16.03.1962
Neðri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2322 í B-deild Alþingistíðinda. (1952)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. forseti. í þessu frv. til nýrra tekju- og eignarskattslaga, sem hæstv. ráðh. hefur talað fyrir, eru þó nokkrar breyt. frá gildandi lögum, eins og hann hefur minnzt á. Ég mun fara nokkrum orðum um suma meginþætti málsins.

Það má segja, að ein veigamesta breytingin sé sú að lækka skattinn á hreinum tekjum félaga úr 25%, sem hann er núna, í 20% og Þó raunar nokkru meira, því að jafnframt er gert ráð fyrir, að varasjóðsfrádráttur megi framvegis hjá almennum hlutafélögum vera 25% í staðinn fyrir 20% áður. Oftast mun það hafa verið svo vegna varasjóðsfrádráttarins, að almenn hlutafélög hafa í reyndinni greitt 20%, Þ.e.a.s. þau hafa notfært sér heimildina til varasjóðsfrádráttarins, sem þýðir, að þau hafa borgað í reyndinni 20%, en mér skilst, að framvegis muni þá flest félög borga 16%. Ég vil ekki mæla með þessari lækkun á skatti á hreinum tekjum félaganna og vil færa fyrir Þeirri afstöðu nokkrar ástæður.

Það er fyrst, að ég beitti mér fyrir því 1958, að skattar á félögum voru lækkaðir stórkostlega, og stighækkandi skattar á félögunum voru þá numdir úr lögum. Þessi lækkun þá var mjög mikil, en mismunandi náttúrlega nokkuð eftir því, hvað félögin höfðu haft miklar tekjur. En þá var innleidd ein skattaprósenta á félög, 25%. Ég fullyrði, að siðan þessi löggjöf var sett, 1958, hafa skattgreiðslur félaga yfirleitt til ríkisins ekki verið neitt vandamál fyrir atvinnureksturinn. öðru máli hefur á hinn bóginn gegnt um útsvarsgreiðslur, vegna veltuútsvaranna alræmdu, sem hafa verið félögum og atvinnurekstri mjög þung í skauti. En skattgreiðslur til ríkisins hafa ekki verið verulegt vandamál félaga, eftir að nýju lögin um skatt félaganna voru sett 1958, líka vegna þess, að ákvæði hér á landi um leyfilegar fyrningarafskriftir af ýmsum þýðingarmiklum eignum til atvinnurekstrar hafa verið mjög frjálsleg, ef svo mætti segja, þ.e.a.s. þau hafa leyft mjög hraðar afskriftir. Þar af leiðandi hafa félög í mörgum greinum atvinnurekstrarins getað haft mjög mikinn ágóða án þess að greiða þunga skatta til ríkisins.

Ef skattalögin frá 1958, ákvæði þeirra um skattgjald félaga, eru borin saman við það, sem tíðkast í öðrum löndum, og um það hafa komið fram allgóðar upplýsingar núna í sambandi við þessi nýju skattalög, kemur það einnig í ljós, að félög hér á landi greiða nú yfirleitt mun lægri skatta til ríkisins en gerist í nágrannalöndunum. Eins og ég sagði áðan, eiga þau yfir höfuð að greiða 25% af skattskyldum tekjum, en hafa heimild fyrir 20% varasjóðsfrádrætti. Í Noregi t.d. er félögum ætlað að greiða 30% til ríkisins og enginn varasjóðsfrádráttur leyfður. í Danmörku er þeim ætlað að greiða 44%, og er hálfur tekjuskatturinn frádráttarbær, en engin varasjóðshlunnindi. En þetta þýðir, að einnig í Danmörku er tekjuskattur til ríkisins af félagahagnaði hærri en hér. í Svíþjóð er skatturinn 44% og útsvarsálögur frádráttarbærar, áður en skattskyldar tekjur eru fundnar, og er því erfiðara að bera skattgreiðslur þar í landi saman við það, sem hér tíðkast. En þar er heldur ekkert skattfrjálst varasjóðstillag. Ég býst því við, að skattur til ríkisins á tekjum félaga í Svíþjóð sé raunverulega hærri en hér. í Bretlandi er skatturinn á félögum til ríkisins 38.75% og enginn varasjóðsfrádráttur leyfður.

Á þessu sést mjög greinilega, að ef varasjóðshlunnindin eru tekin til greina, er skattur til ríkisins hér á gróða hlutafélaga og annarra félaga miklu lægri en tíðkast í nálægum löndum. Á hinn bóginn eru aðrar álögur hér yfirleitt sízt lægri og álögur á almenning áreiðanlega hér miklu hærri en eiga sér stað í þessum löndum, þegar allt er tekið með í reikninginn:

Þá vil ég í þessu sambandi leyfa mér að benda á, að í lögunum, sem sett voru 1960 um tekjuskatt einstaklinga, er gert ráð fyrir því, að einstaklingar greiði 30% af skattskyldum tekjum, þegar skattskyldar tekjur eru 90 þús. kr. eða hærri. Ég held, að mig misminni það ekki. Og einstaklingar hafa enga möguleika til varasjóðsfrádráttar. Mér sýnist því ekki vera samræmi í því að ætla einstaklingum slíkar skattgreiðslur, en gera ráð fyrir mikilli lækkun á skattgreiðslum af hreinum gróða eða hreinum hagnaði félaga, þar sem það er nokkurn veginn augljóst mál, að jafnvel eins og lögin eru núna, þá borga félögin minna en einstaklingarnir, eftir að tekjurnar eru orðnar verulegar. Skattaprósenta einstaklinganna kemst upp í 30% á það, sem fram yfir er, þegar tekjurnar verða nokkuð að ráði eða a.m.k. sambærilegar við það, sem þyrfti að vera í atvinnurekstri, en félögin borga aðeins 25%, eftir að hafa lagt hluta af hreinum tekjum í varasjóð. Mér sýnist því ekki vera samræmi í því að lækka þessa skattaprósentu á félögunum.

Það væri ekki óeðlilegt, að skattar á félögum væru lækkaðir, ef nú væri verið að lækka yfirleitt skattaálögur í landinu og álögur á landsmenn. Þá mætti segja, að það væri eðlilegt, að skattur á hreinum félagagróða fylgdi þar með. En það er nú öðru nær en svo sé, því að jafnhliða því, sem hæstv. ríkisstj. stingur upp á þessari breyt., þá beitir hún sér fyrir, eða hefur beitt sér fyrir nú á síðustu missirum, svo taumlausum tolla- og skattaálögum, að ekkert slíkt hefur áður þekkzt. í því sambandi má t.d. benda á, að skatta- og tolltekjur eru ráðgerðar 1431 millj. á þessu ári, en 1958 voru þær tæpar 700 millj., þannig að álögurnar á þessu tímabili hafa meira en tvöfaldazt, eða vaxið um meira en 700 millj. Þetta liggur í því m.a., að nýir söluskattar hafa verið innleiddir, sem eiga að sópa inn mörg hundruðum millj. kr., og aðrir skattar og tollar hækkaðir stórlega.

Afleiðingarnar af þessu hafa orðið þær, að dýrtíðin í landinu hefur magnazt, eins og hverju mannsbarni er kunnugt, og t.d. hafa erlendar vörur yfirleitt hækkað frá 50–90% á tveimur árum. Til viðbótar þessum gífurlegu álögum til ríkissjóðsins beint beitir hæstv. ríkisstj. sér svo fyrir öðrum hliðstæðum ráðstöfunum, skattlagningu á höfuðatvinnuvegina alveg sérstaklega, sem ekki eru taldar með í þessu dæmi, sem ég gat um áðan. T.d. setti hæstv. ríkisstj, stórkostlegt nýtt útflutningsgjald á sjávarafurðir með brbl. s.l. sumar og ætlaðist til, að það gjald rynni í lánasjóði sjávarútvegsins. En samtök útvegsmanna risu svo rösklega gegn þessum álögum hæstv. ríkisstj., að hún neyddist til þess í vetur að semja við Landssamband ísl. útvegsmanna um að skila þessum álögum aftur inn í rekstur bátaflotans og fiskiskipaflotans 1961 og 1962 á þann hátt að nota féð til að greiða vátryggingariðgjöld báta- og skipaflotans. Þannig var svo snarplega tekið á móti þessari tilraun hæstv. ríkisstj. til að draga þannig fé út úr rekstri sjávarútvegsins, að hún varð að láta undan síga í bili a.m.k. Á hinn bóginn hef ég heyrt, að ríkisstj. hugsi sér að reyna að koma því ákvæði fram á Alþ., að þessi nýju útflutningsgjöld verði framvegis innheimt og tekin út úr rekstri skipanna og bátanna og lögð inn í lánasjóði sjávarútvegsins.

Þá ákvað ríkisstj. með brbl. í sumar að hækka stórkostlega álögur á bátaútveginn og sjávarútveginn í heild til hlutatryggingasjóðs, og er nú komið fram, að þessar álögur eru hugsaðar sem tilraun til þess að láta bátaflotann bera uppi töp togaranna, og kemur það greinilega í ljós af því frv. um aðstoð við togarana, sem nú hefur verið lagt fram.

Loks hefur svo hæstv. ríkisstj. lagt fram eitt skattafrv. enn, og það er í þetta sinn sérstakur tekjuskattur á bændur, sem á að renna inn í lánasjóði landbúnaðarins til að standa undir gengistöpum, sem þeir sjóðir hafa orðið fyrir vegna tvennra gengisfellinga af hendi hæstv. ríkisstj., og svo að því er virðist að einhverju leyti líka til þess að standa undir halla á vaxtareikningi í þeim sjóðum. Þessi skattur hvorki meira né minna en samsvarar 2% kauplækkun hjá meðalbónda í landinu. Auk þess er í sama máli lagt til að innleiða sérstakan toll á landbúnaðarafurðir.

M.ö.o.: það er ekki aðeins, að hæstv. ríkisstj. hafi beitt sér fyrir því að meira en tvöfalda skatta- og tollaálögurnar til ríkissjóðs síðan 1958, heldur virðist hún haldin hreinu skattæði, ef svo mætti segja, og leggur fram hvert frv. af öðru aukalega um að skattleggja höfuðatvinnuvegi landsins. Hugsunin virðist helzt vera sú, að það lánsfé, sem til fellur í landinu, bæði nýr sparnaður og það fé, sem t.d. er fengið að láni erlendis, skuli hvorki renna til sjávarútvegs né landbúnaðar, en í staðinn skuli innleiða nýja skattlagningu, bæði á sjávarútveg og landbúnað, og þessir atvinnuvegir sjálfir leggja til lánsfé handa sjálfum sér. Hugsunin virðist sú, að af sameiginlegu fé landsmanna eigi þessir atvinnuvegir ekki að fá fé til að mæta sinni lánaþörf.

Ég undrast því, að hæstv. ríkisstj. skuli hafa sig í að leggja fram till. um að lækka stórkostlega skattaprósentuna á hreinum gróða félaganna í landinu, þegar á það er litið, hvað hún er að aðhafast í skattamálunum og varðandi álögur á þjóðina yfir höfuð. Ég hefði getað skilið, eins og ég sagði áðan, að hæstv. ríkisstj. hefði gert gangskör að þessu, ef hún hefði yfirleitt verið á þeim buxunum að lækka álögur, að lækka skatta og tolla. En það er nú öðru nær en svo sé.

Af þeim ástæðum, sem ég hef greint, finnst mér óeðlilegt að lækka skattaprósentuna, sem verður að sjálfsögðu að álíta eitt aðalatriði þessa máls. Ég færi sem sagt fram þessi aðalrök: 1958 var skattur á félögum lækkaður stórkostlega, og skattur félaga til ríkisins hefur ekkert vandamál verið í atvinnurekstrinum siðan, þ6 að útsvörin hafi verið það. Með þeirri löggjöf er félögum hér gert að greiða til ríkisbúsins miklu minna en tíðkast í nágrannalöndum okkar, þótt álögur á almenning hér séu vafalaust miklu hærri en þar. í þriðja lagi sýnist mér þessi lækkun ekki samrýmast þeim skatti, sem einstaklingum er ætlað að greiða. í fjórða lagi finnst mér þessi breyt, ekki koma til mála, þegar haft er í huga, að núverandi ríkisstj. hefur beitt sér fyrir taumlausari tolla- og skattaálögum á almenning í landinu en nokkru sinn hafa áður þekkzt.

Þá kem ég að öðrum meginþáttum málsins. Það eru fyrningarreglurnar. Að sama skapi sem mér sýnist með öllu óeðlilegt að lækka sjálfa skattprósentuna, sýnist mér eðlilegt að endurskoða Þau möt, sem fyrningarafskriftirnar eru byggðar á. Núverandi ríkisstj. hefur beitt sér fyrir algerri verðbyltingu í landinu á tveimur árum. Hún hefur framkvæmt tvær gengislækkanir og mokað á sölusköttum og nýjum tollum, þannig að verðlagið í landinu hefur tekið gjörbyltingu á tveimur árum. Og þótt ekkert hefði komið annað til heldur en þetta, hefði verið eðlilegt að endurskoða matið á eignum til fyrningarafskrifta. Nú hafði átt sér stað talsvert veruleg verðhækkunarþróun áður, eins og kunnugt er, og kemur það til viðbótar. Sýnist mér því alveg eðlilegt, að endurmat fari fram á þeim eignum, sem ekki hafa enn þá verið afskrifaðar til fulls. Reglurnar um þetta í frv. eru að vísu dálítið óljósar, en ég skal ekki fara út í það hér. En ég er fylgjandi þeirri meginstefnu, sem þar kemur fram, því að ég tel það mjög þýðingarmikið atriði, að hvorki félög né einstaklingar greiði skatta af öðru en raunverulega hreinum tekjum. Þess vegna er ég fylgjandi því, að reynt sé að koma þessu þannig fyrir, að bæði félög og einstaklingar geti dregið frá tekjum sínum það, sem segja má að sé raunverulegur kostnaður, þar með taldar fyrningar og afskriftir. Og þá náttúrlega verður að játa, að það er ekki fullnægjandi að draga frá fyrningarafskriftir af gömlu, gjörsamlega úreltu verði á eignum, en æskilegt að draga frá fyrningarafskriftir af því verði eigna, sem nærri er sanni. Það er mjög erfitt að koma slíku fyrir, þar sem verðbólguþróun er og verðlagsbreytingar verða miklar. En mér sýnist rétt, að þetta endurmat fari fram núna, vegna þeirrar verðlagsbyltingar, sem orðið hefur ofan á þær verðbreytingar, sem áður höfðu átt sér stað.

Þá er gert ráð fyrir því í þessu frv. að draga úr varasjóðsfrádrætti útgerðarfélaga og samvinnufélaga. Þessu er ég algerlega mótfallinn. Varðandi útgerðarfélögin vil ég segja, að Það verður tæplega um það deilt, að útvegur er áhættumesti atvinnuvegurinn. Það er þess vegna alveg eðlilegt, að sérreglur gildi um útgerðarfélögin að þessu leyti, að þau hafi möguleika til að draga meira frá, leggja meira í varasjóð en önnur félög. — Varðandi samvinnufélögin er það að segja, að þau eru ekki sambærileg við nein önnur félög að þessu leyti. Varasjóðir hlutafélaganna eru eign hluthafanna — persónuleg eign hluthafanna, og ef félag er leyst upp t.d., eins og verður nú miklu auðveldara að gera, eftir að búið er að innieiða nýjar lagareglur um fríhlutabréf og þvílíkt, geta eigendurnir fengið eignir félaganna, þar með varasjóðina, til einkaafnota og frjálsrar ráðstöfunar. En eignir og varasjóðir samvinnufélaganna eru allt annars eðlis, því að þessar eignir geta aldrei orðið persónulegar eignir félagsmannanna. Félagsmennirnir geta aldrei fengið varasjóði félaganna til neinnar ráðstöfunar. Ef samvinnufélag er lagt niður, er alls ekki leyfilegt að skipta varasjóðnum upp, heldur verður að geyma varasjóðinn og leggja hann til nýs samvinnufélags, sem hefði sams konar verkefni og það, sem niður var lagt. M.ö.o.: Þær eignir, sem safnast í varasjóði samvinnufélaganna, eru hreinlega eins konar stofnfé, sem leggst fyrir í því byggðarlagi, sem félögin starfa í. Og þetta fjármagn getur aldrei orðið einstaklingseign og aldrei til persónulegrar ráðstöfunar fyrir neinn.

Af Þessum ástæðum hafa verið höfð sérákvæði um varasjóði samvinnufélaganna. Og það er auðvitað alveg óeðlilegt, að Það gildi nákvæmlega sama um þessa sjóði, sem eru myndaðir þannig í almenningsþágu í byggðarlögunum, og um einkagróða, sem menn geta fengið til persónulegrar ráðstöfunar, ef þeim svo býður við að horfa. En það er svo að sjá, að hæstv. ríkisstj. hafi alls ekki áttað sig á þeirri sérstöðu, sem samvinnufélögin hafa að þessu leyti. Ég vil því mæla á móti því, að dregið verði úr varasjóðshlunnindum samvinnufélaganna.

Það er annars ástæða til að benda á það hér, að í þeim upplýsingum, sem fram eru komnar um skattamál annars staðar, kemur það í ljós, að samvinnufélög borga yfirleitt miklu lægri skatta til ríkisins í nágrannalöndum okkar en Þau gera hér og hafa miklu meiri sérstöðu í skattamálum en þau hafa hér, því að nú hafa þau í raun og veru eftir þær lagabreytingar, sem orðið hafa undanfarið, nær enga sérstöðu hér. Það er að komast í það horf, að þau eru skattlögð hér alveg eins og venjuleg gróðafélög — félög, sem eru rekin í ágóðaskyni. þótt þau séu rekin alveg sem þjónustufyrirtæki fyrir fólkið og byggðarlögin og eignir Þeirra geti aldrei orðið til ráðstöfunar fyrir einstaklingana. Það virðist ríkja mikill skilningur í nágrannalöndunum varðandi sérstöðu samvinnufélaganna og skattaákvæðum hagað samkv. því, þannig að þau greiða yfirleitt lægri skatta annars staðar en Þeim nú er ætlað að gera hér. Ég nefni Þetta í leiðinni. En nú er um það að ræða, hvort það eigi að minnka varasjóðsfrádráttinn fyrir samvinnufélögin, og vildi ég mæla þessi orð gegn þeirri breyt., alveg eins og ég áðan mælti gegn því að minnka varasjóðshlunnindi útgerðarfélaganna.

Loks er svo einn þáttur í þessu, sem ég vildi minnast aðeins á nú við 1. umr. Það er breytingin á álagningarkerfinu. Það á að leggja niður skattanefndir og yfirskattanefndir, en ætla skattstjórum og umboðsmönnum skattstjóra í einstökum hreppum og kauptúnum að leggja skattinn á. Ég er mjög dauftrúaður á, að þetta verði til sparnaðar. Ég held, að það sé mikil hætta á, að þetta verði til þess, þegar fram líða stundir, að gera kerfið miklu dýrara en það hefur verið. Það má vera, að allra fyrst kynni að koma fram af þessu einhver sparnaður. Ég held þó, að það mundi fljótt sækja í það horf, að þetta verði miklu dýrara. Við skulum bara gera okkur grein fyrir því, að mjög fljótlega verður þetta þannig, að fyrir utan þessa nýju skattstjóra, sem hæstv. ráðh. vill lögfesta, þá verða undirskattstjórar í öllum kauptúnum landsins, sem mættu alveg eins heita því nafni. Og það er alveg áreiðanlegt, að þegar þessir menn verða komnir í þau störf að vera umboðsmenn skattstjórans, eða undirskattstjórar, þá koma upp skrifstofur á vegum þessara manna, alveg áreiðanlega. Og síðan kemur aðstoðarlið, og verður vafalaust blómlegur vöxtur kringum þetta, þegar fram líða stundir. Ég efast ekkert um það, að þannig verður Þetta, þó að það kunni fyrst að koma fram eitt eða tvö ár einhver sparnaður í sambandi við þetta, á meðan hinir nýju aðilar eru að sækja í sig veðrið, ef svo mætti segja. Þegar fram líða stundir, hefur þetta fyrirkomulag í för með sér útþenslu á skrifstofuverki við skattaálagningu. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að undirskattstjórarnir, t.d. í stærri kauptúnunum og sumum kaupstöðunum, verða fljótlega dýrari í rekstri en skattanefndirnar, sem fram að þessu hafa unnið þessi störf.

Ég skal náttúrlega ekkert um það segja, hvort þetta veitir meira öryggi fyrir réttum framtölum. Ég dreg mjög í efa, að þetta hafi nokkur áhrif í þá átt, en ég skal ekkert um það fullyrða. Það sýnir væntanlega reynslan, að einhverju leyti, að svo miklu leyti sem hægt er að sjá slíkt. En það er alveg ljóst, að í þessu frv. eru á hinn bóginn engin ákvæði, sem gera skattstjórum eða skattstarfsmönnum léttara að knýja fram rétt framtöl en áður hefur verið. Ég hef ekki komið auga á þau, nema síður sé. Það er fremur dregið úr aðstöðu til þess. En ég skal ekki fara út í Það. Ég vildi láta í ljós þá skoðun mína, að ég held því fari fjarri, að hér verði raunverulega stefnt til ódýrari starfsrækslu á skattakerfínu en verið hefur fram að þessu.

Í þessu sambandi vil ég líka aðeins drepa á, að í útsvarslagafrv. nýja, sem hér hefur komið fram og vísað héfur verið til nefndar í þessari hv. d., er gert ráð fyrir því að setja á fót framtalsnefndir í sambandi við útsvarsálagninguna í hverju byggðarlagi, sem koma með óbeinum hætti, að því er segja má, í staðinn fyrir skattanefndirnar.

Ég skal svo láta þessu máli mínu lokið, því að ég vildi aðeins drepa á meginþættina. Það eru auðvitað ýmis fleiri atriði, sem ástæða væri til að ræða, en það tel ég ekki að eigi að gera við 1. umr., og verður þetta allt vafalaust skoðað í nefndinni.