12.04.1962
Efri deild: 86. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2392 í B-deild Alþingistíðinda. (2000)

225. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil þegar á þessu stigi þessa máls lýsa því yfir, að við framsóknarmenn erum fylgjandi þessu frv. Við munum greiða götu þess gegnum þingið og stuðla að því, að það fái skjóta afgreiðslu, eftir því sem kostur er, svo að það geti orðið afgreitt á þessu þingi, þó að það óneitanlega komi seint fram.

Hæstv. fjmrh. hefur gert í framsöguræðu glögga grein fyrir efni þessa frv., og ég mun þess vegna ekki í þeim fáu orðum, sem ég segi hér, fara að neinu ráði út í efni eða einstök atriði þessa frv.

Það er eins og mönnum er ljóst, að það er kjarni þessa frv., að með því er gert ráð fyrir, að ríkisstarfsmenn fái samningsrétt um launakjör sín og nokkur önnur atriði, í stað þess að þau hafa hingað til verið ákveðin í lögum eða af ráðh. einhliða skv. heimild í lögum. Um ýmis önnur réttindi ríkisstarfsmanna er hins vegar gert ráð fyrir að áfram gildi lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hér er um stórmál að ræða, og hér er um mjög merkilegt mál að ræða. Það leikur ekki á tveim tungum, að hér er stigið stórt skref og gerð mjög mikilvæg breyting varðandi réttarstöðu ríkisstarfsmanna. Hingað til hefur lengst af verið litið svo á, að um réttarsamband ríkisins og embættis- og sýslunarmanna hlytu að ýmsu leyti að gilda aðrar og ólíkar reglur þeim, sem gilda og hafa gilt um vinnusamband almennt. Þannig hefur það verið að lögum hér hjá okkur, og það var áður fyrr að vissu leyti ekki óeðlilegt. Þróunin hefur hins vegar gengið í þá átt að draga úr þessum mun, sem hér hefur verið á réttarstöðu opinberra starfsmanna og á stöðu launþega skv. venjulegum vinnusamningum. Og Þróunin hefur gengið í þá átt að veita ríkisstarfsmönnum samningsaðild um kaup sitt og kjör að nokkru leyti með hliðstæðum hætti og öðrum launastéttum.

Til þessarar þróunar liggja að sjálfsögðu ýmsar ástæður. Vafalaust eiga breyttar Þjóðfélagsaðstæður þar í sinn gilda þátt. Starfsemi hins opinbera hefur færzt mjög í aukana, eins og kunnugt er, á síðari árum, og ríkið hefur tekið að sér og lætur sig nú skipta ýmsa sýslu, sem það fékkst ekki við áður. Af þessu hefur leitt mikla fjölgun ríkisstarfsmanna, þannig að þeir eru nú ekki lengur tiltölulega fáir embættismenn og sýslumenn, svo sem lengi var, heldur fjölmargir almennir starfsmenn við ýmsar starfsgreinar hins opinbera, starfsmenn, sem finnst, að Þeir eigi að réttu lagi að búa við svipaðar aðstæður og sambærilegir starfsmenn hjá einkafyrirtækjum.

Að sjálfsögðu hefur það verið svo, að ríkisstarfsmenn hafa út af fyrir sig haft fullt frelsi til þess að stofna sín félög til þess að gæta hagsmuna sinna, og það hafa þeir gert. Eins og kunnugt er, þá voru árið 1942 stofnuð landssamtök þessara félaga, þ.e.a.s. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Hefur það bandalag starfað siðan, svo sem kunnugt er. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur hins vegar til Þessa ekki haft samningsrétt, og því síður hefur það mátt gripa til neinna þvingunarráða til þess að knýja fram kjarabætur fyrir sína félagsmenn. Bandalagið hefur samt sem áður verið viðurkennt af löggjafanum að nokkru á Þessu tímabili. Var það raunar fljótlega gert, eftir að landssamtökin voru stofnuð, Því að árið 1945, þegar launalög voru fyrst sett eftir stofnun bandalagsins, voru tekin upp í þau ákvæði, sem gerðu ráð fyrir tilvist Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og tryggðu Því bandalagi viss réttindi. Þá var þar strax svo fyrir mælt, að við samningu reglugerða skv. þeim lögum og við endurskoðun þeirra laga skyldi ætið gefa Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja kost á því að fylgjast með og fjalla fyrir hönd félaga sinna um ágreiningsatriði, sem upp kynnu að koma. Og þar var enn fremur mælt svo fyrir, að bandalagið skyldi tilnefna mann í nefnd, sem eftir lögunum átti að hafa það hlutverk að skera úr ágreiningi um það, hver störf væru úrskurðuð aukastörf og bæri að launa sérstaklega. Þessi ákvæði, sem þannig voru í öndverðu sett í launalögin frá 1945, hafa svo verið endurtekin bæði í starfsmannalögunum nr. 38/1954 og í launalögum þeim, sem nú gilda, lögunum frá 1955. Jafnframt er Það svo rétt, eins og hæstv. fjmrh. gat um í sinni framsöguræðu, að í reyndinni hefur Bandalag starfsmanna ríkis og bæja í æ ríkara mæli verið viðurkennt sem fyrirsvarsaðili fyrir opinbera starfsmenn, þegar um hefur verið að ræða þeirra kjaramál. Þannig tók bandalagið þátt í undirbúningi að starfsmannalögunum nr. 38/1954, og Það er alveg efalaust, að það var atbeina bandalagsins að verulegu leyti að þakka, að þau lög voru sett. En í þeim lögum fólust margar réttarbætur, eins og kunnugt er og hér skal ekki rakið. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja var einnig til kvatt og átti aðild að, er launalögin voru endurskoðuð síðast, 1955.

Að undanförnu hefur líka Þessi sama þróun komið fram með þeim hætti, eins og hér hefur verið rakið að nokkru, að settar hafa verið á fót samstarfsnefndir ríkis og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Þeim samstarfsnefndum hafa verið ætluð mismunandi verkefni. Árið 1957 var t.d. nefnd, sem sett var þá á laggirnar og var samstarfsnefnd ríkisins annars vegar og bandalagsins hins vegar, ætlað að fjalla sérstaklega um launamál kvenna og koma til leiðar umbótum í því efni. Svipuð nefnd var skipuð 1958 til þess að fylgjast með launabreytingum í landinu almennt. Og loks var svo á síðasta hausti skipuð samstarfsnefnd um kjaramál, eins og líka hér hefur komið fram. Þannig hefur bandalagið í reyndinni komið fram meira og meira sem fyrirsvarsaðili opinberra starfsmanna, eins og ég áðan sagði. En sá réttur bandalagsins hefur þó ekki verið lögtryggður til þessa, og bandalagið hefur nú um nokkurt skeið, eins og kunnugt er, barizt fyrir því að fá viðurkenndan samningsrétt um kaup og kjör sinna félaga.

Ég held, að það sé auðsætt af þessum fáu orðum, sem ég hef um þetta sagt, að Þróunin hefur einmitt stefnt í þá átt um skipan þessara mála, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. að hverfa frá því að binda laun opinberra starfsmanna í lögum, en ákveða Þau þess í stað með samningum. því er svo hins vegar ekki að neita, að það hafa komið fyrir atvik, sem hafa flýtt fyrir þessari þróun, ef svo má segja. Það er alkunna, að ríkisstarfsmenn hafa átt við kröpp kjör að búa upp á síðkastið. Þeir hafa búið við föst laun og fengið tiltölulega litlar launabætur. Hins vegar hefur dýrtið á Þessum allra síðustu tímum vaxið mjög hröðum skrefum. Það er því óhætt að fullyrða, að þeir opinberir starfsmenn, sem hafa átt að búa við hin lægri laun, hafa verið í mestu vandræðum og hafa í raun og veru alls ekki getað komizt af og lifað af þeim launum, sem þeim voru ákveðin í launalögum, en hafa orðið að fleyta sér og sínum með meiri eða minni aukavinnu. Þetta er alkunna. Hitt er svo ekki síður vitanlegt, að laun háskólamenntaðra manna hafa á þessu tímabili verið í algerðu ósamræmi við það, sem tíðkast hjá nágrannaþjóðum okkar, þannig að þeir hafa í flestum tilfellum hér hjá okkur verið svo langt fyrir neðan það, sem er hjá okkar nágrannaþjóðum, að þeir hafa ekki einu sinni verið hálfdrættingar á við það, sem þar gerist.

Þetta ástand hefur auðvitað vakið óánægju og gert það óhjákvæmilegt fyrir Þessa menn, sem hafa búið við þessi kjör, að setja fram sínar kröfur um launabætur og launabreytingar, en á Þessu tímabili stórfelldra breytinga í verðlags- og dýrtíðarmálum hefur Það samt ekki fengizt, að launalögum væri breytt. Sú tregða, sem á því var, varð svo til Þess, að einstakar stéttir opinberra starfsmanna, fyrst í stað a.m.k. háskólamenntaðra manna, hófu kjarabaráttu, og þarf ekki að rekja Þá sögu hér, hún er öllum kunn, að því er varðar t.d. verkfræðinga og lækna, og náttúrufræðingar munu hafa átt í svipaðri baráttu svo og kennarar, eins og kunnugt er. Þessar stéttir, a.m.k. verkfræðingar og læknar, hafa í raun og veru brotið launalögin niður að því er þær stéttir varðar, þannig að þær hafa komizt að sérstökum samningum um sín laun og sín kjör, og það sama hygg ég vera í uppsiglingu eða kannske þegar gert, að því er kennara varðar. Þegar þetta hefur gerzt, að því er þessar launastéttir varðar, sem að vísu áttu við mjög misjöfn kjör að búa, sumar þeirra kannske meðal hinna lægst launuðu, aðrar aftur á móti miklu betur settar, – en þegar það var svo komið, að þær höfðu fengið kjarabætur með þessum hætti, að stofna til sérstakra samtaka og komast að samningum, þá er auðsætt, að aðrar stéttir opinberra starfsmanna mundu smám saman koma á eftir og sigla í sama kjölfarið. Launakerfið, sem búið hefur verið við, er því að springa, og það kerfi er í raun og veru þegar orðið eyðilagt, og mundi sjálfsagt ekki líða á löngu, að það yrði að mestu leyti dauður bókstafur, þó að það ætti að nafninu til að halda því.

Það hefði sennilega aldrei komið til þvílíkra vandræða eða þeirrar sjálfheldu í þessum málum sem nú er komið í, ef í tæka tíð hefði verið tekið liðlega á málaleitunum ríkisstarfsmanna um bætt kjör og launalögunum breytt til samræmis við aukna dýrtíð og jafnvel launabreytingar, sem hafa átt sér stað hjá öðrum starfsmannahópum. Ég held þess vegna, eins og málum þessum var komið, þá hafi ekki verið um annað að ræða en að veita samtökum ríkisstarfsmanna samningsrétt. Og ég held, að eins og málum var komið, sé skynsamlegt og eðlilegt að stíga það spor, sem stigið er í þessu frv. Dómur reynslunnar verður svo að skera úr því, hvernig Þetta skipulag gefst.

Ég vil ekki fara mikið út í pólitískar umr. í sambandi við þetta mál, en þó verður náttúrlega ekki komizt hjá því að benda á, að Það er að ýmsu leyti vegna afleiðinga núv. stjórnarstefnu, sem launamál opinberra starfsmanna og reyndar launamál almennt í landinu eru komin í það öngþveiti, sem raun ber vitni. Hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir tveimur gengislækkunum á stjórnartímabili sínu, með þeim afleiðingum, að dýrtíð hefur vaxið hér stórkostlega á þessu tímabili og það svo mikið, að það má heita orðið ókleift fyrir þá lægst launuðu starfsmenn, sem hafa verið í opinberri þjónustu, að lifa af þeim launum, sem þeim eru ætluð í launalögum, og er Þar gleggst dæmið um kennarana, sem vitaskuld hafa búið að undanförnu við launakjör, sem hafa verið algerlega óviðunandi, enda ógerlegt, eins og ég áður sagði, fyrir þá að framfleyta sér og sínum af Þeim launum, og hefur afleiðingin auðvitað orðið sú, að Þeir hafa reynt að verða sér úti um aukastörf, eftir Því sem kostur hefur verið á. En það sjá allir, að slíkt getur haft óheppilegar afleiðingar fyrir það aðalstarf, sem þeir eiga að rækja.

Ég álít, að hæstv. ríkisstj. hafi þráazt of lengi við því að verða við réttmætum óskum opinberra starfsmanna um sanngjarnar launabætur. Og þess vegna er nú komið sem komið er, og þess vegna er þannig komið, að ef ekki yrði komið á einmitt þessari skipan, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þá fæ ég ekki betur séð en við mundi blasa alger upplausn í launamálum, svo sem lítillega hefur verið rakið í Þessum umr. Launamálin, þ. á m. launamál ríkisstarfsmanna, eru algerlega komin í öngþveiti hjá hæstv. ríkisstj. Þetta vil ég aðeins benda á, en vil sem sagt ekki að öðru leyti, eins og ég sagði, fara út í pólitískar umr. í sambandi við þetta mál.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, þá er hér á ferðinni stórmál. Þar þarf margs að gæta og Þegar Alþ. fjallar um þvílíkt mál, Þá getur það auðvitað ekki og má ekki heldur aðeins líta á málið frá sjónarmiði opinberra starfsmanna, heldur verður það líka að taka til greina og athuga önnur sjónarmið í þessu máli og Þá sérstaklega sjónarmið skattþegnanna. Hver er greiðslugeta þeirra og hvað er hægt að ganga langt í þessu efni vegna tillitsins til þeirra? þessi atriði verður auðvitað að vega og meta. það kemur, eins og ég sagði, margt til greina. Þess vegna ber að mínum dómi að harma það mjög, að þetta mál skuli lagt svo seint fyrir Alþingi eins og raun ber vitni. Alþingi hefði einmitt þurft langan tíma til þess að fjalla um þetta mál, Því að það er svo fjölmargt, sem þarf athugunar við í sambandi við þá skipan, sem á að gera með Þessu frv. á Þessu máli, Þ. á m. fjölmörg lögfræðileg vandamál, sem hljóta að koma til álita. Þetta mál hefur verið það lengi á döfinni hjá hæstv. ríkisstj., að það hefði átt að vera ákaflega auðvelt fyrir hana að leggja Þetta mál miklu fyrr fyrir Alþingi. Það hefði átt að vera auðvelt fyrir hana að komast að því samkomulagi, sem hún hefur komizt að við stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, því að það er fyrst, eins og komið hefur fram í þessum umr., 1959, sem skipuð er nefnd til þess að athuga um samningsrétt opinberra starfsmanna, þannig að þessi mál hafa vissulega verið mjög lengi á döfinni hjá hæstv. ríkisstj., svo að það er í rauninni af hennar hálfu algerlega óafsakanlegt að hafa ekki lagt Þetta mál fyrr fyrir þingið, en koma þess í stað með það hér inn á Alþingi á allra síðustu dögum þingsins, þegar ekki er nema tæp vika eftir af þingtímanum, að því er ætlað er, og þegar starfshættir þingsins eru að öðru leyti orðnir þeir, að lítill tími gefst til að íhuga það. Þetta er mjög aðfinnsluvert að mínum dómi.

En þetta frv. er nú samt sem áður árangur af löngum samningaviðræðum á milli ríkisstj. og stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Frv. byggist á samkomulagi, sem þessir aðilar hafa náð, og frv. er .ví í raun og veru eins konar samningur á milli .essara aðila, þó að það liggi að vísu fyrir, að annar aðilinn hefði kosið efni þess samkomulags nokkuð á annan veg en þetta frv. er.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, Þá vilja framsóknarmenn, þrátt fyrir þá ágalla, sem hér hafa verið á málatilbúnaði, svo sem ég rakti, vinna að skjótum framgangi þessa máls og í því formi í megindráttum, sem það er hér fyrir lagt. Við teljum, að það verði í megindráttum að samþ. frv. óbreytt, þegar af þeirri ástæðu, sem ég áðan drap á, að frv. er byggt á samkomulagi ríkisstj. og stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og breytingar á meginatriðum frv. mundu kippa grundvellinum undan því samkomulagi, þannig að þá væri í raun og veru brostin forsenda fyrir frv. Í öðru lagi er það, eins og nú er komið, svo, að það gefst ekki tóm til að gera stórfelldar breytingar á þessu frv. Hitt er að sjálfsögðu annað mál, að það verður þó, þrátt fyrir tímaskort, að reyna að athuga þetta mál í þingnefnd, eftir því sem tök eru á, og til þess er vissulega fullkomin ástæða, því að þótt þessi mál hafi verið lengi í deiglunni og þetta frv. eigi sér orðið alllanga forsögu og þótt að frv. hafi unnið ágætir og færir menn, þá sýnist mér, að það sé nú samt þannig úr garði gert, að í því séu a.m.k. ýmis álitaefni eða atriði, sem tvímælis geta orkað og nánari skýringa þurfa við, og þess vegna hlýtur þingnefnd að taka mörg atriði frv. til athugunar, og að sjálfsögðu er eðlilegt og ekkert við því að segja, þó að það séu gerðar á því einhverjar minni háttar breytingar, ef ekki er raskað þeim megingrundvelli, sem um hefur verið samið og þetta frv. er byggt á.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fara út í einstök atriði þessa frv. Það mundi lengja mál mitt svo mjög, og Það er í sjálfu sér atriði, sem eðlilegra mundi vera að þingnefnd tæki til athugunar, en ég vil endurtaka það, að það er að mínum dómi þarna um að ræða fjölmörg álitaefni. Það kemur t.d. strax fram í sambandi við 1. gr. spurningin um það, til hverra þessi lög eiga að taka. Það er rétt, að sú skilgreining, sem sett er þarna í upphafi gr., miðast nokkuð við þá, sem eru taldir ríkisstarfsmenn í skilningi starfsmannalaganna. En þó er það með þeim undantekningum, sem þarna eru taldar í gr. Þar getur náttúrlega verið spurning um þriðju undantekninguna, bankastarfsmenn. Það getur verið mikil spurning um það, hvaða ástæða er til þess að setja þá hér sér á bekk og hvort það er ekki eðlilegt, að bankastarfsmenn eins og aðrir starfsmenn ríkisins og ríkisstofnana eigi samningsrétt. Það getur hins vegar verið álitamál, hvort sá samningsréttur á að beinast að fjmrh., eins og almennt er eftir þessu frv., eða að bankaráðum viðkomandi banka, sem nú ákveða laun þessara starfsmanna, bankastarfsmanna. En auðvitað eru bankastarfsmenn opinberir starfsmenn og ættu að sæta sömu kjörum og starfsmenn við aðrar ríkisstofnanir. Í lögunum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru t.d. undanskildir starfsmenn í utanríkisþjónustunni. Þeim lögum eða ýmsum ákvæðum þeirra laga er ekki ætlað að taka til starfsmanna í utanríkisþjónustunni, og mér finnst það t.d. eitt af álitaefnunum, hvort sendiherrar og starfsmenn í utanríkisþjónustunni eiga að fara í gegnum þá leið, sem þarna er gert ráð fyrir, samningaleið, sáttaleið og svo að lokum kjaradóm. Ég hef ekki getað komið auga á, að það væri minnzt á þá í þessu frv., og ég veit ekki, hvort þeir hafa verið hafðir þar í huga. En mér sýnist t.d. í sambandi við það vera spurning um það, hvort það gætu ekki verið fleiri aðilar, sem ættu að komast undir 2. málsgr. 4. gr., aðrir en ráðherrar og hæstaréttardómarar, sem ættu beint að fá laun sín ákveðin af kjaradómi, af því að það eru einmitt margir ríkisstarfsmenn, t.d. starfsmenn utanríkisþjónustunnar, að ég ætla, a.m.k. sendiherrar, og ýmsir forstöðumenn stofnana og t.d. heil félög, eins og t.d. félag héraðsdómara, að ég ætla, og sjálfsagt mörg fleiri, sem standa algerlega utan við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Ég er alls ekki að gera það að minni tillögu, að þessu ákvæði sé breytt eða fleiri séu teknir þarna með, og ég get vel skilið, að það geti verið erfitt að draga þarna takmarkalínu. En mér finnst, að það sé einmitt eitt af álitamálunum í sambandi við þetta lagafrv., hvort það ættu ekki jafnvel fleiri að koma þarna undir, þ.e.a.s. ýmsir embættismenn, sem ekki yrði talið eðlilegt að væru að standa í samningum um sín kjör, frekar en ráðh. eða hæstaréttardómarar gerðu það.

Eins og gerð hefur verið grein fyrir og rækilega var rakið af hv. síðasta ræðumanni, 5. þm. Norðurl. e., þá er gert ráð fyrir einkaaðild Bandalags starfsmanna ríkis og bæja að kjarasamningunum, þannig að það sé samningsaðili fyrir hönd ríkisstarfsmanna. Eins og ég sagði áðan, eru að vísu sterk rök, sem mæla með því að mínum dómi, að það sé þannig einn aðili, sem fari með fyrirsvar allra ríkisstarfsmanna, en á hinn bóginn er sá agnúi á þeirri skipan, að það eru ýmsir opinberir starfsmenn og starfsmannahópar, að ég held, sem ekki eru félagar í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Og enn fremur er mér kunnugt um Það, að Bandalag háskólamenntaðra manna hefur óskað eftir því að fá samningsaðild fyrir hönd sinna félaga. Ég álít og ekki hvað sízt með tilliti til þess, að ég tel, að háskólamenntaðir menn hér hafi búið við mjög léleg kjör, borið saman við þau kjör, sem slíkir menn hafa með öðrum þjóðum, ekkert óeðlilegt, að Bandalagi háskólamenntaðra manna væri með einhverjum hætti veitt aðstaða til að fylgjast með í þessum málum. En það er eins með það atriði og það, er ég minntist á áðan, að ég er ekki hér að gera það að minni tillögu, en bendi aðeins á þetta, af því að ég veit, að það hafa komið fram óskir um það, og tel eðlilegt, að sú hv. þingnefnd, sem um málið fjallar, velti því fyrir sér, og ég fæ nú ekki séð, að það væri útilokað að veita slíku bandalagi aðild með vissum hætti, jafnvel þó að það væri ekki gerð breyting á þeirri skipan, að það væri Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, sem fer með samningsréttinn. T.d. teldi ég það út af fyrir sig ekkert óeðlilegt, að það væri eitthvað breytt þeirri skipan, sem gert er ráð fyrir um tilnefningu í kjaradóm og kjaranefnd og að t.d. Bandalagi háskólamenntaðra manna væri gefinn kostur á að eiga þar fulltrúa, einn af fimm, því að það er náttúrlega engin nauðsyn á því, að hæstiréttur nefni þar þrjá til, heldur væri það að mínum dómi allt eins eðlilegt, að hann nefndi þar oddamanninn aðeins.

Þá vildi ég aðeins benda á það, þó að það sé nú smátt atriði, að mér sýnist, að það sé vafasamt að hafa fyrirsögnina á þessu frv. eins og er, þ.e.a.s. kalla það frv. til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, af því að í lögunum sjálfum er svo aftur vikið frá því og yfirleitt ekki talað um opinbera starfsmenn, heldur um ríkisstarfsmenn og starfsmenn ríkisins, en þetta hugtak, opinber starfsmaður, er teygjanlegt og í ýmsum tilfellum vafasamt, hverjir undir það falla, og ég held þess vegna, að það ætti að fara hér að eins og gert var á sínum tíma, þegar lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins voru sett. Þá nefndist frv: til þeirra laga í upphafi líka frv. til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, en var breytt í meðferð þingsins, einmitt af þessum sökum, að það gæti verið erfitt að segja til um það, hverjir væru opinberir starfsmenn, svo og af því, að þeim lögum var ekki ætlað að ná til starfsmanna sveitarfélaga, og það ná þessi lög ekki heldur beinlínis, heldur þarf samþykki starfsmanna sveitarfélags að koma til, til þess að þau eigi við um þá.

Herra forseti. Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta frv. Ég vil ekki fara lengra út í einstök atriði, en það gæti verið ástæða til, af því að í þessu frv. eru mýmörg atriði, eins og ég nefndi, sem sýnilega eru samin í flýti, en endurtek það, sem ég í upphafi sagði, að við framsóknarmenn munum fylgja þessu frv. og reyna að greiða götu þess, eftir því sem kostur er.