06.04.1962
Efri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2523 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

192. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í sambandi við þetta frv., sem nú er hér til 1. umr. og hv. Nd. samþykkti shlj. í dag, vil ég láta þessi atriði koma fram:

Svo sem hv. þm. er kunnugt, eru barnaskólar og gagnfræðaskólar byggðir og reknir sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. Þegar fræðslulögin voru sett árið 1946, núgildandi fræðslulög, var þó gert ráð fyrir, að svonefndir héraðsskólar, sem þá störfuðu, skyldu reknir af sýslufélögum með nokkrum fjárstyrk frá ríkinu. Voru sýslufélögin þannig gerð aðilar að byggingu og rekstri þessarar ákveðnu skólategundar.

Það munu ekki hafa verið höfð nægileg samráð við sýslufélögin, þegar þessi ákvörðun var tekin árið 1946, heldur leið ekki á löngu, þangað til þau lýstu því yfir, að þeim væri um megn, a.m.k. sumum þeirra, að standa undir rekstri þessara skóla og óskuðu þess, að ríkið tæki við þeim.

Á undanförnum árum hafa frv. verið flutt, fyrst um að auka hlutdeild ríkisins í stofnkostnaði og rekstrarkostnaði skólanna og jafnvel um, að ríkið tæki rekstur þeirra algerlega í sínar hendur. Árið 1958 var gerð veruleg breyting á gildandi lögum um greiðslu skólakostnaðar og hlutdeild ríkisins í skólakostnaði þessara skóla, héraðsskóla, aukin verulega, fyrst og fremst í því formi, að þessir skólar fengju að halda heimatekjum sínum, sem gengu þá til að létta á hluta sýslufélaganna. En sú breyting hefur ekki reynzt nóg að dómi sýslufélaganna, og þau hafa haldið mjög fast við þær óskir sínar, að hluti ríkisins yrði enn aukinn verulega, og helzt, að ríkið tæki þessa skóla algerlega að sér og ræki þá eingöngu á sinn kostnað, svo sem nú á sér stað með Eiðaskóla. Á undanförnum þingum hafa frv. verið flutt um þetta efni.

Málið hefur verið vandlega athugað í menntmrn. og af ríkisstj. Ýmsum mönnum sýnist vera varhugavert, að ríkið taki að sér að greiða allan stofnkostnað og allan rekstrarkostnað einnar tegundar af gagnfræðaskólum, því að hér er um gagnfræðaskóla að ræða. Þó hefur gaumgæfileg athugun á málinu leitt í ljós, að telja verður sýslufélögunum eða meiri hluta þeirra beinlínis um megn að standa að þessum skólarekstri, og varð það nú fyrir skömmu niðurstaða í ríkisstj., að hún fyrir sitt leyti vildi styðja það, að ríkið tæki að sér stofnkostnað og rekstrarkostnað þeirra héraðsskóla, sem nú starfa og eru sjö talsins. Hins vegar á sú almenna regla skólakostnaðarlaganna um skiptingu stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar milli ríkisins og sveitarfélaga að gilda áfram um þá skóla, sem reistir kunna að verða hér eftir.

Það, sem í frv. felst, eins og hv. Nd. afgreiddi það, er því, að ríkið tekur að sér rekstur þeirra sjö héraðsskóla, sem nú starfa, en gert er ráð fyrir því, að óbreyttar reglur gildi um greiðslu stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar hjá slíkum skólum, sem stofnaðir kunna að verða hér eftir. Þetta vildi ég láta koma skýrt fram hér í hv. Ed., þegar hún tekur málið til 1. umr.