12.04.1962
Efri deild: 86. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2524 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

192. mál, skólakostnaður

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur í hv. Nd. tekið allmiklum breytingum frá þeirri mynd, sem það var upphaflega lagt fyrir. En í sinni núverandi mynd gerir frv. ráð fyrir því, að þeir skólar, sem nefndir eru í 1. gr. frv., verði hér eftir eign ríkisins, sem þýðir það, að ríkið mundi þá taka að sér rekstrarkostnað þessara skóla að öllu leyti. En hingað til hefur það verið svo, að ríkið hefur greitt þennan skólakostnað að 3/4, en viðkomandi héruð að 1/4. Á móti þessu kemur það, að ríkið fær umráð yfir eignum þessara skóla kvaðalaust, eins og í frv. segir, sem þýðir það, að skuldir þær, sem hvíla á skólunum, verða eftir sem áður skuldir héraðanna, að því leyti sem héruðin áttu að bera slíkar skuldir samkv. þeim reglum, sem giltu um skiptingu kostnaðarins milli ríkis og skóla.

Menntmn. hefur haft þetta frv. til athugunar, og eins og álit hennar á þskj. 701 ber með sér, leggur nefndin til, að frv. verði samþ. óbreytt, en einn hv. nm., hv. 5. þm. Austf., hefur þó fyrirvara, sem ég ætla að hann muni gera grein fyrir.