05.04.1962
Efri deild: 79. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2202 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

199. mál, innflutningur búfjár

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða efnislega málið, sem hér liggur fyrir. Það hefur rækilega verið gert, og sé ég ekki ástæðu til að taka sérstaklega þátt í þeim umr. Orsökin til þess, að ég stend hér upp, er brtt., sem hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB) gerði hér grein fyrir áðan og er um viðbótarrefsiákvæði aftan við 21. gr. frv. Ég skal taka Það fram, að ég fyrir mitt leyti get ákaflega vel fellt mig við, að það ákvæði sé sett, sem Þar er talað um. En hins vegar er orðalag ákvæðis þess á þann veg, að mér finnst ekki auðið að samþykkja það, og koma þar í rauninni til greina kannske fyrst og fremst lögfræðilegar ástæður. Ákvæðið er þannig orðað í brtt., með leyfi hæstv. forseta: „Ef lifandi dýr eru flutt til landsins án heimildar, sbr. 1. gr., varðar það sektum, eins og að ofan greinir, fyrir skipstjóra þann eða flugstjóra, sem dýrin flutti, og jafnháum sektum fyrir eiganda dýranna.“ Það er óeðlilegt að setja ákvæði sem þetta, og í rauninni ekki stætt á því að slá því föstu, að menn skuli vera dæmdir á þennan hátt fyrir mismunandi aðild að verknaði í jafnháar refsingar. Ég held, að það sé ekki með nokkru móti hægt að setja slíkt lagaákvæði. Hins vegar geri ég ekki ráð fyrir, að það sé í rauninni kjarni hugsunarinnar hjá hv. þm. að halda fast í það atriði, heldur það, að meginefni málsins sé, að lögð verði viðurlög við því að flytja dýr heimildarlaust til landsins, og að hugsun hv. þm. megi ná alveg eins, þótt þetta væri orðað á annan veg og þá lögð áherzla á það, sem er auðvitað sjálfsagt, að meginábyrgðin sé lögð á eiganda dýranna, því að það er vel hugsanlegt, að dýr séu flutt með flugvél eða skipi án þess, að skipstjórinn eða flugstjóri hafi nokkra ástæðu til að halda, að um slíkan flutning sé að ræða, og algerlega óeðlilegt að leggja þá fyrstu eða í rauninni meginrefsinguna á þann aðila, en ekki eiganda dýrsins.

Ég hefði viljað leggja til, að þessi brtt. væri orðuð nokkuð á annan veg, eða Þannig: Ef lifandi dýr eru flutt til landsins án heimildar, sbr. 1. gr., varðar það sektum, eins og að ofan greinir, fyrir eiganda dýranna svo og fyrir skipstjóra Þann eða flugstjóra, sem dýrið flutti, ef ætla má, að dýrið hafi verið flutt með hans vitund.“ Ekki er þá endilega slegið föstu, að þeir skuli dæmdir í jafnháar refsingar. Ég hygg, að með þessu náist alveg sú hugsun, sem felst í tillögu hv. þm., en mér sýnist illa vera hægt að samþykkja till. með því orðalagi, sem á henni er, nema samkomulag fáist um að breyta henni eitthvað á þessa leið.

Ég hef kastað þessu upp í skyndi, herra forseti, og ég veit ekki, hvort hægt er að átta sig á því í flýti, en ég geri ráð fyrir því, að það sé ætlunin að afgreiða frv. héðan úr hv. d., og mér kannske leyfist því að leggja Þetta svona fram, ef forseti áttar sig á því. En æskilegt væri náttúrlega, að það gæti orðið samkomulag um það við hv. flm., hvort hann gæti ekki fallizt á þá orðalagsbreytingu á sinni brtt.