04.04.1962
Neðri deild: 83. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2214 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

217. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Hæstv. forseti. Það eru hér aðeins örfá orð í fjarveru fjmrh.

Eins og hv. þm. sjá, fer þetta frv. fram á það, að heimilt verði að gefa eftir toll á allt að 150 bifreiðum vegna fatlaðra og lamaðra á árinu 1962. í lögum nr. 90 1954, um tollskrá o.fl., er heimilað að veita undanþágu frá aðflutningsgjöldum á 50 bifreiðum á ári til fatlaðra og lamaðra manna. í bráðabirgðaákvæði l. nr. 30 1960, um skipan innflutningsmála o.fl., er mælt fyrir um, að á árunum 1960–1961 skuli hámarkstala þessara bifreiða vera 150. En á s.l. sumri ákvað ríkisstj. með fyrirvara, að ef Alþ. samþykkti ekki heimild til fjölgunar, þá skyldu hlutaðeigendur greiða aðflutningsgjöld að fullu af þeim bifreiðum, sem bætt var við, en það voru 114 bifreiðar til viðbótar. Þess vegna er farið fram á með þessu frv., að hámarkstala árið 1961 megi verða 264 og hámarkstala 1962 megi verða 150. Það er mikil eftirspurn eftir þessum bifreiðum — mikið af fötluðu og lömuðu fólki og þessi rýmkun, sem hefur verið viðhöfð nú síðustu tvö árin, hefur bætt ákaflega mikið úr brýnni þörf. — Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.