13.04.1962
Neðri deild: 91. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2335 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Birgir Kjaran):

Herra forseti. Mál þetta hefur verið rætt á allmörgum fundum í fjhn. deildarinnar, og hafa þangað verið kvaddir ýmsir, sem að samningu þessa frv. stóðu, menn, sem áttu sæti í þeirri nefnd, þar sem frv. var samið. Þá hefur og skattstjóri verið þar og veitt ýmsar upplýsingar ásamt fulltrúa sínum. Nefndin hefur klofnað í málinu. Það er efnislegur ágreiningur um stefnu og markmið frv., og mun minni hl. gera grein fyrir sínum sjónarmiðum og till. í því sambandi. Fyrir hönd meiri hl, vil ég hins vegar fylgja þessu máli úr hlaði.

Hér er um mikinn lagabálk að ræða, þar sem er um að ræða heildarendurskoðun á skattalöggjöfinni, tekju- og eignarskattinum, og hefur mikið verk verið lagt í að bera þetta frv. saman við eldri löggjöf. Skattakerfið var að dómi núv. ríkisstj. og stjórnarflokka orðið úrelt og að ýmsu leyti til trafala eðlilegri uppbyggingu atvinnulífsins í landinu og hafði beint lamandi áhrif á myndun fyrirtækja og aukningu framleiðslunnar og þar af leiðandi á batnandi lífskjör fólksins í landinu. Eitt af Þeim stefnuskráratriðum, sem núv. stjórn samdi um, var að endurskoða þessa löggjöf og gera á henni víðtækar umbætur. Ég geri ráð fyrir því, að í stjórnarandstöðunni hafi verið og sé líka vilji fyrir því að breyta hinni gömlu skattalöggjöf á ýmsa lund og fari þar sum sjónarmið saman, en önnur séu af eðlilegum ástæðum ólík. Því er ekki heldur að neita, að meðal stjórnarflokkanna er ekki litið sömu augum á öll atriði, sem lúta að skattalöggjöfinni, en hins vegar er þetta frv. niðurstaðan af langvarandi athugunum og undirbúningi á þessu máli.

Í þessu frv. er, svo sem kunnugt er, fjöldi nýmæla, sem ég ætla ekki að fjölyrða um. Mörg þeirra snerta atvinnureksturinn mjög og hafa geysilega mikla þýðingu, svo sem dreifing taprekstrar á fleiri áramót, endurmat á eignum fyrirtækja, nýjar fyrningarreglur, varasjóðir o.fl. Þá eru ýmis önnur atriði, sem lúta að öðrum sviðum þjóðlífsins og hafa þó verulega þýðingu og mikla, t.d. frádráttur námskostnaðar og gjafir til menningar- og mannúðarstofnana, svo að nokkuð sé nefnt.

Efnislega ætla ég ekki að rekja þetta frv. frekar, því að því voru við 1. umr. gerð svo ýtarleg skil af hæstv. fjmrh., að ég tel óþarfa að endurtaka það, sem þar var sagt. Hins vegar mun ég snúa mér að því að gera nokkra grein fyrir þeim brtt., er meiri hl. n. flytur á þskj. 748.

Um þessar brtt. er það að segja, að þó að Þær séu fluttar af meiri hl. einum, var það yfirlýst í n., að um margar þessar till. væri alger samstaða, að minni hl. gæti fallizt á þær, en vildi fá að gera fyrirvara í málinu, þar sem hann væri ekki samþykkur öllum till., og vildi auk Þess flytja ýmsar aðrar brtt. til viðbótar. Mikið af þessum till., sem við berum hér fram, eru aðeins orðalagsbreytingar, sem betur þótti fara á, ellegar skýrar þurfti að kveða á um hluti að okkar viti.

1. brtt. er við 6. gr. frv., sem lýtur að því, hvaða aðilar séu undanþegnir tekju- og eignarskatti. Það mun vera frá fornu fari, að meðal þeirra, sem eru undanþegnir, er talinn ríkissjóður. Þetta hefur staðið svo óbreytt við margar endurskoðanir laganna, en okkur fannst þetta vera löngu úrelt, hafi það nokkurn tíma haft tilgang, því að ríkissjóður er sá, sem tekjurnar fær, og því með eðlilegum hætti engin ástæða til þess að telja hann undan eða taka það fram, að hann sé ekki skattskyldur.

2. till. er við 9. gr. Þar er líka um orðalagsbreyt. að ræða, sem er til samræmingar og skýringar á öðrum atriðum frv. Það mun yfirleitt vera svo í þessu frv., að í staðinn fyrir bæjarfélög eru nefnd sveitarfélög. Það þykir þekja betur hugtakið, en til enn frekari glöggvunar vildum við þó bæta við, að Þessi ákvæði kæmu einnig við sjóði og annað, sem sýslufélög ættu.

Um 3. brtt. er það að segja, þar sem nefnd eru ýmis Þau atriði, sem frádráttarhæf eru, gjaldaliðir, og mun það af einhverjum mistökum hafa verið svo, að landsútsvörin féllu niður. En meining þeirra, sem frv. sömdu, var sú, að að um Þau gilti sama og um aðstöðugjaldið, að þau væru einnig frádráttarhæf, og er því þess vegna bætt þar inn í.

Um 4. liðinn er sú breyt. gerð, að eignarskattur er gerður samkv. frv. frádráttarhæfur, en eðli málsins samkv. þótti og eðlilegt, að eignarútsvörin hlutu sömu reglum, og hefur Þeim verið bætt í þennan lið.

Um 5. brtt., sem er við 13. gr., er það að segja, að við samanburð á eldri lögum kom í ljós, að eitt orð hafði fallið niður, sem ástæða þótti að taka fram og ætti að vera áfram í lögum, en það var varðandi styrktarsjóði. í frv. var aðeins rætt um iðgjöld launþega til stéttarfélaga, sjúkrasjóða, en styrktarsjóðunum sleppt, og bætum við þeim að nýju við.

6. brtt. er við 15. gr., og er þar viðbót, sem felld hefur verið niður í frv., en er algerlega samhljóða eldri lögum og við í n. vorum sammála um, að rétt væri að halda áfram.

7. brtt. sé ég ekki ástæðu til þess að fara orðum um. Það er bara tilvitnun í eina grem í viðbót, sem hefur fallið niður.

8. brtt. er varðandi skilgreiningu á ákveðnu hugtaki. Þar er talað um persónulega gripi. Okkur fannst þetta hugtak fullvíðtækt og orðuðum það á annan veg, sem er töluvert þrengri.

9. brtt. er við C-lið 22. gr., varðandi mat á skipum og öðru lausafé, þegar um sölu er að ræða, til skatts. Skattstjóri upplýsti, að sú regla, sem frv. gerir ráð fyrir, væri í algerri andstöðu við þann praxís, sem tíðkazt hefði, og óeðlileg, og í samráði við hann breyttum við þessu orðalagi nánast í það horf, sem það er, eftir því sem skatturinn hefur fram til þessa praktíserað það.

Þá er 12. brtt., sem er við 35. gr. frv. og lýtur að frestum. Þeir höfðu í þessu frv. allmikið verið styttir, og kom nm. saman um, að sú stytting væri óraunhæf og mundi aðeins leiða af sér eilífar undanþágur, svo að við gerum hér till. um að breyta þessu nokkuð í svipað form og það hefur áður verið í lögum. En hins vegar er gert ráð fyrir, að ekki verði þá undanþágum beitt með sama hætti og áður hefur tíðkazt, svo að skatturinn ætti að geta unnið sitt verk á skemmri tíma, enda þótt sömu frestir haldist.

Þá er það 13. brtt., sem er við 40. gr. í henni er gert ráð fyrir í frv., að menn víðs vegar um landið geti aðeins skilað kærum sínum til skattstjóra. Hins vegar er reiknað með, að skattstjórar hafi í hverju sveitarfélagi umboðsmenn, og okkur fannst, að það mundi greiða fyrir og verða almenningi til þæginda, ef almenningi væri veittur kostur á því að skila þessum kærum sínum til umboðsmannanna, sem tækju við þeim í umboði skattstjórans.

Þá er það b-liður sömu tillögu. Hann lýtur einnig að því að gera þetta einfaldara í framkvæmdinni heldur en frv. hefur gert ráð fyrir. Samkv. frv. var gengið út frá því, að öll skattaframtöl á landinu yrðu send til ríkisskattstjórans hér í Reykjavík, sem ætti að yfirfara þau. Að okkar viti mundi þetta hafa kostað geysilegt og óþarft skrifstofubákn, því að vitaskuld getur skattstjóri tekið sýnishorn af skattaframtölum hvenær sem hann óskar, og ég tala nú ekki um, að með eðlilegum hætti mundi hann fá öll þau framtöl, sem kærð væru. Við teljum, að með þessu atriði muni sparast verulega í kostnaði og framkvæmd kerfisins öll verða eðlilegri.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þessar brtt., en meiri hl. n. vill mæla með því, að frv. verði samþ. með þessum breyt., sem ég hér hef rakið.