13.04.1962
Efri deild: 87. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2438 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

111. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna og undirmanna á farskipum

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Þetta frv. kom fram hér á Alþingi snemma í febrúar. Það hefur mestan þann tíma legið í salti hjá hv. heilbr.- og félmn. og í raun og veru virzt vera lítill áhugi hjá n. að afgreiða þetta mál nú. Ég er ekki frá því, að raunverulega hafi meiri hluti hv. nm. óskað þess í hjarta sínu, að þetta frv. fengi að daga uppi á þingi að þessu sinni.

Um áramótin 1958—1959 fóru fram allviðtækar samningaumleitanir um fiskverð og fleira, og í þeim samningaumleitunum komu fram m.a. eindregnar kröfur frá sjómönnum þess efnis, að lífeyrissjóður yrði stofnaður, lífeyrissjóður, sem næði einnig og sérstaklega til bátasjómanna. Það var ríkisstj. Emils Jónssonar, að ég hygg, sem skipaði nefnd 7 manna til þess að gera tillögur í samræmi við þessar kröfur sjómannanna, semja till. um lífeyrissjóð, sem næði til sjómanna almennt. Þessi n. var skipuð 3 fulltrúum frá sjómönnum, 3 frá útgerðarmönnum og 1 oddamanni. En fulltrúar af hálfu sjómanna voru þeir Tryggvi Helgason, Jón Sigurðsson og Kristján Guðmundsson. Þessi nefnd klofnaði og skilaði hvor hlutinn sínu nál. Fulltrúar sjómanna gerðu till. um, að stofnaður yrði einn lífeyrissjóður fyrir alla íslenzka sjómenn og að sá sjóður yrði tengdur lífeyrissjóði togarasjómanna. Í grg. minni hl. fyrir þessum till. var m.a. bent á, að sjómenn skiptu oft um stöður, þeir byrjuðu margir hverjir lífsstarf sitt á litlum skipum víðs vegar um landið og færu síðan margir á stærri skip síðar á ævinni, togara eða kaupskip. Þannig væri töluverð tilfærsla sjómanna frá einni tegund skipa til annarra. Meiri hluti n. lagði hins vegar til, að stofnaðir yrðu fleiri lífeyrissjóðir sjómanna og að þeir sjóðir væru yfirleitt tengdir fyrirtækjunum. Ég hygg, að það frv., sem hér liggur fyrir, sé raunverulega áframhald á þessum tilraunum, áframhald í þá átt að sameina í einn sjóð lífeyrissjóði sjómanna, þannig að lífeyrissjóður næði til allra sjómanna. Ef þetta er rétt, þá verð ég að segja, að þetta frv. er mjög ófullkomin byrjun að því verki. Hún er sérstaklega ófullkomin fyrir það, að með frv. fá raunverulega ekki fleiri sjómenn lífeyrissjóðsréttindi en þegar hafa. Aðalgallinn að mínum dómi er sá, að ákvæði frv. taka ekki til þess stóra hóps sjómanna, sem engin lífeyrissjóðsréttindi hafa nú, þ.e.a.s. bátasjómanna. Það eina í þessu frv. er það, að það er verið að sameina undirmenn á kaupskipum og togaramennina í einn sjóð. Þetta er í raun og veru mjög lítið spor í rétta átt, svo lítið spor, að ég fyrir mitt leyti hefði varla talið það ómaksins vert að stíga það að þessu sinni. Ég tel, að þetta litla spor hefði allt eins vel getað verið óstigið og látið bíða, þar til myndarlegra átak yrði gert. Við þetta bætist svo það, að mjög eindregin mótmæli hafa borizt frá þeim aðilum, sem gæðanna eiga að njóta.

Það eru hvorki meira né minna en á milli 10 og 20 togaraáhafnir, sem hafa gert sér það ómak í vetur, eftir að þetta frv. kom fram, að senda símskeyti til Alþingis til þess að mótmæla þessu. Mér þykir rétt að leyfa hv. þdm. að heyra orðalag eins eða tveggja af þessum símskeytum frá togaraáhöfnunum. Skipshöfnin á Skúla Magnússyni segir svo í sínum mótmælum:

„Vér undirritaðir höfum rætt frv. yðar um upptöku undirmanna á fragtskipum í lífeyrissjóð togarasjómanna og mótmælum því allir eindregið að hleypa öðrum inn í svo fjársterkan sjóð, sem þeir einir mundu hafa not af, þar sem allar líkur benda til, að togaraútgerð á Íslandi leggist niður. Nú viljum vér skora á yður, hv. alþm., að fella frv. þetta, þar sem það er borið fram án vitundar og samþykkis togaramanna. — Skipstjóri og skipshöfn b/v Skúla Magnússyni.“

Áhöfnin á Fylki orðar sín mótmæli á þennan hátt:

„Við undirritaðir skorum á hv. alþm. að fella frv. um upptöku farmanna í lífeyrissjóð togarasjómanna, sem borið var fram án samþykkis sjómanna. Þar sem óvíst er um framtíð togaraútgerðar á Íslandi, teljum við ekki rétt að hleypa öðrum inn í fjársterkan sjóð, sem yrði farmönnum einum til hagsbóta. — Skipstjórinn og allir skipverjar b/v Fylki.”

Skipverjar á Hvalfelli segja svo:

„Erum allir andvígir upptöku farmanna í lífeyrissjóð togarasjómanna, samkvæmt undirskriftum um borð. — Skipstjórinn og allir skipverjar b/v Hvalfelli.”

Þessi er þá afstaða togarasjómanna til þessa frv. En eru þá ekki talsmenn undirmanna á kaupskipum ánægðir með þetta? Nei, þeir eru það ekki heldur. Farmanna- og fiskimannasamband Íslands hefur sent hv. heilbr.- og félmn. þessarar deildar grg., sem felur í sér mjög eindregna gagnrýni og raunar mótmæli gegn þessu frv. Farmanna- og fiskimannasamband Íslands segir í þessari grg. m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilvitnun til þess, sem hér hefur verið rakið, viljum við leggja til, að hæstv. Alþingi fresti afgreiðslu þessa máls, meðan unnið sé að allsherjarlausn á vandamálum í sambandi við vernd lífeyrisréttinda, þegar skipt er um starf, og flutning þeirra á milli sjóða, svo og að endurskoðun á framangreindum ákvæðum í lögum um lífeyrissjóð togarasjómanna.“

Og þeir taka það fram, að ef svo fari, að frv. verði samþykkt, þá telji þeir óhjákvæmilegt að gera á því allvíðtækar breytingar. Og þeir telja upp í fimm liðum a.m.k. þær breytingar, sem þeir telja óhjákvæmilegt að gera á frv., eigi það að verða að lögum.

Íslenzku landhelgisgæzlunni, sem einum aðila þessa máls, var einnig sent þetta frv. til umsagnar, og hún svaraði á þá leið, að hún teldi nýmæli frv. ekki heppilegt og áliti, að æskilegt væri, að allir starfsmenn stofnunarinnar væru hjá sama lífeyrissjóði, t.d. lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Samband ísl. samvinnufélaga, sem einnig var spurt álits, lætur þá skoðun í ljós, að frv. sé óþarft og ekki til bóta, þar sem lífeyrisréttur þeirra manna, sem hér um ræðir, hefur þegar verið tryggður.

Mér þykir þetta frv., eins og ég tók fram áðan, ná harla skammt. Það tekur ekki til þeirra sjómanna, sem sérstök ástæða var til að Þetta frv. tæki til, bátasjómanna, heldur tekur það til sjómanna, sem að verulegu leyti eru þegar tryggðir. Þessi staðreynd gerir það auðvitað að verkum, að miklu minni ástæða er til að flýta afgreiðslu frv. Þegar svo bætist við, að þeir aðilar, sem hlut eiga að máli, og yfirleitt aðilar, sem spurðir hafa verið álits, gagnrýna frv. í þeirri mynd, sem það er, telja það óþarft og ekki til bóta, þá tel ég enn meiri ástæðu til að athuga málið betur, ef ekki nú á þessu þingi, þá á næsta þingi. Þess vegna er það, að minni hl. hv. heilbr.- og félmn. leggur það til, að frv. verði vísað til hæstv. ríkisstj. til nánari athugunar.