14.04.1962
Efri deild: 89. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2414 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

225. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Áður en gengið er til atkv, um frv. þetta, vil ég með örfáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þess.

Ég er þeirrar skoðunar, að hér sé um mörg atriði og ákvæði að ræða, sem eðlilega eru miðuð við þær aðstæður, sem opinberir starfsmenn hafa til þessa búið við, — að vera án samnings- og verkfallsréttar. Þess vegna tel ég, þrátt fyrir samþykkt frv., að einstök ákvæði þess geti aldrei orðið fyrirmynd til kjarasamninga annarra stéttasamtaka, sem hafa haft þennan rétt frá upphafi síns starfs. Ég á hér fyrst og fremst við öll ákvæði í IV. kafla frv. um kjaradóm ásamt ýmsum minni háttar atriðum, sem ég hef aths. við að gera og fyrirvara um. Ég mun þrátt fyrir þennan fyrirvara fylgja frv. fram óbreyttu, m.a. á þeim forsendum, að stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja telur frv. mikla framför fyrir meðlimi sína frá ríkjandi ástandi og mælir einróma með samþykkt þess. Þetta vildi ég að kæmi fram af minni hálfu, áður en gengið verður til atkv. um einstakar greinar frumvarpsins.