14.04.1962
Efri deild: 89. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2409 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

225. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Björn Jónsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég í aðalatriðum grein fyrir afstöðu minni og ég held að mér sé óhætt að segja míns flokks til þessa frv., og tel ekki efni standa til að bæta þar mjög miklu við. Eins og ég sagði þá, mótast afstaða okkar til frv. annars vegar af því, að við teljum, að það sé nokkurt spor í rétta átt, þ.e.a.s. í þá átt að veita opinberum starfsmönnum eða félagsskap þeirra þau mannréttindi, sem felast í ótakmörkuðu samtaka- og samningafrelsi til framdráttar hagsmunamálum sínum. En að hinu leytinu mótast svo afstaða okkar til frv. af því, að við teljum, að með þessu frv. sé of skammt gengið til móts við réttmætar kröfur þeirra, sem þarna eiga hlut að, þeirra sem vinna í þjónustu ríkisins og bæjarfélaganna, og einnig hitt, að ýmis frumvarpsákvæði séu að öðru leyti athugaverð. Af þessum ástæðum er augljóst, að við viljum breyta frv., þó að við viljum veita því brautargengi, svo langt sem það nær. Og við viljum beita okkur fyrir því, að á því verði gerðar allverulegar breytingar. Þessar ástæður liggja aðallega til þess, að ég hef þrátt fyrir andúð mína á ýmsum einstökum ákvæðum frv., sem ég lýsti greinilega við 1. umr., ekki viljað kljúfa nefndina, heldur skrifað undir með fyrirvara. Og ég hygg, að fyrirvari minn skýrist fyllilega af þeim brtt., sem ég hef flutt á þskj. 769.

Það grundvallarsjónarmið liggur að baki mínum brtt., að opinberum starfsmönnum verði veittur fullur samningsréttur um kjör sín, alveg með sama hætti og aðrar launastéttir njóta þessa réttar, og að þeim verði þar með veittur sá réttur, sem er undirstaða samningsréttarins og óaðskiljanlegur honum, þ.e.a.s. rétturinn til að leggja niður vinnu á félagslegan hátt, þ.e.a.s. verkfallsréttur. Það er auðvitað fánýtt orðagjálfur að tala um fullan samningsrétt, meðan bannað er með lögum að gera verkfall og raunverulega þannig bannað að skapa nokkra aðstöðu til samningsgerðar. Og ég hygg, að engum sé þetta ljósara en opinberum starfsmönnum af langri reynslu. Þetta kemur líka berlega í ljós, þegar það er haft í huga í sambandi við þá nýju skipan, sem hér er ráðgerð, að fullkomnir möguleikar eru á því, að launakjör verði sjaldan eða jafnvel aldrei ákveðin með samningum, heldur verði launakjörin ákveðin af þeim kjaradómi, sem ætlunin er að koma á fót. En með því að veita samtökum opinberra starfsmanna fullan samningsrétt, fullan verkfallsrétt, þá væri hins vegar séð fyrir því, að launin væru alltaf ákveðin með samningsgerð.

Hæstv. fjmrh. sagði hér við 1. umr., að hann teldi, að með þessu frv. væri bræddur hinn gullni meðalvegur, og mér skildist, að þessi gullni meðalvegur væri þræddur á milli jafnréttiskrafna opinberra starfsmanna við aðra launamenn í landinu og þess skipulags, sem hefur verið á þessum málum. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar, að það sé enginn gullinn meðalvegur til, þegar um það er að ræða, hvort allar launastéttir skuli njóta sömu mannréttinda eða ekki eða hvort allir skuli vera jafnir fyrir lögunum eða ekki. Ég vil ekki heldur ætla hæstv. núv. ríkisstj. það þrátt fyrir allt, að það sé hennar skoðun, að verkfallsréttur sé ekki yfirleitt sjálfsögð mannréttindi, sem hljóti að standa óhaggaður og óskerðanlegur, a.m.k. að því leyti sem hann er almennt í gildi. Og ég vil þess vegna ekki gera þeim upp að óreyndu Það álit, að þeir ætli að jafna metin með því að skerða þennan rétt hjá öðrum, sem nú njóta hans þegar. Það vil ég ekki gera að óreyndu. En ef það er ekki hugmyndin, þá er ekki heldur til nein önnur fær leið en sú, ef jafnrétti á að nást, að veita samtökum launamanna í opinberri þjónustu þau réttindi, sem aðrir hafa. En það er einmitt sú höfuðkrafa, sem Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur gert og staðið einhuga að. Og ég vil enn á ný minna á þá ályktun, sem sambandið hefur gert í þessu efni, þar sem það tekur skýrt fram, að það viðurkenni ekki réttmæti þeirra skerðingarákvæða, sem í þessu frv. felast á samningsréttinum.

Brtt. mínar eru svo að segja eingöngu miðaðar við það að nema burt þessi skerðingarákvæði á samningsréttinum, en ekki við það að breyta öðrum frumvarpsákvæðum, svo að teljandi sé, og jafnvel ekki að sumu því leyti, sem ég hef gjarnan viljað gera breytingar a frv. En í heild tel ég frv. vera það illa unnið og þannig úr garði gert nú, að raunverulega hefði þurft að umbylta því með öllu. En til þess var að sjálfsögðu enginn tími á þeim örstutta tíma, sem fjhn. hafði málið til meðferðar. Ég hef þess vegna valið þann kostinn, sem skástur var fyrir hendi, að leggja þetta frv. til grundvallar, en reyna að flytja við það brtt., þannig að verstu agnúarnir væru numdir af því.

Um brtt. mínar, að því er varðar sjálfan samningsréttinn, er það að segja, að þær eru fólgnar í því í fyrsta lagi, að ég legg til, að IV. kaflinn, þ.e.a.s. kaflinn um kjaradóm, og síðan önnur þau ákvæði, sem leiðir af þeim ákvæðum þess kafla, verði felld niður. Í öðru lagi eru tillögur mínar fólgnar í því að taka í stað þessara ákvæða upp nýja grein samkv. 6. brtt. minni, þar sem er svo kveðið á, að lögin um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938 skuli gilda gagnvart opinberum starfsmönnum að öllu öðru leyti en fram er tekið sérstaklega í þessu frv. Með þessum breytingum mundi samtökum opinberra starfsmanna verða veittur fullur samningsréttur á borð við aðra launtaka og þar á meðal verkfallsréttur, eins og lög ákveða hann almennt til handa öðrum launastéttum.

Af þessari meginbrtt. minni leiðir svo aðrar breytingar samkv. eðli málsins, og eru þær helztar, að ég legg til, að niður falli þau ákvæði 2. mgr. 7. gr. og ákvæði til bráðabirgða, sem gera ráð fyrir því, að endurskoðun á kaupi og kjörum opinberra starfsmanna skuli fara fram, ef almennar og verulegar kaupbreytingar eigi sér stað meðal annarra starfsstétta, eins og segir í þessum ákvæðum báðum. Eftir að fullur samningsréttur væri fenginn og samtök opinberra starfsmanna væru orðin algerlega fullgildur og sjálfstæður aðili til samningsgerðar með sömu réttindum og önnur launþegasamtök, þá eru slík ákvæði skiljanlega með öllu óeðlileg og órökrétt. Af þessu leiðir einnig, að ég legg til í brtt. minni við 29. gr., að felld verði úr gildi lög um verkfall opinberra starfsmanna frá 1915.

Aðrar brtt. mínar, sem ekki varða beint sjálf grundvallaratriðin í þessu frv., eru þær í fyrsta lagi, að launalög verði áfram látin haldast hvað snertir ráðherra, hæstaréttardómara, ráðuneytisstjóra og forstöðumenn ríkisstofnana.

Ég ræddi nokkuð við fyrri umr. málsins um þann galla á frv., sem ég tel vera, að BSRB er gefinn eins konar einkaréttur til þess að fara með samningsrétt fyrir alla opinbera starfsmenn, algerlega án tillits til þess, hvort þeir menn eru í samtökunum eða ekki, og tel þetta vera raunverulega brot á grundvallaratriðum félagafrelsisins, en ég ætla ekki að ræða um það frekar að þessu sinni heldur en ég gerði þá. En ég tel m.a., að það sé algerlega óeðlilegt, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fari með samninga fyrir þessa aðila, sem ég legg til að launalög séu áfram látin gilda um, og þó enn þá fráleitara það atriði, sem ég einnig hef rætt áður, að hæstaréttardómarar og ráðherrar fái laun sín ákveðin af hinum sömu aðilum, sem þeir skipa til þess. Þessir aðilar, sem upp eru taldir í brtt. minni og lagt er til að áfram verði undir launalögum, raunverulega engir þeirra eru tækir í launþegasamtök, vegna þess að þeir sem umboðsmenn atvinnurekandans, þ.e.a.s. ríkisins, gagnvart launþegum. Þannig eru t.d. ráðuneytisstjórar, svo að dæmi séu tekin, oftast nær sá samningsaðilinn, sem mest fer með samninga af ríkisins hálfu við opinbera starfsmenn, og mjög líklegt, að sá háttur muni verða nær algildur, eftir að þessi lög taka gildi, og þá er það vitanlega algerlega fráleitt, að þau sömu launþegasamtök, þar sem þeir mæta sem umboðsmenn atvinnurekandans, eigi að semja fyrir þá. Ég held líka, að naumast verði hjá því komizt í framtíðinni að halda áfram að hafa launalög í gildi fyrir nokkurn hluta æðstu embættismanna, og eins og ég sagði áður, alveg sérstaklega fyrir þá, sem samkv. stöðu sinni eru raunverulega umboðsmenn ríkisvaldsins gagnvart þeim verkalýð, sem vinnur í þjónustu ríkisins, og fara þannig í raun og veru með vald atvinnurekandans. Ég skal fúslega viðurkenna, að mjög kæmi til álita að hafa þá æðstu embættismenn, sem 3. brtt. mín snertir, fleiri en þar er gert ráð fyrir. En ég hef aðeins haldið mig við það, sem ég tel að sé algerlega óhjákvæmilegt í þessum efnum.

Þá legg ég til, að lágmarksgildistími kjarasamningsins skuli vera eitt ár, en ekki tvö ár, eins og í frv. er gert ráð fyrir. Ég hygg, að flestum sé ljóst, að eins og ástandið er nú í launamálum, þá sé ekki unnt með neinni sanngirni að ætlast til þess, að nokkur launastétt festi kaup og kjör sín til lengri tíma en eins árs í senn, enda þekki ég ekkert launþegafélag, sem hefur samningsrétt, sem það hefur gert nú um langt skeið. Þess er svo líka að gæta í þessu sambandi, að hér er aðeins um lágmarksgildistíma að ræða og ekkert því til fyrirstöðu, að samið sé til lengri tíma, ef aðilar koma sér saman um það, og slíkt mundi að sjálfsögðu verða auðvelt, ef meiri stöðugleiki skapaðist í okkar kaupgjaldsmálum. Þarna kemur einnig það til, að samkv. 2. brtt. minni legg ég til, eins og ég sagði áður, að lögbundin viðmiðun við aðrar starfsstéttir sé tekin af, og það er þess vegna með öllu óvíst, að þessi breyting hefði í för með sér tíðari kaupbreytingar opinberra starfsmanna heldur en sú skipan, sem gert er ráð fyrir í frv.

Þá legg ég til með 9. brtt. minni, að samningar við BSRB séu hafnir ekki seinna en 1.júní n.k. og að fullur samningsréttur taki gildi 1. sept. á þessu ári. Mér virðist, að fimm mánuðir séu alveg nægilega ríflegur tími til samninga og alveg óviðunandi fyrir opinbera starfsmenn að bíða í meira en heilt ár eftir brýnum leiðréttingum á sínum kjörum, eins og ástand og horfur eru nú almennt í kjaramálum. En eins og margsinnis hefur komið fram, þá gerir frv. ráð fyrir því, að fyrsti kjarasamningur, eða eftir atvikum kjaradómur, taki gildi degi eftir að kjörtímabili núv. Alþingis lýkur og degi áður en ýtrasti valdatími núv. ríkisstj. að líkindum verður.

Ég hef áður lýst skoðun minni á því ákvæði frv., að fjmrh. fari með allt vald fyrir ríkið gagnvart samningum við samtök opinberra starfsmanna, og ég tel þau ákvæði óhæf. Með þessum hætti er í raun og veru verið að veita sjálfum fjmrh. fjárveitingarvald, en það vald á vitanlega hvergi að vera annars staðar en í höndum Alþingis, sem þannig á að skipa fjmrh. fyrir verkum, en ekki hann því. Í samræmi við þetta er 2. brtt. mín, þar sem gert er ráð fyrir því, að fimm manna n., kosin af Alþingi, hafi með höndum fyrirsvar af ríkisins hálfu gagnvart samningum við opinbera starfsmenn. Og brtt. mína við 13. gr. leiðir svo beint af þessari brtt. Með þessum brtt., ef þær næðu samþykki, teldi ég, að fullnægt væri í meginatriðum þeim réttmætu kröfum um jafnrétti, sem opinberir starfsmenn hafa lengi barizt fyrir og ég hef trú á að þeir nái fyrr eða síðar, þó að nú sé, eins og oft áður í sögu alþýðubaráttunnar, reynt að stimpast við og látið sitja við það að slaka eins lítið til og mögulegt er í augnablikinu. Það má minnast þess, að samningsrétturinn fyrir verkalýðsfélögin kom ekki heldur fljúgandi fyrirhafnarlaust í hendur verkalýðssamtakanna. Fyrir þeim rétti þurfti að berjast og færa oft miklar fórnir á fyrstu árum verkalýðshreyfingarinnar. Þá voru þeir menn til og ekki svo fáir í hópi atvinnurekenda og valdamanna, sem töldu engum hollt og allra sízt sjálfri verkalýðshreyfingunni, að verkalýðssamtök yrðu viðurkennd, og verkföll voru þá að sjálfsögðu talin ganga glæpi næst og til þess eins fallin að koma þjóðfélaginu á kaldan klaka. Það er undarlega líkur hljómurinn í ræðum sumra hv. stjórnarsinna um þetta mál og hjá atvinnurekendunum forðum daga, þegar verið er að lýsa því sem einhverri stórhættu fyrir þjóðfélagið og jafnvel fyrir opinberu starfsmennina sjálfa, að þeir fái jafnrétti við aðra launþega í þessum efnum, sem hér um ræðir. En það er rétt að minna á það, að áratugareynsla af starfi og baráttu verkalýðshreyfingarinnar hefur gert allar þær sömu kenningar, sem áður var fram haldið gagnvart henni, að hlægilegri fjarstæðu. Samnings- og verkfallsréttur hefur ekki reynzt þjóðfélagsleg meinsemd, heldur þvert á móti hafa þessi réttindi reynzt einhver allra mikilvægasta undirstaðan undir efnalegum og menningarlegum framförum með þjóðinni síðustu hálfa öldina. Það er þess vegna eins og rám rödd úr gröfum dauðra afturhaldsmanna, þegar því er haldið fram hér á hv. Alþingi nú, að það mundi reynast þjóðfélaginu skaðræði að afnema þá réttindaskerðingu, sem felst í nær hálfrar aldar gömlum lögum, sem sett voru þá hér á Alþingi gegn atkvæðum og ábendingum frjálslyndismanna, sem þá áttu hér sæti, manna eins og Guðmundar Björnssonar landlæknis o.fl., og það sé einhver gullinn meðalvegur fólginn í því að spyrna fótum við í jafnréttisbaráttu sem allir vita að fyrr eða síðar hlýtur að verða sigursæl. Ég er sannfærður um það, að opinberir starfsmenn mundu ekkert síður og jafnvel fremur en verkalýðurinn í verkalýðshreyfingunni beita þessum rétti af fullkominni ábyrgðartilfinningu, og ég hef ekki trú á því, sem hv. síðasti ræðumaður var að tala hér um, að líf og limir þjóðfélagsþegnanna gætu verið í hættu, þó að þeir fengju þennan rétt. Ég vil benda þessum hv. þm. á það, að ýmis af þeim störfum, sem þeir meðlimir verkalýðshreyfingarinnar, sem hafa þennan rétt fullkomlega, hafa með höndum, eru engu síður þýðingarmikil fyrir þjóðfélagið en störf opinberra starfsmanna, og ég minnist þess ekki, að það hafi nokkru sinni komið fyrir, að líf og heilsa landsmanna hafi verið í veði, vegna þess að þessum rétti hafi verið misbeitt. Hitt er svo annað mál, að að sjálfsögðu eru ýmsar leiðir til þess að bjarga, ef reynslan yrði sú, að um misnotkun á þessum rétti yrði að ræða og það ástand skapaðist, sem verið er að reyna að mála upp, að gæti komið fyrir að yrði. Þá eru vitanlega til auðveldar leiðir til þess að kippa þar í liðinn með ráðstöfunum ríkisvalds og ríkisstj, á hverjum tíma. En ég hef ekki trú á því, að sú mundi verða reyndin. Ég álít þess vegna, að það væri til sæmdar fyrir Alþingi, ef það væri stigið nú það skref til fulls að veita þeim verkalýð, sem vinnur í þjónustu ríkisins, fullan samnings- og samtakarétt, en vil þá, eins og ég sagði áður, líta á þetta frv. sem spor í rétta átt, jafnvel þó að því verði litið eða ekki breytt frá því formi, sem það nú er í.