13.02.1962
Efri deild: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2266 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tel ekki, að hæstv. ráðherra hafi getað sannað neitt um það, hvort samvinnufélag beri ekki hlutfallslega sínar byrðar að því er snertir framlög til almennings í landinu, með þeim tölum, sem hann las. Og það, sem hann kom siðan inn á, að því er útsvörin snertir, er fjölmenni Reykjavíkur, þar sem Sambandið er eitt meðal meira en þriðjungs landsmanna, Reykjavík er hlutfallslega með miklu stærra hlutfall af gjaldendum en er annars staðar í landinu. Og þau rök, sem hann vildi að fælust í því, að Samband ísl. samvinnufélaga hefði verið útsvarsfrítt einu sinni, voru rök, sem ég hygg að hæstv. ráðherra hefði alls ekki átt að nefna, vegna þess að það er vitað mál, að það var af sérstökum pólitískum tilburðum, tilraun til þess að klekkja á Þessu fyrirtæki, sem ekki var lagt á það eitt ár í Reykjavík. Það var Reykjavík, satt að segja, og álöguvaldinu þar til vansæmdar, en ekki Sambandi ísl. samvinnufélaga.