02.04.1962
Efri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2187 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

199. mál, innflutningur búfjár

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 10. landsk. þm. (BGuðm) ræddi þetta mál af rökum, eins og hans var von og vísa, og gat þess, að hann hefði aldrei verið spenntur fyrir innflutningi búfjár, þótt hann vildi styðja þetta frv. Ég get vel hugsað mér, að hv. þm. hafi oft íhugað þetta mál, og ég efast ekki um, að þeir hv. þm., sem á sínum tíma hafa talað fyrir innflutningi búfjár, hafi verið sama sinnis og þessi hv. þm., að þeir hafi ekki séð áhættuna, þeir hafi séð í hillingum blómlega bændastétt á Íslandi í framtíðinni. En sagan hefur kennt okkur allt annað. Ég efast ekki um, ef vel hefði til tekizt, að við hefðum getað fengið arðvænlegra og kannske betra sauðfjárkyn í landinu en nú er, og þeir, sem talað hafa fyrir innflutningi búfjár, hafa eygt þá möguleika. En staðreyndin hefur orðið allt önnur. Og af sögunni eigum við að læra. Það er síður en svo, að ég vilji gerast talsmaður þess á neinum vettvangi, að við eigum ekki að efla íslenzkan landbúnað eins og tök eru á og auka fjölhæfni landbúnaðarins. Að þessu hefur verið unnið í stórum stíl á undanförnum áratugum og það án þess að hafi verið gripið til innflutnings búfjár; Möguleikar íslenzkrar gróðurmoldar eru svo miklir, að það er á margvíslegan hátt fært að auka fjölhæfni í landbúnaðinum, þótt ekki sé flutt inn búfé, og ég get endurtekið það hér, að ég er Þeirrar skoðunar, að það sé engan veginn tímabært að flytja inn búfé eða búfjársæði, meðan við verðum fyrir stórum fjárútlátum árlega vegna innflutnings búfjár á liðnum áratugum. Það er mín skoðun. Og það má hver segja hvað sem hann vill persónulega um mig í því sambandi, það skiptir mig ekki nokkru máli. Ég hef tekið þetta mál málefnalega, en ekki persónulega, og mig undrar það út af fyrir sig ekki nokkurn hlut, þó að hæstv. landbrh. komi hér fram og segi mig hafa haft allt aðra afstöðu í þessu máli en ég hafi núna, vegna þess að hæstv. ráððh. er þekktari í þingsölunum að öðru en því að fara rétt með staðreyndir, hann er þekktari að öðru. Ég vil því upplýsa þennan hæstv. ráðh., — eða það skiptir engu máli, hvort ég upplýsi hann eða ekki, — en ég vil upplýsa þingheim um það, hver mín afstaða hefur verið, og hún er nákvæmlega sú sama í dag og hún hefur verið á búnaðarþingi á undanförnum árum. Við þeim tillögum, sem lágu fyrir búnaðarþingi í fyrra, sagði einn maður nei, Benedikt H. Líndal. Fjórir sátu hjá: Ásgeir Bjarnason, Jón Sigurðsson og Sveinn Guðmundsson, og er það að vera með málinu? En ráðh. hæstv. tvítók það, að ég hefði verið með málinu í fyrra. Ég lái honum þetta ekkert, vegna þess að hann er þekktari að öðru en því að fara rétt með staðreyndir, og það er almannaálit á þessum hæstv. ráðh., utan þings og innan.

Svo vil ég vekja athygli á þeim tillögum, sem lágu fyrir búnaðarþingi í fyrra. Ég vil lesa þær upp, með leyfi forseta. Ég gerði það hér í kvöld, og ég skal gera það aftur:

„Búnaðarþing leggur til: 1) Að nú þegar verði unnið að Því með innflutningi djúpfrysts sæðis að hreinrækta hinn erlenda holdanautastofn, sem fyrir er í landinu. 2) Að jafnframt séu athugaðir möguleikar á því að koma upp hér í landinu fleiri hreinræktuðum holdanautastofnum með innflutningi nýfæddra kálfa, svo sem Hereford og Aberdeen Angus, enda verði þeir aldir upp í öruggri sóttkví með innlendum nautgripum, þangað til fullkomið öryggi fæst um heilbrigði þeirra. Innflutningurinn á sæði og gripum fari fram samkv. lögum um innflutning búfjár. 3) Að máli þessu verði vísað til landbrh. til athugunar og framkvæmda.“

Síðan kemur hæstv. landbrh. og segir, að ég hafi samþykkt þessar tillögur í fyrra, samþykkt miklu víðtækari tillögur en þetta frv. feli í sér, því að það hafi falið í sér þessar tillögur um innflutning á búfé. Við skulum bara taka þetta lið fyrir lið og vita, hvort hæstv. ráðh. getur skilið það. Hann virðist ekki hafa gert það. Fyrsta till. er þannig, að nú þegar verði unnið að því með innflutningi djúpfrysts sæðis að hreinrækta hinn erlenda holdanautastofn, sem fyrir er í landinu. í öðru lagi, að jafnframt séu athugaðir möguleikar á innflutningi á öðrum holdanautakynjum, — athugaðir möguleikar. Ég sá enga ástæðu til þess að vera á móti því að athuga möguleikana á því. En nóta bene í þessu öllu saman, sem er grundvallarskilyrðið á búnaðarþingi og hefur verið á öllum búnaðarþingum þar til nú í ár, var það, að innflutningurinn á sæði og gripum fari fram samkvæmt gildandi lögum um innflutning búfjár, um fullkomna sóttvarnarstöð, ekki stöð, sem er byggð fyrir sæði úr einni nautgripategund. Þetta er algerlega nýtt í málinu, og búnaðarþing hefur aldrei beðið hæstv. ríkisstj. um að breyta lögunum að því er varðar sóttvarnarstöð fyrir innflutning á búfé. Hæstv. ráðh. var hér ekki inni, þegar ég gerði grein fyrir mínu máli, en ég tel það vera mjög áhættusamt fyrir íslenzkan landbúnað og innflutning á búfé til Íslands eða búfjársæði að hafa sóttvarnarstöð, sem er eingöngu miðuð við sæði úr einni einustu tegund gripa, vegna þess að við vitum það, að þrýstingurinn á fleiri tegundir nautgripa, holdakyn og mjólkurkyn og sauðfjárkyn, hann kemur undireins á eftir, þegar búið er að opna gáttina. Þess vegna eigum við ekki að hefja innflutning búfjár, fyrr en við getum komið upp svo öflugri sóttvarnarstöð, að hún geti mætt þeim þrýstingi, sem við getum reiknað með að verði í framtíðinni.

Ég þarf ekki og sé enga ástæðu til að fara að endurtaka það, sem ég hef áður sagt í þessu máli, því að mín afstaða er og hefur alla tíð verið skýr í málinu, og svo getur hver og einn afbakað hana, eins og honum finnst hann vera maður til.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það stæði í minni rökstuddu dagskrá, að það væri engin hagnaðarvon af innflutningi búfjár. Það er ekki rétt, því að í minni rökstuddu dagskrá stendur: „Þar sem ekki er um mikla hagnaðarvon að ræða af búfjárinnflutningi samanborið við áhættuna.“ Og hver er hagnaðurinn á liðnum áratugum og öldum af innflutningi búfjár samanborið við þá áhættu og þá sjúkdóma, sem borizt hafa með innflutningnum? Ég skammast mín síður en svo fyrir mína afstöðu í þessu máli, og ég hélt satt að segja, að það væri hverjum og einum hér á Alþingi skylt að gera grein fyrir sinni afstöðu, og ég hef gert það og vænti þess, að hv. þm. líti öfgalaust á þetta mál og miði sína afstöðu við þá reynslu, sem við höfum af innflutningi búfjár, og þá möguleika, sem þeir telja að við kunnum að hafa til að hagnast á innflutningi á búfé í framtíðinni eða sæðisinnflutningi. En það er vert að geta þess í sambandi við sæðisinnflutninginn, af því að það hefur verið undirstrikað, að hér væri eingöngu átt við það að flytja inn búfjársæði, að ég skal játa það, eins og ég hygg að flestir muni hafa gert, að það er áhættuminna en flytja inn búfé. En það er enginn maður og enginn vísindamaður, sem hefur haldið því á lofti, að það væri áhættulaust, þáð er síður en svo, því að margvíslegir sjúkdómar hafa borizt milli landa með sæðisflutningum. Og þótt við áætlum á þann hátt að tryggja okkur gegn sjúkdómshættu, þá getum við aldrei verið öruggir í þeim efnum.

Ég vil taka það fram að gefnu tilefni, að það er síður en svo, að ég hafi á nokkurn hátt látið hnjóðsyrði falla í garð þeirra manna, sem hafa unnið að nál. og samningu þeirra frv., sem gerð hafa verið, bæði þess, sem hafnað var, og hins, sem hér er til umr., — það er síður en svo. Ég met þá menn mjög mikils, þeir eru mikilhæfir. Ég met Ólaf Stefánsson mjög mikils. Hann er þekktur að því í sínu starfi að vera öruggur og flana ekki að neinu, og sama hygg ég að muni vera með Pétur Gunnarsson, og afstaða yfirdýralæknis, Páls A. Pálssonar, sem ég hef hér oft vitnað í, ég neita því ekki, að mér finnst hún vera sú afstaða og koma það skýrt fram, að Alþingi beri að taka fullt tillit til hennar.