16.04.1962
Neðri deild: 94. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2416 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

225. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Samkvæmt því, sem fram hefur komið í sambandi við þetta frv., þá er ljóst, að frv. er í raun og veru samningur, sem gerður hefur verið á milli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja annars vegar og hæstv. ríkisstj. hins vegar. Ég tel, að með þessum samningi hafi Bandalag starfsmanna ríkis og bæja í samningum sínum við ríkisstj. náð mikilsverðum árangri, sem sé í eðlilegu framhaldi af því, sem áður hafði verið gert í samskiptum ríkisstj. og bandalagsins, þar sem afskipti opinberra starfsmanna af þessum málum hafa smátt og smátt nálgazt það að vera samningar um þessi efni.

Ég tel eðlilegt að styðja þetta mál óbreytt, eins og það liggur fyrir, þar sem það er á þessa lund til komið, og mæli fyrir mitt leyti eindregið með því.

Þetta frv. gæti gefið tilefni til þess að ræða nokkuð almennt um launamál og jafnvel stjórnarstefnuna, en vegna þess að nýlega hafa farið fram ýtarlegar umr, um þau efni og ég vænti, að allir séu sammála um, að æskilegt sé að ljúka þinginu greiðlega úr þessu fyrir páskana og þar á meðal þessu máli, þá mun ég ekki ræða launamálin almennt. En ég kvaddi mér hljóðs til að lýsa fullum stuðningi mínum við þetta mál óbreytt, eins og það liggur fyrir.