02.02.1962
Efri deild: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2434 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

111. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna og undirmanna á farskipum

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Út af þeim aths., sem fram hafa komið, bæði frá hv. 9. landsk. þm. og hv. 3. þm. Norðurl. v., skal ég leyfa mér að segja nokkur orð.

Hv. 9. landsk. sagði, að þetta mætti gera á tvennan hátt, með, að mér skildist á honum, svipuðum árangri fyrir þá tryggðu, annaðhvort með samningi eða með löggjöf. Þetta er rétt. Og það er líka rétt, að í þessu frv. eru ekki teknir með neinir aðrir en þeir, sem áður hafa öðlazt þessi réttindi, a.m.k. að nokkru leyti, með samningum og lögum. En ástæðan til, að það er borið fram, er fyrst og fremst sú, að einmitt þeir, sem hér er lagt til að verði tryggðir, þ.e.a.s. undirmenn á farskipunum, hafa lagt á það höfuðáherzlu, að þessi réttur þeirra til lífeyrissjóðsins væri tryggður með lögum, en ekki með samningi. Þeir telja sinn hlut þannig betur tryggðan en ef hvert félag um sig á að sjá um vörzlu sjóðsins og semja við sína undirmenn eða sína háseta á skipunum um það t.d., hvernig sjóðnum verði ráðstafað á hverjum tíma og hvernig bótagreiðslurnar fari fram. Ég get því svarað þeirri aðalspurningu hv. þm., sem hann setti hér fram og hljóðaði svona: Hvað vilja hásetarnir? Ég get svarað þeirri spurningu mjög ákveðið á þann hátt, að það er einmitt vegna óska hásetanna sjálfra, að þetta er borið fram hér í frumvarpsformi, sem þeir að vísu að nokkru leyti höfðu fengið áður með samningum. Því hefur verið slegið föstu með samningum, sem giltu frá 1. jan. 1959, að þessar upphæðir skyldu teknar frá, en að mér skilst ekki í þeim sömu samningum tekin upp nein veruleg ákvæði um það, hvernig sjóðnum skyldi varið, hvernig hann skyldi geymdur, hvernig lífeyrissjóðsgreiðslurnar skyldu fara fram. En um þetta allt eru sett ákvæði í frv., sem væntanlega geta tryggt hásetunum, að það sé komið á móti þeirra óskum á þann hátt, sem þeir hafa farið fram á. Það er að vísu allra góðra gjalda vert, að þetta sé gert með samningum, en samningar eru ekki ævinlega eins ýtarlegir og hægt er að gera ráð fyrir að sé í lögum, og eins hitt, að samningur er ekki nema samningur, sem gildir vissan tíma og alltaf er hægt að breyta. En sem sagt, það er örugglega vilji hásetanna, að þessi háttur verði hafður á, en ekki hinn samningsbundni háttur.

Þá minntist hv. þm. líka á sjóðsstjórnina. Það er alltaf hægt að deila um það eða menn geta haft misjafna skoðun um það, hverjir eigi að fara með stjórn þessara sjóða. Það er í þessu frv. engu breytt öðru en því, að inn koma undirmenn á farskipum. Þeir munu flestir vera meðlimir í Sjómannafélagi Reykjavíkur. Fyrir þá er settur inn í frv. til þess að gæta þeirra hagsmuna fulltrúi frá Sjómannasambandi Íslands, og fyrir farskipaeigendur er sett inn

Vinnuveitendasamband Íslands, sem þeir munu flestir vera aðilar að, þó að það sé rétt hjá hv. þm., að þeir eru það ekki allir. En ef ætti að taka alla inn, sem þarna ættu aðild að, þyrfti kannske að taka nokkuð marga, sbr. það, að í lögunum um lífeyrissjóð togarasjómanna var enginn í stjórn sjóðsins frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, þannig að sé það skortur á réttri skipan fulltrúa í sjóðinn, þá er það sá skortur, sem var til í lögunum um lífeyrissjóð togarasjómanna. Það atriði er ekki komið inn með þeirri breytingu eða fjölgun í sjóðnum, sem hér er gert ráð fyrir.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði aths. um styttingu iðgjaldatímans. Nú veit ég ekki um það mál annað en það, að ég ætla, að þetta frv. hafi verið yfirfarið mjög grannt af tryggingafræðingum og það sé þeirra tillaga, sem hér liggur fyrir, þó að ég skuli ekki fullyrða um það. En ég vil benda á í þessu sambandi líka, að í 9. gr. frv. segir, að stjórn sjóðsins skuli fimmta hvert ár láta tryggingafræðing rannsaka fjárhag sjóðsins og þyki honum rannsókn leiða í ljós, að fjárhagslega sé sjóðurinn ótryggur, þá skal hann gera tillögu til stjórnar sjóðsins um aðgerðir til þess að efla sjóðinn, þannig að það er engan veginn tilætlunin með þessu frv., að sjóðurinn verði gerður vanmegna um það að uppfylla sínar skyldur, síður en svo. Það er auðvitað hugsað, að sjóðurinn verði rekinn á þeim grundvelli, að hann geti alltaf fullnægt sínum skuldbindingum, og meira að segja sett inn í lögin ákvæði um, að það skuli á vissum fresti athuga einmitt þessa hlið í rekstri sjóðsins. En að öðru leyti get ég ekki skýrt það nánar, hvernig þessi tala, 30 ár, sé komin inn fyrir 35. En ég skal gjarnan við síðari umr. málsins leitast við að hafa upplýsingar um það atriði, ef þess verður óskað.

Mér láðist að geta þess, herra forseti, í minni framsöguræðu, að ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. heilbr.- og félmn.