12.04.1962
Efri deild: 86. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2374 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

225. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þetta mál á sér langan aðdraganda og langa sögu. Á mörgum þingum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hafa samþykktar verið ályktanir og áskoranir í þá átt, að opinberir starfsmenn fengju samningsrétt um launa- og kjaramál sín. Af ályktunum bandalagsþinga frá síðustu árum má nefna ályktun frá nóv. 1958, frá 19. þingi þess, þar sem segir:

„19. Þing BSRB telur óviðunandi, að opinberir starfsmenn hafi ekki samningsrétt um launa- og kjaramál sín til jafns við aðra launþega. Felur þingið bandalagsstjórn að vinna áð því eftir mætti að ná Þeim réttindum.“

1960 var einnig gerð ályktun á þessa leið: „20. þing BSRB ítrekar ályktanir fyrri bandalagsþinga um það óviðunandi ástand, að opinberir starfsmenn njóta ekki samningsréttar um kaup og kjör á borð við aðrar launastéttir þjóðfélagsins.“

Á aukaþingi bandalagsins í nóv. 1961 er einnig gerð ályktun um samningsrétt opinberra starfsmanna.

Sú skipan, sem hingað til hefur gilt um þessi mál, er sú, að Alþingi ákveður með launalögum laun og önnur kjör opinberra starfsmanna. Að vísu hefur sú orðið venjan við setningu hinna síðustu launalaga í nokkur skipti, að ýtarlegar viðræður hafa farið fram milli fulltrúa ríkisstj. og fulltrúa BSRB, og má segja, að í nokkur hin síðustu skipti, þegar launalög hafa verið sett, hafi þau verið í meginatriðum byggð á samkomulagi, sem orðið hafði milli ríkisstj. og bandalagsins. Hins vegar er hér ekki um samningsrétt að ræða, þótt þessi hafi orðið framkvæmdin, og hið endanlega ákvörðunarvald í hendi löggjafans um kjör starfsmanna.

Til þess að kanna þetta mál var 12. nóv. 1959 skipuð nefnd manna til að athuga um og undirbúa löggjöf um samningsrétt opinberra starfsmanna, eins og komizt var að orði í skipunarbréfi nefndarinnar. Það var þáverandi fjmrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, sem skipaði þessa nefnd. Í henni áttu sæti fimm menn: Sigtryggur Klemenzson ráðuneytisstjóri, sem var formaður, Baldur Möller ráðuneytisstjóri, Guðjón B. Baldvinsson deildarstjóri, Jón Þorsteinsson alþingismaður og Eyjólfur Jónsson lögfræðingur. Þessi nefnd starfaði að málinu um tveggja ára skeið og skilaði áliti til ríkisstj. haustið 1961.

Í nefndinni varð ekki samkomulag, og skilaði hún þrem álitum. Í grg. þessa frv. er það rakið, í hverju sá skoðanamunur var fólginn. Tveir nefndarmanna héldu fram algerum samningsrétti í öllum aðaldráttum að hætti núgildandi norskrar löggjafar og með takmörkuðum verkfallsrétti, en launalög væru þá úr sögunni. Einn nefndarmanna taldi, að veita bæri opinberum starfsmönnum fullan samningsrétt og án launalaga, en án þess að verkfallsréttur fylgdi, en í stað þess kæmi kjaradómur, sem hefði lokaákvörðunarvald um launakjör, ef ekki næðist samkomulag. Og tveir nefndarmanna vildu fara svipaða leið og Norðmenn fóru árið 1933, en hún var sú að veita opinberum starfsmönnum takmarkaðan samningsrétt, þ.e. að þeir eigi lagalegan rétt á því að krefjast samninga um kaup og kjör, en ekki verði horfið frá launalagakerfi né heldur veittur verkfallsréttur.

Eftir að nefndin skilaði áliti, var málið til athugunar hjá ríkisstj. og rætt bæði á fundum hennar og fundum þeirra þingflokka, er hana styðja. Niðurstaðan varð sú, að þrem mönnum var falið að semja nýtt lagafrv., frv. um samningsrétt opinberra starfsmanna, með hliðsjón af Þeim skoðunum, sem fram höfðu komið í frv. nefndarinnar, en byggt skyldi á því meginsjónarmiði, að kjaradómur skyldi hafa úrslitavald um kjaraákvörðun, ef samkomulag næðist ekki, og að verkfallsréttur yrði ekki veittur né viðurkenndur. Til þessa starfs voru valdir þeir Jónatan Hallvarðsson hæstaréttardómari, Gunnlaugur Briem ráðuneytisstj. og Torfi Hjartarson sáttasemjari ríkisins. Þegar þessir þrír menn höfðu skilað tillögum sínum, sem samdar voru í samráði við ríkisstj. og að sjáifsögðu fyrst og fremst í samstarfi við fjmrn., var sú leið valin að kveðja saman hina upphaflegu 5 manna nefnd ásamt þessum þrem trúnaðarmönnum ríkisstj. og formanni Bandalags starfsmanna ríkis og bæja til þess að freista að ná samkomulagi á grundvelli þessara tillagna. Voru þessi vinnubrögð viðhöfð í samráði við stjórn bandalagsins. Að undanförnu hefur verið unnið að málinu á þessum grundvelli, og s.l. mánudag tók ríkisstj. lokaákvörðun um þau atriði, sem þá voru enn óleyst, og lagði málið þannig fyrir bandalagsstjórnina og þessa n., sem ég gat um, og á fundi stjórnar bandalagsins sama dag var samþ. einróma með atkvæðum allra 9 stjórnarmanna að mæla með því, að frv. yrði lögfest eins og það liggur hér fyrir.

Þetta frv. byggist á því meginsjónarmiði, að samtök opinberra starfsmanna skuli eiga rétt á að ganga til samninga um kjör sín, að launakjör skuli ákveðin með kjarasamningi. Ef samningar nást ekki að undangenginni sáttaumleitan sáttasemjara ríkisins, skal kjaradómur skera endanlega úr. Aðalefni frv. er miðað við starfsmenn ríkisins, en í 28. gr. þess er ákveðið, að sveitarfélögum sé skylt að veita starfsmönnum sínum samningsrétt í samræmi við lögin, ef hlutaðeigandi starfsmannafélag óskar þess, og skal um það efni fara eftir reglugerð, sem félmrh. setur.

Með þessu frv. er prentað álit þeirrar n., sem skipuð var í nóv. 1959. Hún greinist í sameiginlega greinargerð þeirra allra fimm og auk þess þau þrjú mismunandi frv. með grg., sem nefndarhlutarnir skiluðu. Er í þessum fskj. að finna mjög mikinn fróðleik um það málefni, sem hér liggur fyrir. Þar er m.a. gerð nokkur grein fyrir löggjöf nágrannalandanna um þessi efni, og vitna ég og vísa til þess, sem þar stendur, og get ég farið fljótt yfir sögu.

Það varð samkomulag innan n., að formaður hennar tækist ferð á hendur til Noregs til þess að kynna sér þessi mál þar, bæði í löggjöf og framkvæmd, og ræða ýtarlega við þá embættismenn, sem þessi mál hafa með höndum, en mörgum virtist, að mikið gagn mundi mega hafa af norskum lögum og reynslu Norðmanna um þessi efni. Formaður gaf siðan skýrslu um förina og þær upplýsingar, sem hann hafði aflað sér.

Árið 1933 voru sett í Noregi lög um samningsrétt ríkisstarfsmanna. Með þeim lögum var viðurkenndum samtökum ríkisstarfsmanna fenginn réttur til að krefjast þess, að upp væru teknir samningar um kaup og kjör félaga í þessum samtökum, og ríkisvaldinu lögð sú skylda á herðar að taka þátt í slíkum samningum. Þó er hér ekki um venjulega gagnkvæma kjarasamninga að ræða, því að ríkisvaldið ákvað eftir sem áður einhliða launakjörin. Þetta fyrirkomulag hefur verið nefnt „takmarkaður samningsréttur“. Með því var ekki horfið frá launalagakerfi og starfsmönnum ekki fenginn verkfallsréttur.

Árið 1958 voru sett ný lög um Þetta efni í Noregi, og var þá sú breyting á gerð, að ríkisvaldinu og samtökum ríkisstarfsmanna ber gagnkvæm skylda til að taka upp samninga samkvæmt kröfum frá öðrum hvorum aðila. Ríkisstarfsmönnum er með þessum lögum frá 1958 veittur svipaður réttur til samninga um kaup og kjör sem aðrar stéttir hafa á hinum frjálsa vinnumarkaði, launalög úr sögunni og ríkisstarfsmenn fengu verkfallsrétt, þó með vissum undantekningum, svo sem varðandi öryggisþjónustu og hina æðri embættismenn.

Í Danmörku er í framkvæmd takmarkaður samningsréttur til handa ríkisstarfsmönnum. Þeir eiga rétt á, að við þá sé rætt um breytingar á kaupi og kjörum, og tiltekin ágreiningsmál skulu þar lögð fyrir gerðardóm. En laun starfsmanna danska ríkisins eru ákveðin með launalögum. Það er ekki talið, að ríkisstarfsmenn þar hafi verkfallsrétt, og af sumum litið svo á, að svokallaðar „kollektívar“ uppsagnir séu refsiverðar sem embættisbrot.

Í Svíþjóð hafa ríkisstarfsmenn takmarkaðan samningsrétt og launin ákveðin af ríkisvaldinu. Starfsmönnum er ekki heimilt að gera verkfall.

Í Finnlandi er sama eða svipuð skipan að þessu leyti og í Svíþjóð.

Hér á landi er skipanin sú, að skv. gildandi lögum njóta ríkisstarfsmenn ekki samningsréttar. Laun þeirra eru ákveðin með lögum, launalögum, og samkvæmt lögum nr. 33 frá 1915 er óheimilt, ólöglegt og refsivert að stofna til verkfalla. Eins og ég gat um áður, hefur hins vegar verið svo í reynd um alllangt skeið, að samráð hefur verið haft við forsvarsmenn samtaka opinberra starfsmanna við undirbúning launalaga og yfirleitt um breytingar á kjörum þeirra. Það er einnig gert ráð fyrir því í lögunum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá 1954, að við samningu reglugerðar skv. lögunum og við endurskoðun laganna skuli jafnan gefa Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja kost á að fylgjast með og fjalla f. h. félaga sinna um ágreiningsatriði, sem upp kynnu að koma.

Varðandi þetta mál í heild, þá virðist ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar einsætt að ganga til móts við óskir opinberra starfsmanna um að viðurkenna samningsrétt, veita samningsrétt til handa hinum opinberu starfsmönnum. Að vísu er kunnugt, að ýmsum þykir það allmikið í ráðizt, að Alþingi afsali sér því valdi, sem það nú hefur með setningu launalaga, og feli endanlegt úrskurðarvald um launakjörin kjaradómi, ef samningar takast ekki. Það er einnig kunnugt, að sumir eru þeirrar skoðunar, að opinberir starfsmenn eigi að fá ekki aðeins samningsrétt, heldur einnig verkfallsrétt, eins og stéttarfélögum er veittur eða viðurkenndur með l. frá 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Ég ætla, að með Þessu frv. hafi verið valinn og fundinn sá hinn gullni meðalvegur, en hann er í stórum dráttum í því fólginn að veita hinum opinberu starfsmönnum samningsrétt, ef ekki nást samningar, skuli sáttasemjari fjalla um málið, og ef slíkt leiðir ekki til niðurstöðu, þá skuli kjaradómur, þar sem báðir aðilar eiga fulltrúa í, en hæstiréttur skipar þó meiri hlutann í, útkljá málin til fullnaðar.

Með þessu frv. er sem sagt gert ráð fyrir því, að launalög séu úr sögunni að því er snertir kjaraákvarðanir annars vegar, en hins vegar, að haldið sé því banni, sem nú er í lögum gegn verkfalli opinberra starfsmanna.

I. kafli þessa frv. fjallar um það, til hverra lögin taki og hverjir fari með fyrirsvar fyrir aðila. Í 1. gr. segir, að lögin taki til starfsmanna, sem skipaðir eru, settir eða ráðnir í þjónustu ríkisins, ríkisstofnana eða atvinnufyrirtækja ríkisins með föstum launum og minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti, enda verði starf þeirra talið aðalstarf. Sú er hugsunin, að í meginefnum falli þessi skýring saman við þá skýringu, sem lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hafa, og felst í Þessu m. a. það, að þeir einir falla hér undir, sem hafa slík störf að aðalstarfi, en ekki þótt þeir starfi í þjónustu ríkisins eða ríkisstofnana við aukastarf.

Þá er svo fyrir mælt, að ákvæði laganna skuli ekki taka til í fyrsta lagi ráðherra né hæstaréttardómara, en um það eru sérákvæði, sem ég kem að síðar. Í öðru lagi ekki til iðnaðarmanna, sjómanna, verkafólks né starfsfólks í iðjuverum, en um kaup þeirra og kjör fer eftir kjarasamningum stéttarfélaga, sbr. lög um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80 frá 1938. Og í þriðja lagi eiga lögin ekki að ná til bankastarfsmanna, en launalög hafa hvorki nú né að undanförnu náð til starfsmanna bankanna. Það hefur jafnan verið ósk samtaka bankamanna og forráðamanna bankanna einnig, að launalög næðu ekki til þeirra, og hefur þótt rétt að ákveða hér, að þessi lög skuli ekki taka til bankastarfsmanna. En það er að sjálfsögðu til athugunar, ef óskir koma fram um Það frá bönkunum og eða starfsmönnum þeirra, að hér verði gerð breyting á.

Í 2. gr. segir, að fjmrh. fari með fyrirsvar ríkissjóðs að því er varðar kjarasamninga, og í 3. gr., að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fari með fyrirsvar ríkisstarfsmanna um kjarasamninga og aðrar ákvarðanir af hendi starfsmanna skv. þessum lögum. Til þess að vera í fyrirsvari fyrir bandalagið skal stjórn þess velja fimm ríkisstarfsmenn í kjararáð, sem fer með umboð bandalagsins til samningagerðar.

Þá er svo fyrir mælt í niðurlagi 3. gr., að ríkisstarfsmaður, sem þessi lög taka til, á rétt til að vera félagsmaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja eða félags innan vébanda þess.

II. kafli laganna fjallar um efni kjarasamninga, gildistíma og uppsögn samninga. Segir þar fyrst í 4. gr., að launakjör starfsmanna ríkisins skuli ákveðin með kjarasamningum, en launakjör ráðh. og hæstaréttardómara skuli ákveðin af kjaradómi. Það þykir ekki rétt, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fjalli með samningum um launakjör þessara aðila, og væri í rauninni þá um tvær leiðir að ræða: annars vegar, að laun þessara starfsmanna væru ákveðin beinlínis með lögum frá Alþingi, eða eins og hér er lagt til með kjaradóminum, og varð sú niðurstaðan að leggja til, að sú skipan yrði valin.

Í 5. gr. segir, að í kjarasamningi skuli kveðið á um: 1) föst laun, 2) vinnutíma, 3) laun fyrir yfirvinnu. Hins vegar á kjarasamningur ekki að taka til lífeyrisréttinda, til hlunninda, aukatekna, orlofsréttar, kaups í veikindaforföllum, en sérstök lög eru í gildi um ýmis þessara atriða. Og varðandi þessi atriði segir nánar í 6. gr., að þegar ákveða skuli starfskjör, sem kjarasamningurinn samkvæmt þessu nær ekki til og ekki eru heldur lögbundin, þá skuli semja um þau við hlutaðeigandi bandalagsfélög.

Í 7. gr. segir, að kjarasamningur skuli vera skriflegur, gerður til eigi skemmri tíma en tveggja ára í senn og gildistími hans miðast við áramót. Það er fyrst og fremst vegna fjárl., sem þetta ákvæði er sett, að gildistíminn skuli miðaður við áramót. Og í 8. gr. er ákvæði um uppsagnarfrest kjarasamninga, sem einnig stendur í beinu sambandi við afgreiðslu fjárl., en þar segir, að uppsagnarfrestur kjarasamnings af hendi beggja aðila skuli eigi vera skemmri en sjö mánuðir. Vegna fjármála ríkisins hentar það auðvitað langbezt, að nýr kjarasamningur og þá einnig nýr úrskurður kjaradóms taki gildi um áramót, um leið og ný fjárlög taka gildi, til þess að hægt sé að ætla þær fjárveitingar, sem leiðir af nýjum samningi eða kjaradómi, beinlínis í fjárlfrv. En til þess að hin nýju kjaraákvæði geti komið með réttum útreikningi inn í fjárlfrv., þarf hinn nýi samningur eða kjaradómur að liggja fyrir eigi síðar en um mánaðamót ágúst og september, þegar verið er að leggja síðustu hönd á fjárlfrv. Þess vegna er uppsagnarfrestur ákveðinn í 8. gr., eins og ég gat um, 7 mánuðir, m.ö.o. að samningi þarf að segja upp í síðasta lagi 1. júní. Eins og rakið er nánar síðar í þessu frv., er svo ætlazt til þess, að samningaviðræður geti staðið yfir í einn mánuð, síðan, ef ekki nást samningar, fái sáttasemjari málið í sínar hendur og hafi það til meðferðar allt að einum mánuði. Ef ekki takast sættir fyrir milligöngu sáttasemjara, fær kjaradómur málið, og hann skal hafa lokið uppsögu úrskurðar síns innan mánaðar eða réttar sagt áður en þrír mánuðir eru liðnir frá uppsögn. Til þessarar málsmeðferðar eru því ætlaðir mánuðirnir júní, júlí og ágúst, þannig að hin nýju kjaraákvæði liggi fyrir 1. sept. og sé því hægt að byggja á þeim við samningu fjárl.

Samningstími kjarasamninga hefur hér á landi yfirleitt verið skammur og mjög rúmar heimildir til uppsagna með tiltölulega skömmum uppsagnarfresti. Það þykir rétt, þegar sú mikla breyting er á gerð að afnema launalög og taka upp þá skipan, sem hér greinir í frv., að ákveða gildistíma kjarasamninga eigi

skemmri en tvö ár. En þó má vera, að á slíku tveggja ára tímabili verði Þær breytingar í fjárhags- og efnahagsmálefnum þjóðarinnar og verulegar kaupbreytingar, að rétt þyki, sanngjarnt og eðlilegt, að unnt sé að endurskoða gildandi kjaraákvæði, sem þannig eru til tveggja ára í hvert sinn, og þess vegna er sett inn ákvæði í 2. mgr. 7. gr., sem er á þá lund, að verði almennar og verulegar kaupbreytingar á samningstímabili, megi krefjast endurskoðunar kjarasamnings án uppsagnar hans. Þetta ákvæði veitir því ekki heimild til að segja upp kjarasamningi, heldur til að krefjast endurskoðunar á honum vegna almennra og verulegra kaupbreytinga. Náist ekki samkomulag aðila innan mánaðar frá kröfugerð, fer um meðferð þess máls skv. III. og IV. kafla þessara laga, en það þýðir, að þá tekur sáttasemjari fyrst málið til meðferðar og siðan kjaradómur til úrskurðar og ákveður, hvort ástæða er að hans dómi til breytinga á kjaraákvæði, og þá mundi, ef þessi heimild 7. gr. er notuð, nýr samningur eða nýtt samkomulag um kjör eða dómur kjaradómsins gilda frá Þeim tíma, sem um semst eða kjaradómur ákveður, en ekki þá bundinn við áramót.

Í 9. gr. segir, að kjarasamningur framlengist um eitt ár í senn með óbreyttum uppsagnarfresti, hafi honum ekki verið sagt upp réttilega.

Í 10. gr. segir, að aðili, sem segir upp kjarasamningi, skuli skyldur til þess að senda samtímis uppsögn til gagnaðila tillögur sínar í höfuðatriðum um nýjan samning, og skulu samningsviðræður þá þegar upp teknar. Í reynd hefur það gerzt mjög oft hér á landi í sambandi við stéttarfélagssamninga, að kröfur þær, sem aðilar ætla að gera, hafa ekki verið sendar fyrr en alllöngum tíma eftir uppsögn, en hér er sem sagt svo fyrir mælt, að aðili skuli senda kröfurnar í höfuðatriðum samtímis uppsögninni.

III. kafli þessa frv. fjallar um sáttameðferð af hendi sáttasemjara. Þar segir í 12. gr., að aðili kjarasamnings getur, ef slitnað hefur upp úr samningsumleitunum, vísað kjaradeilu til meðferðar sáttasemjara ríkisins í vinnudeilum. síðar segir, að þegar mánuður uppsagnarfrests er liðinn, skal sáttasemjari ríkisins sjálfkrafa taka kjaradeilu til meðferðar og reyna sættir. Hér er því slegið föstu, að ef aðilar hafa ekki innan eins mánaðar frá uppsögn náð samkomulagi, þá er sáttasemjari skyldur til þess sjálfkrafa að taka málið í sínar hendur, en einnig er heimilt, ef ástæða þykir til og að fengnum till. sáttasemjara ríkisins, að skipa til sáttastarfs sérstakan sáttasemjara eða sáttanefnd.

Í 13. gr. segir, að sáttasemjari geti lagt fram miðlunartillögu í kjaradeilu, og þá fer fram leynileg atkvgr. ríkisstarfsmanna um miðlunartillögu undir yfirstjórn og eftirliti sáttasemjara.

Um störf sáttasemjara í sambandi við þessi mál fer að öðru leyti eftir almennum reglum laganna frá 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Eins og ég tók fram áðan, er gert ráð fyrir, að sáttasemjari hafi einn mánuð til stefnu, eins og aðilar áður, til samningaumleitana, og í 14. gr. segir: „Nú er kjaradeila eigi til lykta leidd að liðnum tveimur mánuðum uppsagnarfrests, og senda aðilar þá þegar kjaradómi grg. um málið, enda er þá sáttameðferð þess á vegum sáttasemjara lokið.“ Ef aðilar hins vegar koma sér saman um það, geta þeir einnig á fyrra stigi máls vísað kjaradeilu til kjaradóms. Einnig hefur sáttasemjari þá heimild að vísa málinu til kjaradóms, þegar hann telur sýnt, að frekari sáttaumleitanir verði árangurslausar.

IV. kafli frv. fjallar um skipun kjaradóms, meðferð kjaradeilu fyrir honum, starfsreglur hans og úrlausnir. Segir í 15. gr., að kjaradómur skuli skipaður fimm dómendum og jafnmörgum varadómendum. Hæstiréttur skipar þrjá dómendur. Skal einn þeirra vera lögfræðingur og formaður dómsins. Fjmrh. skipar einn dómanda, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja einn dómanda. Þeir skulu skipaðir til fjögurra ára í senn, en starfstímabili dómenda, sem fyrstir eru skipaðir, skal ljúka, þegar fjögur ár eru liðin frá næstu áramótum eftir skipun þeirra, en þetta miðast m.a. við það, að þessi tímamörk séu eðlileg, ef skipta skal um dómendur, því að um áramót munu sízt standa yfir samningaumleitanir um kaup og kjör hinna opinberu starfsmanna af þeim ástæðum, sem fyrr eru greindar varðandi gildistökutíma og uppsagnarfresti.

Í 16. gr. segir, að kjaradómur skuli hafa lagt dóm á ágreiningsefni, áður en þrír mánuðir eru liðnir frá upphafi uppsagnarfrests. M.ö.o.: ef samningi er sagt upp 1. júní, þá skal úrskurður kjaradóms hafa komið fyrir lok ágústmánaðar.

Í næstu greinum segir svo um meðferð máls fyrir kjaradómi: „Aðilar skulu leggja ágreiningsefni skilmerkilega fyrir kjaradóm. Þeir skulu tjá sig rækilega um kjaraatriði“ o.s.frv. Kjaradómur getur af sjálfsdáðum aflað nauðsynlegra gagna og upplýsinga, getur krafizt skýrslna af einstökum mönnum og embættismönnum, og hann getur kvatt sérfróða menn til starfa í þágu dómsins og sér til ráðuneytis.

Í 20. gr. eru taldir þrír liðir, sem kjaradómur skal hafa hliðsjón af m.a. við úrlausnir sínar. í fyrsta lagi skal hann hafa hliðsjón af kjörum launþega, er vinna við sambærileg störf hjá öðrum en ríkinu. í öðru lagi af kröfum, sem gerðar eru til menntunar, ábyrgðar og sérhæfni starfsmanna. Og í þriðja lagi af afkomuhorfum þjóðarbúsins. Eins og orðalag 20. gr. ber með sér, er honum hins vegar í sjálfsvald sett, hver önnur sjónarmið hann hefur í huga, því að skýrt er fram tekið, að hann skuli við úrlausnir sínar m.a. hafa hliðsjón af þessum þremur atriðum. En þau eru að sjálfsögðu til leiðbeiningar fyrir dóminn um þau sjónarmið, sem gert er ráð fyrir og ætlazt til að hann hafi í huga.

Í 21. gr. segir, að dómur kjaradóms sé fullnaðarúrlausn kjaradeilu. Dómurinn kemur til framkvæmda á næstu áramótum eftir uppsögu hans, og hann gildir í tvö ár eins og kjarasamningur.

V. kafli frv. fjallar um uppsögn samninga, og segir þar, að stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja taki af þess hendi ákvörðun um uppsögn kjarasamnings, en um þá ákvörðun skal fara fram allsherjaratkvæðagreiðsla starfandi ríkisstarfsmanna til samþykktar eða synjunar.

Í VI. kafla eru ákvæði um kjaranefnd, en hún skal hafa það verkefni að skera til fullnaðar úr ágreiningi samningsaðila um viss atriði. En það er í fyrsta lagi skipun einstakra manna í launaflokka kjarasamnings, m.ö.o. þegar greinir á um það, í hvaða launaflokki tiltekinn ríkisstarfsmaður skuli talinn. Í öðru lagi sker kjaranefndin til fullnaðar úr ágreiningi um það, hver aukastörf sé rétt að telja til aðalstarfs og hver aukastörf beri að launa sérstaklega. Og loks sker kjaranefnd einnig til fullnaðar úr ágreiningi um vinnutíma, um yfirvinnu og yfirvinnukaup einstakra starfsmanna. Hins vegar er ákveðið, eins og ég gat um, í 5. gr., að í kjarasamningi skuli m. a. semja um vinnutíma og laun fyrir yfirvinnu almennt. Það, sem hér er um að ræða, er því að ákveða um vinnutíma eða slíkar greiðslur til einstakra starfsmanna.

Þessi kjaranefnd skal skipuð fimm mönnum, og tilnefnir hæstiréttur þrjá nm., fjmrh. einn og BSRB einn nm.

Í VII. kafla frv. er svo fyrir mælt, að félagsdómur skuli dæma í málum, sem rísa milli samningsaðila út af brotum á lögunum og ágreiningi um skilning á kjarasamningi og gildi hans. Hér er því ákveðin svipuð meðferð slíkra mála og lögin frá 1938, vinnulöggjöfin, gera ráð fyrir varðandi samninga stéttarfélaga og vinnuveitenda. En þegar félagsdómur fer með þessi mál, nefna Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og fjmrh. dómendur til setu í dóminum í stað þeirra dómenda, sem nefndir hafa verið af Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands.****

I VIII. kafla frv. segir fyrst, að kostnaður við kjaradóm og kjaranefnd skuli greiðast úr ríkissjóði, enn fremur, ef sett er á fót ríkisstofnun, þá ákveði fjmrh. í samráði við ráðh., er fer með mál þeirrar stofnunar, og stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, svo og með hliðsjón af því, sem gildir um hliðstæðar eða sambærilegar stofnanir, kjör starfsmanna hinnar nýju stofnunar, þar til þau hafa verið ákveðin eftir reglum þessara laga, þ.e.a.s. með nýjum kjarasamningi eða úrskurði kjaradóms.

Með sama hætti skal fara um nýjar stöður, sem til koma hjá ríkinu.

Í 28. gr. frv. er svo ákvæði um starfsmenn sveitarfélaga. Þar segir: „Skylt er borgar-, bæjar- og sveitarstjórn að veita starfsmönnum sínum samningsrétt í samræmi við lög þessi, ef hlutaðeigandi starfsmannafélag óskar þess. Skal nánar kveðið á um það í reglugerð, er félmrh. setur.“

Það þótti ekki rétt að mæla fyrir um það beint í þessum lögum, að starfsmenn sveitarstjórna skyldu undir þau falla, heldur er hér veitt valfrelsi starfsmannafélögum sveitarstjórnarstarfsmanna, og er það í beinu samræmi við ályktanir, sem gerðar hafa verið á þingum BSRB.

Í 29. gr. er gert ráð fyrir, að lög þessi öðlist þegar gildi. En nokkur ákvæði eru þar um fyrstu framkvæmd laganna og kjaraákvarðanir. Í fyrsta lagi, að viðræður um kjarasamninga skuli hefjast eigi síðar en 1. ágúst n.k. Sumum kynni að finnast eðlilegt, að viðræður um kjarasamninga hefjist strax eftir gildistöku laganna. en ástæðurnar til þess, að frestur er settur til 1. ágúst, eru þær, að báðir aðilar munu þurfa nokkurn tíma til að afla sér gagna og upplýsinga til undirbúnings slíkra viðræðna. í öðru lagi segir, að hafi ekki tekizt samningar 1. jan. 1963, þá hefji sáttasemjari sáttaumleitanir. Í þriðja lagi, ef málin eru eigi til lykta leidd 1. marz 1963, þá taki kjaradómur þau til meðferðar. Hann skal hafa lokið störfum 1. júli 1963. Í fjórða lagi, að kjarasamningur eða kjaradómur í fyrsta sinn skuli gilda frá 1. júlí 1963 og til ársloka 1965. Eftir meginreglum þessa frv. hefði nýr kjarasamningur eða úrskurður kjaradóms átt að taka gildi 1. jan. 1964 og gilda um tveggja ára skeið. Hins vegar varð samkomulag um það við fulltrúa hinna opinberu starfsmanna að víkja að þessu leyti frá hinum almennu reglum í fyrsta sinn og láta hin nýju kjaraákvæði taka gildi þegar frá 1. júlí 1963. Hinn fyrsti kjarasamningur eða kjaradómur mun gilda í 21/2 ár, þar sem það þótti of langur tími að láta bíða til ársloka 1963 eftir nýjum kjaraákvæðum.

Með þessum lögum eru felld úr gildi launalögin svokölluðu eða lög nr. 92/1955, um laun starfsmanna ríkisins, nema nokkur ákvæði þeirra laga, sem eru um annað efni.

Þá er ákvæði til bráðabirgða, þar sem segir: „Nú verða almennar og verulegar kauphækkanir, þar til kjaraákvæði samkv. lögum þessum koma til framkvæmda,“ — þ.e.a.s. á tímabilinu frá gildistöku þessara laga til 1. júlí 1963, — „og getur Bandalag starfsmanna ríkis og bæja þá krafizt launahækkunar ríkisstarfsmanna í heild. Náist ekki samkomutag aðila innan mánaðar frá kröfugerð, fer um meðferð máls eftir ákvæðum III. og IV. kafla þessara laga.“ M.ö.o.: fyrst kemur sáttasemjari til og síðan, ef ekki næst samkomulag, er málinu vísað til kjaradóms. En nýr samningur eða dómur kjaradóms skal þó gilda frá þeim tíma, sem um semst eða kjaradómur ákveður.

Eins og sjá má af frv. og þeirri grg., sem ég hef flutt um það, er við undirbúning hinna fyrstu kjarasamninga ætlaður miklu lengri tími en gert er ráð fyrir að þurfi í framtíðinni. Til þess liggja eðlilegar ástæður. Það er mjög mikið verk að undirbúa í fyrsta sinn slíkan kjarasamning, afla upplýsinga og gagna innanlands og utan, skipa starfsmönnum niður í launaflokka og ákveða hlutfall þeirra á milli. Ég ætla því, að það sé dómur beggja aðila, bæði fulltrúa ríkisins og fulltrúa hinna opinberu starfsmanna, að miklu lengri tíma þurfi til undirbúnings nú í fyrsta sinn heldur en væntanlega þarf síðar.

Eins og ég gat um, áttu sér stað ýtarlegar viðræður við fulltrúa Bandalags starfsmanna ríkis og bæja um þetta mál, og að lokum tókst þar fullt samkomulag og allir stjórnarmenn BSRB samþykktu að mæla með frv., eins og það nú liggur fyrir Ég tel þó rétt að taka það fram, að stjórn bandalagsins segir í sínu áliti um málið: „Þótt ríkisstj. hafi ekki fallizt á, að opinberir starfsmenn fái fullan samningsrétt til jafns við aðra launþega“, — mun þar átt við, að verkfallsréttur er ekki viðurkenndur, — „fullan samningsrétt til jafns við aðra launþega, eins og bandalagsstjórnin hefur barizt fyrir í samræmi við stefnu bandalagsþinga, telur stjórnin, að bandalagið hafi með frv. náð svo mikilsverðum áfanga, að samþykkja beri frv., þó að hún viðurkenni ekki réttmæti þess, að kjör launþega séu ákveðin með lögskipuðum gerðardómi.“ Með þessum athugasemdum hefur stjórn BSRB einróma samþykkt að mæla með frv.

Þetta frv. snertir að sjálfsögðu mjög mikinn fjölda af íslenzkum borgurum. Meðlimir BSRB munu vera 4800, að ég ætla, og gera má ráð fyrir, að frv., þegar það er orðið að lögum, muni áður en langt um líður ná til allmikils fjölda starfsmanna sveitarfélaganna. Það er að sjálfsögðu skylda ríkisvaldsins að haga starfsemi sinni á svo hagkvæman hátt, að hún kosti skattborgarana ekki fé að óþörfu, en veiti þeim fyrirgreiðslu og þjónustu, sem nauðsynleg er í nútíma þjóðfélagi. Jafnframt þarf að sjálfsögðu að búa þannig að opinberum starfsmönnum, að þeir megi vel við una um launakjör, öryggi og allan aðbúnað. Sumum kann að virðast í fljótu bragði sem þessi höfuðsjónarmið hljóti að stangast á. En svo er þó ekki, því að oftlega fer það saman, að hægt er með skynsamlegu skipulagi og fyrirkomulagi á störfum að spara ríkinu fé, veita almenningi betri þjónustu og um leið bæta kjör starfsmanna. Ríkið á mikið undir því, eins og hinir opinberu starfsmenn sjálfir, að samstarf sé gott og skilningur ríki á milli þessara aðila. Með lögum frá 1954 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna fengu þeir ýmsar réttarbætur. Samstarfsnefndin um launamál, sem stofnað var til á s.l. hausti, mun einnig reynast mikilsverður aðili til þess að eyða ágreiningi, leysa vandamál og efla samvinnu og samhug, og ætlunin er, að sú samstarfsnefnd haldi áfram störfum og athugað verði um einstakar stofnanir ríkisins, hvort rétt væri að koma þar á slíkri samstarfsnefnd.

Nú hefur það verið eitt af hinum stærstu viðfangsefnum að undanförnu að finna form fyrir ákvörðun launa hinna opinberu starfsmanna. Ég tel, að hvorki ríkinu né starfsmönnum þess væri greiði gerður með því að taka upp þá skipan að gera ráð fyrir verkföllum sem lausn í launamálum. En samningsrétturinn er sjálfsagður, og það er von mín og trú, að það frv., sem nú er lagt hér fyrir og gengur langt til móts við margítrekaðar óskir opinberra starfsmanna, muni verða bæði hinum opinberu starfsmönnum og ríkisvaldinu og þjóðinni allri til heilla á komandi árum.

Ég legg til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.