14.04.1962
Efri deild: 89. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

225. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Frsm. (Ólafur Björnsson) :

Herra forseti. Með tilliti til þess stutta tíma, sem fjhn. hefur haft til þess að athuga þessi máli, verð ég að byrja með að játa, að afgreiðsla hennar á málinu hefur verið miklu meiri fljótaskrift en æskilegt er og eðlilegt má teljast um slíkt stórmál sem hér liggur fyrir. Okkur öllum, sem í n. eigum sæti, eru þau vinnubrögð, sem við höfum neyðzt til þess að hafa í sambandi við þetta frv., mjög á móti skapi. En tveir kostir voru fyrir hendi, annar sá að afgr. málið með þeim hætti, sem orðið hefur, hinn sá, að við tækjum á okkur ábyrgð á því, að þingstörfum yrði ekki lokið fyrir páska, en þar sem það er ósk okkar allra, að svo megi verða, þá þótti okkur fyrri kosturinn betri.

Af sömu ástæðum vil ég reyna að hafa framsögu mína fyrir málinu í sem allra stytztu máli. Ég vil þó fara nokkrum orðum um það vandamál, sem tilgangurinn er að leysa með þessu frv., og einnig ræða það, hverjar líkur ég tel á möguleikunum fyrir því, að sú nýskipan þeirra mála, sem hér er um að ræða, geti orðið til bóta eða spor í þá átt að leysa þetta vandamál, sem ég tel tvímælalaust hafa verið eitt af mestu Þjóðfélagsvandamálum hér á landi, í rauninni allt frá því að Íslendingar fengu sjálfsforræði í fjármálum.

Sú skipan, sem hingað til hefur verið á launamálum opinberra starfsmanna, er sem kunnugt er sú, að Alþingi hefur með sérstökum launalögum ákveðið laun þeim til handa. Þegar á öðru þingi eftir að Íslendingar fengu fjárforræði árið 1872, voru sett launalög. Það var á þinginu 1875. Nú mun ég ekki fara út í það að rekja sögulega þróun þessara mála. Til slíks vinnst enginn tími. En ég get þó ekki látið hjá líða, einmitt af því að ég minntist á þessi fyrstu launalög, sem Alþingi samdi, að nefna það, að við meðferð málsins á þingi 1875 var í fyrsta og því miður einnig í síðasta skipti sýndur stórhugur í sambandi við launaákvörðun, sem gerð var, og það var að ýmsu leyti athyglisvert, að það voru einmitt ýmsir bændaþingmannanna, sem lengst vildu ganga í því efni að ákveða þeim að vísu tiltölulega fáu embættismönnum, sem launalögin þá tóku til, rífleg laun. Sem dæmi um það, hve rífleg launakjörin voru, miðað við það, sem síðar var, má nefna, að á vegum þeirrar nefndar, sem undirbjó launalögin frá 1955, gerði ég athugun á því, hver væru raunveruleg laun biskups, eins og Þau voru þá ákveðin, miðað við það, sem var 1875, miðað við þá breytingu, sem orðið hafði á launum og verðlagi á þeim tíma. Niðurstaðan varð sú, að raunveruleg laun biskups, eins og þau voru ákveðin með launalögunum frá 1955 og í rauninni hafa ekki breytzt síðan, voru aðeins tæpur helmingur á við það, sem ákveðið var með launalögunum 1875, þrátt fyrir það að fólksfjöldi á þeim tíma var aðeins rúmur þriðjungur á við það, sem nú er, og þá almennu fátækt, sem þjóðin átti þá við að búa. En Adam var ekki lengi í Paradís hvað þetta atriði snertir. Um það bil áratug síðar voru sett ný launalög, en á níunda tug aldarinnar gekk mikið harðæri yfir landið, eins og kunnugt er, og ein af þeim hallærisráðstöfunum, sem Alþingi gerði þá, var sú að taka launalögin frá 1875 til endurskoðunar á þann hátt, að laun embættismanna voru verulega lækkuð frá því, sem þá var. Ég nefni þetta vegna þess, að því miður hefur þannig tekizt til, að opinbera starfsmenn hefur aldrei rétt úr þeim kút, sem þeir voru kveðnir í með hallærisráðstöfunum, sem gerðar voru um miðjan níunda tug fyrri aldar. Að vísu hafa launalög oft verið sett síðan, en í meginatriðum hefur niðurstaða þeirra eingöngu orðið sú að leiðrétta laun opinberra starfsmanna til samræmis við hina almennu verðiags- og kaupgjaldsþróun, sem orðið hafði, frá því að síðustu launalög voru sett, en launahlutföllin hafa i rauninni ekki breytzt þeim í hag, svo að neinu nemi a. m. k., á því 80 ára tímabili, sem hér er um að ræða. Ég verð að láta þetta nægja hvað snertir hina sögulegu þróun launamálanna, en tel rétt, af því að svo vill nú líka til, að ég er persónulega kunnugur þeim málum, að rekja það lítils háttar, hvaða sjónarmið það eru, sem legið hafa til grundvallar því, þegar launalög hafa verið sett.

Nú vill svo til, að í þjónustu hins opinbera eru mjög margir starfsmenn, sem vinna mjög sambærileg störf við það, sem er á almennum vinnumarkaði. Þetta á við um atvinnufyrirtæki, sem rekin eru á vegum hins opinbera, enn fremur skrifstofu- og afgreiðslufólk. Í þjónustu hins opinbera eru líka ýmsir iðnlærðir menn, sem laun taka samkvæmt launalögum. Hvað þessa starfshópa snertir, var auðvelt að fá samanburð við það, sem tíðkaðist á almennum vinnumarkaði, og laun opinberra starfsmanna, þeirra sem tilheyrðu þessum starfshópum, þá eðlilega ákveðin með hliðsjón af því, þannig að að jafnaði var tekið tillit til þess og það að vissu marki metið til frádráttar launum, ef opinberir starfsmenn nutu ákveðinna hlunninda, eins og lífeyrissjóðshlunninda og annars, sem almenningur naut ekki. Um það mátti auðvitað ávallt deila, hvernig þetta skyldi meta, en út í það atriði fer ég ekki. Hvað þessa starfshópa snertir, var grundvallarsjónarmiðið þannig það, að hið opinbera greiddi þeim svipuð laun og gerðist á hinum almenna vinnumarkaði. Nú er það mál út af fyrir sig, að auðvitað hlaut það, a.m.k. þegar frá leið, að leiða af sjálfu sér, að ríkið hlaut að verða að greiða þessum starfshópum nokkurn veginn það sama og gerðist á almennum vinnumarkaði, annars hefði það ekki fengið mennina í þjónustu sína.

En þetta er ekki nema nokkur hluti af opinberum starfsmönnum. Allur þorrinn vinnur ýmiss konar störf, sem aðeins koma fyrir í opinberum rekstri. Má þar m.a. nefna langskólagengna menn, eins og presta, lækna, kennara o.s.frv., og enn fremur yfirmenn hjástofnunum hins opinbera, sem gegna ábyrgðarmeiri störfum. Þeim voru eðlilega akveðin nokkru hærri laun en þeim, sem styttri undirbúningsmenntun höfðu að baki og ábyrgðarminni störfum gegndu. En matið á kostnaði við undirbúningsmenntun og þeirri ábyrgð, sem starfinu fylgdi, hefur alltaf verið mjög lágt, og hefur það verið meginástæðan til þeirrar óánægju, sem ég tel fullkomlega réttmætt að gætt hefur meðal opinberra starfsmanna um launakjör þeirra. Ástæðurnar til þess, að þetta mat hefur alltaf verið mjög lágt, eru auðvitað mismunandi, og get ég ekki farið nákvæmlega út í að rekja það. En þegar því er slegið föstu, að þetta mat sé of lágt, þá verður eðllega að hafa einhverja viðmiðun í því sambandi, og það, sem eðlilega hefur oft verið vitnað til í því sambandi, eru launakjör opinberra starfsmanna, þeirra sem svipuðum störfum gegna í nágrannalöndum okkar. Það er staðreynd, að launamismunur milli opinberra starfsmanna er til mikilla muna meiri þar en hér hjá okkur. Hér hefur það undanfarið verið þannig, að hæsti launaflokkur hefur allt að því tvöföld til þreföld laun á við lægsta launaflokk. Í nágrannalöndunum er þessi munur fimm- til sekfaldur a.m.k. og allt upp í tífaldur eða jafnvel meira. Af þessu hefur auðvitað leitt, að mismunurinn í launakjörum þeirra, sem langskólagengnir voru og gegndu sérstökum trúnaðarstörfum, miðað við það, sem er í nágrannalöndunum, hefur verið miklu meiri en hvað lægri launaflokkana snertir. Nú er mér það fyllilega ljóst, að allan slíkan samanburð landa á milli ber að gera með mikilli varúð. Bæði eru örðugleikar á því að fá fullkomlega réttan samanburðargrundvöll, því að í þessu sambandi skiptir auðvitað fleira máli en launakjörin. Má þar nefna atriði eins og skatta, félagsmálalöggjöf og óteljandi margt fleira. Í öðru og þriðja lagi koma auðvitað upp ýmsar spurningar í sambandi við það, er slíkan samanburð á að gera. Í fyrsta lagi þessi: Eru ekki þjóðartekjurnar í þessum löndum svo miklu hærri en á Íslandi, að það geri eðlilegt, að þar séu greidd hærri laun? Enn fremur má nefna þá staðreynd, sem sérstaklega á einmitt við hvað snertir æðri embættismennina, að hér eru þeir, af því að um lítið þjóðfélag er að ræða, tiltölulega fleiri miðað við íbúafjölda heldur en í nágrannalöndunum, svo að af því leiðir, að hér á Íslandi verða það tiltölulega færri þjóðfélagsborgarar, sem koma til með að standa undir launagreiðslum til hvers af þeim embættismönnum, sem hér eiga hlut að máli, heldur en í nágrannalöndunum.

Mér er það ljóst, að þessi atriði gera það að verkum, að þess er vart að vænta, að launagreiðslur til hinna æðri embættismanna geti verið jafnríflegar hér á landi og í nágrannalöndunum. En annað mál er svo hitt, hvort sá mismunur þarf að vera eins mikill og raun er á.

Það, sem hefur verið aðalhindrunin í veginum fyrir því, að þetta mat á undirbúningsmenntun, ábyrgð, sem starfi fylgir o.s.frv. yrði lagfært opinberum starfsmönnum í vil, er það, sem nú skal greina, og ég tel mjög þýðingarmikið, að það komi fram við umr. málsins.

Það er ekki þannig, — og það get ég bezt borið um vegna langrar reynslu í þessu eini, — að þeir, sem við hefur verið að semja, ráðh. og fulltrúar þeirra, hafi engan skilning haft á þessu máli. Þeir hafa sjálfir einmitt átt persónulegra hagsmuna að gæta í sambandi við það, að þetta vandamál leystist, og fundið til þess ekki síður en aðrir embættismenn, sem hér áttu hlut að máll. En hið neikvæða svar, sem alltaf hefur fengizt, ef farið var fram á einhverja verulega leiðréttingu, var alltaf grundvallað á því, að ef launakjör hinna betur launuðu eru bætt, skapar það hættu á því, að kröfur komi fram um almennar launahækkanir með þeirri verðbólguhættu, sem af því leiðir.

Þetta er ein af fleiri ástæðum, sem liggja til þess, að ég tel það sjónarmið opinberra starfsmanna eðlilegt og því miður byggjast á langri reynslu, að ei von eigi að vera til þess, að kjör þeirra batni, þannig að eitthvað muni um, þá séu launalög og setning launalaga fullkomin blindgata í þessu efni. Eftir þeirri leið er þess aldrei að vænta, að opinberir starismenn geti fengið meira en lagfæringu á launakjörum sínum til samræmis við þá almennu hækkun verðlags eða almenns kaupgjalds, sem kann að eiga sér stað á hverjum tíma. Þá kemur spurningin um það, hvaða aðrar leiðir kæmu til greina til úrbóta í þessu erni.

Önnur leiðin er sú, sem opinberir starfsmenn lengst af hafa bent á í þessu sambandi og barizt fyrir, að þeim sé veittur, eins og það er kallað, fullur samningsréttur og aðstaða til þess að knýja fram samninga með vinnustöðvun, svo sem gerist á almennum vinnumarkaði.

Hin leiðin er sú, sem lagt er til að farin verði í því frv., sem hér liggur fyrir, að opinberir starfsmenn fái viðurkenndan samningsrétt, en ef samningsviðræður milli ríkisvaldsins og starfsmannanna leiða ekki til árangurs, þá verði skorið úr ágreiningnum af sérstökum dómstól, sem gert er ráð fyrir að komið verði á fót, eins og frv. nánar ákveður og ekki er ástæða til að rekja hér.

Hvað fyrri leiðina snertir, leið hins fulla samningsréttar með heimild til þess að stolna til vinnustöðvana í einni eða annarri mynd, vil ég aðeins taka þetta fram: Það má auðvitað um það deila, hvort verkfallaleiðin eða þessi leið, sem farin er til þess að leysa vinnudeilur á almennum vinnumarkaði, sé heilbrigð eða eðlileg eða ekki. Hvaða skoðanir sem menn hafa í því efni, þá gera allir sér það ljóst, að vinnustöðvanir, ef til þeirra kemur, hljóta alltaf að valda þjóðarbúinu meira eða minna tjóni og þannig torvelda, svo langt sem það nær, raunverulegar kjarabætur. Annað mál er það, að svo lengi sem ekki tekst að koma á fót neinni stofnun í þjóðfélaginu, sem báðir aðilar treysta til þess að úrskurða í vinnudeilum á hlutlægum forsendum, þá mundi annað fyrirkomulag þessara mála á hinum almenna vinnumarkaði en það, sem nú ríkir, verða sú skerðing á samninga- og samtakafrelsi, að ég hygg, að það sé varla ágreiningur um það milli okkar, sem hér erum staddir, að ráðstafanir til þess að afnema þetta fyrirkomulag komi ekki til greina, nema þær aðstæður kynnu að skapast, að slíkt yrði óhjákvæmilegt til þess að koma í veg fyrir neyðarástand.

En ef verkfallsréttur almennt er lögleiddur í þjóðfélaginu, þá verður það auðvitað álitamál, hvort ríkið og stofnanir þess hafi þá sérstöðu í þessu efni, að eðlilegt sé, að annar háttur sé á hafður um ákvörðun launa starfsmanna hins opinbera. Ég mun ekki ræða þetta mál og láta í ljós á því neina skoðun í þessu sambandi, en m.a. að gefnu tilefni vegna þeirra brtt., sem ég sé að hv. 5. þm. Norðurl. e. hefur flutt við frv., þar sem gert er einmitt ráð fyrir því, að sú leið, sem hér er um að ræða, verði farin, vil ég leyfa mér að vekja athygli á því, að jafnvel þó að þessi leið væri farin og um það yrði almennt samkomulag, þá gæti hún aldrei eðli málsins samkvæmt nema að nokkru leyti orðið lausn á launamálum opinberra starfsmanna, ef litið er á þá sem heild. Það má að vísu segja, hvað snertir t.d. skrifstofufólk hjá opinberum fyrirtækjum og fjölmarga starfshópa aðra, að það sé ekki ástæða til þess, að þeir búi við aðra aðstöðu í þessu efni en þeir, sem vinna hjá einkafyrirtækjum og við oft mjög sambærileg störf. En fyrir hinu má ekki loka augunum, að hvað snertir fjölmenna starfshópa í þjónustu hins opinbera er það þannig, að það leiðir af eðli starfanna, að sú leið, sem hér er um að ræða, mundi ekki verða fær. Þetta á við í fyrsta lagi um þá fjölmennu starfshópa, sem gegna því sem kallað er öryggisþjónusta. Menn geta haft ýmsar skoðanir á vinnustöðvunum og réttmæti þeirra. Hitt hygg ég að varla sé ágreiningur um, að vinnustöðvunum má ekki beita þannig, að þær stofni lífi og limum óbreyttra þjóðfélagsborgara í hættu, en þannig er einmitt með öryggisþjónustuna, ef hún félli niður, að um slíkt væri að ræða. Þar má nefna starfshópa eins og lækna, hjúkrunarlið, lögreglu, slökkvilið og jafnvel símaþjónustu, flugþjónustu og ýmislegt fleira, enda var það svo, sem sjálfsagt var og enginn ágreiningur var út af fyrir sig um meðal opinberra starfsmanna, að í frv. því, sem fulltrúar bandalagsstjórnarinnar í n. þeirri, sem undirbjó samningsréttarmálið, lögðu fram, þá var gert ráð fyrir því, að sá takmarkaði réttur til vinnustöðvunar, sem þar er gert ráð fyrir, nái ekki til þeirra starfshópa, sem annast öryggisþjónustuna. Launamál þessara aðila mundu því eftir sem áður vera óleyst, þó að þessi leið væri farin.

Í öðru lagi eru svo starfshópar meðal opinberra starfsmanna, sem þannig stendur á um, að þó að þeir fengju verkfallsrétt og enginn hefði við það að athuga, að þeir fengju hann, þá eru störfin þess eðlis, að það getur varla komið til mála, að þeim verkfallsrétti verði beitt. Sem dæmi um þetta má t.d. nefna prestana. Ég hugsa, að sá maður sé varla til í prestastétt, sem detti það nokkurn tíma í hug að hóta því að hætta að messa eða jarðsyngja fólk, ef hann er óánægður með launakjör sín. Og þannig háttar um fleiri starfshópa. Ég býst t.d. við því, að fáir séu þeir í hópi háskólakennara, sem muni telja það eðlilegt, jafnvel þó að verkfallsréttur fengist, að honum yrði nokkurn tíma beitt. Einnig hvað þessa starfshópa snertir, þá yrði það svo, jafnvel þó að verkfallsréttarleiðin yrði að öðru leyti farin, að það væri engin lausn á málum þeirra, svo að hana yrði að finna eftir öðrum leiðum.

Hvað þessa starfshópa snertir, er því erfitt að koma auga á aðra leið, bæði nú og síðar, heldur en þá, sem gert er ráð fyrir í frv.

Hvað snertir þá aðra aðila, sem til mála gæti komið að veita verkfallsrétt, þá verða þeir undir öllum kringumstæðum ekki verr settir, heldur þvert á móti betur settir, ef þessi leið er farin, heldur en sú, sem nú er. Í stað þess, að nú verður það þannig, að gagnaðilinn, sá sem opinberir starfsmenn semja við um launakjör sín, hlýtur að fella hinn endanlega úrskurð um launakjörin, þá er þetta nú falið hlutlausum aðila, og ég hygg, að enginn ágreiningur sé um það milli opinberra starfsmanna, að slíkt sé undir öllum kringumstæðum spor í rétta átt, hvað sem líður skoðunum manna á því, hvort hér sé um fullnaðarlausn á þessum málum að ræða eða ekki. Það verður reynslan auðvitað m.a. að leiða, í ljós.

Af þeim ástæðum, sem ég nú hef greint, tel ég, að frv. sé spor í rétta átt og sjálfsagt að gera þá tilraun, sem í því felst, til lausnar á mikilvægu þjóðfélagslegu vandamáli.

Þetta er nú það, sem ég hef að segja almenns eðlis um að frv., sem hér liggur fyrir, en vil, áður en ég lýk máli mínu, víkja nokkrum orðum að einstökum atriðum, sem á góma hefur borið í n. við meðferð málsins.

Eitt af þeim atriðum, sem þar hefur verið rætt, er ákvæði 4. gr. frv. um það, að launakjör ráðh. og hæstaréttardómara skuli ákveðin af kjaradómi. Hv. 5. þm. Norðurl. e., sem talaði hér við 1. umr. málsins, ræddi þetta atriði þá sérstaklega og vakti athygli á því, að það væri óviðurkvæmilegt, að þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, hæstaréttardómarar og ráðh., tilnefndu fjóra menn af fimm í þeirri n., sem ákveður launakjör þeirra. Ég hugsa, að við höfum allir verið sammála um það, nm. í fjhn., að óviðkunnanlegur blær kann að vera á þessu, en ég held, að það sé rétt skilið hjá mér, að það sé skoðun okkar allra, að undanteknum hv. 5. þm. Norðurl. e., sem flutt hefur brtt. um þessi efni, að eftir atvikum væri þó ekki ástæða til þess að breyta þessu ákvæði. Hvað mína persónulegu skoðun snertir í því efni, þá vil ég leyfa mér að benda á það, að þó að á þessu sé e.t.v. óviðkunnanlegt form, þá held ég, að það sé nú samt grýla að fara að gera ráð fyrir því, að hæstaréttardómararnir mundu velja þá þrjá dómendur, sem hér er um að ræða, að einhverju meira eða minna leyti með hliðsjón af því, að viðkomandi væru líklegir til þess að ákveða sem hæst launakjör þeim til handa. Ég veit, að hæstiréttur nýtur svo almenns trausts í þjóðfélaginu, að fáir munu halda því fram, að á þessu sé hætta í alvöru. Og þó að ráðh. þeir, sem sitja í ríkisstj. hverju sinni, séu umdeildir, þá held ég, að við munum nú samt varla í alvöru gera því skóna, að svipuð sjónarmið gætir ráðið tilnefningu ríkisstj. á þeim eina manni, sem hún tilnefnir í dóminn. Ég hygg einmitt, að þvert á móti sú staðreynd, að það eru hæstaréttardómararnir og ríkisstj., sem tilnefna fjóra af þessum fimm mönnum, verði miklu frekar til þess að halda launakjörum bæði ráðh. og hæstaréttardómara niðri heldur en hið gagnstæða. Væri óhóflega farið í þær sakir að hækka laun þessara embættismanna, sem ég dreg ekki dul á að eru óviðunandi, eins og nú er, pá mundi það vekja slíka gagnrýni, og þeir aðilar, sem þar eiga hlut að máli, gera sér það ljóst, að ég held, að hér sé í rauninni meira um grýlu að ræða. Auk þess mundi, ef þá leið aðra ætti að fara, sem vel kæmi hér til greina, að láta þessa aðila áfram vera á launalögum, þá koma viss tæknileg vandamál fram í sambandi við það. Nú er gert ráð fyrir því, að þessi lög og það fyrirkomulag, sem hér er lagt til að tekið verði upp, taki endanlega gildi 1. júlí 1963. Þá kemur sú spurning: Hvenær á að setja launalög fyrir ráðh. og hæstaréttardómara? Ætti að gera það á næsta þingi eða ætti það að vera þannig, að þegar eftir 1. júlí setti sú stjórn, sem þá sæti við völd, brbl. um þetta efni? Hér koma fram vandamál, sem ég segi ekki að séu óleysanleg, en þó það mikil, að n. eða meiri hl. hennar treysti sér ekki til þess að gera till. að svo stöddu í því efni.

Annað vandamál, sem rætt var í n., er spurningin um það, að hve miklu leyti eðlilegt sé, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fari með umboð þeirra, sem ekki eru aðilar að bandalaginu. Einna þýðingarmesta atriðið í því sambandi er e.t.v. spurningin um það, hvort eðlilegt sé, að bandalagið fari með umboð félaga háskólamenntaðra manna, sem yfirleitt eru ekki aðilar að bandalaginu, með tveimur eða þremur undantekningum. En n. barst erindi frá Bandalagi háskólamanna, þar sem farið var fram á það, að þeim yrði veitt sérstök aðild að kjararáði og kjaradómi, þegar mál þessara aðila væru til meðferðar. Ég tel það fyllilega eðlilegt, að þetta sjónarmið komi fram af hálfu háskólamenntaðra manna og samtaka þeirra, og hlýtur það auðvitað að verða mjög til athugunar í framtíðinni, hvort ekki sé eðlilegt, að þeir fái einhverja aðild að þeirri skipan, sem hér er lagt til að tekin verði upp. Hins vegar, ef slíkar breyt. ætti að gera á því frv., sem hér liggur fyrir, sem Bandalag háskólamanna fer fram á, þá mundi það kosta nýjar samningaviðræður við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, það væri með öllu óhjákvæmilegt. En ríkisstj. hefur talið það sjálfsagðan og eðlilegan hlut að reyna að ná sem víðtækustu samkomulagi við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja við meðferð þessa máls, og svo giftusamlega hefur tekizt, að þar er um fullt samkomulag að ræða. Hitt gefur auga leið, að ef nú ætti að fara að taka upp nýja samninga við bandalagið, þá yrði óframkvæmanlegt að afgreiða frv. á þeim tíma, sem hér er til umráða.

Annað atriði í þessu sambandi, sem rætt var í n., var spurningin um það, hvort undantekningarákvæði 1. gr. eigi ekki eðlilega að vera víðtækari en frv. gerir ráð fyrir. Ég býst við, að flestir, ef ekki allir nm. hafi verið á þeirri skoðun, að margt mundi mæla með því að gera þessi ákvæði víðtækari. En það hefði kostað athugun og endurskoðun á frv., sem nefndin hafði ekki aðstöðu til að framkvæma, og var því ekki tekið tillit til þess. Hins vegar hefur n. tekið tillit til eins atriðis í þessu sambandi, en það eru óskir starfsmanna Alþingis um það, að þeir komi inn undir undantekningarákvæði 1. gr. Þetta er í fullu samræmi við ákvæði, sem er í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, hvað starfsmenn Alþingis snertir. Ég taldi þó rétt að bera þá brtt., sem n. hefur flutt um þetta atriði, undir formann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, en eftir að hann hafði haft samband við aðra stjórnarmenn, tjáði hann mér, að bandalagið hefði ekkert við það að athuga, þó að þessi brtt. yrði flutt. En að öðru leyti sá nefndin sér ekki fært með tilliti til þeirra aðstæðna, sem voru fyrir hendi, að taka tillit til framkominna óska í þessu efni.

Áður en ég lýk máli mínu, get ég ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um atriði, sem bar á góma hjá báðum þeim hv. stjórnarandstæðingum, sem töluðu við 1. umr. málsins, og ég varð einnig var við, að nokkuð var rætt í sambandi við eldhúsumr., sem fram fóru í gær. En það er sú greiðsla, sem nú hefur verið ákveðin kennurum til handa fyrir aukavinnu. Ég veit, að þegar þetta er rætt, verður ekki hjá því komizt að koma inn á almenn ágreiningsmál. En ég tel, að einmitt þetta atriði og þau ummæli, sem um það hafa fallið, snerti mjög kjarna þeirrar spurningar, sem ég ætlaði einmitt að leitast við að svara hér að nokkru, en hún er sú, hverjar líkur væru á því, að þetta nýja fyrirkomulag gæti reynzt lausn á því vandamáli, sem hér er um að ræða. Það hefur einmitt bæði við 1. umr. málsins og þó öllu fremur í eldhúsumr. verið látið mjög að því liggja, að þá greiðslu, sem hæstv. ríkisstj. hefur fallizt á að kennarar fengju, bæri í rauninni að skoða sem bætur til handa kennarastéttinni vegna kjaraskerðingar af völdum þeirra efnahagsráðstafana, sem hæstv, ríkisstj. hefur gert. Hér er auðvitað um algera fjarstæðu að ræða, og ég tel, að sá hugsunarháttur, sem í slíku felst, sé hættulegri hagsmunum kennaranna, sem hér eiga hlut að máli, heldur en nokkuð annað. Auðvitað hefur engum manni í kennarastétt dottið í hug að bera fram kröfur á þessum grundvelli, eða þess vænti ég ekki, og hefði það verið gert, þá hefði slíkum kröfum að sjálfsögðu ekki verið sinnt. Það má um það deila, hvað mikla kjaraskerðingu þessar efnahagsmálaráðstafanir hafi haft í för með sér, og það mál ræði ég ekki. Fyrir hinu hef ég aldrei séð borið fram nein frambærileg rök og veit ekki einu sinni til þess, að nein tilraun hafi verið gerð til slíks, að þessar efnahagsmálaráðstafanir, hvað sem segja má um þær og áhrif þeirra almennt, hafi bitnað þyngra á opinberum starfsmönnum og þá sérstaklega á kennurum heldur en öðrum. Fyrir slíku eru engin frambærileg rök, frekar fyrir hinu gagnstæða, því að vitað er, að ákvæði um það að lækka tekjuskatta koma einmitt fastlaunamönnum í ríkara mæli til góða heldur en flestum öðrum stéttum þjóðfélagsins.

Nei, ástæðurnar fyrir því, að til móts við þessar kröfur var gengið, voru allt aðrar, og skal ég nefna hér tvær þær helztu. í fyrsta lagi það, að kennarar hafa þá aðstöðu miðað við flestar aðrar þjóðfélagsstéttir, sem gerir þeirra störf að ýmsu leyti erfiðari og tímafrekari. Þeir þurfa að búa sig undir hin daglegu störf sín lengri eða skemmri tíma eftir því, hve vandasöm kennslan er. Til þess hefur hingað til ekki verið tekið tillit. Annað atriði skiptir hér þó meira máli og mun meginástæðan til þess, að það er einmitt nú, sem þessi ráðstöfun hefur verið gerð, að hvað snertir hina fjölmennustu hópa kennaranna, barnakennara og gagnfræðaskólakennara, þá hafa einmitt nú á síðustu árum verið gerðar stórauknar kröfur til undirbúningsmenntunar þessara manna. Fyrstu áratugina, sem kennaraskólinn starfaði, er þar um að ræða aðeins 2–3 ára skóla, þar sem stundað var almennt gagnfræðanám. Nú eru kröfur til kennaraefna svipaðar og til stúdentsmenntunar, og í löggjöfinni um kennaraskólann, sem er í undirbúningi, mun jafnvel gert ráð fyrir því að gera þessar kröfur meiri. Sama máli gegnir og ekki síður um gagnfræðaskólakennarana. Til tiltölulega skamms tíma hafa ekki verið gerðar neinar sérstakar kröfur til þeirra manna, sem fengju embætti við gagnfræðaskólana. Nú er hins vegar gert ráð fyrir því, að þessir menn þurfi að hafa a.m.k. þriggja ára háskólanám. Þetta var að vísu að nokkru leyti komið til framkvæmda, þegar síðustu launalög voru sett. Og það var einmitt ástæðan til þess, að kennarar fengu þar nokkra umbun umfram þá almennu launahækkun, sem þá var ákveðin. Það var í þeirri mynd, hvað barnakennarana snerti, að þeir fengu hækkun um einn launaflokk. Aftur á móti voru gagnfræðaskólakennarar ekki hækkaðir í launaflokki. Það, sem þeir báru úr býtum, var í þeirri mynd, að með sérstöku ákvæði í nýju launalögunum var slakað á því ákvæði, sem áður hafði verið í gildi, að níu mánaða starfstími skólans væri skilyrði fyrir því, að þeir bæru full laun úr býtum. Báðir þessir starfshópar voru þó mjög óánægðir með þessa lausn og sérstaklega hygg ég þó gagnfræðaskólakennararnir. En svarið við því, að ekki væri hægt að ganga lengra að svo stöddu, var það, sem ég tel að vísu á mjög hæpnum rökum reist, en svarið var þetta, að meginhluti hinna starfandi kennara hefði hið styttra nám að baki, sem áður var. Þess vegna er ekki ástæða til þess að hækka laun kennaranna, fyrr en það verður almennt, að þeir hafi þessa lengri menntun að baki. — Það gaf auga leið, að þetta sjónarmið hlaut að hafa mjög óheppileg áhrif á það, hversu fúsir ungir menn mundu verða til þess að leggja þetta lengra nám á sig, því að þegar ungi maðurinn tekur ákvörðun um það, hvort það borgi sig að leggja í þá menntun, sem ætluð er til ákveðins starfs, þá lítur hann auðvitað á launakjörin, eins og þau eru í dag, en ekki á meira eða minna laus loforð um það, að þau skuli einhvern tíma verða bætt. Enda var svo komið, að vegna þess, hvað aðsóknin að kennaranámi, bæði í kennaraskólanum og í BA–deild háskólans, sem útskrifar kennaraefni fyrir gagnfræðanám, var orðin lítil, fór því fjarri, að hægt væri að fylla hinar lausu kennarastöður með þeim, sem útskrifuðust á hverju ári. Hæstv. ríkisstj. hefur víst gert sér það fyllilega ljóst, að ef forða átti í nánustu framtíð frá algeru öngþveiti í þessum efnum, þá þoldi það ekki bið, að eitthvað væri gert í þessu efni. Hitt er auðvitað fráleitt, að kenna núv. hæstv. ríkisstj. og þeirri stefnu, sem hún hefur rekið, sérstaklega um kennaraskortinn eða þá staðreynd, að þær stofnanir, sem útskrifa kennaraefni, útskrifi ekki nægilega marga til þess að fylla þau skörð, sem þarna er um að ræða.

Til frekari sönnunar því máli mínu dettur mér í hug, að það var nú fyrir nokkrum dögum, þegar landbúnaðarmál voru hér á döfinni, að hv. 4. þm. Vestf., sem oft getur verið hnyttinn í málflutningi sínum, komst þannig að orði, að sú aukning mjólkurframleiðslunnar, sem orðið hefði á s.l. ári, gæti með engu móti verið núv. hæstv. ríkisstj. að þakka, því að þær kvígur, sem mjólkandi hefðu verið á s.l. sumri, hefðu verið komnar á legg, áður en núv. hæstv. ríkisstj. komst til valda, þannig að hún hefði ekki átt neinn hlut að máli að fjölgun kúnna og bæri því að þakka öðrum en henni þá fjölgun, sem hefði átt sér stað. Ég ber ekki á móti því, að þetta geti verið rétt, svo langt sem það nær. En ef hæstv. ríkisstj. er ekkert að þakka í því sambandi, sem ég get út af fyrir sig tekið undir, þá leiðir af svipuðum ástæðum, að það getur ekki verið henni að kenna heldur, ef núna á síðustu árum eða síðan hún tók við völdum útskrifast færri kennarar en þörf er fyrir. Það tekur þó 3–4 ár að stunda það nám, sem hér er um að ræða, þannig að þeir, sem hafa útskrifazt 2–3 síðustu árin, hlutu að hafa byrjað nám nokkru áður en núv. hæstv. ríkisstj. komst til valda. Og ætli þeir hafi ekki einmitt flestir eða allir byrjað nám sitt á valdaárum vinstri stjórnarinnar? Ég hygg, að það sé staðreyndin. Ef hún hefði tekið rögg á sig og leyst launamál kennaranna annaðhvort eftir þeirri leið, sem nú hefur verið farin, eða eftir einhverjum öðrum leiðum, hefði þá ekki verið von til þess, að fleiri unga menn hefði fýst að leggja kennaranámið fyrir sig, þannig að sá kennaraskortur, sem nú er vissulega staðreynd, hefði þá orðið minni en ella? Ég hygg, að þetta sé óvéfengjanleg staðreynd.

Ef halda á því fram og reyna að læða því inn hjá almenningi, að hér sé um að ræða einhverjar sérstakar bætur til kennaranna vegna efnahagsráðstafananna, þá þýðir það í rauninni, að hér er verið að skapa átyllu til þess að hvetja til almennra launahækkana. Ef sá tilgangur næst, þá má minna á það, að almennar launahækkanir eru ekki neitt nýtt fyrirbrigði í þessu þjóðfélagi. Þær hafa margoft átt sér stað. En hver hefur orðið árangurinn af þessum almennu launahækkunum í bættum kjörum? Í þau 17 ár, sem liðin eru frá lokum styrjaldarinnar, hefur hann orðið alls enginn. Það eru óvéfengjanlegar staðreyndir, sem sanna það. Ef nota á þetta sem átyllu til þess, að allt almennt kaupgjald ætti að hækka í sama hlutfalli, þá þýddi það í rauninni, að sú kjarabót, sem kennararnir hafa fengíð í bili, væri gerð að engu.

Ástæðan til þess, að ég nefni þetta atriði, er þó ekki sú, að ég hafi séð út af fyrir sig sérstaka ástæðu til þess að ræða launamál kennaranna í þessu sambandi, heldur hin, að ég hygg, að hér sé í rauninni um að ræða svarið við þeirri spurningu, sem ég vildi leitast við að svara, nefnilega hvaða líkur muni vera á því, að sú leið, sem hér er lagt til að farin verði, leiði til einhverrar lausnar á því vandamáli, sem fyrir liggur. Þegar þetta kemur til framkvæmda, þá verður að vísu komið annað þing en það, sem nú situr, og enginn veit, hvort fleiri eða færri af okkur, sem nú eigum sæti á þingi, eiga sæti á hinu nýja, það er mál út af fyrir sig. En það, sem þá skiptir máli, verður einmitt sú afstaða, sem almenningur tekur til þess dómsúrskurðar, sem felldur verður. Ef hann verður á þann veg, að um einhverja verulega leiðréttingu á launahlutföllunum í þjóðfélaginu opinberum starfsmönnum til handa verður að ræða, þá verður það, hvort sú lausn verður varanleg, fyrst og fremst komið undir viðbrögðum almennings í þessu efni. Ef þá rísa upp menn, eins og bólað hefur á í sambandi við launamál kennaranna, sem ég nefndi, sem segja sem svo: Þeir vísu menn, sem þennan kjaradóm skipuðu, hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að langskólagengnu mennirnir og aðrir embættismenn gætu ekki lifað af sínum launum og þau þyrftu að hækka svo og svo mikið, að sjálfsögðu er þetta rétt, — en ef þessir menn hafa ekki getað lífað af þeim tiltölulega ríflegu launum miðað við almenning, sem þeir nú hafa, hvað þá um almenning? Og verði þetta þá notað til þess að koma af stað almennri verðbólguskriðu, þá er það auðvitað auðsætt, að árangurinn af þeirri nýskipan, sem hér er lagt til að gerð verði, mundi verða dæmdur til að verða enginn. Það á í rauninni ekki eingöngu við um þessa leið, sem lagt er til að farin verði samkv. frv., heldur að mínu áliti í rauninni um allar þær leiðir, sem til greina koma, eða m.ö.o. grundvallarskilyrði fyrir því, að hægt sé að gera einhverja lagfæringu á launakjörum opinberra starfsmanna, hlýtur alltaf að verða það, að almenningur fái skilning á því, að það geti verið þjóðfélaginu í hag að launa þessi störf svo vel, að til þeirra fáist í fyrsta lagi hæfir menn og í öðru lagi, að þeir geti helgað sig þeim störfum, sem þeim eru falin. Svo lengi sem sá skilningur verður ekki fyrir hendi, þá er þetta vandamál að mínu áliti óleysanlegt.

Um úrslit málsins í nefndinni sé ég að öðru leyti ekki ástæðu til að fjölyrða, það liggur fyrir í nál. á þskj. 775. Niðurstaðan varð sú, að við fjórir nm. mælum með því, að frv. verði samþykkt með þeirri lítilfjörlegu breytingu, sem við leggjum til, en hv. 5. þm. Norðurl. e. hefur fyrirvara um frv. og hefur lagt fram sérstakar brtt., sem hann að sjálfsögðu mun gera grein fyrir hér á eftir.