14.04.1962
Neðri deild: 93. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

199. mál, innflutningur búfjár

Frsm. 8. minni hl. (Jón Pálmason):

Hæstv. forseti. Þegar þetta mál var tekið hér til 2. umr., var nokkuð liðið yfir venjulegan fundartíma og frsm. 1. og 2. minni hl. landbn. báðir fjarverandi. Ég hefði helzt kosið, að þeir hefðu báðir talað á undan mér, en úr því að það er ekki, verður að hafa það.

Eins og upplýst hefur verið af þeim nm., sem talaði fyrir 1. minni hl. landbn. og talaði fyrir nál., hefur hv. n. klofnað í 3 hluta um afgreiðslu þessa máls. 1. minni hl. n. leggur til, að þetta frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. 2. minni hl. vill fresta málinu og ekki taka afstöðu til þess eins og nú standa sakir. En við, sem skipum 3. minni hl. hv. nefndar, ég og hv. 2. þm. Sunnl., leggjum til að gerbreyta þessu frv. í það horf að gera það að algeru banni gegn innflutningi á erlendum dýrum, og þeir hv. alþm., sem hafa litið yfir okkar brtt. á þskj. 767 og hafa líka athugað okkar nál., geta ekki verið í vafa um, á hverju við byggjum okkar skoðun í þessu vandamáli.

Þetta mál um innflutning búfjár hefur um fjölda ára verið mikið deilumál í okkar landi, og þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið á þessu sviði, hafa orðið til ægilegra óhappa, fyrst og fremst í íslenzkum landbúnaði og auk þess fyrir landið í heild sinni. Nú er að taka það fram, sem ekki vita kannske allir, sem hér eru, að I. kafli þessa frv., sem er versti kafli þess, er í gömlum lögum frá 1948 og lögum, sem aldrei hefur verið hreyft við síðan og ekki, held ég, neinum dottið í hug að framkvæma. En ég segi fyrir mig, að mér þykir gott, úr því að þessu máli er hér hreyft á Alþingi, að fá tækifæri til að leggja til, að þessi ákvæði um heimildir til innflutnings á erlendum dýrum séu úr gildi felld, enda fjalla okkar brtt. fyrst og fremst um það, að þessi kafli og frv. í heild sinni verði gert að allsherjarbanni gegn innflutningi erlendra dýra, því að af þeim innflutningi hefur á undanförnum árum og öldum aldrei leitt neitt nema illt eitt, — aldrei leitt annað.

Ég skal taka það fram í sambandi við þetta, að það, sem hér er í lögum og þetta frv. fjallar um, er það, að landbrh. sé heimilt að leyfa innflutning á hvers konar dýrum, ef stjórn Búnaðarfélags Íslands er því meðmælt, og að sjálfsögðu verður það að leita álits yfirdýralæknis í því efni. Ég skal taka fram af Þessu tilefni, að það, að ég vil afnema þetta, er ekki af neinu vantrausti á núv. hæstv. landbrh. En þótt ég hafi á honum gott traust til margvislegra hluta, veit ég ekkert um það og enginn okkar, hverjir verða næstu landbrh., og úr því að tækifæri gefst til, viljum við, sem erum samtaka í þessu máli, fella það algerlega úr lögum, að það sé nokkur heimild til þess fyrir nokkurn einn mann — og jafnvel þótt með samþykki stjórnar Búnaðarfélags Íslands sé — að flytja inn erlend dýr. Saga Búnaðarfélags Íslands og saga landbúnaðarráðherra og saga ráðunauta á þessu sviði er á undanförnum árum engan veginn svo góð, að það sé vert að hafa þetta í lögum, úr því að það kemur á annað borð til umr. Enda þótt nú séu aðrir menn í þessum embættum en voru þá, þegar mestu óhöppin urðu, teljum við hv. 2. þm. Sunnl. miklu réttara að fella þessi ákvæði alveg úr lögum.

Þá er vert að minnast nokkuð á II. kafla þessa frv., sem í sjálfu sér er nýtt atriði og að sumu leyti allt annars eðlis en þær heimildir, sem í I. kaflanum eru. En í þessum II. kafla frv. eru ráðagerðir um það að flytja inn sæði úr erlendum holdanautum og rækta það til framhaldstímgunar hér í okkar landi. Fyrir því er mælt af þeim, sem eru fylgjandi þessu máli, að af þessu geti orðið mikill hagnaður á komandi tíð. En fyrir því er afar erfitt að færa nokkrar verulegar sannanir, og þar að auki er engan veginn tryggt, að það geti ekki fylgt sýkingarhætta einnig þessari aðferð. A.m.k. er það svo, að sá maður í landinu, sem fyrst og fremst ætti að taka tillit til á þessu sviði, yfirdýralæknir þjóðarinnar, mælir gegn því, að inn á þessa braut sé farið.

Um hagnaðarvonina er það að segja, að hún er einnig ákaflega vafasöm, því að meðal margs annars má að því víkja, sem yfirdýralæknir getur um og eðlilegt er að taka fram, að stærðarmunur á þessum erlendu holdanautum, sem hér er ætlazt til að fara að flytja inn á sérstakan hátt, — stærðarmunur á þeim og íslenzkum kúm er svo mikill, að það er ákaflega vafasamt, hvort íslenzkar kýr eru færar um að ganga með og fæða kálfa, sem þannig eru til komnir eins og hér er gert ráð fyrir.

Ef það er vilji fyrir því og meiri hl. Alþingis vill fara inn á þá braut að kosta miklu fé til þess að bæta okkar kjötframleiðslu, þá verð ég að segja það, að mér fyndist, að það væri miklu nær að fara inn á aðrar leiðir, sem hafa ekki neina hættu í för með sér á því sviði. Og það mætti gera á þann hátt að stofna stórbú, við skulum segja ríkisbú til sauðakjötsframleiðslu eða jafnvel uxakjötsframleiðslu. Ég get staðhæft það, að hér fyrr á árum og það fyrir löngu, þá voru nokkur brögð að því, að það voru aldir upp uxar og gerðir gamlir og af þeim var talið ákaflega gott og verðmikið kjöt. Og við, sem erum komnir nokkuð á efri ár, vitum það, að á meðan sauðaeign var hér á Íslandi, var það almennt álit, að ekkert kjöt, sem hér væri framleitt, væri eins gott og verðmikið og sauðakjötið og engar skepnur, sem út voru fluttar á þeirri tíð, voru í jafnmiklu verði og okkar sauðir voru á tímabili.

Vegna alls þessa teljum við hv. 2. þm. Sunnl., að það sé ekki vert að vera með neina nýjungagirni á þessu sviði og leggja út í mikinn kostnað til þess að fara inn á jafnhæpna leið og þarna er sýnilega um að ræða. Þar að auki verð ég að segja það, að mér finnst mjög óviðfelldið, svo að ekki sé meira sagt, ef á að fara að stofna sóttvarnarstöð, eins og hér er gert ráð fyrir, að setja hana niður á okkar forsetasetri. Það væri þá nær að hafa hana í Gunnarsholti, þar sem nú er nokkur kynblendingarækt af nautum.

Annars sé ég ekki ástæðu til, ef ekki verður gefið sérstakt tilefni, að fjölyrða meira um þetta mál. Það er harðvítugt deilumál í landinu, og það er vafalaust engin tilviljun, að við þessir tveir þm., sem leggjum til að hafa algert bann á innflutningi dýra, erum úr bændastéttinni. Það er vegna þess, að það er bændastéttin, sem hefur orðið harðast úti fyrir allar þær aðgerðir, sem hafa reynzt til tjóns á undanförnum árum á þessu sviði. En það er að sjálfsögðu ljóst, og hæstv. forseti getur tekið það til athugunar, þegar kemur til atkvgr., að ef okkar 1. brtt. verður felld og 1. gr. þessa frv. samþ. óbreytt, þá koma aðrar okkar brtt. ekki til atkv., því að þær eru þá fallnar af sjálfu sér, aðalatriðið er þá úr sögunni. En ég sé enga ástæðu til að fjölyrða meira um málið. Það liggur ljóst fyrir, hvað fyrir okkur vakir, mér og hv. 2. þm. Sunnl., og það verður þá að ráðast, hvað hv. þdm. gera í þessu stóra deilumáli.