16.04.1962
Neðri deild: 94. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2416 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

225. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er vafalaust rétt, sem hv. 1. þm. Austf. sagði hér áðan, að í raun og veru væri þetta frv. til laga samningur á milli ríkisstj. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og ástæðan til þess, hversu seint það er fram komið, nú alveg í þinglok, er vafalaust sú, að fæðingin hefur gengið eitthvað erfiðlega, opinberum starfsmönnum vafalaust gengið þunglega að fá málinu komið í það form, að þeir gætu sætt sig við, að það yrði flutt, fyrir þeirra hönd, og raunar vita menn, að svo er. Það er og vitað, að margt af því, sem opinberir starfsmenn töldu æskilegt og nánast nauðsynlegt að fá með í þetta samkomulag við ríkisstj., hafa þeir ekki fengið, en þó komizt að þeirri niðurstöðu, að þeir vildu heldur ná þeim áfanga, sem í þessu frv. felst, en sitja undir ákvæðum launalaga eitt ár í viðbót og fá engu um þokað í þeirri baráttu, sem þeir um langan tíma hafa háð.

Barátta opinberra starfsmanna hefur verið í fyrsta lagi háð fyrir því, að þeir fengju samningsrétt um sitt kaup og sín kjör, og í annan stað, að þegar samningar um kjaramál þeirra væru þrautreyndir, þá hefðu þeir rétt sem aðrar launastéttir til þess að lýsa yfir vinnustöðvun í samræmi við vinnulöggjöfina. Þeirra barátta hefur þannig verið tvíþætt fyrir samningsréttinum og fyrir verkfallsréttinum. Með þessu frv. er komið til móts við þá um samningsréttinn, en svo kveðið á, að þegar ekki takist samningar milli ríkisvaldsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þá skuli gerðardómur koma til og skera úr ágreiningsatriðum. Þetta er vitanlega atriði, sem erfitt er fyrir launastéttir að sætta sig við, og það er áreiðanlega ekki gert af fúsum og frjálsum vilja Bandalags starfsmanna ríkis og bæja eða forráðamanna þess að sætta sig við slíkt, og það gera þeir áreiðanlega einungis til bráðabirgða og með það fyrir augum að halda áfram baráttunni fyrir þeim réttindum að mega leggja niður vinnu, þegar þeir hafa ekki náð sínum kröfum fram við samningaborðið.

Það er í öllum lýðræðisþjóðfélögum litið svo á, að verkfallsrétturinn heyri til almennra mannréttinda og að samningsrétturinn sé frekar lítils virði án þess að geta fylgt honum eftir, þegar samningar ekki takast, með vinnustöðvun, með því að segja: Fyrir þau launakjör, sem ég vil ekki sætta mig við og vil ekki binda mig samningum um, legg ég ekki mitt vinnuafl fram og læt vera að vinna.

Gerðardómur sá, sem hér á að skera úr ágreiningsefnum, er dálítið sérkennilegur. Hann er skipaður aðeins einum manni af fimm frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, aftur á móti einnig einum manni frá ríkisvaldinu beint, en þó er nú sú fylking öllu fjölmennari, sem frá ríkisvaldinu kemur, því að hæstv. fjmrh. á skv. frv. að tilnefna annan mann í gerðardóminn, og auk þess eiga svo að vera þrír menn frá hæstarétti, þannig að hæstiréttur og fulltrúi ríkisstj. verða þarna í algerum meiri hl. í dómnum. Þetta sjá nú allir, að er ekki viðunandi fyrir launþegastéttina í opinberri þjónustu, enda mun það liggja augljóslega fyrir með fyrirvara, sem stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefur undirritað, að þeir líta á þetta frv. einungis sem spor í áttina og hafa lýst yfir ákveðinni andstöðu við ýmis atriði frv. og lýst því enn fremur yfir, að þeir muni halda áfram baráttunni fyrir þeim réttindum, sem þeir hafa barizt fyrir, en ekki felast í þessu frv.

Dálítið er það nú sérkennilegt, að það eigi að ákveða launakjör þeirra starfsmanna ríkisins, sem venjulega koma fram f.h. ríkisstj. í samningum, eins og t.d. ráðuneytisstjóranna í rn., að þeir eigi að taka þátt í að semja um sín eigin kjör við stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og bandalagsstjórnin aftur að semja við þessa menn um þeirra launakjör, sem eru umboðsmenn ríkisvaldsins, gagnaðilans í samningunum. Það hefði vitanlega verið eðlilegast, að launakjör þessara manna væru ekki ákveðin þarna við samningaborðið. Þá er það og sérkennilegt, að fram er tekið í frv., að kjaradómur, sem skipaður er meiri hl., sterkum meiri hl., af hæstaréttardómurum og fulltrúa fjmrh., skuli ákveða laun tveggja hópa manna, þ.e.a.s. ráðherranna og hæstaréttardómaranna. Þeir skipa meiri hl., fulltrúar ríkisstjórnar og hæstaréttar, þeir skipa hreinan meiri hl. í þessum dómi, kjaradómi, og þeir eiga eiginlega að ákveða laun ráðh. og hæstaréttardómara. Miklu eðlilegra hefði verið, að það hefði staðið í frv.: Ráðherrar og hæstaréttardómarar hafa sjálfdæmi um sín launakjör, — því að það er það, sem í þessu felst, og ekkert annað. Ég álít, að það sé rétt á takmörkum þess, sem hægt er að bera fram, að haga þessari ákvörðun um launakjör ráðh. og hæstaréttardómara á þennan hátt, að þeir skuli í raun og veru hafa það alveg í eigin hendi.

Að öðru leyti skal ég taka það fram, að ég tel, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fái þarna fram kröfu um samningsréttinn, og það er önnur þeirra meginkrafna, sem þeir hafa barizt fyrir um langa hríð. Og þess vegna verður að líta á þetta frv. sem allþýðingarmikinn áfanga að því marki, sem þeir hafa stefnt að í sinni réttinda- og launabaráttu. Um þetta hafa þeir og gert samkomulag, að þeir sætti sig við í bili sem áfanga, og því mun Alþb. ekki beita sér gegn samþykkt þessa frv., heldur sætta sig við, að opinberir starfsmenn fái þau takmörkuðu réttindi, sem í frv. felast. En ljóst er okkur Alþýðubandalagsmönnum, að þetta er ekki fullnaðarlausn, og samtök opinberra starfsmanna hafa lýst því yfir, að þau muni halda áfram baráttu sinni fyrir algerum samningsrétti og einnig fullri viðurkenningu verkfallsréttar.

Þetta frv. fer sennilega til heilbr.- og félmn., og fæ ég þar aðstöðu til að athuga það nánar, hvort tiltækilegt sé að flytja við það brtt. í þá átt, sem samrýmist óskum og vilja opinberra starfsmanna, eða hvort, vegna þess að svo er komið, að fast er liðið að þinglokum, frv. verður látið fara án breytinga, — fer það til fjhn., þá komum við ekki til með að fjalla um það í heilbr.- og félmn., og kemur það þá í hlut þeirrar hv. n. að leggja málið á ný fyrir þd. til framhaldsmeðferðar.

Ég hef sem sé lýst því yfir f.h. Alþb., að það muni ekki leggja stein í götu þess, að þetta frv. með þá takmörkuðu lausn, sem það felur í sér, gangi í gegnum þingið nú fyrir þinglok.