16.03.1962
Neðri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (1953)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér sýnist, að Þetta frv. feli fyrst og fremst í sér tvær höfuðbreytingar frá gildandi lagaákvæðum. Að vísu koma hér inn í mörg smærri atriði, en fyrst og fremst sýnist mér, að hér sé stefnt að Því að koma fram tveimur meginbreytingum. Hin fyrri er sú að lækka skatta á félögum í landinu, og til þess eru svo ákveðnar ýmsar ráðstafanir að koma þessu meginatriði fram. Og hitt meginatriðið, sem frv. felur í sér, er að umsteypa framkvæmdakerfinu varðandi framkvæmd skattamála, Þ.e.a.s. Því kerfi, sem byggt hefur verið upp varðandi álagningu á sköttum til ríkisins og að nokkru leyti innheimtu Þeirra. Þetta eru tvö meginatriðin, sem mér sýnist að felist í þessum nýja lagabálki. Ég vil víkja nú við 1. umr. málsins að nokkrum meginatriðum, sem snerta þessar tvær aðalbreytingar. Það er þá fyrst viðvíkjandi lækkun skatta á félögum.

Lækkun skatta á félögum á að ná með þessum hætti, að skattgjald félaga á að lækka úr 25%, sem verið hefur, í 20%, þannig að skattstiginn, sem beita á á tekjur félaga, á að lækka nokkuð. En vitanlega sjá menn, að þessi lækkun á skattstiganum gagnvart félögum mundi skammt draga, og því er vitanlega betur að gert til þess að koma fram því meginatriði í frv. að vinna að skattalækkun félaga. Og til þess er síðan ákveðið að gerbreyta fyrningarreglum frá því, sem nú hefur verið um langan tíma. Samkv. hinum nýju ákvæðum munu mörg félög í landinu fá aðstöðu til þess að draga frá tekjum sínum mjög verulega auknar fúlgur í formi nýrra fyrningarafskrifta, þar sem fyrningarnar eru raunverulega stórkostlega hækkaðar vegna nýs verðgildis, sem talað er um að sé komið á þau tæki eða þær eignir, sem fyrna á hjá félögunum. í þriðja lagi er svo gert ráð fyrir því, að félög í landinu megi borga út eða draga frá skattskyldum tekjum sínum útborgaðan arð, sem nemur 10%, í staðinn fyrir 8% áður. Þetta miðar auðvitað líka að því að lækka skatt félaga. Og í fjórða lagi er svo um það að ræða, að félög megi nú gefa út svonefnd jöfnunarhlutabréf, en mér sýnist, að slíkt leiði til þess, að félögin geti á þann hátt borgað út miklu meiri arð til hluthafa en áður hefur verið og þannig lækkað sínar skattskyldu tekjur með þessari leið. Þá er í fimmta lagi lagt til, að færa megi töp á milli ára yfir 5 ára tímabil í stað 2 ára tímabils, sem verið hefur áður. Öll þessi atriði miða að því, að félög í landinu greiði minni skatta til ríkisins af samsvarandi tekjum heldur en verið hefur. Þetta er vitanlega eitt meginatriðið, sem Þetta frv. byggist á, þ.e. að lækka skatta félaganna.

Þá er að víkja að því, hversu réttmætt sé að lækka skatta almennra félaga í landinu frá því, sem verið hefur. Það hefði vissulega verið fróðlegt að fá upplýsingar um það hér við þessar umr., hvað félögin í landinu, sem nú á að lækka tekju- og eignarskatt hjá, hafa greitt til ríkisins á undanförnum árum í skatta. Hvað er hér um mikla upphæð að ræða, sem á þessum rekstri hefur hvílt? Og hefur sem sagt hlutdeild Þessara félaga í skattgreiðslum til ríkisins verið með þeim hætti, að bein ástæða sé til þess að lækka greiðslur þeirra til ríkisins frá því, sem verið hefur?

Mér skilst, að allar skattgreiðslur, þ.e. tekjuskattur og eignarskattur, félaga í landinu muni hafa numið nú síðustu árin í kringum 40–50 millj. kr. Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið um það, hvernig skattgreiðslur félaga hafa verið hér í Reykjavík, en Þar skiptir það mestu máli, — um sundurliðun annars staðar á landinu er ekki að ræða samkv. því, sem skattayfirvöldin segja, — Þá eru þessar tölur þannig, að árið 1960 var álagður tekju- og eignarskattur í Reykjavík þannig, að einstaklingar báru Þá 28.9 millj. kr., en félög 26.2 millj, kr. Þetta voru þeir skattar, sem þessir aðilar áttu að bera til ríkisins fyrir tekjuárið 1959, en var lagt á á árinu 1960. Á árinu 1961 báru þessir sömu aðilar þessa skatta, það var sem sagt fyrir tekjur árið 1960: Tekju- og eignarskattur einstaklinga var þá í Reykjavík 32.4 millj., en tekju- og eignarskattur félaga var pá í Reykjavík 29.4 millj. kr. Þessar tölur eru að ýmsu leyti mjög athyglisverðar, sýnist mér, vegna þess að það átti að vera nokkur skilsmunur á milli áranna 1959 og 1960 í skattamálum eða í skattinnheimtu. Árið 1959 giltu hin eldri skattalagaákvæði, en um tekjur ársins 1960 giltu nýju ákvæðin, sem mörkuð voru af núv. ríkisstj. M.ö.o.: umskiptin urðu þessi hjá einstaklingum, sem átti nú að lækka verulega tekju- og eignarskattinn hjá, að fyrir árið 1959 urðu einstaklingar í Reykjavík að borga 28.9 millj. kr., en fyrir árið 1960 urðu þeir hinir sömu að borga 32.4 millj. kr., eða þar er hækkun um 3.5 millj. kr. þrátt fyrir allmikla skattalækkun, sem pá átti að verða hjá einstaklingum og varð nokkur. En hjá félögum voru þessar tölur aftur á móti þannig, að fyrir árið 1959 borguðu félögin 26.2 millj. kr., en fyrir árið 1960 29.4 millj, kr., eða hækkunin hjá félögunum var 3.2 millj, kr., svo að hlutfallið virðist ekki hafa breytzt ýkja mikið.

Þessar tölur sýna það líka, að hlutdeild félaga í skattgreiðslum til ríkisins er harla lítil, og það virðist vera, sem menn reyndar Þekkja mætavel, að félögin hafi haft fullan möguleika á Því, þó að skattstigum hafi ekki verið breytt hjá þeim á milli áranna 1959 og 1960, að breyta skattinum hjá sér sjálf, þó að ekki væri breytt skattstigum, og mun ég koma að því nokkru nánar síðar, hvaða möguleika félög hafa einmitt til þess fram yfir alla aðra, sem borga skatta til ríkisins, eða flesta aðra. Ég ætla, að þessar tölur sýni það, að hlutdeild félaga í landinu í skattgreiðslum til ríkisins sé ekki réttlát og að það hafi verið margt annað, sem var eðlilegra að gera í skattamálum okkar, eins og málin liggja þar, heldur en að fara að ívilna enn þá félögum í landinu frá skattgreiðslum.

Það hefur verið bent á það hvað eftir annað af ýmsum aðilum, úr flestum flokkum ætla ég, að mestu annmarkarnir á okkar skattalöggjöf væru einmitt þeir, að ýmiss konar rekstur í landinu, og Þá alveg sérstaklega rekstur í höndum félaga, hefði þá sérstöðu, eins og okkar skattakerfi væri uppbyggt og þó sérstaklega okkar skattaeftirlit allt, að geta smeygt undan verulegum fjárfúlgum af sínum raunverulegu tekjum, þannig að þær kæmu ekki fram til skattskyldra tekna. Við vitum, að t.d. verzlunarfyrirtæki hafa einkar góða aðstöðu með Þetta, að telja ekki fram raunverulega allar sínar tekjur. Það er mjög svipað að segja um ýmiss konar iðnrekstur, hótelrekstur, verktaka, útgerðarfélög og önnur félög, sem hafa lítið aðhald varðandi sitt bókhald og eru undir mjög litlu eftirliti með framtal sitt af hálfu skattayfirvalda í landinu.

Til dæmis um það, að ég er ekki einn um þessa skoðun, vil ég benda á, að fyrir stuttu bárust okkar þm. hér á borðin til okkar upplýsingar um sérstaka endurskoðun, sem sænskur prófessor hafði gert hér fyrir Iðnaðarmátastofnunina á skattgreiðslum íslenzkra fyrirtækja, en þessa endurskoðun framkvæmdi þessi sænski prófessor árið 1958. í þessari skýrslu segir m. a. prófessorinn á þessa leið, einmitt um þetta atriði, sem ég er nú að tala um, hinn sænski prófessor segir: „Ólafur Björnsson prófessor gaf þær upplýsingar í umræðum á Alþ. um frv., sem nefnt er í kafla f,“ — og hann er búinn að tala um áður í skýrslunni, —„að 20–25% af skattskyldum tekjum muni sennilega hafa verið dregið undan skatti. Skerpt framtalseftirlit ætti að líkindum að geta minnkað þennan undandrátt um a.m.k. helming,“ segir hinn sænski prófessor. Þau útgjöld, sem skerpt framtalseftirlit hefði í för með sér, ættu, hvernig sem á allt er litið, að vera vel ráðstafað fé. Prófessor Ólafur Björnsson, sem ég hygg, að hæstv. ríkisstj. vilji taka fullt tillit til í þessum efnum, hefur sem sagt slegið Því fram í umr. um skattamál á Alþ., að hann teldi, að 20–25% af raunverulega skattskyldum tekjum í landinu kæmi aldrei til framtals og væri aldrei skattlagt.

Ég minnist þess líka að hafa heyrt það hér í umr. á Alþ., að menn, jafnvel í hópi núv. ráðh. og dyggustu stuðningsmanna ríkisstj., hafi talað um, að samkv. ágizkun talnaglöggra manna mundi vera skotið undan af tekjum frá framtölum 500–600 millj. kr. á ári. Það vita allir, að þessi undanskot eiga sér stað í ríkara mæli í atvinnurekstrinum, í ýmiss konar rekstri, heldur en hjá launatekjumönnum í landinu. Það er Þannig frá málum gengið í okkar skattalöggjöf og varðandi okkar skattaeftirlit, að það má segja, að almennar launatekjur komi tiltölulega vel fram og þar sé ekki miklu undan skotið, þannig að skattstigunum er í öllum aðalatriðum að fullu beitt gagnvart launatekjumönnum. En bilunin í okkar skattakerfi hefur einmitt verið gagnvart rekstrinum. Það er vitað mál, að reksturinn hefur búið við þau sérhlunnindi, að þar hafa eigendur fyrirtækjanna verið svo að segja einir um að segja, hvað tekjurnar hafi verið miklar og hver útgjöldin hafi verið í hverju atriði fyrir sig, en eftirlit í því, hversu rétt hefur verið frá skýrt á framtölum þessara aðila, hefur verið fádæmlega lítið. Og ein ástæðan til þess einmitt, að gripið hefur verið til veltuútsvaranna, hefur einmitt verið Þetta, að reksturinn hefur komið þannig út á framtölum ár eftir ár, að þeir, sem þó hafa virzt geta haft allmikil umsvif, allmikinn rekstur með höndum; og virðast, þegar ákveðin uppgjör hafa farið fram, t.d. varðandi eignatalningu með vissu millibili í landinu, þá hefur komið í ljós, að þrátt fyrir sífelldan taprekstur þessara aðila á skattaframtölum frá ári til árs hafa þeir þrátt fyrir allt eignazt allálitlegar fjárfúlgur. Ég held, að þegar menn vita, að svona stendur á, þá sé það ekki hið brýna verkefni að lækka frá því, sem í gildi hefur verið, reglurnar um skattlagningu félaga eða hins almenna rekstrar. Hitt hefði verið sönnu nær, að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að skattayfirvöldin í landinu tækju nú öðrum tökum á framtölum þeirra, sem rekstur hafa með höndum.

Ég vitnaði hér fyrr í minni ræðu í þessa skýrslu hins sænska prófessors frá árinu 1958. En í þessari skýrslu hans segir hann einnig einmitt um þetta atriði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Skattayfirvöldin þurfa að fá aðstöðu til víðtækari rannsókna en nú er unnt að framkvæma á bókhaldi atvinnurekenda og bókhaldsfylgiskjölum. Þetta á einnig við um smáfyrirtæki og frjálsa atvinnurekendur, sem æskilegt er að fengju víðtækari bókhaldsskyldu.“

Hinn sænski prófessor segir enn fremur í þessari skýrslu:

„Ársreikningar hlutafélaga ættu, eins og í mörgum öðrum löndum, að vera opinber gögn, og setja ber í lögin um hlutafélög ákvæði um, hvernig gera skuli upp reikninga. Setja ber lagafyrfrmæli a.m.k. um stórfyrirtæki, að einn endurskoðenda skuli vera löggiltur endurskoðandi.“

Ekkert um þessi atriði er að finna í því skattalagafrv., sem hér liggur fyrir. Þar er gert ráð fyrir því, að framkvæmdin verði í öllum aðalatriðum í sams konar formi og hún hefur verið, enda vita allir, að sé á þessum málum tekið á réttan hátt, þá mundu skatttekjur ríkisins af ýmiss konar atvinnurekstri í landinu, stórlega hækka frá því, sem nú er. Ég álít, að miklu fremur hefði komið til mála að samþykkja sum þeirra ákvæða a.m.k., sem þetta frv. gerir ráð fyrir, ef jafnframt hefði verið ákveðið og það skýrt fram tekið hér í l. að taka upp þetta aukna eftirlit með framtölum, sérstaklega hjá Þeim, sem búa við sérstöðu nú og eru svo að segja einir til frásagnar um tekjur sínar og gjöld. Það er enginn vafi á því, að það er hægt að setja ýmsar reglur um það, að þeir, sem telja fram útgjöld hjá sér, eigi jafnframt að geta um Það í upplýsingum sínum til skattayfirvalda, til hvaða aðila þessi útgjöld hafa farið, og yrði þá hægt að rekja upphæðirnar áfram og sanna það, að tekjur ýmissa eru meiri en þeir hafa fram talið. Núna er þessu beitt gagnvart launþegum í landinu. Allir atvinnurekendur eiga að gefa upp nákvæmlega allt það kaup, sem þeir hafa greitt launþegum, og þannig er hægt að hafa eftirlit með því, hversu rétt framtal launþeganna er um tekjur þeirra. En það er hægt að koma þessu sama við í ýmsum greinum varðandi ýmiss konar rekstur í landinu, ef vilji er fyrir hendi. Hefðu verið gerðar ráðstafanir til þess að bæta úr þessu, þá hefði ég talið lítils um vert, þó að skattprósentan hjá félögum hefði verið lækkuð úr 25% niður í 20%. Þá skipti það ekki verulega miklu máli, ef það var búið að tryggja það áður með sérstakri endurskoðun með a.m.k. vissu millibili á bókhaldi ýmissa fyrirtækja í landinu, að framtal þeirra væri rétt. Þá var allt annað að slaka hér nokkuð til. En að veita þær tilslakanir til þessara félaga, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að óbreyttum ástæðum, það tel ég alveg fráleitt, því að á því er enginn vafi, að þau félög, sem hér um ræðir, bera tiltölulega minni hluta af skattbyrðinni hér á landi en í flestum öðrum löndum.

En þó að gert sé ráð fyrir nokkurri skattlækkun hjá félögum samkv. þessu frv., þá er, eins og hér hefur verið bent á af öðrum, þó ekki stefnt að því að lækka skatta almennt í landinu. Á því leikur auðvitað enginn vafi, að það, sem er að gerast í þessum efnum hjá okkur, bæði sem afleiðing af þessu frv., sem hér liggur fyrir, og fleirum, sem hér hafa verið á döfinni að undanförnu, er það, að verið er að breyta nokkuð til um skattinnheimtuna. Það er ekki verið að minnka heildarskattinnheimtuna af hálfu ríkisins, síður en svo, hún fer raunverulega sífellt vaxandi. En það er verið að innheimta skattana af öðrum en áður var gert, það er verið að flytja skattana til. Það er mergurinn málsins. Það er að vísu rétt, að skattar einstaklinga hafa verið lækkaðir nokkuð. En sú skattalækkun einstaklinga, sem framkvæmd hefur verið, hefur í aðalatriðum verið þannig, að mjög lágir skattar á almennum launatekjum voru í mörgum tilfellum felldir niður með öllu. (Forseti: Það er í ráði að fresta fundi kl. 4. Ég vildi spyrja hv. ræðumann, hvort hann eigi ekki allmikið eftir af ræðu sinni.) Jú, ég á nokkuð eftir. (Forseti: Þá verður fundi frestað og hefst að nýju kl. 5 í dag.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði komið að því í ræðu minni, að þó að eitt aðalmarkmið þeirra breyt. á skattalöggjöfinni, sem hér liggja fyrir, væri að koma fram skattalækkun hjá félögum, þá væri samt sem áður ekki um að ræða almenna lækkun á sköttum, sem landsmenn almennt fengju að njóta, heldur þvert á móti, að raunverulega er það svo, að skattheimtan hefur farið hækkandi — og það mjög hækkandi. Þegar hér er því stefnt að lækkun á sköttum félaga, þá er fyrst og fremst um að ræða tilfærslu á sköttum. Það er létt á einum, en gert hins vegar ráð fyrir því að innheimta skattana af öðrum. Ég hafði minnzt á það, að núv. ríkisstj. hafði að vísu komið fram nokkurri lækkun á beinum sköttum einstaklinga. Sú skattalækkun, sem þá var samþ. hér, var að vísu nokkur, og hún var, eins og ég sagði, í aðalatriðum þannig, að tiltölulega mjög lágir skattar á almennum launatekjum voru felldir niður, og svo, að allháir skattar hjá tekjuháum einstaklingum voru stórlækkaðir, eða m.ö.o., að sú skattalækkun, sem átti sér stað með breyt. á skattalögunum 1960, fól það raunverulega í sér að lækka fyrst og fremst beina skatta, tekjuskatt hjá alltekjuháum einstaklingum. Hjá almennum launatekjumönnum skipti þessi skattalækkun tiltölulega litlu máli. En nú er sem sagt komið að því, að nú er ætlazt til þess að lækka allverulega skatta ýmiss konar félaga, sem hafa, eins og ég hafði sýnt hér fram á áður í minni ræðu, þó sannarlega ekki borgað mjög háa skatta til ríkisins, þegar á heildina er litið, því að þeir hafa búið við sérstakar aðstæður varðandi framtöl og hafa í rauninni mjög getað ráðið því sjálfir, hvaða skatta þeir greiddu ríkinu, vegna Þess að skattaeftirlitið á framtölum þeirra hefur verið heldur lítið.

Ég býst við því, að þetta frv. leiði til nokkurrar lækkunar á þessum skattgreiðslum félaga til ríkisins. Kannske þær 40–50 millj., sem félögin í landinu greiða nú árlega í tekju- og eignarskatt til ríkisins, kannske tekst að lækka þessa upphæð um helming eða um 20–25 millj. kr. með þeim ráðstöfunum, sem þetta frv. felur í sér. En það skiptir þó í mínum augum ekki aðalmáli. Hitt skiptir miklu máli, ef áfram á að halda því skipulagi, sem verið hefur um það, að atvinnureksturinn hafi þannig að verulegu leyti sjálfdæmi um, hvað hann greiðir í skatta, vegna lélegs skattaeftirlits. En þó auðvitað dregur það nokkuð, ef þessi félög þurfa nú að greiða 20–25 millj, kr. minna en áður hefur verið með þeim nýju reglum, sem hér á að taka upp. En það er sýnilegt, að hæstv. ríkisstj. ætlar að gera meira fyrir þessa aðila en að lækka á þeim skattinn til ríkisins. Hún er líka með öðru frv., sem er mjög skylt þessu, en það er um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga, þar er hún einnig að vinna að því að létta veltuútsvörunum að verulegu leyti af ýmsum félögum í landinu, þeim félögum, sem hafa aðstöðu til þess að veita af sér hinu nýja gjaldi, aðstöðugjaldinu, sem á að koma í staðinn fyrir veltuútsvarið, og gera það gjald að raunverulegum söluskatti. Og afleiðing þess yrði auðvitað sú, að slík félög hafa losnað undan verulegum sköttum til bæjar- og sveitarfélaga og einnig fengið nokkra lækkun samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, á sköttum sínum til ríkissjóðs. Allt þetta sem sagt stefnir að því að lækka skatta almennra félaga frá því, sem verið hefur, þó að skattar Þeirra hafi verið tiltölulega lágir.

Það er greinilegt, að það er stefna hæstv. ríkisstj. að minnka sem mest hlutdeild beinu skattanna í heildarskattheimtunni í landinu og hækka að sama skapi hina óbeinu skatta. Þannig munu beinu skattarnir hafa breytzt frá árinu 1959 og nú til ársins 1962 þannig, að árið 1959 munu beinir skattar hafa verið um 20.7% af heildarskattheimtu ríkisins, en nú eru þeir áætlaðir aðeins 6.7% af heildarskattheimtunni. Þetta er í rauninni mjög athyglisvert, þegar það er borið saman við skattheimtuna í nálægum löndum, en þá kemur í ljós, að beinir skattar eru í nálægum löndum yfirleitt 25–35% af heildartekjum ríkissjóða þeirra landa, en hjá okkur er svo komið, að beinu skattarnir eru komnir niður í 6.7%. En sem sagt, á sama tíma og þetta gerist, þá vaxa neyzluskattarnir, eins og hér hefur verið rakið, bæði af mér og öðrum í þessum umr.

Þá er annað meginatriði þessa frv., sem ég átti eftir að ræða um, en það er sú breyt. á framkvæmd skattamálanna, sem gert er ráð fyrir í frv. Nú er gert ráð fyrir því að leggja niður hinar almennu skattanefndir, yfir- og undirskattanefndir, en skipta landinu í níu skattstjóraumdæmi. Og ég tók eftir því, að hæstv. fjmrh. tilfærði einkum tvennt, sem mælti með þessari breyt. Annað var það, að þessi breyt. mundi hafa í för með sér nokkurn sparnað, og hitt var, að meira samræmi mundi verða í framkvæmd skattamála en verið hefur. Ég verð nú að segja, að ég hef sjaldan heyrt minnzt á það, þegar skattamál hafa verið rædd á undanförnum árum, að menn kvörtuðu sérstaklega undan því sem stóru eða miklu vandamáli, að skattlagningin færi mjög misjafnlega fram á hinum einstöku stöðum á landinu, varðandi framkvæmd skattalaganna eða skattinnheimtunnar til ríkisins, að hvort heldur um væri að ræða einstaklinga eða félög, þá greiddu þau ekki skatta nokkuð með svipuðum hætti, hvort sem skatturinn hefði verið lagður á austur á landi eða hér í Reykjavík, skattur til ríkisins. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt fyrr kvartað um það, að mikið misræmi væri í framkvæmdinni að þessu leyti. Ég held því, að það sé miklu fremur uppfundin afsökun að koma fram með þetta sem ástæðu fyrir því, að þessi gerbreyting á nú að taka gildi. Nei, ég held, að það hafi ekki verið það, sem einkum hefur verið að, að hinar einstöku skattanefndir hafi framkvæmt skattalögin og reglugerðir þær, sem fylgt hafa skattalögunum, svo mjög mismunandi, enda hafa auðvitað verið yfirnefndir yfir skattanefndunum og síðan ríkisskattanefnd til að gæta að hinni almennu samræmingu.

Um sparnaðinn verður auðvitað erfitt að segja, hvernig það fer. Reynslan verður að skera úr í þeim efnum. En ég segi það sem mína skoðun, að ég hef enga trú á því, að sparnaður verði að þessu nýja kerfi, heldur Þveröfugt. Ég held, að hér verði um stóraukinn kostnað að ræða frá því, sem verið hefur, og það verði ekki hægt að komast hjá því með því að taka upp Þetta, nýja kerfi. Það er nú einu sinni svo, að viðast hvar á landinu verður nú líklega, eins og málum er háttað hjá okkur, að vinna að framkvæmd skattamála á tiltölulega stuttum tíma af árinu. Við miðum allt við ársuppgjör um áramót. Framtalið á að berast hinum opinberu aðilum rétt upp úr áramótum. Þá verður unnið í framtölum, þá verður reiknaður út skattur. Það er því venjulega nokkur annatimi upp úr áramótunum hjá þeim, sem hafa með framkvæmd þessara mála að gera. En hins vegar koma svo eyður í þetta starf, Þegar líður fram á sumar og haust, og þá er venjulega lítið að gera. En hvernig fer svo þetta, þegar búið er að ráða mikinn hóp af starfsmönnum ríkisins til þess að framkvæma bessa vinnu, auðvitað fastráðnum mönnum, hjá því verður varla komizt? Þá hygg ég, að ríkið kunni að sitja uppi með allmikið starfslið í allmarga mánuði á hverju ári, sem tiltölulega lítið verður fyrir að gera, nema þá að það eigi að færa út verksvið Þeirra verulega frá því, sem verið hefur. En hins vegar hefur skattanefndaformið verið þannig, að hægt hefur verið með þeim hætti að láta ýmsa menn heima í sveitarfélögunum annast þau störf til viðbótar við önnur störf fyrir mjög takmarkaða greiðslu, og þeir hefðu aldrei talið skattanefndarstörfin sem neitt fullnaðar- og fulllaunað starf af sinni hálfu. Meira að segja hefur þetta orðið reyndin með skattstjórana, sem hafa verið settir nú á síðustu árum á ýmsum stöðum á landinu. Þeir hafa auðvitað haft nokkuð mikið að gera í nokkra mánuði. Svo höfum við séð það, sem höfum búið í nánd við þá, að þeir höfðu ekki meira að gera, þótt þeir væru fastlaunaðir menn hjá ríkinu, en svo, að þeir gátu verið í mörgum fulllaunuðum embættum öðrum á staðnum jafnframt. Og auðvitað hefur ekki orðið neinn sparnaður að því á ýmsum stöðum, þar sem sett hafa verið á stofn skattstjóraembætti nú á síðustu árum, frá Því, sem áður var. Ég hygg, þegar nú á að stækka þetta kerfi til mikilla muna, að reynslan verði líka sú, að hér verði ekki um sparnað að ræða, heldur miklu fremur hitt, að hér verði um að ræða uppbyggingu á nýju starfsmannakerfi á vegum ríkisins, sem fljótlega muni verða æði dýrt.

Það, sem ég tel því vera höfuðatriðið eða vil segja sem aðalatriði við 1. umr. um Þetta frv., er þetta: Ég er andvígur því meginatriði í frv. að lækka skatta á almennum félögum. Ég tel, að þannig hafi verið haldið á framkvæmd skattamála gagnvart þeim hingað til, að Þau hafi borgað miklu minna en Þeim bar að borga í skatta til ríkisins, velflest, borið saman við aðra landsmenn eða aðra aðila í landinu. Og ég er á móti hinu aðalatriðinu í frv., sem er að setja á fót nýtt embættiskerfi eða breyta um framkvæmd skattalaganna. Þetta tel ég líka síður en svo til bóta og að þetta muni hafa stóraukinn kostnað í för með sér. Og svo er hitt, að ég tel, að það vanti alveg sérstaklega í frv. ákvæði um það, sem nauðsynlegast var af öllu að koma inn í okkar skattalög og framfylgja síðan vel á eftir. Ég tel, að Það vanti ákvæði í frv. um það að skerpa stórlega eftirlit með framtölum atvinnurekstrarins í landinu. Þetta er það, sem vantar í frv. Þetta er það, sem átti vitanlega að koma þar, Því að það liggur fyrir á þann hátt, sem varla verður um deilt, viðurkennt, eins og ég hef sagt hér áður í umr., af framámönnum í öllum flokkum, að það séu miklar tekjur á hverju ári, sem ekki komi til skatts, vegna Þess að framkvæmd skattamálanna er léleg og eftirlit með framtölum, einmitt félaga og atvinnurekstrar, er fádæma lélegt. Þessi atriði vantar í frv. En hinum tveimur aðalatriðunum, sem frv. hefur að geyma, er ég andvígur. En auðvitað er það svo, að telja má upp ýmis atriði, sem fram koma í frv., öll minni háttar, sem eru til bóta og eru leiðrétting á því, sem áður var. En ég sé ekki ástæðu til að fara sérstaklega út í það nú við 1. umr. málsins.