14.04.1962
Neðri deild: 92. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2206 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

199. mál, innflutningur búfjár

Benedikt Gröndal:

Hæstv. forseti. Landbn. hefur haldið tvo fundi um Þetta mál. Á öðrum fundinum mætti Ólafur Stefánsson nautgriparæktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands og gaf n. ýmsar ýtarlegar upplýsingar og ræddi við hana. Samkomulag varð ekki í nefndinni um afgreiðslu málsins, og skiptist nefndin í þrjá minni hluta. 1. minni hl., en í honum eru hv. 3. þm. Austf. og ég, mælir með því, að frv. verði samþykkt óbreytt, 2. minni hl. tekur ekki afstöðu til málsins, en 3. minni hl. vill gera á því verulegar breytingar.

Það hefur verið fært fram í sambandi við afgreiðslu þessa máls á þskj., að hér hafi á mjög skömmum tíma verið fjallað um og afgreitt stórt og umfangsmikið mál, sem þyrfti mikillar athugunar við. Því er til að svara í fyrsta lagi, að mikil athugun sérfróðra manna hefur farið fram, áður en frv. er samið, og liggja niðurstöður þeirra athugana fyrir ásamt álitsgerðum, bæði þeirra, sem frv. hafa samið, og annarra manna, sem hafa sitthvað við það að athuga. Enn fremur er rétt að benda á, að þetta mál er þess eðlis, að hver einasti maður, sem nærri kemur landbúnaði, hlýtur að hafa um það hugsað og gert sér grein fyrir höfuðatriðum þess einhvern tíma á síðustu 25 árum, og er því hægt að segja, að þótt sjálf afgreiðslan í nefndinni taki stuttan tíma, þá liggi meira á bak við. Ég mun ekki ræða málið efnislega, en vil f.h. frsm. 1. minni hl., Jónasar Péturssonar, sem er veikur, skýra frá því, að 1. minni hl. mælir með því, að frv. verði samþykkt óbreytt.