13.04.1962
Neðri deild: 91. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2354 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nú í upphafi máls míns mega spyrja hæstv. forseta, hvort hann hugsar sér ekki að gefa hlé kl. 4, eins og venjulegt er. Ég mun ekki geta lokið mínu máli á þeim 5 mínútum, sem eftir eru, og þætti mér þá eðlilegra að byrja ekki á minni ræðu. (Forseti: Já, það var í ráði að halda fundi áfram og fresta honum eða ljúka honum kl. 5.30 í kvöld, og það er með hliðsjón af útvarpsumr., sem fara fram eftir kl. 8.) Eftir þessar upplýsingar þykir mér að sjálfsögðu rétt, að ég hefji mál mitt hér og skal þá starfa hér í kaffitímanum í þegnskylduvinnu, sem þó annars er ekki venja hér á Alþ., að halda áfram fundum í kaffitíma.

Ég var fjarverandi hér við störf í Norðurlandaráði, þegar þetta mál kom til 1. umr. hér í d., og gat því ekki tekið þátt í þeim umr., sem þá fóru hér fram um málið. Það eru tvær ástæður fyrir því, að ég get ekki látið hjá líða að lýsa afstöðu minni til þessa stóra og merka máls. Sú fyrri er sú, að ég fyrir rétt 10 árum bar fram till. um það í hv. Ed. að fella úr gildi skattalöggjöfina frá 1921 og afnema tekjuskattinn atmennt. Þessi till. þótti þá hrein fjarstæða, og ég man eftir því, að hv. meðþm. minn, núv. 1. þm. Norðurl. e., sagði þá í sinni ræðu, að hér væri um skemmtilega fjarstæðu að ræða, að láta sér detta það í hug að bera Það fram á Alþ. að fella úr gildi skattalöggjöfina. Samt sem áður hygg ég, að það séu mjög fáar till. á Alþ., sem hafa vakið almennt meðal þjóðarinnar jafnmikla athygli og þessi till. gerði þá og hefur gert æ síðan. Og till. sú, sem ég þá bar fram og var felld, er raunverulega meginorsökin fyrir því, að þetta frv. hér er til umr. í dag eða á þessu þingi, sem nú situr.

Nokkru síðar, árið 1955, var skipuð mþn. af þáv. hæstv. ríkisstj. Ég átti m.a. sæti í henni fyrir hönd Sjálfstfl. og e.t.v. eingöngu vegna þess, að ég hafði borið fram þessa till, og fært fyrir henni sterk rök, sem fólkið vildi hlusta á og tók að mörgu leyti gild, og það ekki einungis fólk úr röðum sjálfstæðismanna, og því síður, að Það væri einungis fólk úr röðum efnamanna eða eignarstéttarinnar, eins og hv. 3, þm. Reykv. minntist á áðan, heldur voru þetta raddir, sem komu þá úr öllum stéttum og engu síður úr verkamannastéttinni. Það er alveg nauðsynlegt að taka þessi mál til gagngerðrar athugunar. Ég bar þá till. fram í þeirri mþn. Hún fékk að sjálfsögðu ekki fylgi, og ég reyndi þá að hafa þau áhrif á störf n. og þær till., sem frá henni komu, að nálgast sem mest það atriði að milda skattalöggjöfina, og hafði þar náð töluverðum árangri, eins og þær till. bera með sér, sem þá voru samþ. á Alþingi.

Þegar þessi hæstv. ríkisstj. tók við völdum, sem nú situr, var það eitt af samningsatriðunum á milli þeirra flokka, sem styðja ríkisstj., að taka á ný til athugunar þessi mál, af því að það hafði ekki verið gengið nægilega langt árið 1955, og þá voru enn margar og háværar raddir einmitt frá alþýðumönnum um það að breyta enn verulega skattalöggjöfinni og í þá átt, sem ég hafði Þá gert till. um og ég hér hef lýst. Það var einnig skipuð mþn. í þetta mál, sem starfaði og undirbjó Það frv., sem hér er til umr. Og ég fékk enn sæti í þeirri nefnd. að sjálfsögðu vegna þeirrar till., sem ég hafði borið fram 1952, og vegna þeirra undirtekta, sem hún hafði fengið hjá þjóðinni.

Mitt fyrsta verkefni eða viðbrögð í n. var það að bera fram till. um það, mína gömlu till. um að afnema algerlega tekjuskattslögin, fella þau alveg úr gildi. Og ég er ekkert hikandi við að viðurkenna það, ekkert hikandi að færa fyrir því rök, þó að þau séu allt önnur en hv. 3. þm. Reykv. færði fram hér áðan fyrir sínu máli. Þessi till. náði ekki fram að ganga. Ég bjóst ekki heldur við því, að þeir menn, sem fjölluðu um það, hefðu enn þá þroskazt svo mikið í þessu máli, að þeir treystu sér til þess að fylgja því fullkomlega. En ég er jafnviss um Það, að miklu meiri hluti þjóðarinnar stendur enn um mína till. frá 1952 en jafnvel um þetta frv. Og það er það, sem hv. 3. þm. Reykv. færir fram hér í því máli. Þegar sú till. hafði verið felld að afnema að fullu lögin um tekjuskatt, þá bar ég fram varatill. um það að afnema að fullu tekjuskatt félaga í landinu, og skal ég á eftir færa fyrir því rök. Sú till. var einnig felld. Löggjöfin um tekjuskatt einstaklinganna er ekki mikið breytt frá því, sem var gert áður á þingi samkv. mínum till., eins og kunnugt er, en hins vegar nokkuð breytt ákvæðum um félögin, eins og ég skal koma nokkuð að. En þó einkum, eins og hér hefur verið bent á, er meginverkefni þessa frv. um framkvæmdir og hvernig það skuli framkvæmt og reglur um það, Þó að hins vegar séu þar allmiklar umbætur á sumum sviðum í þessum málum frá því, sem áður var.

Till. mín um að fella niður tekjuskatt eða gera hlutafélögin skattfrjáls var einnig felld í n. Þetta vakti á engan hátt neina andúð í samstarfi við n. Mér var það ljóst fyrir fram, að þetta mundi ekki verða samþ., og ég tók þar af leiðandi upp fullt samstarf við nefndina, eftir að mínar till. höfðu verið felldar, og lýsti því einnig yfir og lýsi því yfir enn, að ég er fylgjandi því samkomulagi, sem varð í n. um afgreiðslu mála, og mun því fylgja þessu frv. hér fram, eins og það liggur fyrir, þótt ég hefði óskað ýmis ákvæði þess á annan veg, eins og ég þegar hef tekið fram. Það er eins og venja er til um samstarf í nefndum, hvort heldur er utan þings eða innan, að þar þurfa menn að taka og gefa, og er það ekkert nýtt. Þegar menn hafa komið sér saman, er venjan að halda við það samkomulag, sem orðið hefur, sérstaklega ef því hefur verið lýst yfir, eins og var gert í þeirri n., að því var lýst yfir af öllum aðilum, að þeir fylgdu málinu í höfuðatriðum, eins og það kom frá n., og ég mun ekki heldur bregðast því samkomulagi. — Þó sé ég það, að tveir hv. nm., sem áttu sæti í mþn. og eiga einnig sæti í hv. Ed., hafa brugðizt þar um eitt atriði, og skal ég koma að því síðar, en það gefur mér ekki ástæðu til að bregðast því, sem ég hef tekið samkomulag um í sambandi við afgreiðslú þessa máls.

Að ég á sínum tíma og æ síðan hef lagt til að afnema tekjuskatt einstaklinga, kemur til af því, að reynslan hefur sýnt og sannað, að því minni skattur, beinn skattur á einstaklinga, því meiri fjárhagsmöguleikar fyrir viðkomandi aðila. Og ég hygg, að einmitt dæmið, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. tók hér áðan um aukningu á tollum og sköttum, hinum óbeinu gjöldum til ríkissjóðs, eigi ákaflega sterkan þátt í því, að það var linað á skattinnheimtu samkvæmt skattalögunum 1960, því að þegar menn voru ekki neyddir til þess að borga mest af sínum tekjum í ríkissjóð og bæjarsjóði og sveitarsjóði, eins og var, áður en lögunum var breytt, þá höfðu þeir sjálfir möguleika, nokkurt fé á milli handa, sem þeir gátu eytt eins og þeir vildu, og fóru þá með það í kaup á ýmsum þeim varningi, sem ríkissjóður tekur háa tolla af, og völdu sér þannig frjálst að greiða á þann hátt í ríkissjóðinn. Þeir, sem höfðu ekki á því möguleika eða ekki skap til þess að gera það, þeir létu það í banka eða í verðmætar eignir, og hvort tveggja var þjóðinni til betri framdráttar í efnahagsmálunum en ef það hefði verið tekið á þann hátt, sem áður var.

Í því sambandi vil ég einnig leyfa mér að benda á, að það ástand var orðið svo hér og er raunverulega enn í þessu landi, að fjölda manna, sem þurfa á því að halda, þurftu þá og þurfa enn að kaupa vinnukraft og eiga erfitt með að skapa sér hann, er gert það að ófrávíkjanlegu skilyrði enn í dag, krafa um það, að ekki sé gefið upp til skatts það, sem greitt er. Þetta er skýrasta sönnun fyrir því, að við erum á rangri leið, — gersamlega á rangri leið með Því að halda stighækkandi sköttunum á einstaklinga. Þetta skapar aftur á móti hitt, að þeir menn, sem taka laun sín, eins og embættismenn og ýmsir aðrir menn, þar sem ekki er hægt að dylja launagreiðslurnar, m.a. hjá félögum, sem verða að gefa upp, vegna þess að þau fá það dregið frá sínum kostnaði o.s.frv., þeir verða miklu harðar úti, þó að þeir hafi miklu minni laun, hvað þá heldur sömu laun, minni laun en hinir, sem á þennan hátt geta skotið sér undan skattskyldunni. Og mannlegt eðli er nú einu sinni þannig, að lög um skattana hér á Alþ., sem samin eru hér, og þótt það væri með öllum greiddum atkv., þau mundu ekki beygja þannig eðli mannsins, að hann hætti að gera tilraun til að svíkja skatt, ef hann getur haft af því einhvern ágóða. Og það getur hver maður farið í sinn barm í dag, sem eitthvað kemur nálægt atvinnumálum, hvort það er ekki rétt, sem ég staðhæfi hér, að það er enn þá knúið á mjög af þeim mönnum og engu síður af verkamönnum, hínum lágt launuðu mönnum, knúið á að leyna, ef mögulegt er, þeim tekjum, sem þeir hafa við vinnu sína, til þess að þurfa ekki að gefa þær upp. Þetta er ekki eingöngu vegna þess skattþunga, sem er til ríkisins, heldur kannske miklu frekar þess skattþunga, sem er til sveitarfélaganna, vegna þess að nú er hann reiknaður út einmitt eftir skattaframtali.

Þetta er ein ástæðan fyrir því, að ég hef í vaxandi mæli haldið því fram, barizt fyrir því, að tekjuskattur með stighækkandi gjaldi sé afnuminn, og tel, að það sé rétt stefna í skattamálum hjá hverri þjóð. Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að hér einmitt í Reykjavík var haldinn fundur fyrir ekki allmörgum árum á meðal fjmrh, allra Norðurlanda um þetta mál, þar sem það kom mjög fram, sérstaklega hjá fjmrh. Norðmanna, að þetta væri alveg hárrétt stefna, sem íslendingar hefðu bent hér á, en fengu hins vegar ekki samkomulag um þetta, og sérstaklega voru það Danir, sem vildu ekki taka upp samstarf um að fara inn á þessa braut. Ég hef hins vegar hvað eftir annað átt um þetta samræður við fjmrh. Norðurlandanna, þegar ég hef verið í Norðurlandaráði, og síðast nú m. a, við einn þekktasta hagfræðing Norðurlanda, próf. Ohlin í Svíþjóð. Og hann hefur hvað eftir annað látið í té undrun sína yfir því, hvað íslendingar séu framarlega í Þessu máli, á undan öðrum Norðurlandaþjóðum, einmitt í þessu máli, að fara meira frá beinu sköttunum og inn á hina óbeinu skatta, svo að ég þarf ekkert að bera kinnroða fyrir það að hafa komið fram með slíka till., sem er ekki einungis að fá vaxandi fylgi hér á Íslandi, heldur um öll Norðurlönd.

Að ég lagði enn meiri áherzlu á að fá skattfrelsi fyrir öll félög, hverju nafni sem nefnist, hvort heldur það væru samvinnufélög, hlutafélög eða sameignarfélög. kemur til af því í fyrsta lagi, að ég tel, að félag sé enginn skattaaðili út af fyrir sig. Skattaaðili er fyrst þeir eigendur félaganna, sem fá greitt út úr félögunum, annaðhvort laun eða arð, en ekki félagið sjálft. Félög almennt taka að sér verkefni til þess að leysa ýmis verkefni þjóðfélagsins, sem ekki verða leyst af einstaklingum. Þau verða að leysast annaðhvort af félagi, félagsheildum einhverra einstaklinga eða af ríkissjóði eða sveitarsjóðum. Og því fjársterkari félagsheildir sem ein þjóð á, því betur er hennar efnahagskerfi komið. Fyrir þessa grundvallarskoðun mína hef ég lagt það til, að öll félög væru skattfrjáls. Og ég skal í sambandi við Þetta leyfa mér að benda ykkur á eitt félag, sem er skýrasta táknið hér á Íslandi, sem er Eimskipafélag Íslands. Eimskipafélag Íslands var skattfrjálst í meira en 40 ár. Það var byggt upp fyrst af almenningi í landinu, þar sem hver maður lagði fram eftir sinni getu og sumir hverjir ekki nema 25 kr. En Það varð til þess að byggja Eimskipafélagið upp og taka íslenzkar siglingar í okkar hendur. Það var ekki þessu fólki að kenna, að þegar félaginu fór að ganga vel efnahagslega, þá voru það stjórnendur félagsins og kannske einnig með aðstoð eða afskiptaleysi ríkisvaldsins, sem lokuðu hlutafjársöfnun félagsins, sem aldrei skyldi verið hafa. Ef það hefði ekki verið gert, væri Eimskipafélagið enn í dag langsamlega sterkasti aðilinn í íslenzku athafnalífi og hefði getað tekið að sér að leysa margan þann vanda, sem ríkissjóður og bæjarfélög nú verða að leysa. Og ef ekki hefði verið skattfrelsi Eimskipafélagsins, meðan það var að byggja sig upp, þá hefði ekki orðið hér neitt Eimskipafélag, þá hefði það dáið út, alveg eins og önnur félög, sem hafa lifað nokkurn tíma, fallið svo niður, alveg sérstaklega vegna gildandi skattalaga á hverjum tíma. Ég skal ekkert segja um það, hvernig verður með Eimskipafélagið, eftir að búið er að semja lög um, að það skuli lúta sömu reglum og önnur félög í landinu, en ég tel, að það sé til óhamingju fyrir þessa þjóð að hafa ekki staðið utan um það að byggja þann félagsskap upp betur en gert hefur verið í síðari tíð, og tel, að þar hafi verið stigið víxlspor að taka aftur af því skattfrelsi. Þetta þykir mér rétt að láta koma fram hér við þessa umr.

Ég vil í Þessu sambandi leyfa mér að benda á, að skattalögin voru sett hér fyrst árið 1921. En allt fram að þeim tíma blómgaðist hér m.a. togaraútvegur, og þau félög stóðu ekki í neinum erfiðleikum fjárhagslega. En eftir að skattalögin voru sett og sérstaklega eftir að farið var að beita þeim harðneskjulega gagnvart fyrirtækjunum, þá smátt og smátt rýrnaði efnahagur Þessara félaga og endaði þannig, að enginn eða sárafáir einstaklingar vildu koma nálægt þeim. Og meginorsökin til þess er ákvæði skattalaganna frá 1921 og meðferð Þeirra alveg sérstaklega undir stjórn Framsfl. og fyrrv. hæstv. fjmrh. Eysteins Jónssonar, sem aldrei gat séð nokkurn eyri í friði hjá neinni stofnun eða neinum manni, nema því aðeins að reyna að klófesta í ríkissjóðinn.

Afleiðingin af þessu síðar varð sú, að fyrst urðu bæjarfélögin að taka á sig þessar skyldur. Þau urðu að taka á sig í vaxandi mæli að halda uppi togaraútgerðinni og stofna til bæjarútgerðar, sem fékk skattfrelsi á öllum sviðum, bæði til sveitar og ríkissjóðs, og voru Þannig sköpuð allt önnur lífskjör í landinu en hinum, sem áttu að starfa undir erfiðri og óviturlegri skattalöggjöf. Og endirinn er svo sá, að þegar þau voru að gefast upp, þá varð ríkissjóður að taka við og taka að sér allar byrðarnar, sem einstaklingarnir og félagsheildirnar urðu a0 gefast upp við vegna skattalaganna, beinlínis vegna skattalaganna. Og nú er svo komið, að ríkissjóður verður að fara að setja tugi milljóna í þessi fyrirtæki, sem gætu átt blómlega sjóði og ágæta framtið, ef þau hefðu búið við viturlega skattalöggjöf. Og það er bað, sem mér skilst, að hv. 3. þm. Reykv. vilji miklu heldur, að fara inn á þessa stefnu, kyrkja allan möguleika til þess, að félagsheildir einstaklinga geti lifað og safnað fé, því að það er alveg óhjákvæmilegt fyrir hvaða aðila sem ætlar sér að hafa stóran atvinnurekstur með höndum að eiga einhverja sjóði og safna fé og það svo stóra, að hann þoli áföll. Hann vill heldur, að þetta allt sé kyrkt, það sé allt skorið niður við trog, en síðar taki ríkissjóður við og geri út a.m.k. þau skipin, sem einstaklingar hafa ekki getað gert út, eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði hér um daginn, að Það væri sjálfsagt að fyrirskipa ríkissjóði að taka alla þá útgerð, sem hefði gefizt upp, af einstaklingum. Og ríkissjóður skyldi svo gera þau skip út og taka það svo allt í sköttum, einnig af verkamönnunum. Þetta vill hann heldur en hitt, að leyfa slíkum félagsheildum að búa við eðlilega skattalöggjöf. Og hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) fylgir honum fast og dyggilega eftir í þessi fótspor með allan Framsfl. á eftir sér.

Sem rök fyrir því, að rangt sé að lækka skatthluta félaganna, eins og gert er í till. hér í þessu frv., segir hv. 1. þm. Norðurl. e. í sínu nál. á þskj. 341, að í Noregi sé skattur á félög 30%n, í Danmörku 44%, í Svíþjóð 44% og í Bretlandi 38.75%. En hér er ekki sagður nema hálfur sannleikurinn, því að þegar þessi skattaprósenta er reiknuð út, þá er hún reiknuð af allt annarri upphæð, sem talin er til skatts, heldur en gert er eftir íslenzkum skattalögum hér. Það eru miklu stærri frádragsupphæðir í þessum löndum öllum heldur en er á íslandi, svo að þetta dæmi er hrein blekking, og er ekki hægt að skoða það sem nein rök fyrir því, að ekki eigi að lækka tekjuskatt á félögum, auk þess sem skattur til sveitarfélaga á fyrirtækjum í þessum löndum er innifalinn í þessari upphæð, því að þar er það sameiginlegur skattur. (Gripið fram í.) Ég segi jú, það þarf ekki að segja nei. Hv. þm. þarf ekki að segja neitt meira en þetta. Ég hef kannske miklu meira athugað þau mál en nokkurn tíma hann hefur gert. Og ég vil nú spyrja í þessu sambandi: Er það mögulegt, að fyrirtæki eins og A.P. Müller, sem er ekki einuneis talið ríkasta fyrirtæki á Norðurlöndum, heldur með allra ríkustu útgerðarfyrirtækjum í heimi, — er Það mögulegt, að það hefði á minna en 40 árum getað safnað öðru eins fé og það hefur safnað, ef það hefði verið undir sams konar skattalöggjöf og hefur verið hér á Íslandi? Er bað mögulegt? Og ég skal benda á annað fyrirtæki í Noregi. Það var að láta byggja nýtt skip fyrir 120 millj. norskra króna og borgaði allt úr sínum eigin slóðum. Er það mögulegt, að slíkt hefði getað skeð hér á Íslandi undir þeirri skattalöggjöf, sem við höfum haft? Ég segi nei. Það er alveg útilokað. Það er alveg útilokað, að það hefði verið hægt. Nei sannleikurinn er sá, að allar þessar þjóðir — og alveg sérstaklega Norðurlandaþjóðirnar — hafa þá skoðun á því, að það séu einmitt beztu sparisjóðirnir, sem séu hjá þeim, hlutafélögin, sem safna fé. Ef þau geta safnað sjálf fé og átt það, þá fyrst og fremst hafa þau löngun til þess að víkka út sína starfrækslu, og þess vegna létta þau á bönkunum um að þurfa ekki að taka þar lán og setja bankana í jafnmikla hættu og við höfum orðið að gera hér, þar sem fyrirtækin hafa orðið að fara í bankana sem vernd, sem hreina vernd gegn skattpíningu Framsfl. undanfarin ár. En það er sú stefna, sem þessir menn sýnast vilja heldur vera inni á, að láta einstaklingana fyrst knýja út úr bönkunum eins mikið og hægt er, auk þess að fara til Alþ. og biðja það um að útvega sér ábyrgð, allt að 70–80% eða jafnvel hærra, heldur en leyfa fyrirtækjum að mynda á eðlilegan og viturlegan hátt sína eigin sjóði.

Það er vegna þess, að ég er á andstæðri skoðun í þessum málum, að ég hef borið fram þær till. og barizt fyrir þeim, að þessi félög öll væru gerð skattfrjáls. Hitt er svo allt annað atriði og kemur ekki þessu við, að það er að sjálfsögðu nauðsynlegt og mjög nauðsynlegt að hafa miklu strangara eftirlit með því, að út úr fyrirtækjunum sé ekki greitt til neinna aðila, nema það sé skattað. Og ef það er rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér áðan, að í fjöldamörgum af þessum félögum tækju eigendurnir, forstjórar eða hluthafar, sem mér er nú ekki persónulega kunnugt um, sem ég skal ekki leggja neinn dóm á, stórar fúlgur til þess að byggja fyrir villur, sem þeir ættu sjálfir, þá er það að kenna eftirlitsleysi og röngum lögum í sambandi við hlutafélögin og kemur ekkert skattamálunum við.

Ég hef ekki látið þessi orð falla til þess, að ég ætli mér að bera fram neinar brtt. í þessa átt, heldur hef gert það til þess, að ég vil, að það standi skýrt í Alþingistíðindunum, að ég hef barizt fyrir þessum málum. Ég hef séð þróunina í þó átt, sem ég hef lagt til, þótt hins vegar það hafi ekki tekizt að ná aðalmarkinu, sem ég vonast til að takist, þegar menn fá fullan skilning á , hversu það er nauðsynlegt, að ríkissjóður eða sveitarsjóður reyti ekki hvern eyri af þegnum sínum, hvort heldur það eru einstaklingar eða félagsheildir.

Hvar stendur efnahagur Íslands, hvað stendur efnahagur ríkissjóða og hvar stendur efnahagur sveitarsjóðanna, ef þessi þungi og þessar skyldur eru í vaxandi mæli lagðar á þá? Þá stendur það þannig, að annaðhvort verða þessir aðilar að gefast upp við verkefnið erða verða að leggja allan þungann á hina almennu skattborgara í landinu, jafn verkamenn sem aðra, því að það skulum við ekki halda, að atvinnulífi Íslendinga komi til að hraka þannig að enginn verið að sinna um að halda uppi þeim atvinnutækjum eða starfrækja þau atvinnutæki, sem eru lífæð þjóðarinnar, eins og hefur verið hér um tugi ára og raunverulega alla tíð.

Ég skal játa þessi orð nægja í sambandi við það atriði, hvort það eigi að vera skattalög í landinu og hvort það eigi að vera skattfrelsi og ber engan kinnroða fyrir það að halda mínu máli þar fram. En ég vænti þess að hv. alþm. og einnig hv. 1. þm. Norðurl. v. skilji það og það held ég hafi verið mismæli hjá honum sem hann sagði hér áðan, eða af þekkingarleysi, sem ég veit nú, að hefur ekki verið, því að hann er kunnugur þessum málum, að skattarnir hafi ekki verið neitt vandamál fyrir félögin. Skattarnir voru fyrir félögin það vandamál, á meðan þau þénuðu nokkra peninga, að í góðærum var allt tekið af Þeim og á vondu árunum voru þau skilin eftir með skuldirnar og töpin. Og fyrir það gáfust þau öll eða svo að segja öll upp.

Þá skal ég aðeins ræða hér örlítið, og skal nú stytta mál mitt, herra forseti, — ræða örlítið atriði 48. gr. Þar hefur verið bætt inn í gr. einum málsl., síðasta málsliðnum, sem þar stendur. Sú gr. er um refsiákvæðin. Þar stendur: „Fyrir endurtekin og stórfelld skattsvik má dæma menn í allt að tveggja ára varðhaldsvist.“ Þessu breytti Ed. Þetta mál var til umr. í mþn. og var mjög rætt þar. Og það var eins og ýmis önnur deiluatriði, að það var samið um það í n., að þetta atriði skyldi ekki sett inn í lögin, og skal ég greina frá því hvers vegna og er ekkert hikandi að skýra frá því. Tveir af þeim mönnum, sem áttu nú sæti í n., eiga sæti í Ed., og mér skilst, að það séu einmitt þeir báðir, sem hafa verið flytjendur þess að setja þetta ákvæði inn, þrátt fyrir samkomulag í n., sem e.t.v. hefði getað leyst okkur alla hina undan því að koma ekki með alls konar brtt., úr því að það samkomulag var rofið. Refsiákvæði í þessum lögum eru þau fyrst og fremst, að um áætlun skattstjóra, þ.e.a.s. ef skattþegn telur ekki fram eignir sínar og tekjur eða bætir ekki úr göllum, sem á framtali eru, þótt hann hafi fengið áskorun um það frá skattstjóra, skal með fara sem hér segir:

„Ef áætlun skattstjóra er kærð innan tilskilins frests, má því aðeins lækka hana, að hún sé hærri en raunverulegar tekjur og eign skattþegns að viðbættum 25%.“ Það eru svo Þung viðurlög við að hafa ekki sjálfur talið fram, að skattstjóra er skylt að bæta 25% við áætlunina og má ekki lækka það. Og svo stendur hér áfram: „Má aldrei miða skatta gjaldþegns við lægra skattmat en raunverulegar tekjur hans og eign að viðbættum 25%.“

Ég vil nú spyrja: Þykja mönnum Þetta ekki allþung viðurlög, að bæta 25% við tekjurnar, ef þeim hefur orðið á annaðhvort að telja ekki rétt fram eða telja ekki fram, — þykja það ekki allþung viðurlög að bæta við 25%? En það er ekki Það eina. „Nú hefur framtalsskýrsla borizt, eftir að framtalsfrestur er liðinn, en áður en gengið er frá skattskrá, og skal þá miða skattmat við raunverulegar tekjur og eign að viðbættum 25%.“ Ég sé nú ekki annað en hér séu allþung viðurlög. Þó er þetta ekki allt. Svo segir enn hér í 48. gr.:

„Nú skýrir maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt frá einhverju því, er máli skiptir um tekjuskatt hans eða eignarskatt, og skal hann þá sekur um allt að tífalda skattupphæð.“

Nú verð ég að segja það, að þó að ég féllist á það, að þessi gr. væri látin standa í I., hún hefur víst staðið í þeim lengi, þá verð ég nú að leyfa mér að benda á, að hér er náttúrlega um tvenn alveg mismunandi lagabrot að ræða.

Annað er framið af ásetningi, en hitt er fyrir vanrækslu, og er náttúrlega engan veginn rétt í refsilöggjöf að láta það lúta sömu refsingu. Ég skal ekki samt sem áður gera aths. við það, og það m.a. vegna þess, að ég veit, að Það dettur engum skattayfirvöldum í hug að ganga svo langt í refsingu á framtölum að tifalda skattinn. Ég hygg, að það sé ekki til eitt einasta dæmi í öll þessi ár síðan 1921, að þetta hafi verið gert. Þá kemur hér enn: „tifalda skattupphæð þá, sem undan var dregin. Sektina skal þó aldrei miða við meira en 6 ár alls.“ Já, Þá fer nú að verða dálítið skrýtið um réttarfar. Það er lögbrot og jafnvei glæpur að fremja þetta um 6 ára bil, en ef hægt er að leyna því 6 ár eða lengur, þá er það ekki lengur refsivert. Það er ekki hægt að fá mann dæmdan, ekki einu sinni til þess að greiða skattinn, ef hann hefur getað leynt afbrotinu í 6 ár. Og svo er haldið hér áfram: „Nú verður slíkt uppvíst við meðferð dánarbús, og skal þá greiða úr búinu tvöfalda þá upphæð, sem á vantar.“ Ætli nokkur viti nú til þess, að það hafi verið gert? Það er nú kunnugt, að um ýmis bú, þegar þeim hefur verið skipt, þá hefur ýmislegt komið á daginn. En ætli nokkur maður viti þess dæmi, að hér hafi verið notað þetta ákvæði? Ég hygg, að það megi leita vel, ef það á að finnast. Svo er enn sagt:

„Skiptaréttur og skiptaforstjórar skulu að viðlögðum dagsektum samkv. úrskurði fjmrh, gefa skattstjóra skýrslu um fjármuni látinna manna, ef fjármunir nema meira en 10 Þús. kr.“ Svo endar það með setningunni, sem sett er inn í Ed.: „Fyrir endurtekin og stórfelld skattsvik má dæma menn í allt að 2 ára varðhaldsvist.“

Hvers vegna er ekki dæmt fyrir skattsvik í varðhald, fyrr en þau eru annars vegar stórfelld, ef það er rétt að gera það, og hins vegar endurtekin? Ég held, að fangelsisvist sé beitt hér á Íslandi aðeins í tvenns konar tilvikum: Annað fyrir raunverulegan glæp, þar sem menn geta ekki keypt sig undan fangelsisvist, og Þó er það mildað svo, að það er gefið fjöldamörgum, sem hafa orðið fyrir Þeirri óhamingju, tækifæri til að sýna, hvort þeir geti hagað sér sæmilega í fimm ár, og settur skilorðsbundinn dómur. Ég veit t.d. til þess a.m.k., að skilorðsbundinn dómur hefur verið tildæmdur eða ákveðinn fyrir afbrot gamalla manna, eidri manna, ekki barna og unglinga, eins og var fyrst í upphafi, því að það var fyrst ætlazt til þess, að það væri aðeins fyrir unglinga, sem ekki vissu fótum sínum forráð í lífinu. En það hefur verið tekið upp á því í vaxandi mæli, ef þetta hefur komið fyrir, að láta þetta einnig ganga yfir eldri menn, og það er vegna þess, að löggjafinn og dómararnir eru að fá á því skilning, að það er engin bót að dæma menn í fangelsi. Það verður enginn betri maður, verður enginn betri þjóðfélagsþegn með því að dæma hann í fangelsi, og það á ekki að dæma mann í fangelsi, nema því aðeins að hann sé lífshættulegur fyrir umhverfið, og ekkert annað. Enda er refsilöggjöf að fara þannig hér, að á s.l. þingum hefur verið breytt fjöldamörgum lögum til þess að milda refsilöggjöfina, taka ekki réttindi af mönnum, þó að þeir hafi framið afbrot o.s.frv., á sama tíma sem svona grein er sett hér inn. Hin leiðin að dæma í fangelsisvist er til að láta menn afplána sektir. Hér er sannarlega hægt að láta menn afplána, þegar búið er að tífalda á þeim skattinn, þá sýnist mér, að það sé allmikil sekt, og ef það er tekið, þá er sektin afplánuð. Ég held, að það ætti að verða eitthvað annað hlutverk íslenzks Alþingis nú á tímum en það að fjölga möguleikum til að fylla fangelsin, — fangelsi, sem ríkissjóður og sveitarstjórnir hafa engin tök á að byggja upp, og fangelsi, sem gerir engan þegn þjóðfélagsins að betri manni. Þetta er önnur hlið málsins.

Hin hlið málsins er svo sú: Er Þjóðin komin á það stig að skilja það, að skattsvik séu raunverulega nokkurt afbrot? Ég held, að það sé alveg óhætt að fullyrða, að hún er ekki komin enn í dag á það stig. Ég held, að það séu allt of margir menn í þjóðfélaginu í dag, sem enn leyfa sér, ef þeir geta og treysta sér til þess, ekki einungis að draga sjálfir undan skatti, heldur og að hjálpa öðrum til þess að gera bað, eins og ég minntist á í upphafi. Og meðan bað skattasiðferði er í þessu landi, að þjóðin almennt skilur ekki, að það sé virkilega afbrot að svíkja skatt, þá á ekki að setja slík ákvæði inn í löggjöfina, ekki af því, að ég sé hræddur um, að henni verði beitt, frekar en ákvæðinu um að tifalda skattinn, en það er bara ekki Alþ. til sóma að setja slík ákvæði inn.

Því hefur verið svarað við mig, að það sé allt annað atriði, og Því var svarað m.a. í mþn., að nú eigi að gera skattalöggjöfina svo milda, að það sé engin afsökun að svíkja skattinn, að telja ekki rétt fram. Og það stendur bókstaflega í þeim gögnum, sem hér hafa verið birt í sambandi við þessi mál, og í beim ræðum, sem um þetta hafa verið fluttar, að það hafi verið nauðvörn skattþegnsins að svíkja skatt, vegna þess að það hafi verið farið svo djúpt ofan í hans vasa, og þess vegna sé það réttlætanlegt, að menn reyni að svíkja og telja undan skatti. Þetta hefur gengið svo langt, að sumir hverjir fyrrv. hæstv. fjmrh. hafa gefið út um það yfirlýsingar, að ef menn vildu telja rétt fram á þessum tíma, Þá skyldi öllum fyrri syndum gleymt. Það er viðurkenning fyrir því, að hér hafi ekki verið farið rétt að í sambandi við skattamálin.

Ég skal viðurkenna það, að þegar breytt var lögunum, sérstaklega í sambandi við einstaklinga, þá höfðu þau strax þau áhrif, að miklu betur var talið fram og menn komu fram með ýmislegt af því fé, sem áður hafði verið dulið. En höfum við nokkra tryggingu fyrir því, að þessi skattalöggjöf, sem kann að verða samþ. hér í dag, fái að standa deginum lengur? Hér geta komið aftur að menn eins og hv. 3. þm. Reykv. (EOl) og hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG). Þeir geta komizt hér í valdaaðstöðu og komast kannske, — ég veit ekkert um það. Og þeirra fyrsta verk mundi sjálfsagt verða, ef nokkuð er að marka, hvað Þeir eru að tala hér um þessi mál, að fara þar inn á miklu þyngri skattaálögur en hér er gert ráð fyrir. Annars væri ekki mikið að marka það, sem Þeir segja um þessi mál. En hitt er ég alveg viss um, að þó að Það væri tífaldaður skattaþunginn, þá yrði þetta ekki numið í burtu, sú gr., sem hefur verið sett hér í hv. Ed., henni til lítils sóma. Það er ekkert hætt við því, að þeir sömu menn mundu fara að fella það niður, síður en svo, og viðurkenna, að það hafi verið gert vegna Þess, að þá yrði skattþegninn að hafa einhverja vernd, eins og hefur verið viðurkennt undir þeim skattal., sem við höfum búið við áður.

Þetta eru þær aths., sem ég vildi láta koma hér fram. Og ég mun síðar, hæstv. forseti, afhenda brtt. við 48. gr., skriflega, að síðasta málsgr. gr. falli niður. Hún mun verða prentuð og lögð hér fram, ef ekki verður gengið frá málinu í dag. Annars verður að leita afbrigða fyrir henni og fá undanþágu eða afbrigði frá þingsköpum, að hún megi koma til umr. Ég mun svo að sjálfsögðu fylgja frv., einnig þó að þessi óviðurkvæmilega till. verði látin standa, sem ég tel Alþ. öllu til ósóma, ef ekki verður numin í burt.