02.04.1962
Efri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2193 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

199. mál, innflutningur búfjár

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég hlustaði á ræðu hæstv. landbrh., þegar hann fylgdi þessu frv. úr garði fyrir nokkrum dögum. Mig undraði, að hann skyldi ekkert minnast á hættur í sambandi við tilslökun þá, sem í frv. felst og er nýmæli. Hann minntist ekkert eða lítið á hættur í sambandi við afnám á því banni, sem gilt hefur til þessa. Hann rakti ekkert sögu málsins, hann rakti ekkert þá raunasögu, sem tekur yfir 200 ár og snertir þetta mál svo mjög. Þetta undraði mig. Ekkert var þó eðlilegra en söguleg upprifjun í sambandi við málið, og þess vegna var það ekki eðlilegt, að því atriði væri sleppt úr ræðu hæstv. ráðh. Ég vil segja frá þessu vegna þess, að hæstv. ráðh. sagði í fyrri ræðu sinni í kvöld, að hann undraði, að nýmælum þessa frv. skyldi vera mótmælt hér í d. En ég held, að hér sé einmitt samband á milli. Mótmælin eru fram komin vegna undangenginnar reynslu, sárrar og biturrar reynslu einmitt þess atriðis í þessu máli, sem hæstv. ráðh. hefur alveg sneitt hjá að tala um.

Hæstv. ráðh. hélt því fram í ræðu áðan, að hér væri alls ekki um að ræða innflutning búfjár. Hann vildi telja augsýnilega innflutning búfjársæðis allt annan hlut. Ég tók það fram í minni ræðu fyrr í kvöld, að hér væri ekki um neinn eðlismun að ræða, í hæsta lagi væri um stigmun að ræða. Innflutningur lifandi búfjár og innflutningur búfjársæðis er í raun og veru sami hluturinn. Hvað segja sérfræðingar um þetta? Hvorki hæstv. ráðh. né ég erum neinir sérfræðingar á þessu sviði. Ég vitnaði áðan í einn sérfræðing, dr. Björn Sigurðsson. Hvað segir hann um þetta efni? Hann segir á einum stað:

„Áhættuminnsta leiðin til innflutnings búfjár til landsins er væntanlega að flytja sæði til sóttvarnastöðvar.“

Í þessum orðum sérfræðingsins felst það, að hann telur eina leiðina til innflutnings búfjár vera innflutning á sæði. Þetta sýnir ljóslega hans skoðun, að hann telur innflutning búfjársæðis jafngilda innflutningi búfjár á fæti í eðli sínu. Þessi orð dr. Björns heitins Sigurðssonar taka af öll tvímæli um það, að þótt um sé að ræða í frv. innflutning á holdanautasæði, þá er það í raun og veru sami hluturinn og innflutningur búfjár, á því er enginn eðlismunur. Þess vegna er hægt að heimfæra nálega allt upp á þetta atriði, innflutning sæðis, öll atriði, sem hægt er að heimfæra upp á innflutning búfjár, og þar með er talin hættan í sambandi við þennan innflutning.

Við megum ekki gleyma því, að innflutningi á búfjársæði fylgir nákvæmlega sama hættan og á innflutningi lifandi búfjár. Þetta er eitt meginatriði málsins. Páll Pálsson yfirdýralæknir hefur sagt á einum stað, með leyfi hæstv. forseta: „Við ýmsa veirusjúkdóma og raunar aðra smitsjúkdóma einnig getur smit fundizt í sæði sjúklingsins á vissu stigi sjúkdómsins, og djúpfrysting sæðis er bezta leiðin til að geyma slíkt smit.“

Þetta eru orð, sem vert er að festa sér í minni, þegar ákvörðun er tekin um innflutning af því tagi, sem ráðgerður er í frv.

Hæstv. ráðherra virtist vilja leggja mjög mikið upp úr þeim varúðarráðstöfunum, sem gert er ráð fyrir í frv. Ég benti á það í minni ræðu í kvöld, að slíkt traust á varúðarráðstöfunum hefði áður heyrzt hér á Alþingi. Það var á árunum kringum 1930, þegar slakað var þá á klónni í þessu efni, með þeim afleiðingum, sem allir þekkja, innflutningi karakúlfjárins og sjúkdómum, sem í kjölfar þess innflutnings komu.

Ráðstafanirnar eru að sjálfsögðu góðar, og það er nauðsynlegt að gera ráðstafanir. En ráðstafanir eru aldrei fullkomið öryggi. í fyrsta lagi geta ráðstafanir verið, þótt vandað sé til þeirra, ófullkomnar og ekki náð tilgangi sínum, þegar á reynir. í öðru lagi er það algengara og

alvarlegra um leið, að það er auðvelt að sniðganga varúðarráðstafanir og það er auðvelt að vanrækja framkvæmd þeirra. Þetta átti sér stað fyrir 30 árum, þegar karakúlféð var flutt inn, og þetta hefur átt sér stað oft áður með hinum geigvænlegustu afleiðingum. Þess vegna er það, að við getum ekki treyst á varúðarráðstafanir fullkomlega. Hæstv. ráðherra spurði, hvort það væru dæmi til þess, að flutningur sæðis á milli landa hefði haft alvarlegar afleiðingar. Ég geri ráð fyrir, að dæmi finnist. Ég nefni ekki nein dæmi um það hér, en vil vísa hæstv. ráðherra um svar við þeirri spurningu hjá manni, sem er mér miklu reyndari og lærðari í þessum málum, til yfirdýralæknisins, en hann hefur sagt á opinberum vettvangi, yfirdýralæknirinn, á þessa leið: „Af reynslu okkar og annarra þjóða er ljóst og almennt viðurkennt, að ekki er unnt að girða fyrir sýkingarhættu af völdum innflutts búfjár, eða búfjársæðis, með fullu öryggi. “Hér liggur að nokkru svar við spurningu hæstv. ráðherra. Þetta sýnir reynsla okkar og annarra þjóða.

Ég tók það fram í ræðu minni fyrr í kvöld, að sýkingarhætta við flutning búfjár milli landa væri mikil, og allar þjóðir hafa orðið fyrir biturri reynslu af þessu. Á síðari árum hefur verið flutt búfé frá Bretlandi til fjölmargra landa. til Noregs, til Ástralíu, til Nýja-Sjálands, til Kanada og fleiri landa, og öll þessi lönd, sem ég nú nefndi, hafa orðið á síðari árum fyrir þungum búsifjum af völdum þessa innflutnings. Ég hef rætt þetta mál hér í kvöld vegna þess, að ég, eins og ég hef áður tekið fram, vil vara við flasfengi í þessum málum.

Ég er sannfærður um, að ekkert tilfinnanlegt tjón hlýzt af því að bíða ögn við með samþykkt þessa frv., láta það daga uppi hér á þingi nú og athuga málið betur. Af þessu getur ekkert tilfinnanlegt tjón hlotizt, hvorki bændum landsins né þjóðinni í heild. En flasfengi hins vegar í þessu efni getur leitt til óbætanlegs tjóns fyrir bændur landsins og fyrir þjóðina í heild. Mitt val er því auðvelt með þessa sannfæringu. Ég er andvígur því, að Þetta frv. verði samþykkt á þessu þingi.

Ég hef ekki gert að umtalsefni Bessastaði á Álftanesi sem einangrunarstöð þessa innflutta búfjár, en ég vil aðeins láta í ljós undrun mína á því, að þessi staður skuli vera valinn. Það hefur áður verið bent á það hér við þessa umræðu, að ekki væri sérlega viðfelldið að hafa slíka einangrunarstöð á jarðnæði lýðveldisforsetans. Ég skal sleppa því. Það er annað, sem ég set meira fyrir mig í þessu efni. Hvað er það, sem ráðið hefur þessu staðarvali? Það er mér ekki ljóst. Hér er um nes að ræða, það kann að ráða nokkru um, en er þetta nes sérstaklega heppilegt sem staður fyrir einangrunarstöð búfjár, sem grunað er um að vera sýkt? Ég held ekki. Ég held, að þessi staður sé ekki sérlega heppilegur. En hvað hefur þá ráðið staðarvalinu? Ef ég man rétt, gat hæstv. ráðherra þess í sinni frumræðu hér fyrir nokkrum dögum, að svo stæði á á Bessastöðum, að þar væri vel hýst fyrir búfé, þar væru hús fyrir nautpening, tilbúin, góð. Auk þess held ég, að hæstv. ráðherra hafi haft orð á því, að það mundi ekki andstætt vilja ráðamanna að leggja niður búskap á Bessastöðum. Er það þetta sem er ákvarðandi um staðarvalið, Bessastaði? Sé það þetta, þá er það að sjálfsögðu algerlega forkastanlegt að velja staðinn fyrir þessa mikilvægu starfsemi með tilliti til þess, að þarna séu hús auð, sem hægt sé að nota. Önnur rök hef ég ekki heyrt fyrir þessu staðarvali, en mér þætti sannarlega fróðlegt að heyra þau, ef til eru.