13.04.1962
Neðri deild: 91. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2339 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fram. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Með þessu frv. er lagt til, að sett verði heildarlög um tekjuskatt og eignarskatt, en þau munu ekki hafa verið gefin út í einu lagi alveg nýlega, en hins vegar nokkrar breytingar á þeim gerðar, og eru að stofni til frá 1954. Helztu breyt. á skattalögunum, sem felast í þessu frv., eru þær, að gert er ráð fyrir að breyta mjög til um framkvæmd skattalaganna. Það er lagt til, að skattanefndir verði lagðar niður og í stað þeirra komi skattstjórar í viðlendum skattaumdæmum. Önnur aðalbreytingin á skattalögunum, sem hér er gert ráð fyrir, er sú að lækka nokkuð skatta á félögum. Þetta virðist mér vera helztu breyt., sem hér eru á ferð.

Eins og fram kom hjá hv. frsm. meiri hl. fjhn., erum við nm. ekki allir á einu máli um afgreiðslu málsins. Ég hef skilað sérstöku nál. um frv., og vænti ég þess, að því verði útbýtt á fundinum, áður en langt líður. Það mun ekki vera komið enn úr prentsmiðjunni. Ég hef einnig lagt fram brtt. við frv. á þskj. 752, og afstaða mín til frv. í heild fer eftir því, hverja afgreiðslu þær brtt. fá hér í deildinni.

Eins og ég gat um áðan, hafa oft verið gerðar breytingar á skattalögunum að undanförnu. Á fimmta tug þessarar aldar, 1940–1950, voru beinir skattar hér háir, svo að þeir hafa ekki í annan tíma hærri verið. En á árunum 1950–1958 voru gerðar ýmsar breyt., sem yfirleitt voru til lækkunar á þessum sköttum. Ég get aðeins nefnt það, að árið 1950 voru sett lög um lækkun skatta á lágtekjum. 1954 var sparifé gert skattfrjálst og skattar einstaklinga lækkaðir verulega, um 29%. Þá var veitt nokkur frádráttarheimild frá tekjum fiskimanna, og síðar var sá frádráttur aukinn. Árið 1956 var tekjuskattsviðauki félaga felldur niður, og á næsta ári, 1957, var enn lækkaður skattur á lágtekjum. Árið 1958 var svo sett sérstök löggjöf um skattgreiðslur félaga. Þá var horfið frá stighækkun á tekjuskatti félaga, en lögfest jöfn skattaprósenta af skattskyldum tekjum þeirra, 25%. Einnig var sama ár gerð breyt. á l. varðandi skattgreiðslur hjóna, þegar bæði vinna fyrir skattskyldum tekjum, og var þessi breyt. til lækkunar á sköttum þeirra.

Nú er lagt til, að skattgreiðslur félaga verði enn nokkuð lækkaðar. Ég sé ekki ástæðu til að gera það. Síðan l. var breytt 1958 viðkomandi skattgreiðslu félaga, hafa skattarnir til ríkisins ekki verið neitt vandamál fyrir félögin. Það, sem hefur þjakað atvinnureksturinn, bæði félaga og einstaklinga, eru veltuútsvörin, sem bæjar- og sveitarfélög víða hafa beitt og það mjög harkalega á ýmsum stöðum. Þetta hefur hvílt ákaflega þungt á atvinnurekstrinum, bæði hjá félögum og einstaklingum. Á þessu verður nokkur breyt. með l. um tekjustofna sveitarog bæjarfélaga, sem líklegt er að fái afgreiðslu á þessu þingi.

Eitt ákvæði þessa frv. er um það að heimila atvinnufyrirtækjum að láta endurmeta fyrningarhæfar eignir og breyta bókfærðu verði þeirra til þess að geta reiknað meiri afskriftir en nú er. Ég tel, að þetta sé sanngjarnt, einkum með tilliti til þess, að verð allra atvinnutækja hefur hækkað svo gífurlega mikið nú síðustu missirin, og sama er að segja um byggingarkostnaðinn, hann hefur hækkað ákaflega. Hins vegar er allt í óvissu um, hvernig reglur verða um þetta settar. Samkv. frv. á það að verða reglugerðarákvæði, bæði um endurmat eignanna og einnig um fyrningarnar. Þannig hefur það líka verið undanfarið, að fyrningarnar hafa verið ákveðnar af hinum einstöku eignum með reglugerð. En það hefur vitanlega mjög mikið að segja, að þessar reglur verði sanngjarnar og hófsamlega úr garði gerðar, og verði það gert, þá tel ég, að þetta ákvæði muni verða til bóta. Félög njóta nú samkv. gildandi lögum sérstakra varasjóðshlunninda og hefur svo verið um alllangt skeið. Nú eru þessi ákvæði þannig, að hlutafélög, önnur en útgerðarfélög, mega draga frá hreinum tekjum sínum 1/5 og leggja þá upphæð í varasjóð, og reiknast þá ekki skattur af þeim hluta teknanna. Hlutafélög, sem hafa sjávarútveg sem aðalatvinnurekstur, mega á sama hátt draga frá 1/3 af sínum tekjum í varasjóði skattfrjálst, og sömu ákvæði gilda um samvinnufélögin. Þetta verður að hafa í huga, þegar menn vilja gera sér grein fyrir raunverulegri skattabyrði félaganna. Nú er það þannig, eins og ég gat um áður, að félög greiða 25% í tekjuskatt af skattskyldum tekjum. Þegar litið er til þessa frádráttar í varasjóðinn, þá má segja, að skattgreiðslur hlutafélaganna séu nú raunverulega 20% af hreinum tekjum, en skattgreiðslur útgerðarfélaganna og samvinnufélaganna 162/3%. Þessar skattaprósentur má miða við t.d., þegar skattgreiðslur félaga hér eru bornar saman við það, sem tíðkast í öðrum löndum.

Í nál. hv. 1. minni hl. fjhn. Ed. á Þskj. 341 er gerður nokkur samanburður á skattgreiðslum hjá félögum hér og í nágrannalöndunum. Þar er skýrt frá því, hvaða skattur er reiknaður af tekjum félaga í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Bretlandi, og vil ég vísa til þess, sem þar segir um þetta. Þar kemur fram, að tekjuskattur félaga til ríkisins er hærri í þessum löndum en hann er nú hér á landi, Ég sé ekki ástæðu til, að skatturinn sé enn lækkaður á félögunum hér. Samanburðurinn við næstu lönd sýnir, að félögin búa hér við lægri skattaprósentu á tekjum en hjá nágrönnum okkar. Og ég tel einnig rétt að líta á það, hvernig búið er að einstaklingum hvað þetta snertir. Nú er það svo um tekjuskatt einstaklinga, að skattaprósentan hjá þeim fer upp í 25%, Þegar tekjur að frádregnum persónufrádrætti komast yfir 70 þús. og af tekjum einstaklinga, sem eru umfram 90 þús., fer skattprósentan í 30%. Ég tel eðlilegt að hafa þetta í huga, þegar rætt er um að lækka félagaskattana. Auk þess má auðvitað benda á það í þessu sambandi, að að undanförnu hafa hinir óbeinu skattar hér verið hækkaðir alveg gífurlega og þeir hvíla mjög þungt á almenningi. Ég tel því, að félögin séu að því er skattgreiðslur snertir betur sett nú en einstaklingar, þó að sú lækkun verði ekki gerð, sem hér eru till. um.

Í frv. er gert ráð fyrir því að lækka varasjóðsfrádráttinn hjá útgerðarfélögum og samvinnufélögum. Ég tel ekki ástæðu til að gera það. Útgerðarrekstur er áhættusamari atvinnuvegur hér en flest annað, sem menn taka sér fyrir hendur. Og ég tel það mjög eðlilegt, að þau félög, sem hafa sjávarútveg sem aðalatvinnurekstur, hafi rýmri heimildir til varasjóðsfrádráttar en önnur hlutafélög. Þá tel ég það einnig fyllilega réttmætt, að samvinnufélögin njóti áfram rýmri heimildar til varasjóðsfrádráttar en hlutafélögin. Samvinnufélögin eru mjög frábrugðin öðrum félögum á margan hátt. Um varasjóði þeirra gildir það, að þeim verður aldrei úthlutað til einstaklinga. Hins vegar er það kunnugt, að önnur félög geta skipt varasjóðum sínum og öðrum eignum á milli hluthafa eða félagsmanna, þegar þeim býður svo við að horfa eða þau hætta rekstri. Þá er einnig á það að líta, að samvinnufélögin eru opin öllum á félagssvæðinu, sem þar vilja gerast félagsmenn. Það er allt öðruvísi með önnur félög, t.d. hlutafélögin, þau eru lokuð félög yfirleitt, og það er lítið um það hér hjá okkur, að hlutabréf gangi kaupum og sölum.

Ég tel af því, sem ég hef nú nefnt, að það sé sanngjarnt, að bæði útgerðarfélögin og samvinnufélögin haldi þeim varasjóðshlunnindum óskertum, sem þau nú hafa. Á hinn bóginn tel ég ekki ástæðu til að auka varasjóðshlunnindi hjá öðrum félögum, eins og gert er ráð fyrir í frv. Það er lagt til í frv., að þau fái eftirleiðis að draga frá hreinum tekjum 1/4 sem varasjóðstillag í staðinn fyrir 1/5 áður.

Þegar hæstv. núv. ríkisstj. lagði fram á Alþ. frv. sitt um efnahagsmál snemma árs 1960, gaf hún þá yfirlýsingu, að hún mundi beita sér fyrir breyt. á skattalögum og afnema skatt af almennum launatekjum, eins og það var nefnt. síðar á sama þingi bar stjórnin fram frv. um breyt. á skattalögunum, og var sagt í aths., sem því fylgdu, að með því væri ríkisstj. að efna þetta fyrirheit um að afnema tekjuskatt á almennum launatekjum. Þetta var ósköp fallegt, leit vel út. Það var athugað, þegar það mál lá fyrir, hver áhrifin mundu verða af Þessari breyt, á skattalögum, og útreikningar um það eru í Alþingistíðindum frá þeim tíma. Þar var sýnt fram á það t.d., að hjón, sem höfðu tvö börn á framfæri sínu og höfðu 50 þús. kr. nettótekjur, fengu niður felldan tekjuskatt, sem nam 344 kr. En önnur hjón, sem höfðu líka tvö börn fram að færa, en höfðu 150 Þús. kr. nettótekjur, fengu lækkun á tekjuskatti, sem var eitthvað á 15. þús. kr. Það kom þannig í ljós, að þetta frv. var ekki að aðatefni til um það að létta skatti af almennum launatekjum, eins og það var kallað, heldur hafði það margfalt meiri áhrif í þá átt að létta skatta hjá þeim, sem tekjuhærri voru, og mest hjá hinum tekjuhæstu einstaklingum.

Það hefur oft verið minnzt á þetta síðan, þetta afnám tekjuskatts af almennum launatekjum. Það hefur ákaflega oft verið minnzt á þetta af hæstv. ráðh. og öðrum talsmönnum núv. stjórnarflokka, skrifað um þetta afrek, að stjórnin hafi þarna verið góð við mennina, sem hafi almennar launatekjur, skrifað um þetta í blöð og talað um þetta. Og nú í vetur, þegar hæstv. fjmrh. lagði þetta frv. fyrir, sagði hann enn söguna um afnám skattsins á almennum launatekjum í báðum deildum þingsins. Og hæstv. ráðh. flytur þessa sögu alltaf hátíðlega og snoturlega, eins og honum er lagið. En það er eitt, sem alltaf vantar í ævintýrið eða söguna hjá talsmönnum stjórnarflokkanna. Þeir sleppa alveg stóra kapítulanum úr sögunni um skattana og hinar almennu launatekjur. En stóri kapítulinn í sögunni, sem þeir ganga fram hjá, er um breytingarnar á hinum óbeinu sköttum, hann er um hækkunina á tollum og aðflutningsgjöldum öðrum og söluskatti, svo að það vantar ákaflega mikið á, að sagan sé hálfsögð hjá þeim um skattana og almennu launatekjurnar.

Ég vil með örfáum orðum reyna að bregða upp mynd af þessu. Ef við athugum ríkisreikninginn árið 1959, þá sést, að það ár hafði ríkið tekjur af vörumagnstolli, verðtolli, innflutningsgjöldum og söluskatti 520.8 millj. kr. um það bil. En á fjárlögum fyrir árið, sem nú er að líða, er gert ráð fyrir því, að sams konar gjöld, tollar og söluskattar, nemi á þessu ári 1228 millj. kr. Hækkunin er 708 millj., eða tollar og söluskattar hafa allmiklu meira en tvöfaldazt á þessum þremur árum, á stjórnartímabili núv. hæstv. stjórnar. Ef við hins vegar lítum á ríkisreikninginn 1958 og athugum, hvað tekjur af þessum tollum og söluskatti voru þá, voru það 478 millj., svo að munurinn er nokkru meiri, ef borið er saman við Það ár. Þessar álögur hafa sem sagt hækkað frá því 1958 um 750 millj. kr. Það er 157% hækkun.

En hvað er þá um tekjuskattinn? Hvaða breytingar hafa orðið á honum? 1959 voru tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti 162.8 millj. Nú er áætlað, að þær muni verða 1962 95 millj. Það munar 67 millj. Málið er því þannig: Síðan 1959 hefur tekjuskatturinn lækkað um 67 millj., og að langsamlega mestu leyti hefur það farið til þeirra tekjuhærri í þjóðfélaginu. En á sama tíma hefur stjórnin og hennar stuðningslið hækkað tolla og söluskatta um 708 millj. Það er 10–11 sinnum meira en lækkunin á tekjuskatti. En þessi gjöld jafnast með nokkuð öðrum hætti niður á Þjóðfélagsþegnana en tekjuskatturinn. Við álagningu þeirra er ekki farið eftir tekjum manna og fjárhagsaðstöðu yfirleitt. Neyzluskattarnir og aðrar slíkar álögur á nauðsynjar almennings hvíla með miklum þunga á þeim, sem hafa stórar fjölskyldur, leggjast þyngst á þau heimili, hvað sem efnahag og tekjum líður. Við vitum, að Það er Þannig nú, að hver biti og sopi er skattlagður með þessum hætti. Reyndar var það þannig, þegar stjórnarflokkarnir samþykktu lögin um söluskatt núna fyrir tveimur árum, þá var sett í þau, að nýmjólk skyldi verða undanþegin söluskattinum. En nú í vetur hefur stjórnarliðið komizt að þeirri niðurstöðu, að við svo búið mátti ekki standa. Og þess vegna er nú fyrir örfáum dögum búið að samþykkja frv., sem m.a. felur í sér það að leggja söluskatt á mjólkursopann.

Svona lítur þetta út, þegar maður athugar söguna um skattana og almennu launatekjurnar án þess að sleppa úr henni stóra kapítulan um. Þetta eru staðreyndir, sem ég hef hér bent á, og Þær haggast ekki vitund við það, Þó að hæstv. fjmrh. og fleiri góðir upplesarar haldi áfram að segja ævintýrið eða söguna um skattinn og almennu launatekjurnar. Ég hygg nú líka, að það sé þannig, að nokkuð margir af flokksmönnum ráðherranna séu að vaxa upp úr því að taka nokkurt mark á ævintýrinu. Þeir hafa rekið sig á hinn kalda raunveruleika.

Þetta, sem hér liggur fyrir, að lækka nokkuð skatta á félögum, skatta, sem taka á af tekjuafgangi þeirra, er vitanlega í fullu samræmi við skattamálastefnu núv. hæstv. ríkisstj., að yfirgefa sem mest hina beinu skatta, en þyngja stöðugt hina óbeinu, tolla og söluskatta. Og eins og ég gat um áðan, hefur verið haldið áfram í þessa áttina á þessu þingi. Það má segja, að það sé í ætt við Þessa stefnu að gera upptækar á annað hundrað millj. hjá sjávarútveginum árið sem leið, sem koma á gjaldendur alveg án tillits til þess, hvernig fjárhagsaðstaða þeirra var og efnahagur, og vitanlega í samræmi við þessa stefnu hefur verið lagður nýlega alveg sérstakur launaskattur á bændur landsins, einnig alveg án tillits til fjárhagsástæðna hjá þeim. Þannig eru uppáhaldsskattar hæstv. stjórnar, að þeir eru lagðir á með þessum hætti.

Eins og ég nefndi í upphafi, er einn meginþáttur þessa frv. breyting á framkvæmd skattamála, þ.e. að leggja niður skattanefndirnar í öllum sveitarfélögum og setja skattstjóra yfir víðlend, stór umdæmi í staðinn. Þeir setja náttúrlega upp sínar skrifstofur með skrifstofuliði. Það er vitanlega ekki gott að segja um það fyrir fram, hvernig reynslan af þessari breyt. muni verða, ef hún verður gerð. En ég óttast það allmjög, að þetta verði á ýmsan hátt óhentugra og þyngra í vöfum. Þessi skattaumdæmi verða ákaflega stór, og Það verður fyrir marga skattþegna um langan veg að sækja til skattstjóranna og erfitt um samband við þá, allt öðruvísi en var, þegar voru skattanefndir í hverju sveitarfélagi og yfirskattanefnd í hverri sýslu. Þetta verður allt að fara. Það er talað um, að með þessu muni ríkissjóður spara útgjöld. Ég er mjög dauftrúaður á það. Hugsanlegt er, að þetta yrði eitthvað í byrjuninni, ég veit það ekki, en ég er ákaflega hræddur um, að þarna aukist með tímanum allmjög starfslið og kostnaður, svo að sparnað verði þar ekki um að ræða. Ég tel því, að það sé ekki rétt að ganga frá þessu máli nú, heldur sé bezt að fresta því að gera þarna á nokkrar breytingar. Slík breyt. sem þessi snertir mjög sveitarfélögin, vegna þess að það er svo nátengt, álagning skatta til ríkisins og álagning gjalda til sveitarfélaganna. Og mér hefði fundizt það mjög eðlilegt, að sveitarstjórnir yfirleitt hefðu fengið að segja sitt álit, áður en að þessu ráði væri hnigið.

Brtt. mínar á þskj. 752 eru ekki um mörg atriði. Þær eru um það, að varasjóðshlunnindi félaga skuli óbreytt standa, að skattur félaganna skuli einnig vera óbreyttur, og um það, að þrír kaflar úr frv., sá V.—VII., sem eru um þessa miklu breyt. á framkvæmd skattamála, þeir falli niður. Um þetta eru mínar brtt., og verði þær felldar, mun ég ekki sjá mér fært að greiða atkv. með frv.

Ég skal að síðustu aðeins segja það um þær brtt., sem hv. meiri hl. fjhn. flytur á Þskj. 748, að eins og hv. frsm. meiri hl. gerði grein fyrir, erum við í fjhn. sammála um þær flestar. Margar af þessum brtt. eru nánast leiðréttingar að okkar áliti á frv., en ekki um verulegar efnisbreytingar að ræða. Þannig eru margar þeirra.