16.04.1962
Neðri deild: 94. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2418 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

225. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar mál þetta var til umr. í Ed., hélt málsvari Alþb. því fram, að með þessu frv. fengju opinberir starfsmenn ekki full mannréttindi, og skýrði það með því, að þar sem þeim væri ekki leyfilegt að gera verkfall, þá væri það skerðing á mannréttindum. Þessar furðulegu yfirlýsingar voru ekki teknar alvarlega þá, en nú eru þær endurteknar hér af málsvara Alþb., og tel ég ekki fært að láta málið ganga áfram án Þess að minnast á þennan furðulega misskilning.

Fyrst er þess að geta, að í nágrannalöndum okkar, þar sem enginn dregur í efa, að hið bezta lýðræði ríki, hafa opinberir starfsmenn yfirleitt ekki rétt til þess að gera verkfall. Í Danmörku eru laun starfsmanna ákveðin með launalögum, og þeir ríkisstarfsmenn hafa ekki verkfallsrétt. Í Svíþjóð eru launin ákveðin endanlega af ríkisvaldinu. Hinir opinberu starfsmenn hafa ekki rétt til að gera verkfall. Í Finnlandi er sama skipan, launin ákveðin endanlega af ríkisvaldinu og starfsmönnum ekki heimilt að gera verkfall. Hér á landi hefur nú í nærri hálfa öld verið í gildi löggjöf, sem lýsir verkföll opinberra starfsmanna ólögleg og refsiverð. Það er því næsta furðulegt að heyra þær staðhæfingar bornar hér fram, að opinberir starfsmenn njóti alls ekki mannréttinda þeirra, sem viðurkennd séu í öllum lýðræðisþjóðfélögum, sem sagt að þeir megi gera verkfall, og nægir í því sambandi að benda á þessi ágætu lýðræðislönd, sem ég hér hef getið.

En fyrst þessi ummæli koma úr þessari átt, frá samherjum og málsvara hinna kommúnistísku ríkja, þá er rétt að minna á það, að í ríkjum kommúnismans eru verkföll óheimil, ólögleg og refsiverð. Eftir kenningum þessara hv. fulltrúa og málsvara alþjóðakommúnismans hér á Alþingi er því þar með slegið föstu, að í hinum kommúnistísku ríkjum njóti menn ekki almennra og sjálfsagðra mannréttinda.