12.02.1962
Neðri deild: 47. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2499 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

142. mál, sjúkraþjálfun

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. á þskj. 275, sem fjallar um sjúkraþjálfun. Ekki er ástæða til að hafa mörg orð til skýringar á þessu frv., Þar eð það var flutt hér í fyrra, en þá var það í nokkuð öðru formi en nú er. Það hafa verið gerðar á því lítils háttar breytingar skv. ábendingum læknadeildar Háskóla Íslands, landlæknis og stjórnar Læknafélags Íslands, en þessir aðilar höfðu frv. til athugunar nú á milli þinga.

Ástæðan til þess, að mál þetta var flutt, var tilmæli frá stjórn félags þeirra, sem sérþekkingu hafa í sjúkraþjálfun. Enginn skóli er nú í þessari grein á Íslandi, en erlendis eru víða sérstakir skólar í þessari grein og sums staðar sem deildir við háskóla. Talsverðar kröfur eru gerðar til þeirra, sem í þessum skólum vilja stunda nám, og víðast hvar er krafizt stúdentsprófs. Námið er m.a. fólgið í ýmsum þeim greinum, sem kenndar eru í fyrri hluta læknisfræði, svo sem líffærafræði og lífeðlisfræði. Þá er einnig kennd lækningameðferð á hinum ýmsu vöðvum og hlutum líkamans með sjúkraæfingum, sjúkranuddi, hitameðferð, ljósum, stuttbylgjum og þess háttar. Þetta eru allt saman gamlar og viðurkenndar aðferðir til lækninga og heilsuverndar, og með þeim hefur oft náðst undraverður árangur til að hjálpa sjúklingum til fulls bata og sérstaklega á sviði bæklunarsjúkdóma.

Á það verður sennilega ekki lögð of mikil áherzla, hversu nauðsynlegt hlýtur að vera, að aðgerðum þessum sé beitt af ýtrustu þekkingu. Þær geta verið beinlínis skaðlegar í sumum tilvikum, ef þeim er beitt við tilteknar meinsemdir, og röng meðferð getur valdið varanlegum örkumlum. Nú starfa sjúkraþjálfarar hér á landi undir eftirliti lækna og á þeirra ábyrgð, enda felst það í því takmarkaða lækningaleyfi, sem þeir hafa skv. lækningaleyfislögunum, nr. 47/1932. Er vitanlega sjálfsagt, að slík starfsemi fari fram undir eftirliti lækna, sem m.a. meta, hvort sjúkraþjálfunarmeðferð eigi við í hvert skipti, sem um er að ræða. Það er líka talið skilyrði til þess, að sjúkraþjálfunarskóli megi teljast fullkominn erlendis, að hann sé viðurkenndur af læknasamtökum og heilbrigðisyfirvöldum hvers lands. Sjúkraþjálfarar, sem lokið hafa námi frá slíkum skólum, hafa með sér sérstök félög, en þau mynda aftur alþjóðasamtök. Slík alþjóðasamtök hafa vitanlega mikið gildi. Félögunum ætti að verða auðveldara að fylgjast með nýjungum í grein sinni fyrir þeirra tilstilli, og þátttaka í þeim samtökum ætti að vera nokkur trygging fyrir því, að sjúkraþjálfari uppfylli þær kröfur, sem sjálfsagt er að gera til hans vegna öryggis sjúklinganna.

Á Íslandi hefur slíkt félag starfað í rúm 20 ár og hefur aðeins innan vébanda sinna meðlimi, sem hafa þá þekkingu til að bera, sem tilskilin er í þessum alþjóðasamtökum. En samt hefur þetta félag ekki getað fengið inngöngu í alþjóðasamtökin, vegna þess að sérstaka lögvernd fyrir sjúkraþjálfara á Íslandi vantar í okkar löggjöf. Frv. þetta mundi, ef að lögum yrði, tryggja, að þeir, sem hefðu þá menntun, sem hér er rætt um, hefðu einir heimild til að stunda sjúkraþjálfun. Aðeins í algerum undantekningartilfellum yrði brugðið frá því. Í raun og veru er hér um að ræða heilsuverndarmál eða mál, sem snertir öryggi sjúklinganna, og þegar litið er til þess, hve nauðsynlegt það er fyrir heilbrigðismál okkar, að við höfum nægilega mörgum á að skipa með þessa þekkingu, þá ætti líka að vera ljóst, að einhverja aðstöðu sé rétt að skapa þessu fólki til starfa í sinni grein fremur þeim, sem hafa ekki neina sérstaka þekkingu til að bera á þessu sviði. Enda er varla við að búast, að fólk leggi á sig langt og dýrt nám, ef því fylgja ekki nein réttindi, sem það hefði ekki án þess.

Um einstakar greinar þessa frv. tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða. Það má aðeins benda á þær breytingar, sem eru á frv. nú frá því, sem var í fyrra. Það eru nokkrar smávægilegar breytingar í 1. gr. varðandi skilyrði þau, sem uppfylla þarf til þess að fá löggildingu sem sjúkraþjálfari. Það eru aðeins breytingar til að gera frv., ef að lögum yrði, einfaldara í framkvæmd. Það má kannske sérstaklega benda á, að í 1. gr. er nefnt, að umsögn þurfi frá formanni Félags íslenzkra sjúkraþjálfara í hvert sinn, sem ákvörðun er tekin skv. Þessari gr., en í tilsvarandi lögum um ljósmæður og hjúkrunarkonur er tekið fram, að umsögn þurfi eða meðmæli skólastjóra ljósmæðraskólans eða hjúkrunarskólans, eftir því sem við á. En meðan enginn skóli er starfandi í þessari grein hér á landi, þótti rétt að láta þennan aðila koma fram fyrir þeirra hönd.

Í 2. gr. frv. er skilgreining á sjúkraþjálfun, og í 3. gr. er sú takmörkun, sem felst einnig í hinu takmarkaða lækningaleyfi, en í 4. gr. aftur á móti tekið fram, að ekki megi læknar hafa í þjónustu sinni annað fólk til að framkvæma sjúkraþjálfun en þá, sem eru sjúkraþjálfarar, nema með samþykki landlæknis. Þessu undanþáguákvæði um, að þetta gæti verið heimilt með sérstöku samþykki landlæknis, var bætt inn í frv. nú, en það var ekki í fyrra, en þótti hins vegar geta orðið erfitt í vöfum, þar sem svo er ástatt, að nú eru ekki nærri nógu margir sjúkraþjálfarar til sérmenntaðir í þessari grein á Íslandi og erfiðleikum kynni að vera bundið að fá slíkt fólk til starfa erlendis frá. En vonandi kemur, þegar frá líður, ekki mjög til, að á þessari undanþáguheimild þurfi að halda, því að tilgangurinn m.a. með þessu frv. er sá að gera eftirsóknarverðara að leggja fyrir sig þetta nám og þar með að starfa við þessa grein. í 5. gr. er einnig bætt inn undanþáguákvæði, sem beita má, þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Ég hygg, að í höndum þeirra aðila, sem þarna er gert ráð fyrir að hafi framkvæmdir, ættu slík undanþáguákvæði ekki að geta orðið til skaða, en hins vegar tel ég mikla nauðsyn, bæði vegna öryggis sjúklinga, sem slíka sjúkraþjálfunarmeðferð þurfa, og vegna öryggis þeirra lækna, sem vísa sjúklingum á slíka meðferð, að þetta frv. nái fram að ganga, og ég vænti þess, að hv. nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, veiti því greiðan framgang nú, eftir að það hefur fengið þessar endurbætur í þetta sinn, og því ætti ef til vill ekki að vera þörf þeirra umsagna, sem leitað var í fyrra, því að nú er tekið tillit til þeirra ábendinga, sem fram komu frá þeim aðilum.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.