05.04.1962
Efri deild: 79. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2199 í B-deild Alþingistíðinda. (1848)

199. mál, innflutningur búfjár

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki ræða þetta mál frekar almennt, nema sérstakt tilefni gefist til. En það hefur verið yfirlýst af þeim meiri hluta, sem stendur að þessu máli, að þeir vilji sem mest og bezt tryggja öryggi þess innflutnings á búfé eða búfjársæði, sem kann að hefjast samkvæmt þessu frv., ef að lögum verður. Þess vegna veit ég, að þessir aðilar muni samþykkja þá tillögu, sem ég hef leyft mér að flytja og er á þskj. 610 og á að verða til þess að auðvelda eftirlit með ólöglegum innflutningi búfjár, þar sem sektarákvæði frv. samkv. 21. gr. eiga einnig að ná til flugstjóra og skipstjóra ásamt þeim eigendum, sem kunna að vera að þeim dýrum, sem flutt eru inn óleyfilega. Efni brtt. er einungis það, að sektarákvæði nái einnig til þessara aðila, og ætla ég, að það megi verða til þess að auðvelda eftirlit með innflutningi búfjár, þar sem þessir aðilar eru undir sömu sökina seldir, ef þeir hafa dýr innanborðs, sem er ekki leyfilegt að flytja til landsins. En það mun hafa komið nokkrum sinnum fyrir, að einstaka farþegi hefur farið með ketti og hunda milli landa, án þess að slíkt væri leyfilegt, og vitanlega getur stafað af þessum dýrum hætta engu síður en öðrum, og munu þessi ákvæði, ef að lögum verða, koma í veg fyrir, að slíkt komi fyrir í jafnríkum mæli og átt hefur sér stað, þegar þessir aðilar verða að taka á sig sektir samkvæmt lögunum. Það gefur hverjum og einum að skilja, að þeir verða að vera ábyrgir í þessum efnum alveg eins og aðrir aðilar.

Ég vænti þess, að hv. þingdeild samþykki þessa brtt., þar sem það er yfirlýstur vilji deildarinnar að vilja sem mest og bezt tryggja varnir gegn því, að nokkur hætta stafi af innflutningi búfjár.