02.02.1962
Efri deild: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2428 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

111. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna og undirmanna á farskipum

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Með lögum nr. 49 1958 voru sett lög um lífeyrissjóð togarasjómanna, þar sem togarasjómönnum og atvinnurekendum þeirra var gert að greiða ákveðinn hlut af tekjum sjómannsins, togarasjómannsins, til þessa sjóðs, sem þá hét lífeyrissjóður togarasjómanna, og togarasjómönnum um leið áskilin lífeyrisréttindi í sjóðnum eftir reglum, sem nánar voru greindar í þessum lögum. En samkv. yfirlýsingu, sem ríkisstj. gaf til samninganefndar sjómannasamtakanna í viðræðum, sem nefndin átti þá við útgerðarmenn, en yfirlýsing ríkisstj. var dagsett 5. jan. 1959, þá var því lýst yfir, að nefnd mundi verða sett til þess að undirbúa löggjöf um lífeyrissjóð bátasjómanna og farmanna. Með bréfi, dags. 16. marz 1960, skilaði þessi nefnd áliti í tvennu lagi, þar sem nefndarmenn gátu ekki orðið sammála um lausn málsins. Síðan hefur þetta mál verið rætt á víð og dreif við þá aðila, sem það snertir, og hefur niðurstaðan af þeim viðræðum orðið sú, að nú hefur verið ákveðið að bera fram frv. um lífeyrissjóð togarasjómanna og undirmanna á farskipum, en taka ekki með yfirmennina á farskipunum og ekki heldur að þessu sinni bátasjómenn, þannig að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er í því einu frábrugðið lögunum um lífeyrissjóð togarasjómanna, að þar er undirmönnum á farskipum bætt við. Og frv. er að mestu leyti, held ég að ég geti fullyrt, að uppistöðu til eins og frv. um lífeyrissjóð togarasjómanna, en því einu breytt í frv., sem leiðir af því, að þessir undirmenn á farskipum eru nú teknir inn í lífeyrissjóðinn.

Aðalbreytingarnar, sem af þessu leiðir, fyrir utan það, að þessum undirmönnum á farskipum er bætt við, eru þær, að gert er ráð fyrir, að nú verði fjölgað í stjórn sjóðsins, bætt við í hana tveim mönnum, þar sem annar verði tilnefndur af Sjómannasambandinu, en hinn af Vinnuveitendasambandinu. Í 20. gr. frv. eru ákvæði um flutning undirmanna á farskipum í aðra lífeyrissjóði, þegar þeir taka við yfirmannsstöðu á skipi, en eins og kunnugt er, gegna ýmsir menn með fullgildum farmannsprófum í upphafi undirmannsstöðu á skipunum og fá ekki aðstöðu til þess að komast í yfirmannahóp, fyrr en þeir hafa stundað sjómennskuna sem undirmenn um nokkurn tíma. En eitt af ágreiningsatriðunum við samningu þessa frv. var það, að skipafélögin vildu halda sínum sérsjóðum, en ekki ganga inn í hinn almenna sjóð, sem að stofni til var frá tíma laganna um lífeyrissjóð togarasjómanna. Ég vil ekki segja, að það hafi orðið samkomulag, en málið var borið mjög rækilega undir útgerðarmenn farskipanna, og þar kom að lokum, að það var á það fallizt af ráðuneytinu að undanþiggja yfirmennina því að vera í þessum lífeyrissjóði, ef þeir ættu kost á að vera áfram í lífeyrissjóðum hinna einstöku skipafélaga, sem hafa verið til staðar hjá ýmsum um mörg undanfarin ár. í þessari 20. gr., sem ég minntist á, eru sem sagt ákvæði um það, hvernig með skuli fara, þegar undirmaður kemst í yfirmannsstöðu, að þá flytjist hann á milli sjóða og hætti að vera aðili að þessum lífeyrissjóði, en flytji þá með sér það, sem greiðzt hefur inn í sjóðinn hans vegna.

Í 7. gr. frv. er svo bætt inn ákvæðum um verksvið sjóðsstjórnarinnar, sem ekki var sérstaklega tilgreint í gömlu lögunum um lífeyrissjóð togarasjómanna. Iðgjaldagreiðslutíminn er líka styttur hér úr 35 árum og gert ráð fyrir, að hann verði 30 ár, styttur um 5 ár.

Ákvæði 23. gr. frv. eru svo bein afleiðing af þeirri breytingu, að undirmenn á farskipum eru teknir hér inn. Og bráðabirgðaákvæði í lok frv. gefa svo nánari fyrirmæli um það, að sjóðnum, eins og hann verður, ef frv. verður að lögum, sé skylt að veita viðtöku iðgjöldum, sem haldið hefur verið til haga vegna skipverja á farskipum frá 1. jan. 1959, en þá komst inn í samninga á milli sjómannasamtakanna og farskipaeigenda ákvæði um það, að þessi iðgjöld skyldu greidd, þó að ekki væri nánar tiltekið, hvernig með þau skyldi fara að öðru leyti.

Sem sagt, það hefur verið haldið til haga upphæðum, sem eru nú orðnar allstórar, sem teknar hafa verið vegna farmannanna frá 1. jan. 1959, og er meiningin, að þær gangi inn í sjóðinn sem framlög vegna þeirra manna, sem greitt var fyrir frá þessum tíma, 1. jan. 1959.

Það hefur verið reynt að hafa samráð við farskipaeigendur um málið, og frv. er eiginlega niðurstaðan af þeim viðræðum, sem fram hafa farið á milli ráðuneytisins og þeirra, þó að það skuli tekið fram, að fullt samkomulag við þá náðist ekki, en í meginatriðum held ég, að megi segja, að það sé fyrir hendi.