16.04.1962
Neðri deild: 96. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í B-deild Alþingistíðinda. (2057)

111. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna og undirmanna á farskipum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af ummælum hv. frsm. minni hl. nefndarinnar, hv. 4. landsk. þm., þykir mér rétt að segja hér nokkur orð um meðferð málsins í heilbr.- og félmn.

Eins og kunnugt er, var fundur hér í þessari hv. deild í gær eftir hádegi, og strax og þessu máli hafði verið vísað til 2. umr, og heilbr.- og félmn., þá boðaði ég fund í n., að loknum fundi í Nd. Ég gerði ráð fyrir, að þeim fundi yrði lokið fyrir klukkan fjögur, eins og venjulega er. Það varð þó ekki. Klukkan fjögur óskaði ég því eftir því, að nm. gætu komið saman hér í hliðarherbergi til þess að ræða málið, og það er rétt, sem hv. frsm. minni hl. sagði, að þar var málið rætt nokkuð undir þeim óvenjulegu aðstæðum, að nefndarmenn urðu að hverfa til atkvgr., þegar hringt var af hæstv. forseta. En hann lét hins þá ekki getið, að n. hélt áfram fundi og umr. um málið, eftir að deildarfundi var slitið, eins og til hafði verið boðað. Það kom þó strax fram ósk um það frá hv. minni hl. að fresta þessu máli, vegna þess að hér lægju fyrir mörg gögn, sem þyrfti að athuga, og það gæfist varla tími til þess að lesa frv., hvað þá að lesa öll þessi gögn. Óskað var þá eftir því að fresta fundi til kl. 10 í dag. Þá komu jafnframt fram mótmæli um það frá öðrum aðilum að fresta fundinum, vegna þess að þeir gætu þá ekki mætt heldur í morgun kl. 10, svo að það var sýnilegt, að það var ekki hægt að finna nægilegan tíma til þess að ræða málið ýtarlega, eins og venjulega er rætt um meðferð þingmála, á þeim tíma fyrir hádegi í dag. Ég gerði þá þá till. sem form. n. að halda áfram umr. um málið í gærkvöld og alla nótt, ef þyrfti með, til þess að ljúka málinu. En þá komu fram alls konar athugasemdir, m.a. frá hv. 4. landsk., sem þá hafði ekki tækifæri til þess að vera Svo lengi á nefndarfundi. Hvort það hefur nú verið af því, að hann hefur fyrr þekkt slík vinnubrögð frá minni hálfu, þar sem nefndarfundir hafa verið haldnir á næturnar, skal ég ekki segja um. En ég féllst á till. hans og tók athugasemdir hans til greina og ákvað því að láta ljúka afgreiðslu málsins í gær. En áður en ég tók þá ákvörðun, spurði ég ýtarlega um það, hvort það væri möguleiki að fá samkomulag um málið milli allra nm., ef nægur tími gæfist til umræðna, t.d. öll nóttin, og n. þá geta skilað sameiginlegu áliti. Það kvað hv. minni hl. ekki hægt, og þegar svo var komið, kvaðst hann ekki geta fylgt meiri hl. Þetta væri svo viðamikið mál, að hann gæti ekki fylgt neinu öðru en að vísa málinu frá til frekari rannsóknar, því að það gæfist enginn tími til að athuga það, sem breyta þyrfti hér, og þess vegna væri ekkert um það að tala að fá sameiginlegt nál. Og þá sá ég ekki ástæðu til þess að vera að draga lengur afgreiðslu málsina.

Nú kemur líka annað til í sambandi við afgreiðslu þessa máls, sem ekki kom fram hjá hv. frsm. minni hl., þ.e. að þetta mál er engan veginn illa undirbúið, hefur heldur ekki fengið lélega meðferð í þinginu. í fyrsta lagi er málið borið fram sem stjórnarfrv. Það hefur lengi verið undirbúið af hæstv. ríkisstj., sem kastar ekki höndum að undirbúningi mála, áður en þau eru sett inn í þingið, og er að vænta, að þaðan komi mál allt öðruvísi og betur undirbúin heldur en venjulega hjá einstökum þm., sem ekki hafa sömu aðstöðu til að láta undirbúa mál, m.a. sérfræðinga til að láta undirbúa mál o.s.frv. Í öðru lagi hafði málið verið til meðferðar í Ed. mikið til allan þingtímann. Hefur verið leitað umsagnar ýmissa manna og málið rætt mjög mikið, m.a. í báðum stjórnarflokkunum, allt þingið, svo að málið var vel kunnugt öllum þm.

Mér þykir einkennilegt, ef hv. 4. landsk. hefur verið svo ókunnugur þessum skjölum, sem hér liggja fyrir, að hann hafi þurft að taka sér þess vegna langan tíma til þess að athuga málið. Það þykir mér hálfótrúlegt, heldur sé eitthvað annað, sem liggur á bak við. Ég vildi í sambandi við þetta benda á, að þetta er ekkert nýtt. Ég minnist þess, að þegar afgr. voru lögin um almannatryggingar 1946, þá var það verk allt gert í hv. heilbr.- og félmn. hv. Ed. og svo að segja öll vinnan fór þar fram og málið samþ. hér af hv. Nd. eins og það kom frá Ed., en það hafði að vísu verið haft samráð við ýmsa þm. um þær ýmsu breytingar, sem komu, og það rætt í flokkunum o.s.frv., svo að þetta er ekkert nýtt. Sama var með launalögin 1956. Þau voru að öllu leyti svo að segja afgr. hér í hv. Nd. og undirbúið þar að öllu leyti, og hv. Ed. hafði sáralitið með málið að gera, annað en að þm. vissu, hvaða breytingar voru gerðar o.s.frv. Þetta er því ekki nein ný meðferð mála. Þetta vildi ég hafa sagt í sambandi við afgreiðslu málsins.

Um sjálft málið skal ég ekki ræða mjög mikið. Það hafa bæði gert hv. frsm. og hv. 12. þm. Reykv. En ég vil þó benda á í sambandi við þetta mál, að það eru raunverulega ekki neinar aðrar verulegar breytingar frá því, sem nú er, annað en hér eru sameinaðir tveir lífeyrissjóðir, sem eru nokkurn veginn jafngamlir. Og af þeim ummælum, sem hér eru, sé ég ekki að sé minnsta ástæða til þess að fresta frv., vegna þeirra mótmæla, sem koma í sambandi við sameininguna út af fyrir sig. Og þetta er höfuðatriði málsins. Um allar aðrar athugasemdir, sem fram hafa komið, sýnist mér, að það sé hægt að koma fram síðar meir með breytingar á l., ef það þykir eðlilegt í sambandi við breytta staðhætti. Hér er ekki verið að semja neina stjórnarskrá, rjúfa þing og láta fara fram nýjar kosningar. Af þeim ástæðum sýnist mér ekki þurfa að fresta frv. Og mér sýnist, að mikið af því, sem gert er hér í þessu máli, sé til stórkostlegra bóta, sameiningin sé til stórkostlegra bóta fyrir þessa aðila, eins og hefur komið fram hjá hv. frsm. meiri hl. og hv. 12. þm. Reykv., og það sé eitthvað annað, sem vakir fyrir hv. minni hl., heldur en að hugsa um velferð þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli, að fá málinu frestað nú, og þess vegna sé ekki ástæða til þess að fresta málinu. Ég tek undir það, að þess vegna verði málið afgr. nú á þessu þingi.