26.03.1962
Neðri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2479 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

159. mál, sala hluta úr landi Hofteigs og eyðijarðarinnar Austmannsdals

Frsm. ( Jónas Pétursson):

Hæstv. forseti. Þetta frv. hefur legið fyrir landbn. Nd., og eins og fram kemur í áliti hennar, hefur hún orðið sammála um afgreiðslu þess og leggur til, að það verði samþykkt óbreytt. Þó kom fram við það brtt. frá hv. 1. þm. Vestf., sem einnig var til athugunar í n. Bæði þessi atriði voru send til umsagnar jarðeignadeildar ríkisins og landnámsstjóra, og það kom fram í þeirra svörum í aðalatriðum, að þeir voru sammála nefndinni um að mæta með þessari sölu. Það er að vísu ofur lítill fyrirvari í áliti landnámsstjóra, að því er snertir þennan hluta úr landi Hofteigs, en þar er aðeins um að ræða atriði, sem verður beint til þess ráðuneytis, sem söluna framkvæmir á sínum tíma, og það hefur ekki þess vegna áhrif á afgreiðslu málsins hér í deildinni.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en n. leggur sem sagt til, að frv. verði samþykkt ásamt þeirri brtt., sem flutt er á þskj. 324 af hv. 1. þm. Vestf., Gísla Jónssyni.