03.04.1962
Neðri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2508 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

192. mál, skólakostnaður

Gísli Jónsson:

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hafa verið borin fram frv. um breyt. á lögum um greiðslu kostnaðar við skóla, sem þó hafa eigi náð fram að ganga. Ég hef hér á þinginu fyrr rætt þessi mál allýtarlega og enn fremur við hæstv. menntmrh., sem jafnan hafði tjáð mér, að hann mundi fallast á að leysa þetta mál á þann hátt, að viðunandi yrði fyrir héruðin. En eins og kunnugt er, þá er þeim héruðum, sem standa nú undir héraðsskólunum, það ofurefli að kosta rekstur skólanna og byggingu undir þeim ákvæðum, sem núgildandi lög kveða á um, enda er breytingin orðin sú, að þessir skólar eru að sáralitlu leyti sóttir af nemendum úr héruðunum, og þess vegna hafa raunverulega héruðin tekið á sig að greiða kostnað af skólagöngu annarra en sinna eigin íbúa.

Þegar ég vék af þingi um daginn til þess að dveljast við störf í Norðurlandaráði, kom hv. alþm. Sigurður Bjarnason, eins og kunnugt er, í minn stað og flutti þá frv. ásamt Gunnari Gíslasyni, Friðjóni Þórðarsyni og Jóni Kjartanssyni á þskj. 434 um þetta mál, þ.e. breyting á skólakostnaði. Þetta frv. hefur svo farið til menntmn. og gegnum 2. umr. og er nú komið til 3. umr. hér í þessari hv. deild. Við nánari athugun á því frv. og í samráði við hæstv. ríkisstj. hefur orðið samkomulag að gera allvíðtæka breytingu á frv., og hún er í því fólgin, að 1. gr. verður látin falla niður og 2. gr. falli niður. Við 3. gr. aftan við 1. málsgr. 18. gr. laganna bætist ný málsgr., svo hljóðandi: „Heimavistarskólar gagnfræðastigs (héraðsskólar), sem nú eru starfræktir að Laugarvatni, Laugum, Núpi, Reykholti, Reykjanesi, Reykjum og Skógum, skulu þó vera séreign ríkisins. Skulu sveitarfélögin afhenda ríkissjóði skuldlaust og kvaðalaust sinn hluta í áföllnum kostnaði þeirra, eins og hann er í árslok 1961.“ Og svo við 4. gr., að gr. falli niður, og við 5. gr., greinin orðist þannig: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Fljótt á litið sýnist hér vera um allmikla breytingu að ræða á frv., en það er þó meira formsatriði. Efnisbreytingin er sú, að í stað þess að gera þær breytingar á rekstrarkostnaði og hlutföllum í kostnaði héraðanna í byggingu og rekstri skólanna, þá er orðið samkomulag um það, að ríkissjóður yfirtaki þessa 7 skóla í landinu, sem hér um ræðir, að fullu og öllu og kosti að öllu leyti starfrækslu þeirra frá því í árslok 1961.

Mér þykir rétt að geta þess, að þegar þetta mál var til umr. hér í fyrra og var rætt við hæstv. menntmrh. og fjármálaráðunaut skólanna, Aðalstein Eiríksson, þá bar ég fram sams konar tillögu og hér er borin fram nú, en þó með þeim breytingum, að það væri gefið á vald viðkomandi héraða, hvort þau vildu afhenda skólana með þeim skilyrðum, sem hér er tekið fram. Nú hefur verið leitað álits þeirra aðila, og eftir því sem mér er tjáð, munu þeir allir vera fúsir til þess að afhenda skólana gegn því, að ríkið taki að sér allan rekstur framvegis, og þeir afhendi því sinn hluta kvaðalaust, eins og fram er tekið í tillögunni. Við lítum svo á, sem höfum barizt fyrir þessu máli, að hér sé mjög heppileg lausn fengin á máli, sem lengi hefur verið rætt um og deilt um hér í þinginu, og væntum þess, að hv. deild samþykki frv. eins og það liggur fyrir.

Ég vil leyfa mér að flytja hæstv. menntmrh. þakkir fyrir þann skilning, sem hann hefur sýnt þessu máli, svo og hæstv. fjmrh., sem hefur fallizt á, að ríkissjóður tæki að sér þann kostnað, sem af þessu leiðir, og eins allri hæstv. ríkisstj. fyrir að hafa leyst þessi mál á þennan hátt, sem nú hefur verið gert, og er það ósk, að málið mætti ganga hratt einnig í gegnum Ed. og verða að lögum hér á þessu þingi.

Ég vil geta þess, að ég hef rætt um þetta við flm. þá, sem ég hef náð í, og ýmsa aðra aðila, sem hlut eiga að máli og eru staddir í þinginu, og hafa allir fallizt á, að þetta væri heppileg lausn á málinu.