02.02.1962
Efri deild: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2430 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

111. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna og undirmanna á farskipum

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Sú stefna er ríkjandi í þjóðfélaginu að gefa sem flestum launþegum kost á því að verða aðilar að lífeyrissjóðum, og sú stefna er að mínum dómi tvímælalaust rétt. Þetta getur orðið á tvennan hátt: Annars vegar með kjarasamningum, og þekkjum við þess fjöldamörg dæmi frá undanförnum árum, að ýmis stéttarfélög hafa tryggt meðlimum sínum aðild að lífeyrissjóði með kjarasamningum. Það er einnig hægt að gera þetta með löggjöf, og þar er gleggsta dæmið einmitt lífeyrissjóður togarasjómanna, þó að þess beri auðvitað að gæta, að lögfesting lífeyrissjóða á sér oft grundvöll í samningsviðræðum, þannig að það ber á góma á milli aðila í kjaradeilu að koma á fót lífeyrissjóði, og þá getur það alveg eins orðið á þann hátt, að aðilarnir óski eftir því við löggjafarvaldið, að reglur um sjóðina séu lögfestar. Það væri tvímælalaust æskilegt að koma á fót lífeyrissjóði fyrir alla þá sjómenn, sem hafa ekki nú þegar aðild að lífeyrissjóði, og þá mundi þar fyrst og fremst vera um bátasjómenn að ræða. En að sjálfsögðu teldi ég, að það væri eðlilegast, að þeim yrðu tryggð lífeyrissjóðsréttindi í sambandi við kjarasamningagerð, hvort sem það yrði þá samningsbundinn lífeyrissjóður eða þá að sá lífeyrissjóður yrði lögfestur og yrði raunverulega um að ræða aukningu á lífeyrissjóði togarasjómanna, sem væri sjálfsagt á margan hátt eðlilegast, að allir sjómenn, hvort sem þeir væru á bátum, togurum eða skipum, væru aðilar að sama lífeyrissjóðnum.

En í þessu frv. virðist mér ekki vera um það að ræða að veita þeim sjómönnum aðild að lífeyrissjóði, sem ekki hafa átt slíkri aðild að fagna áður, þ.e.a.s. hér er um að ræða undirmenn á kaupskipaflotanum, sem eiga að gerast aðilar að lífeyrissjóði togarasjómanna. En þessir undirmenn hafa núna allra síðustu árin orðið aðilar að lífeyrissjóðum viðkomandi skipafélaga, en þeir lífeyrissjóðir eru nokkuð gamlir, að vísu mismunandi, vegna þess að yfirmennirnir á kaupskipunum hafa alllengi verið í lífeyrissjóðum hjá viðkomandi skipafélögum og yfirmennirnir hjá Skipaútgerðinni í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Nú mun það að vísu vera þannig, að um þessi lífeyrissjóðsréttindi undirmannanna hafa ekki verið gerðir endanlegir samningar, heldur hygg ég, að þetta sé þannig, að það hafi verið haldið eftir 4% af kaupi þeirra, a.m.k. hjá flestum skipafélögum, síðustu tvö eða þrjú árin og skipafélögin lagt fram sín 6% á móti, eins og almennt er. Þá snýst í raun og veru þetta mál um það, hvort undirmennirnir á farskipaflotanum eigi frekar að færast yfir í lífeyrissjóð togarasjómanna og vera þar framvegis eða halda áfram að vera í lífeyrissjóðum hinna einstöku skipafélaga og tryggja Þar réttindi sín betur en verið hefur. Og mér finnst, að þetta, hvora leiðina eigi að fara, það geti út af fyrir sig verið nokkurt álitamál, en það, sem mér finnst að eigi að leggja mest upp úr í því sambandi, er, hvað undirmennirnir eða hásetarnir á kaupskipaflotanum vilja sjálfir í þessu efni. En afstaða þeirra hlýtur að mestu leyti að mótast af því, hvor sjóðurinn býður betri réttindi og tryggir betur hagsmuni þeirra. En ég þekki ekki svo til þessara mála, að ég sé dómbær á það, í hvorum sjóðnum, hinum einstöku lífeyrissjóðum skipafélaganna eða í þessum lífeyrissjóði togarasjómanna og undirmanna, sem hér er verið að flytja frv. um, sé betra fyrir þá að vera. En það finnst mér, að þyrfti eiginlega að liggja betur fyrir, hver afstaða hásetanna á kaupskipunum er til þessa máls.

Þá er það annað atriði í þessu frv., og það er um skipun sjóðsstjórnarinnar, að í henni eiga samkv. þessu frv. að vera fimm menn, einn tilnefndur af hæstarétti sem formaður, einn af Alþýðusambandi Íslands, einn af Sjómannasambandinu, einn af Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda og einn af Vinnuveitendasambandi Íslands. Ef miðað er við, að undirmenn á kaupskipaflotanum fái þarna aðild, þá er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt við, að það sé fjölgað í sjóðsstjórninni og það fái fleiri samtök aðild að sjóðsstjórninni. En ég álít, að þetta sé þó ekki fullnægjandi. Á hverjum togara eru, hygg ég, 7 yfirmenn, en það mun vera um þriðjungur til fjórðungur skipshafnanna, sem er yfirmenn. Þessir yfirmenn allir, e.t.v. þó að skipstjóranum undanteknum, eru meðlimir í lífeyrissjóði togarasjómanna og verða áfram meðlimir í þessum lífeyrissjóði, þó að undirmönnum á farskipum sé bætt við. Samtök þessara manna hafa ekki rétt til að skipa neinn mann í stjórnina, þ.e.a.s. samtök þeirra eru Farmanna- og fiskimannasamband Íslands. Aftur á móti með þessu frv., þar sem Alþýðusambandið og Sjómannasambandið eiga að skipa fulltrúa í stjórnina, sem ég tel ósköp eðlilegt um bæði þessi sambönd, þá eru í raun og veru hásetarnir á togurunum búnir að fá tvo menn í stjórnina, tvo fulltrúa, án þess að yfirmennirnir hafi nokkurn. Þess vegna finnst mér, að Það vanti þarna á, að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands ætti að hafa rétt til þess að nefna mann í þessa sjóðsstjórn, en það er auðvitað ekki hægt öðruvísi en að fjölga í henni. Til þess að halda jafnvæginu, þannig að það verði þrír fulltrúar launþega og þrír fulltrúar vinnuveitenda, eða eins og hér er, tveir fulltrúar launþega og tveir fulltrúar vinnuveitenda og einn oddamaður tilnefndur af hæstarétti, þá vantar þarna vinnuveitendafulltrúa, en þá má mjög gjarnan benda á, að Vinnuveitendasamband Íslands á samkv. þessu frv. að tilnefna mann í stjórnina, en innan vébanda þess eru ekki öll skipafélögin, þar er ekki allur kaupskipaflotinn, heldur aðeins hluti af honum, þar eð allstór hluti kaupskipaflotans tilheyrir Skipadeild SÍS, eins og kunnugt er, og Skipadeild SÍS mun vera meðlimur í Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Þannig væri þá eðlilegt, að Vinnumálasamband samvinnufélaganna fengi líka að skipa einn mann í þessa stjórn, og miðað við þann grundvöli, sem lagður er í þessu frv., að undirmennirnir á kaupskipunum verði aðilar að sjóðnum, þá væri eðlilegt, að Vinnumálasambandið tilnefndi mann í þessa sjóðsstjórn og Farmanna- og fiskimannasambandið annan, enda í raun og veru hefur á það skort, að yfirmennirnir á togaraflotanum ættu fulltrúa í þessari sjóðsstjórn.