29.03.1962
Neðri deild: 79. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2496 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

121. mál, landshöfn í Keflavíkurkaupstað og Njarðvíkurhreppi

Alfreð Gíslason bæjarstjóri:

Hæstv. forseti. Eins og hv. 3. þm. Reykn. tók fram, er mál þetta kom úr n., þá komu fram nokkrir smávægilegir formgallar, þ.e. að það vantaði greinaskiptingu í frv.

Ég hafði gert ráð fyrir því við samningu frv., að kosning tveggja manna úr hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps og bæjarstjórnar Keflavíkur færi fram á sameiginlegum fundi með hlutfallskosningu, vegna þess að þá taldi ég vera tryggt, að minni hl. fengi ætíð sinn fulltrúa. En meðan n. hefur haft þetta mál til meðferðar síðan, hefur komið eindregin ósk um það frá hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps, að því yrði breytt þannig og kæmi glöggt fram í frv., að einn maður yrði kosinn af hvorri sveitarstjórn um sig. Ég get vel fallizt á þessa breytingu, sérstaklega vegna þess, að frv. og tilkoma þess var einmitt miðuð við það að tryggja Njarðvíkingum ætið einn mann. Hins vegar með sameiginlegum fundi og hlutfallskosningu á sameiginlegum fundi er langsóttur möguleiki til þess, að Keflavík gæti fengið báða menn, og er það það, sem hefur vakað fyrir Njarðvíkingum, þegar þeir óskuðu eftir að fá þessu breytt. Ég er þess vegna fullkomlega sammála og samþykkur þeim brtt., sem hv. sjútvn. hefur gert á frv.

Hvað viðvíkur því, að skipun á stjórn í landshöfninni í Rifi ætti að vera einhver fyrirmynd vegna landshafnarinnar og stjórnar hennar í Keflavík og Njarðvík, þá tel ég það fjarstætt. Mér finnst ekkert eðlilegra en sveitarfélögin sjálf, sem við þessi mannvirki búa, hafi sína fulltrúa þar. Ríkisstj. hefur samt sem áður þrjá alþingiskjörna menn, sem verður að skoða fulltrúa Alþingis. Og ég tel ekki rétt, að þessu sé fjarstýrt héðan frá Reykjavík.

En það hlýtur að leiða að því, eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, að sveitarfélögin, bæði Njarðvíkurhreppur og Keflavíkurkaupstaður, muni í náinni framtíð leita hófanna um möguleika á að fá þessi mannvirki keypt, ekki sízt vegna þess, að þeim finnst og hefur alltaf fundizt heldur mikill kotungsbragur á framkvæmdum þar og telja líkur til þess, að eitthvað yrði meira gert, ef byggðarlögin sjálf ættu mannvirkin. Ég tel þess vegna, að þróunin verði í þá átt í framtíðinni, að þessi byggðarlög eigi sín eigin mannvirki, ef hæstv. ríkisstj. verður liðleg í samningum við þau.