingum fyrir land og þjóð. Árið 1880 var fluttur inn hrútur frá Danmörku, og með honum barst veiki, riðuveiki, sem mun vera landlæg hér enn í dag. Þetta er fyrsti kafli þessarar raunasögu. Síðan eru samþykkt lög um takmarkanir eða bann við innflutningi lifandi dýra, og þá fékkst hlé á pestunum, og það hlé stóð að miklu leyti um 50 ára skeið. En um 1930, eða á árunum 1931–1933, er ötullega farið að vinna að því að slaka á klónni, ötullega farið að vinna að því að slaka á banni við innflutningi búfjár. Og afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Strax árið 1932 er talið, að borizt hafi til landsins kýlapest með skozku sauðfé. Og árið 1933 er karakúlféð alkunna flutt inn í landið, með öllum þeim hræðilegu afleiðingum, sem það hafði: garnaveiki, mæðiveiki og fleiri sjúkdómum. Nautgripir voru fluttir inn frá Bretlandi 1933 einnig, og með þeim barst hingað sérstakur húðsjúkdómur nautgripa. árið 1947 er enn flutt inn sauðfé frá Bretlandi. Þær kindur reyndust hafa smitsjúkdóm af óþekktum orsökum eða áður óþekktan hér, og á síðustu stundu tókst með niðurskurði þess fjár, sem flutt hafði verið til landsins, að stemma stigu fyrir þeim sjúkdómi. Þetta er annar kaflinn í þessari hörmungasögu.

Strax og slakað var á banni við innflutningi búfjár í kringum 1930, endurtók sagan sig frá öldunum tveim á undan. í kjölfar innflutnings búfjár fylgdu í bæði skiptin alvarlegir búfjársjúkdómar, sem leiddu af sér ómetanlegt tjón, ekki aðeins fyrir bændastétt landsins, heldur og fyrir þjóðina alla.

Árið 1948 voru sett lög, þar sem innflutningur búfjár var bannaður. Þessi lög hafa síðan verið í gildi, og í kjölfar þessa banns kom það, að kláðanum linnti. Mér er nú spurn: Á nú að hefja þriðja kapítulann í þessari sögu? Á árunum kringum 1930 var farið að sækja mjög fast á um að upphefja bannið við innflutningi búfjár, og að lokum lét löggjafinn undan, sérstaklega undan sífelldum kröfum búnaðarþings í þessu efni. Afleiðingin var garnaveikin, mæðiveikin og ýmsir aðrir kvikfjársjúkdómar. Nú er sama ásóknin byrjuð enn á ný. Bændasamtökin eru farin að gera samþykktir og áskoranir um að slaka á banninu. Búnaðarþing gengur í broddi fylkingar fyrir samþykktum um þær óskir sínar, að inn verði flutt ekki aðeins djúpfryst sæði holdanauta, heldur og lifandi kvikfé. Það er farið hægt af stað. Og nú lítur út fyrir, að löggjafarsamkoman ætli að verða við þessum óskum búnaðarþings, að hálfu leyti í þetta sinn, hitt kemur síðar.

Ég hlustaði á ræðu hæstv. landbrh. hér í þessari hv. d. um daginn, þegar hann mælti fyrir þessu frv. í dag hlýddi ég á ræðu tveggja hv. þdm., sem sæti eiga í landbn. þessarar d. Báðir mæltu með samþykkt þessa frv. Töluðu þeir um hættur í sambandi við Þetta mál? Nei, þeir gerðu það ekki. Hv. formaður landbn. sagði orðrétt, að hér væri lítil sem engin áhætta. Hinn hv. þm. úr landbn. minntist litt eða ekki á hættur, en sagði þó, að gerðar mundu fyllstu varúðarráðstafanir gegn smithættu. Þetta var allt og sumt, sem um hætturnar var rætt.

Það er fróðlegt að bera þessi ummæli saman við það, sem sagt var hér á hinu háa Alþingi árið 1931, þegar líkt stóð á, þegar rætt var frv. til laga um að heimila ríkisstj. að flytja inn sauðfé til sláturfjárbóta. Þá var ekki heldur mikið rætt um hættuna. Þá var gert lítið úr hættunum eins og nú, og þá var talað um nauðsynina á varúðarráðstöfunum og ekki efazt um, að þær yrðu gerðar og eftir þeim fyrirmælum yrði farið. Enginn efaðist um það. Allt átti að vera tryggt. En mæðiveikin kom. Árið 1931 sagði frsm. landbn. Nd., að ég ætla, á þessa leið: „Nefndinni er ljóst, að þarna getur að vísu verið um að ræða nokkra sýkingarhættu fyrir innlent fé og einnig um allmikinn kostnað. Tilraun þessa verður þó að gera,“ bætti þessi þm. við. Og hann lauk máli sínu með Því að segja: „Hins vegar treystir n. því, að öllum varúðarráðstöfunum verði beitt af hálfu ríkisstj. gegn sýkingarhættu og gætt hinnar ýtrustu sparsemi í fjármálum.“ Hér var vel um hnútana búið af hálfu löggjafans. Hann veitti leyfið, og hann treysti á framkvæmdina. Annar ágætur þm., sem sæti átti í landbn. árið 1931, sagði: „Hins vegar er um hættu að ræða í þessu sambandi. Bæði er hugsanleg sýkingarhætta á innfluttu fé og sömuleiðis spjöll með kynblöndun á hinum innienda fjárstofni. En gegn þessu setur frv. þær varúðarráðstafanir, sem ættu að nægja.“ Menn voru bjartsýnir þá, eins og þeir virðast vera bjartsýnir enn í dag, að unnt sé að koma í veg fyrir sýkingarhættu, að unnt sé að koma í veg fyrir þær hörmungar, sem sagan segir okkur frá að gerzt hafi hér á landi aftur og aftur á síðustu 200 árum. Nú hugga menn sig við, að það sé allt annað að flytja inn sæði nautgripa en að flytja inn lifandi nautgripi. Þetta er ekki allt annað. Ég neita því ekki, að sýkingarhættan kunni að vera minni, en hún er til staðar, hún er raunveruleg, og út frá því verður að ganga, þegar ákvörðun er tekin um þetta mál.

Mig langar í sambandi við þetta að minna á orð, sem ágætur íslenzkur vísindamaður viðhafði fyrir nokkrum árum. Þessi maður mun hafa verið kunnugastur þessum málum allra íslendinga, en það var dr. Björn Sigurðsson læknir. Hann sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Áhættuminnsta leiðin til innflutnings búfjár til landsins er væntanlega að flytja sæði til sóttvarnarstöðvar, sem yrði tryggilega einangruð allan Þann tíma, sem það tekur að ala upp hreinan stofn, t.d. 10–20 ár eftir tegund. Stofnun og starfræksla slíkrar stöðvar er mjög umfangsmikið, kostnaðarsamt og vandasamt verk og hætt við, að menn hafi ekki gert sér ljóst, hvað í slíku verkefni felst. Má raunar telja líklegt, að í því þjóðfélagi hirðuleysis og óreglu, sem hér viðgengst, mundi ströngum og torveldum sóttvarnarreglum ekki hlýtt til lengdar. En enginn þyrfti sjálfsagt að óttast ábyrgð gerða sinna, þótt brugðið yrði út af fyrirmælum, jafnvel á augljósasta hátt.“

Þetta sagði þessi fróði og reyndi maður um þetta efni, dr. Björn Sigurðsson læknir. Mér er spurn: Hefur hv. landbn. Ed. rætt þetta frv., rætt það nýmæli, sem í þessu frv. felst, út frá þessu sjónarmiði? Hefur n. t.d. rætt málið út frá því, að dýrin yrðu að vera í einangrun í 10–20 ár eftir tegund? Hefur hv. nefnd gert sér ljóst, hversu umfangsmikið, kostnaðarsamt og vandasamt það verk er að einangra skepnurnar og gæta þess, að allar varúðarráðstafanir séu viðhafðar? Ég efast um það. E.t.v. má benda á, að slíkt sem þetta hafi verið gert í nágrannalöndum okkar og ekki komið þar að verulegri sök. En það sannar engan veginn, að sama eigi við hér á landi. Það er t.d. kunnugt mál, gamalkunnugt mál, að um innflutning búfjár til eylanda gegnir allt öðru máli yfirleitt en um innflutning landa á milli á meginlandinu.

Sá maður núlifandi, sem mun vera fróðastur hér á landi um þessi mál, Páll A. Pálsson yfirdýralæknir, flutti útvarpserindi í maí s.l. Ég hef lesið þetta útvarpserindi með athygli, og ég get ekki skilið efni þess á annan veg en þann, að það sé frá upphafi til enda aðvörun til þjóðarinnar í þessu efni. Hann varar þjóðina við að stíga það spor, sem hv. landbn. Ed. ráðleggur í dag. Og hann lýkur þessu erindi sínu með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Á þessu ári munu tvær aldir liðnar síðan mesta drepsótt, er enn hefur geisað í íslenzku búfé, barst til landsins, fjárkláðinn fyrri. Þessa hefur meiri hluti fulltrúa bænda á búnaðarþingi fundizt ástæða til þess að minnast með nokkuð sérstæðum hætti, með því að hvetja stjórnarvöld landsins til að hefja innflutning búfjár á nýjan leik. Þó hefur reynsla tveggja alda sýnt, að innflutningur búfjár hefur haft í för með sér geysilegt tjón og hörmungar, en aldrei hagnað. Ég hef talið sérstaka ástæðu,“ segir Páll A. Pálsson, „nú til þess að rifja stuttlega upp hin hörmulegu óhöpp í sambandi við innflutning búfjár til Íslands, og jafnframt við ég benda á og undirstrika þær hættur, sem alltaf hljóta að vera samfara slíkum innflutningi, hvernig sem um hnútana er búið. Eigi veldur sá, er varar.“

Þetta eru síðustu orð yfirdýralæknisins. Nú má kannske segja: Hér er engin hætta á ferðum. Landbrh. getur ekki veitt leyfi til innflutnings á sæði holdanauta, nema því aðeins að stjórn Búnaðarfélagsins og yfirdýralaeknir samþykki það. En er það forsvaranlegt af löggjafanum að leggja þá ábyrgð á hendur einum manni eða svo, einum embættismanni? Mér finnst það ekki forsvaranlegt að samþykkja lög upp á slíkt, nema því aðeins að löggjafarsamkoman sé sannfærð um, að þessu fylgi engin hætta.

Á fyrsta fjórðungi þessarar aldar starfaði hér yfirdýralæknir, Magnús Einarsson, sérstakur dugnaðarmaður. Þessi maður stóð árum, ef ekki áratugum saman í stöðugri baráttu við stjórnarvöldin um þessi mál. Hann átti til að bera dugnað og hann átti til að bera áhrifavald, og honum tókst árum saman að sporna við því, að innflutningur búfjár væri hafinn á ný þá. Þegar hans missti við, brást skjólgarðurinn, þá brást vörnin. Ég veit, að núv. dýralæknir er dugnaðarmaður og samvizkusamur embættismaður, og ég veit einnig, að hann hefur skilning á þessum vandkvæðum. En ég vil ekki hætta á neitt fyrir mitt leyti um framkvæmd í þessu efni. Ég mun ekki láta það vera komið undir siðferðisþreki eins manns. Ég hefði talið sæmilegast, að þetta mál hefði að þessu sinni verið látið daga uppi hér á Alþingi. Þetta mál þarfnast miklu meiri og nákvæmari athugunar. Og hér eru fordæmin það ljós, að ekki má rasa um ráð fram. Ég sé ekki, að neitt liggi á í þessu efni. Og ég skora þess vegna á hv. þdm. fyrst og fremst að athuga málið út frá þessu sjónarmiði, sem alls ekki hefur verið rætt hér þar til nú. Og ef þeir gera það, þá treysti ég því, að þeir rasi ekki um ráð fram, heldur lofi málinu að bíða, lofi málinu að njóta frekari athugunar, en taki ekki ákvörðun að þessu sinni.