10.04.1962
Neðri deild: 88. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2211 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

220. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Hæstv. forseti. Um alllangt árabil hafa ákvæði verið í bráðabirgðaákvæði í lögunum um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, að ágóða af viðtækjaverzlun ríkisins skuli verja til að greiða byggingarskuldir þjóðleikhússins og til sinfóníuhljómsveitarinnar.

Frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 612, er um það að framlengja þetta ákvæði um tveggja ára skeið. Menntmn. hefur komið saman, og eru nm. allir sammála um að mæla með því, að frv. með þessari framlengingu verði samþ. Hins vegar er fram tekið, að nm. hafa óbundnar hendur til að flytja eða fylgja brtt.

Þetta er það, sem ég hef fram að færa frá menntmn. En við þetta mál er ein brtt., sem ég hef flutt, og vil ég því leyfa mér að segja um hana nokkur orð, en ítreka það, að því, sem frá nefndinni kemur, er lokið, og það, sem ég nú segi, er frá eigin brjósti.

Þegar þessi ákvæði voru samþykkt fyrir nokkrum árum, — ég hygg, að Það hafi verið 1957, — þá flutti ég þá brtt., að sá hagnaður, sem viðtækjaverzlun ríkisins kynni að fá af innflutningi sjónvarpstækja, skyldi renna til ríkisútvarpsins til undirbúnings og rekstrar sjónvarps. Þessi till. fékk ekki undirtektir þá og var felld í þessari deild með allmiklum atkvæðamun. Nú hefur margt gerzt síðan, og m.a. hafa orðið miklar umr. um sjónvarp á Alþ. Ég hygg, að það sé rétt skilið hjá mér, að í þeim umr. hafi langflestir verið þeirrar skoðunar og um það sammála, að sjónvarp mundi koma hér á landi og því fyrr sem við gætum byrjað á því, því betra. Ég hygg, að um þetta atriði gildi samkomulag, sem ekki var hægt að segja að gilti um önnur atriði í sjónvarpsmálinu eða þeim sjónvarpstill., sem hér hafa verið ræddar.

Ég hafði gert mér vonir um, að það yrði á þessu þingi lagt fram frv., sem legði grundvöllinn að íslenzku sjónvarpi, þannig að hægt væri að byrja að undirbúa það, og hefði þá verið hægt að byrja sjónvarpssendingar eftir 11/2–2 ár og við gætum síðan fetað okkur áfram innan ramma þess, sem við höfum ráð á og aðstöðu til. En svo virðist sem slíkt frv. muni ekki koma, a.m.k. ekki frá hæstv. ríkisstj., á þessu þingi. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja nú aftur brtt. frá 1957, sem er Þess efnis, að sá hagnaður, sem viðtækjaverzlun ríkisins kann að hafa af innflutningi sjónvarpstækja, renni til ríkisútvarpsins til undirbúnings og rekstrar sjónvarps. Hér er ekki um stórar upphæðir að ræða og getur ekki orðið fyrr en íslenzkt sjónvarp hefst. Hins vegar mundi nú vera nokkur sjóður til í þessum tilgangi, ef till. hefði verið samþ. 1957, og með samþykkt þessarar till. finnst mér, að hv. alþm. gætu sýnt vilja sinn til Þess, að með tímanum fáum við íslenzkt sjónvarp, og lagt hér á viðeigandi stað örlítið af mörkum, til þess að svo geti orðið.

Ég vil taka það fram, að þó að þessi till. verði samþ., skerðir hún í engu frv. sjálft, vegna þess að því má held ég alveg treysta, að innflutningur á útvarpstækjum minnkar ekki, þó að sjónvarp byrji hér, vegna þess að útvarpstæknin hefur breytzt svo mikið. Útvarpstækin eru nú minni og flytjanleg og mörg þeirra ódýrari, þannig að sala á þeim er orðin miklu meiri en eitt tæki í stofu hvers heimilis og lýtur allt öðrum lögmálum. Þess vegna hygg ég, að það sé óhætt að fullyrða og byggja þar á reynslu í öðrum löndum, að innflutningur á útvarpstækjum muni ekki minnka og að þær stofnanir, þjóðleikhúsið og sínfóníuhjómsveitin, sem njóta ágóða af innflutningi þeirra, muni ekki missa neins, þó að sjónvarpið fái sitt, eingöngu af innflutningi þeirra sjónvarpstækja, sem koma til landsins á einn eða annan hátt.