06.03.1962
Efri deild: 57. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2281 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta frv. hér í hv. deild gerði ég nokkra grein fyrir afstöðu minni til meginatriða Þess, eins og mér komu þau fyrir sjónir að lítið athuguðu máli. Ég sýndi þá fram á það með óvefengjanlegum tölum úr fjárlögum og ríkisreikningum, hvernig núv. hæstv. ríkisstj. hefði unnið að því á valdatíma sínum að færa nær því tvöfaldar skattabyrðar yfir á almenna neyzlu, yfir á bök almennings, með því að nær þrefalda söluskattana og stórhækka tolla, á sama tíma sem hlutdeild hinna beinu skatta, sem miðaðir eru við tekjur og efnahag, hefði verið rýrð þannig, að hún væri aðeins um þriðjungur á móti því, sem áður var. Ég taldi, að með flutningi þessa frv. væri enn haldið áfram á sömu braut og þannig enn hert á þeirri þróun, sem flestu öðru fremur hefur verið að færa lífskjör láglaunafólks og alls almennings í landinu niður á við síðustu 2–3 árin, að hér væri enn verið að nauðsynjalausu að hlaða undir gróðafélögin í landinu á kostnað þeirra, sem minna mega sín efnalega, og á sama tíma sem öllum kröfum láglaunastéttanna um aukinn kaupmátt verkalauna væri mætt af ríkisstj. með fullum fjandskap. Þetta álit mitt á Þessu frv. eða meginatriðum þess hefur ekki breytzt í neinu við Þá athugun, sem ég hef tekið þátt í í fjhn., og að mínu viti hefur því ekki heldur verið hnekkt í neinu í þeim umr., sem hér hafa farið fram til þessa. Ég get þess vegna í öllum aðalatriðum vísað til þess, sem ég sagði hér í ræðu minni við 1. umr. málsins.

Enda þótt þau meginatriði, sem skera úr um afstöðu manna til þessa frv., séu ekki ýkjamörg, þá felur frv. samt í sér mikinn fjölda smærri breyt. á skattalöggjöfinni, — breytinga, sem er að sjálfsögðu nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, þótt það skipti ekki höfuðmáll. Um einstakar þessara breyt. hljóta flestir að verða sammála og telja fremur til bóta, en um aðrar er líklegra, að skoðanir kunni að verða skiptar. Þau atriði, sem ég tel að til bóta megi teljast, eru þó að mínu viti hvorki mörg né stórvægileg. En þau eru helzt þessi:

Í fyrsta lagi, að afborganir námsskulda, sem stofnað er til eftir 20 ára aldur, skuli frádráttarhæfar t næstu fimm ár, eftir að námi er lokið. Hér er um tvímælalaust sanngirnismál að ræða gagnvart þeim, sem stofnað hafa til skulda vegna langs skólanáms.

Í öðru lagi er hækkun á skattfrjálsum innstæðum þeirra, sem skulda fasteignaveðslán, úr 120 þús. í 200 þús. Það verður að telja eðlilegt vegna hækkunar á verðlagi,

Í þriðja lagi: Rýmkun á heimildum 53. gr. til skattalækkunar einstaklinga í sérstökum tilvikum er vafalaust til bóta, en eðlilegra hefði verið að festa um þau atriði ákveðin fyrirmæli, sérstaklega um skattalækkun vegna menntunar barna eftir 16 ára aldur. Virðist mér ekki vera neitt því til fyrirstöðu, að lögin ákveði fastar reglur um frádrátt af þessum sökum allt að ákveðinni upphæð, og hef ég flutt brtt. í þá átt.

Það sýnist engin ástæða til þess, að frádráttur vegna barns, eftir að það hefur náð 16 ára aldri, ef það er áfram við nám og tekjur þess sjálfs hrökkva ekki fyrir óhjákvæmilegum útgjöldum, minnki við það aldursmark. Miklu fremur sýnist mér, að ástæða væri til þess að auka frádráttinn við þetta aldurstakmark, ef um áframhaldandi skólagöngu er að ræða á kostnað foreldra og þeir eru þannig að leggja fjármuni sína fram til þeirra hluta, sem þjóðfélaginu eru nauðsynlegri en flest annað. Rétt virðist þó að takmarka þennan frádrátt við 20 ára aldur með hliðsjón af því, að frádráttur vegna námsskulda, sem stofnað er til eftir þann aldur, kemur þá til greina samkv. öðrum ákvæðum frv.

Um aðrar breyt. á þessari heimildargrein varð fjhn. öll sammála, eins og fram hefur komið.

Í fjórða lagi mundi ég telja skýrari ákvæði í einstökum frvgr. til þess gerð að taka af tvímæli, sem talin hafa verið leika á um sum ákvæði, að þau séu til bóta, eins og t.d. um ákvæði 16. gr., 2. mgr., varðandi það, hversu með skuli fara frádrátt vegna barna, þegar foreldrar búa saman ógift og þegar foreldrar búa ekki saman, en annað þeirra hefur barn eða börn þeirra hjá sér. Hins vegar er 3. mgr. þessarar greinar lítt skiljanlegur gamall hortittur, ef lítið er til annarra frumvarpsákvæða, og legg ég til í brtt. mínum, að sú mgr. verði felld niður, en í stað hennar komi ákveðin fyrirmæli um frádrátt vegna barna, sem stunda nám eftir 16 ára aldur, í samræmi við það, sem ég áður nefndi.

Þá er einnig um að ræða skýrari ákvæði til þess að taka af tvímæli, t.d. í 17. gr. varðandi arðgreiðslur samvinnufélaga og í 5. gr. varðandi skiptingu á tekjum sameignarfélaga til félagsmanna í réttu hlutfalli afurðasölu eða afurðavinnslu, og verða þau ákvæði að teljast eðlileg. Um önnur smærri breytingaratriði, sem í frv. felast, — og eru þá ekki með taldar þær till., sem n. hefur flutt sameiginlega og gerð hefur verið grein fyrir, — tel ég, að miklu meiri vafi leiki á um réttmæti Þeirra. Í H-lið 10. gr. er nýmæli þess efnis, að beinar launagreiðslur erlendis frá fyrir starf í þágu þeirra alþjóðastofnana eða ríkjasamtaka, sem íslenzka ríkið er aðili að, skuli vera skattfrjálsar, ef starfsmenn slíkra stofnana njóta skattfrjálsra launa fyrir hliðstæð störf. En starfræki slíkir aðilar stofnanir hérlendis, ákveður ráðh. skattaaðstöðu þeirra.

Það hefur verið upplýst fyrir fjhn., að þetta nýmæli er ekki runnið undan rifjum þeirrar nefndar, sem talið er að hafi samið frv., heldur hæstv. fjmrh., sem talið hefur sérstaka nauðsyn á því að koma þessum ákvæðum í frv., enda þótt skattstjórinn í Reykjavik hafi upplýst, að nú í dag sé tæpast um nein tilvik að ræða eða a.m.k. mjög fá, sem undir þessi ákvæði gætu fallið, þar sem t.d. starfsmenn Sameinuðu þjóðanna, íslendingar, sem vinna í þeirra þágu, eru allir skattfrjálsir samkv. reglum þeirra samtaka, sem við höfum undirgengizt. Hér er því verið að gera ráð fyrir einhverjum óorðnum hlutum, en fyrirsjáanlegum a.m.k. fyrir hæstv. ráðh., og er því full ástæða til þess að spyrja, hvað hér búi undir, og beiðast skýringa. Er það rétt, sem fjhn. heyrði til getið af orðvörum embættismanni, að hér sé fyrst og fremst verið að tryggja skattfrelsi fyrir íslenzka tilvonandi starfsmenn útibús- og áróðursmiðstöðvar, sem NATO hyggst koma hér upp? Ef hér er rétt til getið, Þá er ástæða til að spyrja, hvort sérstök nauðsyn krefji, að íslenzkir starfsmenn þessa hernaðarbandalags, sem vafalaust mun ekki spara laun til sinna starfsmanna, eigi að njóta sérréttinda fram yfir alla aðra íslenzka þegna og vera þannig gerðir að einhvers konar íslenzkum aðli, eins og hv. frsm. meiri hl. orðaði það hér um annað atriði, á kostnað annarra skattgreiðenda.

En hvort hér er að þessu stefnt eða einhverju öðru samhliða, er það mín skoðun, að það séu engin rök fyrir því, að þau laun eigi fremur að vera skattfrjáls, sem greidd eru af erlendum aðilum, heldur en þau, sem greidd eru af íslenzkum aðilum og unnið er fyrir í störfum fyrir þá. Það er a.m.k. hlálegt, að slík laun frá erlendum aðilum, hvort sem það er stríðsbandalag eða eitthvað annað, séu gerð skattfrjáls, á meðan þarf að setja sérstök lög fyrir hvert tilfelli, þegar íslenzkir afreksmenn á sviði lista, bókmennta eða vísinda hafa unnið til eða kunna að vinna til heiðurslauna með afrekum sínum, til þess að forða þeirri hneisu, að slík heiðurslaun séu tekin að meira eða minna leyti í skatta, eins og t.d. lá við að gert yrði, þegar Halldór Kiljan Laxness og um leið öll íslenzka þjóðin var heiðruð með veitingu Nóbelsverðlauna á sínum tíma. Í sambandi við þetta hef ég flutt brtt., sem fjallar um það, að opinber listamannalaun og heiðurslaun, sem unnið er fyrir í þágu bókmennta, lista eða vísinda, verði gerð skattfrjáls.

D-liður 12. gr. er einnig nýmæli Þess efnis, að einstakar gjafir, eins og þar segir, til menningarmála, viðurkenndrar líknarstarfsemi og kirkjufélaga, allt að 10% af skattskyldum tekjum gefenda, skuli frádráttarhæfar við álagningu tekjuskatts. En fjmrh. er síðan gefið alræðisvald um það, hvaða stofnun og málaflokkun komi til greina samkv. þessu ákvæði. Mér sýnist vægast sagt, að hér sé farið inn á hæpna stigu, sem geti hæglega leitt til mismununar og misnotkunar. í fyrsta lagi er það svo, að eitt grundvaltaratriði skattlagningar einstaklingstekna er það og hefur alltaf verið að gera ekki mismun eftir því, hvernig menn verji tekjum sínum. Og frá skattalagasjónarmiði er það skoðað yfirleitt sem einkamál manna, eins og eðlilegt er. Margháttuð útgjöld manna, Þó að þau falli ekki undir það að geta kallazt almenn menningarmál eða viðurkennd líknarstarfsemi eða séu gjafir til kirkjufélaga, geta vissulega verið lofsverð, nauðsynleg og falið í sér gagnlegan og göfugan tilgang, ekkert síður en þau, sem undir þessi ákvæði gætu fallið. Ég tel þess vegna alveg fráleitt, að pólitískur ráðherra sé gerður að dómara um það, í hvaða tilfellum gjafir einstaklinga eða félaga séu taldar þess verðar að gera þau útgjöld, sem af þeim leiðir, skattfrjáls. Ég legg þess vegna til, að þessi liður verði felldur niður.

Í 13. gr., C-lið þeirrar gr., er nýmæli, sem felur í sér mjög aukna heimild fyrir atvinnufyrirtæki til frádráttar vegna gjalda til atvinnurekendasamtaka. Er þeim heimilað að draga frá tekjum sínum hvorki meira né minna en 5% af veltu í því sambandi. Hér gæti verið um að ræða mjög miklar fjárhæðir, jafnvel allan hagnað viðkomandi fyrirtækis, enda er það vitað, að t.d. Vinnuveitendasamband Íslands gerir æ frekari gjaldakröfur til meðlima sinna og safnar gildum sjóðum til starfsemi sinnar. Ég tel það ekki með öllu óeðlilegt, að atvinnurekendur fái hliðstæðan frádrátt vegna félagsgjalda sinna eins og launamenn, en tel hins vegar fráleitt að verðlauna þá fyrir miklu meiri fjársöfnun til sinnar starfsemi heldur en nemur félagsgjöldum til stéttarfélaganna. Ég flyt þess vegna brtt. við þessa gr., Þess efnis, að í stað 5% af veltu komi 5% af launagreiðslum viðkomandi fyrirtækis, og er þá gert ráð fyrir ríflega tilsvarandi frádrætti Þeim, sem verkafólk viðkomandi atvinnurekenda mundi njóta samkv. ákvæðum sömu greina vegna stéttarfélagsgjalda sinna.

Í 14. gr. frv. er nýmæli, sem í mörgum tilfellum rýrir mjög verulega frádráttarbærar tekjur sjómanna, en eykur þær að vísu í öðrum tilvikum. Samkv. gildandi ákvæðum eiga sjómenn rétt á sérstökum frádrætti fyrir hvern mánuð, sem þeir stunda sjó, að upphæð 1500 kr. fyrir hvern mánuð, enda hafi þeir stundað sjó ekki skemur en þrjá mánuði af skattárinu. Nú er lagt til, að þessu verði breytt svo eftir frv., að sjómaður fái engan slíkan frádrátt, ef hann hefur ekki stundað sjó í a.m.k. sex mánuði, en þá fær hann samkv. frv. að vísu helmingi meiri frádrátt eða 3000 kr. fyrir hvern mánuð.

Þessi breyt. hefur það í för með sér, að sjómaður, sem árlega stundar sjó á vetrarvertíðum, sem eins og öllum er kunnugt standa skemur en 6 mánuði, þ.e.a.s. á þeirri vertíð, sem mest af aflanum er dregið á land, sjór stundaður með mestu erfiði og mestri áhættu og þjóðinni er allra brýnast að geta mannað öll sín skip, að sá maður, sem aðeins stundar sjómennsku að þessu leyti árlega, fær engan frádrátt. En aftur á móti sjómaður, sem er á vetrarvertið og skreppur siðan á síld yfir sumarið, fær 18 þús. kr. a.m.k. í frádrátt, fyrir það að fara á síldina. Mér sýnist, að þessi breyt. sé algerlega óhæf og mundi skapa rangláta og verulega mismunun milli sjómanna, og finnst hún í alla staði vera óhæf, eins og þessi breyt. er þarna. En á hinn bóginn eru Þeir, sem stunda sjó meiri hluta ársins, vissulega vel að því komnir að fá nokkuð aukinn frádrátt frá því, sem nú er. Og í samræmi við þetta flyt ég brtt., sem tryggir Þeim, sem stunda sjó í a.m.k. þrjá mánuði, eins og áður var, frádrátt, sem nemi 3000 kr., eins og gert er ráð fyrir í frv., að þeir einir eigi að njóta, sem annars stunda sjóinn meira en hálft árið.

Þá legg ég einnig til, að frádráttur vegna hlífðarfatakostnaðar verði hækkaður úr 500 kr. á mánuði í 1000 kr., en hlífðarfatakostnaður hefur, frá því að hann var ákveðinn í lögum, hækkað stórkostlega og m.a. um sem næst 100% af viðreisnarráðstöfununum einum, og er brtt. mín því í rauninni ekki nema til samræmis við hækkað verðlag, sem hefur orðið, frá því að þessi upphæð var ákveðin, og þó sennilega nær því ekki.

Ég hef nú að nokkru gert grein fyrir afstöðu minni til þeirra breytinga, sem í þessu frv. felast og minni háttar geta talizt, og vil þá snúa mér að þeim breyt., sem meira máli skipta, m. a. þeim, sem hljóta að skera úr um afstöðu til frv. í heild.

Af hinum meiri háttar breyt., sem ég vil nefna svo, tel ég, að nokkur rök séu fyrir hendi til stuðnings tveim þeirra, þ.e.a.s. hinum nýju reglum um heimild til skattfrjálsrar útgáfu jöfnunarhlutabréfa og einnig ákvæði 11. gr. um, að tap, sem verður á atvinnurekstri félaga eða einstaklinga, megi færa milli ára um 5 áramót í röð í stað 2 áður. Auðsætt þykir mér þó, að útgáfu jöfnunarhlutabréfanna fylgi verulegir annmarkar, m.a. þeir, að hún auðveldar fyrir eigendum hlutabréfa að draga fé út úr atvinnurekstrinum til einkanota og einkaeyðslu, með því að slík útgáfa hlutabréfa margfaldar í ýmsum tilfellum möguleika til skattfrjálsrar arðgreiðslu af hlutafé. Verð ég því að segja það, að að þessu leyti verkar þetta öfugt við Það, sem frumvarpshöfundarnir vilja Þó telja aðalatriði þessa máls, að tryggja atvinnufyrirtækjunum og atvinnurekstrinum meira fjármagn til endurnýjunar. Hér er aftur á móti greinilega opnað fyrir flóðgátt fjár úr fyrirtækjunum og til einstaklinganna, til þess að þeir geti notfært sér það sjálfir. En á hinn bóginn er ekki því að neita, að slík útgáfa hlutabréfa leysir viss vandamál, t.d. eins og þau, sem rísa, þegar gömul og gróin hlutafélög þurfa eða vilja auka hlutafé sitt, og verða ákvæðin að því leyti að teljast til bóta. Hins vegar verð ég að segja það, að mér þykir, að heimildin til útgáfu jöfnunarhlutabréfanna geri aðra breytingu, sem gert er ráð fyrir í frv., þ.e.a.s. hækkun á skattfrjálsum arðgreiðslum um 25%, úr 8% í 10%, enn þá fjarstæðukenndari en hún annars væri og algerlega óeðlilega. Það virðist nóg að gert að margfalda greiðslumöguleikana með útgáfu jöfnunarhlutabréfa, þótt jafnframt séu ekki stórauknir möguleikar með hækkun á skattfrjálsum arði.

Færsla taps á milli fimm ára í stað tveggja áður er tvímælalaust ekki óeðlileg, einkum vegna þess, að hún kemur sérstaklega til hagsbóta þeim atvinnurekstri, sem áhættusamastur er og sveiflur mestar frá ári til árs, þ.e.a.s. sjávarútveginum, en þessi breyt. er þá líka jafnframt mótrök gegn því að stórhækka skattfrjáls varasjóðstiltög og auka skattfrjálsar arðgreiðslur.

Það getur engum dulizt, að megintilgangur þessa frv. er sá að stórauka gróðamöguleika auðfélaganna og eigenda þeirra, og öll ákvæði frv., sem nokkru verulegu máli skipta, jafnvel þau, sem nokkur rök mæla með og ég hef Þegar nefnt, hniga í þessa átt. En þau ákvæði, sem hins vegar eru mikilvirkust að þessu leyti, eru í fyrsta lagi þær nýju fyrningarreglur, sem fjallað er um í 15. gr. frv., í öðru lagi bein lækkun skatts af hreinum tekjum, í þriðja lagi hækkun varasjóðstillags og í fjórða lagi hækkun á skattfrjálsum arðgreiðslum. Nýju fyrningarreglurnar eru alveg vafalaust langsamlega mikilvægastar þessara ákvæða og líklegar til þess að verða drýgstar auðfélögunum til hagsbóta, og fer því raunar víðs fjarri, að auðveit sé að sjá fyrir um allar afleiðingar þessara nýju reglna. Kemur þar fyrst og fremst til, að reglurnar eru mjög óljósar í frvgr., en allt vald til nánari útfærslu á þeim er, eins og raunar í öllum eða flestum öðrum greinum, fengið í hendur fjmrh. og honum einum gert að hafa úrslitaáhrif um það, hvernig reglurnar verka eða eru framkvæmdar. Það má Þess vegna segja, að vitneskja um það, hvernig aðalatriði reglugerðar eru fyrirhuguð, sé, eins og í pottinn er búið, algert skilyrði til þess, að unnt sé fyllilega að átta sig á því, hvað hér er um að vera, enda þótt frv.- ákvæðin gefi augsýnilega gífurlega möguleika til þess, ekki aðeins að leysa gróðafélögin undan skattskyldu til ríkisþarfa, heldur jafnframt til þess að skapa þeim algerlega nýja auðsöfnunarmöguleika með öðrum hætti gegnum fyrningarreglurnar, eins og ég mun ræða betur síðar.

Það hlaut þess vegna að verða krafa þeirra í fjhn., sem ekki eru þess albúnir að veita hæstv. fjmrh. alræðisvald í skattamálum, eins og höfundar þessa frv. hafa sýnilega verið, að fá ýtarlegar skýringar á framkvæmdaratriðum, sem sjálf ákvæðin skýra alls ekki, en skipta þó mjög miklu. En í fjhn. fékkst fljótlega sú kynlega vissa, að frv.- höfundar höfðu enga ljósa grein gert sér fyrir því, hver framkvæmd þessara ákvæða yrði, og skattstjórinn í Reykjavík upplýsti fyrir n., að hann gæti engar upplýsingar um þetta gefið, þar sem hann hefði ekki verið til kvaddur varðandi samningu frv. að þessu leyti og hefði engin kynni haft af samningu reglugerðar varðandi þau.

Ég spurðist t.d. fyrir um það í n., hvort rannsóknir á skattalegum afleiðingum þessara ákvæða hefðu farið fram, en því var svarað neitandi bæði af höfundum frv. og skattstjóra, en hins vegar taldi skattstjórinn, að nauðsynlegar væru margháttaðar athuganir og prófanir, áður en frá reglugerð yrði gengið.

Ég taldi í fjhn., að það væri nauðsynlegt að fá upplýsingar frá hæstv. fjmrh. eða ráðuneytisstjóra í hans ráðuneyti sérstaklega varðandi fyrirhugaða framkvæmd fyrningarreglnanna, en enginn vilji var fyrir því hjá hv. meiri hl. n., sem taldi óhugsandi, að nokkrar slíkar upplýsingar væru fáanlegar á þessu stigi málsins eða fyrr en búið væri að afgr. frv. sem lög.

Skv. þessu virðist mér, að hv. þd. og væntanlega öllu hv. Alþ. einnig sé ætlað að gerbreyta mikilvægustu ákvæðum skattalaganna algerlega blindandi. Ég tel raunar ólíklegt og vil a.m.k. ekki trúa því fyrr en í fulla hnefana, að slík sé ætlun hæstv. fjmrh., og vænti þess vegna, að hann skýri hér og nú skilmerkilega frá því, hvernig hann hyggst í aðalatriðum nota það einræðisvald, vil ég segja, sem honum er ætlað varðandi fyrningarreglurnar. Hjá því getur ekki farið, að nú, þegar skammt er þangað til skattayfirvöld eiga að fara að vinna skv. þessum lögum, hafi hann og ráðuneyti hans íhugað það a.m.k. í meginatriðum, hvernig framkvæmdin eigi að verða, og það væri þess vegna með ólíkindum, að hann vildi dylja hv. Alþ. þess, sem undir býr, enda teldi ég slíkt hreina móðgun við löggjafarsamkomuna.

En þrátt fyrir þetta og hvernig sem hinar nýju fyrningarreglur, eins og þær lýsa sér í frv., verða framkvæmdar, þá er ljóst, að með þeim er horfið að grundvallarbreytingu í skattalöggjöfinni. Hingað til hefur það verið svo,. að ekki hefur verið leyfilegt að miða fyrningu við annað en stofnkostnaðarverð eigna eða fjármuna, þ.e.a.s. að fyrirtæki hafa orðið að láta sér nægja að fá allt stofnkostnaðarverð fyrirtækjanna endurgreitt með afskriftum á vissum árafjölda, sem oftast hefur verið skemmri en raunverulegur endingartími fjármunanna, og svo að sjálfsögðu jafnframt haft heimild til að safna varasjóðum og gróða í samræmi við lagafyrirmæli þar að lútandi. Nú á hins vegar að breyta þessari grundvallarreglu um afskriftirnar þannig, að þær verði framvegis miðaðar við endurnýjunarverð fyrirtækjanna að meira eða minna leyti, og svo að auki eiga fyrirtækin að fá mjög rýmkaðar heimildir til framlags í varasjóði og til beinnar gróðasöfnunar, eins og ég mun víkja að síðar.

Það er látið skína í það og raunar verður frv. varla skilið öðruvísi en svo, að hinar gömlu fyrningarreglur eigi þó að gilda í meginatriðum áfram um eignir, sem keyptar verða eða stofnað til framvegis, þ.e.a.s. frá og með þessu ári, sem nú er að líða. En slíkt mundi auðvitað, eins og hver maður má sjá, sem setur sig eitthvað inn í þetta, fljótlega skapa atgert misræmi, sem hlyti að leiða til þess, að innan tíðar yrði þeim ákvæðum einnig breytt og fyrning þessara eigna einnig miðuð við endurnýjunarverð, ef áfram væri fylgt sömu stefnu og hér er tekin upp.

Hér er sem sagt verið að taka upp nýja grundvallarreglu, sem ekki tekur aðeins til skattamálanna einna, heldur hlýtur að hafa víðtæk áhrif langt út fyrir þau, — reglu, sem er ætlað að verða nýr grundvöllur að meiri auðsöfnun en við höfum áður þekkt, — reglu, sem mun breyta mjög hlutföllum í skiptingu þjóðarteknanna milli launa annars vegar og gróða hins vegar, — reglu, sem gerir hvort tveggja að verða hemill á launahækkanir í samræmi við aukna framleiðslu og skapa óeðlilegar og óæskilegar verðhækkanir á fjöldanum öllum af neyzluvörum almennings og almennri þjónustu, — reglu, sem raunverulega skapar gróðafélögunum, jafnframt auknum gróða, eins konar verðtryggingu á bæði því fé, sem þauleggja í framkvæmdir, og á þeim gróða, sem þau afla, þannig að öllum afleiðingum verðbólgu verður í stórfellt auknum mæli ýtt yfir á herðar launamanna einna. í raun og veru er um það að ræða, að fyrirtækin í landinu fái eins konar vísitölugreiðslur á allt það fé, sem þau leggja í framkvæmdir, og allan þann gróða, sem þau safna, á sama tíma og launastéttirnar eru sviptar hliðstæðum greiðslum á laun sín með sérstökum lögum.

Því er haldið fram, að núverandi skipan skattamála hindri eðlilegt viðhald og endurnýjun atvinnutækjanna og þess vegna sé þetta frv. með þeim auknu gróðamöguleikum, sem það skapar, í raun og veru flutt í þágu launastéttanna, þar sem atvinnutækin séu grundvöllurinn að afkomu þeirra. Þetta kann að hljóma vel að lítið athuguðu máli, því að auðvitað er það rétt út af fyrir sig, að atvinnurekstur, í hvaða formi sem hann er rekinn, verður að hafa möguleika til endurnýjunar og vaxtar. En er þá ekki rétt að athuga það, hvernig þessir möguleikar hafa verið og hvernig þeir eru? Kostnaðarverð fjármuna má afskrifa á yfirleitt mun skemmri tíma en raunverulegum endingartíma. Fimmtung hreinna tekna má leggja í varasjóð, en fjórir fimmtu hlutar þeirra eru skattskyldir um 25% til ríkisþarfa og um allt að 30% til sveitarfélaganna. Áður en þessir skattar eru lagðir á, má svo fyrirtækið borga eigendum sínum 8% eða meir en fulla vexti af því fé, sem þeir sjálfir hafa lagt fram, þ.e.a.s. að fyrirtækin hafa fulla möguleika á því að fá allan stofnkostnaðinn greiddan á skemmri tíma en endingartími fjármunanna er, og ef miðað er við stöðugt framlag, er þar jafnframt um endurnýjunarverð að ræða. Þetta fæst með fyrningarafskriftunum einum og án þess að grípa þurfi til varasjóða eða annars gróða. Sé um verðhækkanir að ræða, eins og við vitum að hefur átt sér stað á undanförnum árum og áratugum, þá þarf hins vegar að grípa til gróðans, til þess að fyrirtækið eigi fyrir nýjum fjármunum í lok fyrningartímans, enda þótt allur stofnkostnaður hafi unnizt upp að fullu með fyrningarafskriftum. Nú er hins vegar að því stefnt, að í lok fyrningartímans sitji gróðafélögin uppi með ný tilsvarandi tæki og þau hófu starfsemi sína með og eigi að auki ósnertan allan gróða sinn frá sama tímabili, þrátt fyrir allar verðhækkanir, sem á þessu tímabili kunna að hafa orðið.

Eg held, að ekki muni þurfa mikið hugmyndaflug til þess að gera sér nokkra grein fyrir því, hvert risaskref hér er verið að stíga til þess að hlaða undir auðfélögin í landinu á kostnað almennings, ef sú stefna, sem hér er á ferðinni, verður útfærð eins og efnt er til, því að hversu nauðsynlegt sem það er, að eðlileg endurnýjun geti átt sér stað á framleiðslutækjum og nauðsynleg uppbygging, verður þó aldrei fram hjá því komizt, að hlutur launanna er algerlega háður Því, að gróðamynduninni sé haldið í skefjum. Og það er mín skoðun, að gildandi skattalöggjöf gangi ekki lengra í þá átt en eðlilegt geti talizt, þó að margt megi að henni finna.

Í nýlega útkomnu riti Framkvæmdabanka Íslands, Úr þjóðarbúskapnum, er að finna tölur um aukningu þjóðarauðs íslendinga á tímabilinu frá 1945–1957, eða á 13 árum. Þessar tölur sýna m. a., að miðað við fast verðlag ársins 1954 hafa verðmæti framleiðslufjármuna einna vaxið á þessum tíma úr 2,7 milljörðum króna í 5,8 milljarða, eða meir en tvöfaldazt á 13 árum, og einkafjármunir hafa á sama tíma nær tvöfaldazt, vaxið úr 3,1 milljarð í 5,3 milljarða, og þjóðarauðurinn í heild vaxið úr 7,6 milljörðum í 13,5 milljarða, miðað við það verðlag, sem ég áður nefndi.

Mér þykir það athyglisvert, að framleiðslufjármunirnar hafa varið mest, meira en einkafjármunirnir og mun meira en opinberir neyzlufjármunir. Og vissulega benda Þessar tölur ekki til þess, að skattar hafi verið svo óhæfilegir, að þeir út af fyrir sig hafi hindrað eðlilegan vöxt framleiðslutækja, þó að hitt sé svo annað mál, hvort fjárfesting hafi alltaf verið svo skynsamleg og hagkvæm sem æskilegt hefði verið. Það er í raun og veru önnur saga. En þetta verður þó enn ljósara, þegar það er haft í huga, að öll gróðafélög landsins eru nú komin niður í það að greiða skatt til ríkisins, sem samanlagður er innan við 4% af skattheimtu ríkisins allri. En áhrif þeirrar grundvallarbreytingar, sem nú á að gera varðandi fyrningarafskriftirnar, nær, eins og ég áður drap á, langt út fyrir svið skattamálanna.

Ég tel ekki vafa á, að þessari reglu eigi t.d. framvegis að beita varðandi stór fyrirtæki, sem veita almenningi og atvinnurekstri hina mikilverðustu þjónustu, fyrirtæki eins og raforkustöðvarnar og hitaveiturnar, enda væri raunar annars ekki neitt samræmi í hlutunum. Verðlag á raforku er nú alls staðar miðað við kostnaðarverð að viðbættum 5%, en það svarar nokkurn veginn til fyrningar stofnkostnaðar þessara fyrirtækja á eðlilegum tíma. Þessu verður nú alveg vafalaust breytt á sama hátt og þegar hefur verið gert, að vísu ólöglega, með Áburðarverksmiðju ríkísins, þ.e.a.s. að farið verður að miða fyrningarafskriftir við margfalt stofnkostnaðarverð eða endurnýjunarverð, eins og það kann að verða áætlað á hverjum tíma. Afleiðingar slíkra aðgerða munu ekki láta á sér standa. Stórfelldar hækkanir á þeirri þjónustu, sem þessi fyrirtæki veita, sigla í kjölfarið og ýta á hækkaðan framleiðslukostnað og hækka almennt verðlag og framleiðslukostnað heimilanna algerlega að ástæðulausu. Sama verður svo upp á teningnum varðandi iðnfyrirtækin og önnur fyrirtæki, sem byggja á almennri innanlandsneyzlu. Hækkuð fyrningarheimild þeirra leiðir óhjákvæmilega til hækkaðs verðlags á framleiðsluvörunum. Neytendur, launamenn verða þannig látnir greiða fyrirtækin niður af launum sínum í ríkara mæli en áður, jafnframt því sem skattar þeirra hljóta að hækka hlutfallslega, um leið og þeim er létt af gróðamynduninni.

Hæstv. fjmrh. virðist að vísu álíta, og svo er raunar um fleiri hv. stjórnarsinna, og kom mér þó mest á óvart að heyra þá kenningu af vörum hv. frsm, meiri hl. fjhn., að skattaeftirgjafir til gróðafélaganna og margfaldaðar fyrningarafskriftir þeirra séu í raun og veru alls ekki af neinum eða neins staðar teknar. Allir aðilar eiga að hagnast á þeim. Ríkissjóður á einskis í að missa, jafnvel öfugt, fyrirtækin eiga að hagnast á því, og almenningur á þá að hagnast allra mest, því að allt er þetta fyrir hann gert, eftir því sem þessir menn segja. Þannig hefur verið að sögn þessara manna fundið upp skattakerfi, sem ætlað er það hlutverk að skapa voldugt einkafjármagn á Íslandi, án þess að nokkur finni fyrir því, og allir beri meira úr býtum en áður. Það er augsýnilega ekki að undra, þótt þessir menn séu stoltir af þessum smíðisgrip sínum.

En það vill nú svo til, að þessi uppfinning er ekki alveg ný. Nýju fyrningarreglurnar hafa, í smáum stíl að vísu, verið notaðar síðustu árin í einu stórfyrirtæki þjóðarinnar, þ.e.a.s. Áburðarverksmiðju ríkisins. Vissulega hefur áburðarverksmiðjan grætt á því lögbroti, að ríkisstj. hefur látið tillög í fyrningarsjóð miðast við endurkaupsverð verksmiðjunnar í staðinn fyrir kostnaðarverð, eins og skýlaust lagafyrirmæli er um. En hvar hefur þessi gróði verið tekinn? Hefur hann kannske verið unninn úr loftinu, eins og sumt af áburðinum í verksmiðjunni? Hvað skyldu íslenzkir bændur segja um það? Jú, bændurnir mundu geta frætt okkur um það, að gróðinn væri fenginn með því að skattleggja þá með stórhækkuðu áburðarverði um milljónafúlgur árlega. Gróðinn er fenginn með því að lækka lífskjör bændastéttarinnar og að nokkru neytenda landbúnaðarafurðanna með hækkuðu verðlagi þeirra, sem aftur hefur leitt til og hjálpað til að hækka almennt verðlag og rýra gildi gjaldeyrisins og stuðla þannig að enn hækkuðu endurnýjunarverði og þar af leiðandi nýjum verðhækkunum af völdum hækkaðra afskrifta og síðan koll af kolli. Áburðarverksmiðjan er tiltölulega ungt fyrirtæki, og mismunurinn á stofnkostnaðarverði og endurnýjunarverði er því stórum minni en hjá fjölmörgum fyrirtækjum öðrum í landinu. Það er því síður en svo, að dæmi um hinar breyttu fyrningarreglur gefi hvað hana áhrærir dekkri mynd af þeim afleiðingum, sem þær koma til með að hafa, ef þær verða lögfestar, heldur en efni standa til, því að kostnaðarverð áburðarverksmiðjunnar var talið um 130 millj. kr., og við þær upphæðir voru fyrningarafskriftir verksmiðjunnar miðaðar þangað til árið 1959. Þá var farið að miða fyrningarafskriftir við endurkaupsverð, 240–250 millj. kr. Þessi ráðstöfun hækkaði heildarverð áburðarins til bænda um nálægt 8 millj. kr. á ári og sennilega nú um 10 millj. eða nálægt 16% miðað við árið 1959. Síðan hefur endurkaupsverð verksmiðjunnar auðvitað stórhækkað, m.a. vegna gengisfellingarinnar á s.l. sumri, svo að hækkunin af þessum sökum verður áreiðanlega mun meiri nú í ár, og má ætla, að þess verði skammt að bíða, að hún nái 20%, en 15–20% verðhækkun á brýnustu nauðsynjavöru landbúnaðarins sýnist vera álitlegur árangur af þessum nýja sið, sem nú á að taka upp, hjá einu einasta fyrirtæki, og þessi hækkun er auðvitað ekki aðeins skattur á bændur, heldur um leið á allan almenning í landinu, sem kaupir landbúnaðarafurðirnar hærra verði en áður var vegna þessarar breytingar.

Þannig hefur þessi ráðstöfun, sem ég fæ ekki betur séð en sé algerlega hliðstæð því, sem nú á að gerast almennt fyrir fyrirtækin í landinu, getað hjá þessu eina fyrirtæki valdið gífurlega hækkuðu verði á þeirri rekstrarvöru, sem heilli atvinnugrein í þjóðfélaginu er nauðsynlegust. Og í þessu dæmi hefur það raunverulega gerzt, að þetta fyrirtæki hefur fengið aðstöðu til þess að skattleggja almenning og rýra um leið lífskjör hans. En Þegar nú þessi nýi síður, sem nú á að lögfesta sem almenna reglu, gat valdið 15–20% hækkun á áburðarverðinu, hverju fá þá þessar nýju reglur áorkað í verðhækkunarátt, þegar þær hafa verið útfærðar í rekstri og verðlagningu allra fyrirtækja í landinu, þegar raforkuverin hækka rafmagnsverðið á líkan hátt, hitaveiturnar, skipafélögin, öll iðnfyrirtækin og yfirleitt allur sá rekstur, sem byggir á neyzlu almennings, fær verðlagningu neyzluvara og þjónustu reiknaða eftir þessum nýja sið? Ég hlýt að vísu að viðurkenna, að ég er ekki fær um að svara þessari spurningu til neinnar hlítar, en hitt fullyrði ég, að hér er stofnað til stórfelldra verðhækkunarráðstafana, sem hljóta að bitna þungt á almennum lífskjörum í landinu, ekki aðeins í bráð, heldur einnig svo lengi sem þessar reglur koma til með að gilda.

Hæstv. ríkisstj. nægir ekki að hafa lækkað laun almennings í landinu, hækkað verðiag nauðsynja um 30%, lagt á þyngri skatta en nokkru sinni hafa þrúgað láglaunafólk hér á landi, heldur er þessi kjaraskerðing kórónuð með því að veita raunverulega gróðafélögunum í landinu heimild til enn nýrrar og áður óbekktrar skattlagningar á alþýðu manna. Hin beina skattalækkun gróðafélaganna er áreiðanlega mjög smávægilegt atriði samanborið við þá, sem felst í hinum breyttu fyrningarreglum, og hún er líka augljós og óumdeilanleg, hverju hún nemur. Skattur á félögum, öðrum en útgerðarfyrirtækjum og samvinnufélögum, lækkar úr 20% af hagnaði í 15%, eða um einn fjórða part, en á hinum síðarnefndu úr 16,7% í 15%, eða um 9%. Um 9% lækkar bað hjá samvinnufélögunum og útgerðarfélögunum, meðan lækkunin er 25% hjá öðrum fyrirtækjum. Að mínu viti er öll þessi lækkun, þó að ég telji hana ekki aðalefni þessa frv., síður en svo, órökstudd og ástæðulaus. En samt er það eftirtektarvert, eins og hér hefur verið bent á áður, að skattalækkunin skuli vera höfð allt að því þrisvar sinnum minni hjá þeim atvinnurekstrinum, sem býr við langsamlega mesta áhættu, og svo hins vegar hjá Þeim fyrirtækjum, sem eru í almenningseign og safna ekki gróða nema þá í óskiptanlega sjóði.

Varðandi samvinnufélögin er Það líka athyglisvert, að skattalækkunin er ákveðin minni fyrir þau, enda þótt sum af þeim ákvæðum frv., sem eru mjög hagstæð fyrirtækjum almennt, komi þeim ekki að neinu haldi, eins og t.d. útgáfa jöfnunarhlutabréfanna.

Breytingarnar, sem samkv. frv. á að gera á framkvæmdaköflum skattalaganna, hníga fyrst og fremst að því að stokka upp það embættismannakerfi, sem fyrir er, og gefa hæstv. fjmrh. tækifæri til þess að breyta þar mannaskipun eftir geðþótta sínum, einnig að setja fasta embættismenn í stað skattanefndanna, sem nú veitir að nokkru leyti borgurunum lýðræðislega aðild að framkvæmd skattalaganna, og svo í þriðja lagi beinast breyt. að því að fjölga mjög embættismönnum almennt í kerfinu og gera það stórum kostnaðarsamara en áður. Ég vil þó taka það fram, að ég tel, að sumar breyt. á framkvæmd laganna að þessu leyti séu engan veginn fráleitar og þá sérstaklega ekki sú breyting, sem felst í nýrri skiptingu landsins í skattaumdæmi í umsjá skattstjóra. Afnám skattanefndanna tel ég hins vegar sízt til bóta. Í fyrsta lagi hefur hún áreiðanlega stórfelldan aukinn kostnað í för með sér, eins og hér var eftirminnilega sannað við 1. umr. af hv. 4. þm. Vestf., en hitt er þó veigameira, að mér sýnist, að verr sé tryggt en áður, að ekki eigi sér stað mismunun í skattlagningu, eftir að hlutverk skattanefnda hefur algerlega verið afhent embættismönnum fjármálaráðherrans. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni?) Ég mundi sennilega ljúka henni á 10–15 mínútum. Ég legg það í vald hæstv. forseta, hvort — (Forseti: Já, ætli það sé þá ekki rétt að gera það.)

Þessar breytingar aðrar eru smávægilegar. Þar örlar hvergi á tilraunum til þess að bæta úr því, sem þó hefur verið höfuðmeinsemd framkvæmdarinnar, að skattaeftirliti, sem að einhverju haldi kæmi, væri komið á. Það má að vísu segja, að lögin geti rúmað nýjar starfsaðferðir, sem að haldi mættu koma, en svo hefur líka verið áður, og er að því leyti ekki um breyt. að ræða. Sýnilega á hér eftir sem hingað til að hafa eftirlitið aðeins í því formi að byggja á athugun á öllum framtölum jafnt, athugun, sem á að framkvæma á örstuttum tíma, áður en skattlagning fer fram, enda þótt öllum sé fullljóst, að slíkar athuganir eru lítils sem einskis virði. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því, að það eru orðnir svo fáir í deildinni, hvort ekki sé rétt bara að fresta?) Ég sakna nú sérstaklega hæstv. fjmrh. og hv. frsm. meiri hl. (Forseti: Já, ætli það sé ekki rétt að fresta ræðunni og halda henni þá áfram, þegar málið verður tekið fyrir næst?) Jú, ég geri þá hlé á máli mínu. [Frh.]