05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2521 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

192. mál, skólakostnaður

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég hef látið hér liggja orð að því, að þessi afgreiðsla málsins sé óvenjuleg, og mér hefði fundizt vel hlýða, að það hefði verið unnið í n. Hins vegar hef ég áður lýst því yfir, að ég er efni frv. mjög sammála og vil að sjálfsögðu ekki eiga neitt á hættu með það, að mál þetta dagi uppi óafgreitt. Þess vegna hefur það orðið að samkomulagi hjá okkur þm. Alþb., að við munum ekki gera kröfur til þess, að sú till., sem hér hefur verið lögð fram, verði afgr. hér í kvöld, þar eð ekki reynist vera nægilega margt manna á fundi, til þess að hægt sé að fá afbrigði fyrir henni, og munum við leita þess fremur að hafa samráð við menntmn. í Ed., sem væntanlega fær málið til meðferðar þar, til að hafa áhrif á það, að reynt sé að hafa málið í sem beztu formi. En það er hér með fallið frá því, að leitað verði afbrigða fyrir till. í kvöld.

Ég vil aðeins þessu til viðbótar taka það fram, að þó að breytingarnar séu við allar gr. frv. og fyrirsögn og það sé þar af leiðandi í rauninni um nýtt mál að ræða, þá fjallar það að vísu um efni, sem lá hér fyrir í öðru frv., og ég geri það ekki að kröfu, að það sé farið með þetta sem nýtt mál. Hitt verð ég að segja í leiðinni, í sérstöku tilefni af því, sem form. menntmn. þessarar d., hv. 5. þm. Vesturl., lét hér orð falla um fyrr í þessum umr., að nú hefði svo vel tekizt til, að Alþingi geti fært sér í nyt góðvild einhverra ráðh. í þessu máli og þess vegna beri því nú að hafa hraðan á, þá finnst mér þetta gefa tilefni til að minna aðeins á það, hvaða stofnun það er, sem við erum hér kosnir til þess að vinna í. Hér á að semja og samþ. lög, og ráðh. eiga að vera framkvæmdastjórar til að framkvæma þau lög, sem Alþingi samþ. Þessu virðast margir hv. alþm. hafa gleymt, sbr. þau ummæli hv. 5. þm. Vesturl., að nú sé um að gera að láta hendur standa fram úr ermum og nota góðvild ráðh. Ég hefði kunnað betur við, að sá hugsunarháttur væri hér ríkjandi, að alþm. ættu að nota sína eigin góðvild og sitt vit og sitt mat á því, hvað væri rétt og sanngjarnt og hvað væri það ekki, við lagasetningu, fela síðan ráðherrum að framkvæma það, sem Alþingi samþykkir, en ekki láta málin ganga hinn veginn, að Alþingi sitji missirum saman, hreyfandi ekki málum eða látandi þau liggja í n. óafgreidd, af því að það er beðið eftir því, að velvild ráðh. vakni. Ef svo tekst til, að velvildin vaknar ekki fyrr en á síðustu stundu, svo seint, að Það er ekki einu sinni hægt að koma skaplegu formi á afgreiðslu mála, þá getur það rétt verið, þegar svona er að farið og þessi vinnubrögð viðhöfð,að það sé ekkert annað fyrir Alþingi að gera en að samþykkja góðvildina, þó að hún sé í afkáralegu formi og ekki til neinnar frambúðar, heldur en hitt, að eiga á hættu, að þessir sömu góðviljuðu ráðh. sýni allt í einu bara snör handtök í því að slíta þinginu, áður en búið er að koma góðvildarhugmyndum þeirra í þann búning, sem sæmandi er til lagasetningar hjá þjóðinni. Í leiðinni vil ég alveg sérstaklega vekja athygli á því, að hugsunarháttur sá, sem liggur hér að baki, er ákaflega óþinglegur, en á hinn bóginn, þá sem sagt beygi ég mig eins og aðrir undir það, að lagafrv. þetta verði fremur samþ. í óaðgengilegu formi, heldur en hinir góðviljuðu ráðh. rjúki til og segi þinginu slitið, áður en góðvild þeirra getur orðið að lögum.