29.03.1962
Neðri deild: 79. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2496 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

121. mál, landshöfn í Keflavíkurkaupstað og Njarðvíkurhreppi

Gísli Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það felst í þessu frv., að bæjarstjórn Keflavíkur og hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps skuli kjósa tvo menn af fimm í stjórn landshafnarinnar í Keflavík og Njarðvíkum, í stað þess, að þessar sveitarstjórnir hafa samkv. gildandi lögum aðeins kosið einn fulltrúa í hafnarstjórnina. Hér er jafnframt gert ráð fyrir því, að hafnarstjóri verði fastur starfsmaður hafnarinnar og skipaður í starfið af ráðherra, en samkv. lögunum er hafnarstjóri skipaður af ráðherra sem einn hafnarnefndarmanna, þrír kjörnir af Alþ. og einn af sveitarfélögunum.

Ég hef eftir atvikum getað fallizt á það að mæla með þessu frv., en hef skrifað undir nál. með fyrirvara, og sá fyrirvari er vegna tveggja atriða, sem ég vil nefna, um leið og þetta mál er afgr.

Í fyrsta lagi vildi ég leyfa mér að benda á það, að í lögum um landshöfn í Rifi á Snæfeilsnesi er gert ráð fyrir því, að allir hafnarstjórnarmenn, fimm að tölu, séu skipaðir af ríkisvaldinu, þ.e.a.s. af ráðherra, en hlutaðeigandi sveitarfélag hefur þar enga íhlutun um. Ég vil láta það koma fram, að ég tel það afleiðingu af samþykkt þessa frv., að ef farið væri fram á það af hlutaðeigendum, að breytt verði skipun hafnarstjórnar að Rifi, þá verði ekki hjá því komizt — eða sé eðlilegt að mínum dómi að verða við þeirri ósk, ef þetta frv. verður samþ., og þykir mér rétt, að það komi fram.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því, að það er að mínum dómi mjög vafasamt, að lögin um landshafnir, en það eru aðeins þessi tvenn lög, um landshöfn í Keflavík og Njarðvík og landshöfn í Rifi, hafi borið tilætlaðan árangur. Ég efast um það, að framkvæmdir hafi orðið meiri á þessum stöðum vegna Þess, að hafnirnar voru landshafnir, og ég held, að það ætti að taka bað til alvarlegrar íhugunar, hvort ekki væri rétt að gefa hlutaðeigandi sveitarfélögum kost á að afhenda þeim hafnirnar, þannig að þær væru eftirleiðis reknar á venjulegan hátt af hafnarsjóðum á vegum sveitarfélaganna og framkvæmdir í höfnunum færu fram á þeirra vegum. Ég geri ráð fyrir því, að það yrði engu minna um framkvæmdir með því móti, því að sveitarfélögin hafa að sjálfsögðu áhuga á því, að framkvæmdum miði áfram í þessum höfnum, og mundu beita sér fyrir því á þann hátt. sem í þeirra valdi stendur, en ríkisstj. og Alþ. hafa hins vegar í mörg horn að líta og geta af þeim ástæðum síður sinnt bessum málum eða haft þar frumkvæði.

Ég hef ekki talið rétt að bera fram brtt. um þetta í sambandi við þetta mál, en hins vegar vil ég nota tækifærið til þess að koma þessu sjónarmiði á framfæri.