13.02.1962
Efri deild: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2266 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þar sprakk nú blaðran. Nú er það orðið sem sagt eitt hið mesta hneyksli í þessum málum, að meiri hlutinn í bæjarstjórn og niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur hafi hlíft Sambandi ísl. samvinnufélaga við útsvari og af pólitískum hrekkjabrögðum ekki lagt á Sambandið eitt árið. Trúi nú hver, sem trúa vill. Þessi saga er uppfundin af framsóknarmönnum og Tímanum, og þessi lygasaga hefur nú verið borin út um byggðir landsins í nokkur undanfarin ár. Hvað er það, sem gerðist? Það gerðist þetta ár, sem um er að ræða, að Samband ísl. samvinnufélaga taldi á sínu framtali verulegt tap á sinni starfsemi, og tapið var ekki fólgið í því, að Það hefði tapað á viðskiptunum við bændurna, heldur á utanfélagsmannaviðskiptum, m.a. á verzlun með bíla og ísskápa, og þess háttar hefði orðið svo mikið tap, að heildarútkoman varð nú þessi. Samkv. gildandi lögum og hæstaréttardómi var eingöngu heimilt að leggja á eignir og tekjur Sambandsins. Það var ekki heimilt að leggja á það veltuútsvar, eins og hæstaréttardómur lá fyrir um. Þess vegna var þessi úrskurður niðurjöfnunarnefndar auðvitað sá eini, sem um var að ræða, og annað gat ekki staðizt. Hitt er svo náttúrlega alveg furðulegt, að maður eins og þessi hv. Þingmaður, sem er vandur að virðingu sinni og á að því leyti ekki heima í þessum flokki, skuli leyfa sér að koma á Alþ. með þessa slúður- og lygasögu, og ég verð að segja, að ég hefði sízt búizt við því af honum. (KK: Það voru reglur um efni og ástæður)