13.02.1962
Efri deild: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2263 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karl Kristjánason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. lauk ræðu sinni með Því að segja, að Þau sérhlunnindi, sem samvinnufélög hafa haft, héldust óbreytt að öðru leyti en því, að sá ágóðahluti, sem þau legðu af viðskiptum við utanfélagsmenn í varasjóði sína, væri ekki skattfrjáls nema í sama hlutfalli og ágóði hjá öðrum félögum með öðru formi. Nú væri ákaflega skemmtilegt að heyra, hvaða sérhlunnindi hæstv. ráðh. telur að samvinnufélögin hafi, eins og nú er. Það örlaði á því í ræðu hans, að hann teldi það einhver sérhlunnindi, að ágóðaúthlutun til félagsmanna væri ekki skattskyld. En sá er háttur samvinnufélaga að skila því til félagsmanna sinna, sem oftekið hefur verið af þeim með áætluðu verði, og er það sama eðlis í raun og veru og þegar gefið er til baka í búð kaupmannsins, borgað hefur verið í stærri seðli en verð vörunnar, sem taka átti, var. Þetta hefur engum dottið í hug nokkurn tíma að væru sérréttindi, að ekki er tekinn skattur af því, sem gefið er til baka í búð.

Hæstv. ráðherra sagði, að í varasjóð legðu félögin ekki annað en tekjuafgang, sem þau hefðu í skiptum við utanfélagsmenn. Þetta er vitanlega ekki rétt. En þau hafa það á valdi sínu nú orðið, hvort þau leggja meira en það í varasjóðina. Nú getur Það verið vitanlega, að félag telji ástæðu til þess að byggja upp varasjóð með meiri tillögum en þessum upphæðum nemur, sem falla til í skiptum við utanfélagsmenn, og þá sér hver maður, að ástæða sú, að þau eru ekki skyldug til að gera það, réttlætir ekki að tekinn sé skattur af því, ef þau gera það. En aðalatriðið í þessu sambandi, sem hæstv. ráðherra hljóp yfir, er þó vitanlega það, Þegar bornir eru saman varasjóðir samvinnufélaga og annarra félaga, að samvinnufélögin eru þau einu félög, sem skipta ekki upp varasjóðum við félagsslit. Varasjóðir þeirra ganga til eignar því héraði, sem félagið hefur starfað í. Með því að safna í varasjóð er því samvinnufélagið að safna fé handa almenningi eftir sinn dag, en ekkert félag með öðru formi gerir það.

Það er þessi eðlismunur á varasjóðum samvinnufélaga og hlutafélaga, sem hæstv. ráðherra virðist ekki hafa tekið eftir og gerir Það að verkum, að ranglátt er að láta samvinnufélögin í þessu efni sitja við sama borð og hlutafélögin. Varasjóðir samvinnufélaganna eru eign framtíðarinnar í því héraði, sem þau starfa, en varasjóðir hlutafélaganna eign þeirra, sem í þeim starfa. Og hætti þeir þar að starfa, fá þeir sinn hlut við félagsslit, en svo er ekki um samvinnumenn, sem í samvinnufélögunum starfa.