05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2512 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

192. mál, skólakostnaður

Gísli Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég vil nú fyrst þakka hæstv. forseta fyrir að hafa tekið málið til umr, nú í kvöld, vegna þess að það er hugsað að reyna að koma því í gegnum báðar deildir þingsins, áður en þingi er lokið.

Ég kvaddi mér hljóðs nú aðeins til að benda á, að brtt. sú, er ég bar fram á þskj. 601, hefur nú verið endurprentuð og henni breytt þannig, að það er á valdi héraðanna, hvort þau vilja afhenda skólana eftir þessari reglu eða ekki, enda væri, eins og hefur verið bent á, engan veginn viðeigandi að setja um það ákveðin skilyrði, nema fyrir fram væri vitað, að allir skólarnir hefðu óskað þess, en sú ósk hefur ekki legið fyrir opinberlega frá öllum skólunum. Hins vegar hef ég rætt við alla þá hv. þm. hér, sem hlut eiga að máli í þessum héruðum, og ég held, að þeir séu flestir á því, að þetta verði mikil bót fyrir héruðin, að frv. yrði samþ. samhljóða till. á þskj. 601.

Ég vil leyfa mér að geta þess, að ég hef rætt þetta við hæstv. menntmrh., sem er sammála um, að till. verði samþ. svo sem hún nú er orðuð, og hefur þess vegna faltið frá því, að það þurfi að gefa hér neinar sérstakar yfirlýsingar, sem hann annars hafði ætlað sér að gera í sambandi við afgreiðslu málsins.

Ég vil leyfa mér að geta þess einnig, að 6. brtt. hér er aðeins leiðrétting, því að þegar búið væri að breyta frv. þannig, eins og gert er ráð fyrir hér á þskj. 601, þá er óþarfi og á ekki við að vísa í lög nr. 18 /1958 í fyrirsögn frv.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða málið og vænti þess, að menn geti fallizt á að afgreiða það hér, svo að það geti farið til Ed. eins fljótt og unnt er.