13.04.1962
Efri deild: 87. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2440 í B-deild Alþingistíðinda. (2042)

111. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna og undirmanna á farskipum

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins gera hér örstutta athugasemd út af ræðu hv. frsm. minni hl. í framsöguræðu minni gerði ég grein fyrir því, að mótmæli togarasjómanna væru ekki á rökum reist, og þarf ég ekki að endurtaka það. En hv. frsm. minni hl. sagði, að farmennirnir eða undirmennirnir á farskipunum væru ekki heldur samþykkir þessari breytingu, og vitnaði þar um til mótmæla frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands gegn samþykkt frv. Hv. frsm. athugar það ekki, að undirmenn á farskipum eru ekki í Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, það eru eingöngu yfirmenn á farskipum og yfirmenn á togurum, sem þar eru, þannig að Farmanna- og fiskimannasambandið kemur fyrst og fremst fram sem umsagnaraðili í þessu máli og fyrirsvarsaðili yfirmanna á togurum. Og það var gengið til móts við óskir Farmannasambandsins með því tvennu að veita því aðild að stjórn sjóðsins og með því að heimila að miða við 20 ára starfstíma í staðinn fyrir 10, eins og síðasta brtt. meiri hl. gerir ráð fyrir. Undirmenn á farskipunum eru hins vegar meðlimir í Sjómannafélagi Reykjavíkur og Sjómannasambandi Íslands, og frá báðum þessum samtökum komu eindregin tilmæli til n. um að samþykkja frv. Þess má líka geta, að þegar nefnd sú starfaði, sem upphaflega átti að semja frv. um lífeyrissjóðinn, en síðan klofnaði, þá lét hún fara fram skoðanakönnun á kaupskipaflotanum um það, hvort undirmenn þar vildu láta flytjast yfir í lífeyrissjóð togarasjómanna, og sú skoðanakönnun sýndi þá niðurstöðu, að undirmennirnir voru þess yfirleitt mjög fýsandi. Og þá má að lokum benda á, að það hlýtur almennt séð að vera meira virði fyrir undirmenn á farskipum að komast í lögbundinn sjóð heldur en að eiga lífeyrisréttindi sín undir kaup- og kjarasamningum við sína vinnuveitendur.

Hv. frsm. minni hl. nefndi líka hér mótmæli frá landhelgisgæzlunni, þar sem hún teldi æskilegt, að undirmenn á varðskipunum yrðu meðlimir í lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Þessir undimenn eru því miður ekki fastir starfsmenn í sömu merkingu og aðrir opinberir starfsmenn. Þetta eru menn, sem kannske eru við þetta starf í nokkra mánuði eða nokkur ár í senn og skipta svo um atvinnu. Það er þess vegna því miður ekki grundvöllur fyrir hendi, þar sem þeir eru ekki nægjanlega fastir eða varanlegir starfsmenn, til þess að það sé unnt að láta þá verða aðila að lífeyrissjóði opinberra starfsmanna.