02.04.1962
Efri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2196 í B-deild Alþingistíðinda. (1845)

199. mál, innflutningur búfjár

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég held, að ég geti ekki komizt hjá því að segja nokkur orð við hv. 1. þm. Vesturl., áður en ég fer hér úr pontunni, en til að byrja með verð ég að snúa máli mínu til hv. þm: Alfreðs Gíslasonar, sem ræddi málið af hófsemi og nokkrum rökum, eins og hv. þm. sæmir að gera. En þó tel ég, að hv. þm. hefði átt að snara sér það. þegar hann var að tala um, að það væri nauðsynlegt að varast, eins og hann sagði, flasfengi í þessu máli. Það er einmitt það, sem er gert með þessu frv. Það er verið að varast flasfengi, og það er þess vegna, sem eru þrefaldir hemlar í frv. Þessi lög koma ekki til framkvæmda, nema forstöðumaður tilraunastöðvarinnar í meinafræði á Keldum mæli með því, Búnaðarfélagið mæli með því og að yfirdýralæknir sé því samþykkur. Hér er þess vegna ekki um neitt flasfengi að ræða.

Hitt er svo allt annað mál, að hv. 1. þm. Vesturl. gerði engan greinarmun á því, sem hann þagði yfir á búnaðarþingi 1961, og þessu frv. Hann þagði alveg yfir því og taldi ekki ástæðu til að mótmæla því á búnaðarþingi 1961, þegar um það var rætt að taka til alvarlegrar athugunar að flytja inn lifandi búfé, en þessi sami hv. þm. telur ástæðu til að mótmæla því, að þetta frv. verði samþykkt, sem hefur til að bera allar þær öryggisráðstafanir, sem nú eru þekktar.

Hv. þm. var að tala um Bessastaði og lýsti undrun sinni yfir því, að Bessastaðir væru nefndir í þessu sambandi, og á ræðu hv. þingmanns var að skilja, að það hefði komið fram hér í umræðunum í kvöld, að einhver hv. þm. hefði talið, að það væri fullkomlega óviðeigandi að hafa sóttvarnarstöð á forsetasetrinu. Eins og fram kemur í grg., sem fylgir frv., hefur verið rætt um þetta við forseta Íslands, og forseti Íslands hefur sagt: Ég sé engan tilgang með því að reka búskap á Bessastöðum eins og nú er gert. Það er raunar myndarbúskapur, það er vel hirt um búpeninginn, þarna eru kýr vel hirtar í fjósi, hænsn o.fl., en það er enginn sérstakur tilgangur með þessu, vegna þess að þetta er bú eins og gerist víða hjá bændum. En forseti Íslands sagði: Ég sé hins vegar tilgang með því að koma hér upp sóttvarnarstöð, sem leiðir til þess að koma upp nýrri búgrein til hagsbóta fyrir íslenzkan landbúnað. — Og það er þess vegna, sem hann mælti með þessu. Hv. þm. Alfreð Gíslason spyr: Hvers vegna var þessi staður valinn? Þessi staður var einfaldlega valinn vegna þess, að menn, sem hafa sérþekkingu á búskap, nautgriparækt o.fl., sem búskapnum tilheyrir, höfðu gert sér grein fyrir því, að þessi staður var sérstaklega vel til þess fallinn. Ég get upplýst það hér, að ég fór til Bessastaða s.l. haust með Ólafi Stefánssyni, Pétri Gunnarssyni og Páli A. Pálssyni yfirdýralækni, og við kynntum okkur Bessastaðaland. Það voru allir sammála um, að það væri sérstaklega vel til þess fallið, það þyrfti tiltölulega ódýrar girðingar á Þessu landi, þarna voru húsin til og sérstaklega góð skilyrði til þess að hafa sóttvarnarstöð. Hvað mælir þá gegn því að velja þennan stað? Það er reginmisskilningur, ef einhver lætur sér detta í hug, að forsetaembættið setji niður við það, að þarna er starfsemi, sem getur þjónað íslenzkum landbúnaði betur en með því að reka búskap á borð við það, sem gerist almennt meðal bænda, og ég virði þennan skilning forseta Íslands. Ég tel, að hann eigi heiður skilinn fyrir að hafa skilið það, sem hér var á ferðinni. Ég ætla svo ekki að rökræða þetta öllu meira.

Ég veit ekki, hvort ástæða er til að eyða nokkrum orðum að hv. 1. þm. Vesturl. Ég hef sagt það hér áður, að ég á mjög erfitt með að skilja hugsanagang þessa hv. þm., sem ég óska eftir að hafa samvinnu og samstarf við og ég óska eftir að megi eiga það eftir að geta hugsað sjálfstætt og rökrétt og talað eftir Því, sem hann sjálfur vill, en ekki eftir því, sem aðrir segja honum að gera. Hann talaði um það, að rökþrota ráðherra talaði hér áðan. Þetta eru hans orð, þetta er hans dómur. En hver er dómur annarra, sem hlustuðu á mína ræðu? É`g tek miklu meira tillit til þess. Ef dómur annarra, sem hlustuðu á mína ræðu, fer algerlega í bága við það, sem Þessi hv. Þm. fullyrti, hvers vegna ætti mér þá ekki að standa á sama um fullyrðingu þessa þingmanns? Er ekki ástæða til þess að halda, að þessi fullyrðing sé í samræmi við annað, sem Þessi hv. þm. hefur talað í þessu máli, — og fleiri málum reyndar, og ég spyr enn hv. þingmenn og aðra, sem á mál okkar hlusta: Er ástæða til að taka alvarlega þann mann, sem samþykkir það á búnaðarþingi alveg sem sjálfsagðan hlut að leggja 1/2% skatt á bændur til þess að byggja höllina hér í Reykjavík, sem bændur geta aldrei notið neins góðs af, en segir svo sama daginn eða jafnvel á sömu mínútu, að það sé árás á bændur að leggja 1% gjald á búvörur bænda til þess að byggja upp búnaðarsjóðina og þar sem fást á móti hverjum 8 millj., sem bændur leggja fram, 27 millj., og mótmæla því? Ég segi bara, að sá maður, sem gerir þetta, verður ekki tekinn alvarlega, ekki af mér, ekki af hv. þingmönnum, ekki af bændunum, ekki af landsfólkinu öllu, hvar sem það býr í landinu. Þess vegna eru það mín ráð, og ég vænti þess, vegna þess að ég vil þessum manni vel, að hann bæti ráð sitt og hugleiði, að þessi framkoma er ósæmandi, og haldi hann áfram í þessum dúr, þá verður hann lítils virði hér á hv. Alþingi.

Hv. þingmaður las hér upp kafla úr ræðu, sem ég hafði flutt 1957. Jú, ég skrifaði hér eina setningu. Ég hafði sagt, að æskan hefði ekki farið úr sveitum landsins vegna þess, að hún vildi gera það, heldur vegna þess, að hún fengi ekki lán til þess að stofna bú í sveit og búa um sig þar. Þessi orð vildi ég endurtaka hér í dag, eða réttara sagt í nótt. Þessi orð vil ég endurtaka, og það er einmitt vegna þess, að æska landsins getur ekki í dag stofnað bú í sveit, vegna Þess, að hún fær ekki land, að ég hef flutt frv. hér í hv. Alþingi um Það að endurreisa búnaðarsjóðina, leggja undirstöðu að því, að æskan, sem vill vera í sveit, geti fengið lán. Og nú vit ég spyrja: Hafa ekki hv. Þingmenn lesið frv. ríkisstj. um stofnlánadeild landbúnaðarins? Hafa ekki hv. þingmenn haft það í huga, að þessir sjóðir landbúnaðarins eru gjaldþrota og alls vanmegnugir að lána, ekki til stofnlána, heldur til bygginga og hinna venjulegu framkvæmda? Hafa ekki hv. þingmenn lesið frv. og séð það, að eftir fimm ár hefur stofnlánadeildin 100 millj. kr. í eigin fé til útlána árlega? Og hafa menn ekki enn fremur lesið og séð, að eftir 10 ár hefur sama deild 150 millj. kr. árlega af eigin fé til útlána árlega? Þegar þetta er haft í huga, hljóta menn að sjá, að það verður mögulegt að lána æskunni, sem vill vera í sveit, lán í auknum mæli frá því, sem verið hefur. Það verður mögulegt að lána til bústofnskaupa, til þess að hefja búskap í sveit, sem var ekki áður hægt. Og það, er mér undrunarefni, að hv. 1. þm. Vesturl., sem studdi vinstri stjórnina dyggilega, vinstri stjórnina, sem ekkert gerði til að auka möguleika til útlána til uppbyggingar í sveitum landsins, — að hann hefur ekki komið auga á þá miklu möguleika, sem felast í þessu frv. Það er raunalegt, þegar jafnvel góðir drengir, sem þessi hv. þm. er að eðlisfari, verða svo blindaðir pólitískt, að þeir gera allt annað en þeir sjálfir vilja og þeirra eðli vill að þeir geri.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Ég tel sjálfsagt, að þetta frv., sem heitir: Um innflutning búfjár — vegna þess að I. kafli þess er í samræmi við gildandi lög, en er í rauninni um innflutning á sæði í sóttvarnarstöð, það verði lögfest. En það kemur því aðeins til framkvæmda, að forstöðumaður tilraunastöðvarinnar á Keldum mæli með því, að Búnaðarfélagið mæli með því, að yfirdýralæknir samþykki það. En ef þetta kemst til framkvæmda, þá er það ný búgrein, sem færir landbúnaðinum nýjar og auknar tekjur, og það er það, sem við eigum að stefna að, því að landbúnaðurinn á Íslandi á mikla framtíð fyrir sér, og það er þjóðinni allri til góðs, að þessi atvinnuvegur verði efldur.