27.02.1962
Neðri deild: 56. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2526 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

158. mál, skólakostnaður

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Við þm. Vesturlands, sem eigum sæti í þessari hv. deild, höfum leyft okkur að flytja frv. til laga á þskj. 318 til breytingar á lögum nr. 41 1955, um kostnað við skóla. Eins og kunnugt er, er sá háttur á hafður á rekstri skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, að sveitar- og bæjarfélög sjá um reksturinn og annast allar greiðslur fyrir utan laun fastra kennara, sem ríkið greiðir beint. Síðan endurgreiðir ríkissjóður sveitarfélögunum hluta af þessum kostnaði, eftir að reikningar hafa verið fram lagðir og endurskoðaðir, og er það í samræmi við lög og reglur, sem þar um gilda.

Á síðari árum hefur orðið til nýtt form í barnaskólum okkar, sem eru heimavistarbarnaskólar, en það eru skólar, sem eru byggðir af mörgum sveitarfélögum. Það hefur sýnt sig við stofnun þessara skóla, að þetta form hentar okkur vel. Hvort tveggja er, að þetta hafa yfirleitt orðið fyrirmyndar skólastofnanir, auk þess sem það hefur verið hagkvæmt frá fjármálalegu sjónarmiði, bæði fyrir ríkið og sveitarfélögin, sem að þessum skólum standa. Þetta hefur þýtt færri skóla og venjulega betri skóla, og rekstrarkostnaðurinn hefur orðið minni en ella hefði orðið. Ekki orkar það tvímælis, að þetta form á eftir að ryðja sér til rúms úti um sveitir landsins yfirleitt, og fer þeim skólum fjölgandi, sem byggðir eru á þessum grundvelli. Hins vegar hafa komið fram vandkvæði í sambandi við rekstur á þessum skólum, sem eru þau, að enginn einn aðili hefur tekið að sér að sjá um fjármál þeirra, og hefur það venjulega lent á skólastjórunum að annast þau. Í framkvæmdinni hefur þetta orðið þannig, að greiðslur til skólanna hafa yfirleitt komið eftir á, bæði frá sveitarfélögunum og einnig frá ríkissjóði, eins og gert er ráð fyrir í lögum og framkvæmdin hefur verið á þátttöku hans í þessum kostnaði. Þetta hefur valdið skólunum mjög vakandi erfiðleikum og gert forráðamönnum þeirra, skólastjórunum, erfitt um vik, svo að starf þeirra hefur meira og meira orðið að fara inn á fjármálasviðið og þar af leiðandi gert þeim erfiðara um skólastjórn en ella, sem þeim er þó fyrst og fremst ætlað að sinna.

Nú er mér kunnugt um það, að þeir skólar, sem eru farnir að átta sig á því, að hér er um mikinn vanda að ræða, skólastjórarnir hafa rætt um það við sveitarfélögin, að þau greiddu eftir áætlun sinn kostnað jafnharðan og hann félli til. Sveitarfélögin hafa að þessu leyti viljað fallast á það samkomulag að greiða þann hluta jafnóðum og til félli, sem þeim ber að greiða endanlega. Hins vegar hafa þau ekki greitt þann hlutann, sem ríkissjóður endurgreiðir. Þetta hefur orðið til þess, að skólastjórarnir hafa annaðhvort verið með vanskilaskuldir eða víxillán með háum vöktum til þess að koma þessum málum í sæmilegt horf viðskiptalega.

Enginn vafi er á því, að það er nauðsynlegt að fá breytingu á þessu til að gera þessu rekstrarfyrirkomulagi hægara um vik. Það er heilbrigt og sjálfsagt frá sjónarmiði ríkisvaldsins að styðja að þessum rekstri.

Frv. okkar á þskj. 318 gerir ráð fyrir þeirri breytingu, að inn í 16. gr. 1., eins og þau eru nú, komi sú breyting, að ríkissjóður greiði jafnóðum þeim skólum, sem eru reknir sameiginlega af fleiri en einu sveitarfélagi, þ.e. heimavistarskólunum, rekstrarkostnað þeirra miðað við áætlun. Það, sem hér er um að ræða, er ekki mikil fjárhæð og ekki heldur ný útgjöld. Hér er aðeins um tilfærslu á framkvæmd að ræða, en ekki ný útgjöld. Þó yrði það þannig, að árið, sem breytingin færi fram, yrði um aukin útgjöld hjá ríkinu að ræða, en þá í eitt skipti fyrir öll. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið hjá fjármálaeftirliti skóla, mundi þetta þýða aukin útgjöld á því ári, sem breytingin færi fram, að fjárhæð, sem er 389 846 kr., þ.e. 10% af þeirri fjárhæð, sem nú er ætluð á fjárlögum til þessara útgjalda. Eftir að þessu hefði svo verið breytt, gengi þetta með sama hætti og verið hefur, engin ný útgjöld kæmu til. Það er nauðsynlegt, að þessi breyting eigi sér stað einmitt nú, vegna þess að hér er um svo litla fjárhæð að ræða, að það er ekki tilfinnanlegt fyrir ríkissjóð, þó að breytingin eigi sér stað. En eftir því sem skólunum fjölgar og rekstrarkostnaðurinn verður meiri, þá mundi þarna verða um meiri fjárhæð að ræða og því breytingin tilfinnanlegri.

Í öðru lagi er það, að það er nauðsynlegt og sjálfsagt fyrir ríkisvaldið að styðja að því, að þessum skólum vegni sem bezt, og styðja að því, að auðveldara verði en verið hefur að sameina hin einstöku sveitarfélög um þessa heimavistarskóla: Það hefur verið viða nokkur andstaða gegn þessu, en hún minnkar, eftir því sem þeir kynna sig meir, og ríkisvaldið á einmitt að styðja að því, að þessir skólar geti kynnt sig, svo sem þeir hafa möguleika til, og er þessi breyting af þeim ástæðum eðlileg.

Þá mundi það í þriðja lagi verða til þess, að hæfir skólamenn mundu ekki siður vilja starfa við heimavistarbarnaskóla en heimangönguskóla. Því þarf ekki að lýsa, að það er miklu meira starf að vera skólastjóri við heimavistarbarnaskóla en heimangönguskóla. Skólastjórinn er bundinn við stofnun sína alian sólarhringinn, ef svo má að orði komast, meðan börn dveljast í skólunum, sem hins vegar er ekki, ef um heimangönguskóla er að ræða. Um heimangönguskóla er það einnig að segja, að þar eru, eins og ég sagði í upphafi máls míns, sveitarfélögin, sem sjá um reikningshald og fjármál skólanna, en í heimavistarskólunum verða skólastjórarnir einnig að sjá um þau. Það er ekki nokkur vafi á því, að skólamenn okkar hafa álit á þessu skólaformi og margir þeirra mikinn áhuga fyrir því, og einmitt hefur þessum skólum vegnað svo vel, að þeim hafa valizt hinir ágætustu menn. En hins vegar er jafnljóst, að ef ekki verður sæmilega að þeim búið þar, þá munu þeir þreytast þar fyrr en ella. Þess vegna er nauðsynlegt, að einmitt þessi breyting verði á gerð til þess að létta af þeim þessum þætti, sem mjög hefur reynt á þá víðast hvar í heimavistarskólunum.

Það er von okkar flm., að hv. alþm. verði okkur sammála um, að þessi breyting á lögunum sé nauðsynjamál og réttlætismál, og það liggur í augum uppi, að hún muni ekki geta skapað eftirdæmi fyrir annað skólaform en hér um ræðir. Þess vegna væntum við þess, að þetta mál verði afgreitt hér á hv. Alþingi. Ég hef sýnt fram á, að það er hið mesta nauðsynjamál og það er hyggilegt að láta breytinguna ná fram að ganga nú, þar sem ekki er um meiri fjárhæð að ræða en ætti sér stað fyrsta árið, sem lögin giltu, og síðar meir kæmi þetta út á eitt.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að að umr. þessari lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.